Færslur

Keldur

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Keldnalandi eru tekin saman af Halldóri Vigfússyni laugardaginn 27. ágúst 1949 í viðræðum við við Björn gamla Bjarnarson (93 ára) í Grafarholti. Þar kemur m.a. fram staðsetning á hringmyndaðri rúst er nefnd hefur verið Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft.
Síldarmannagarður“Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi”. Helgusel í Helguhvammi neðan við Helgufoss undir Bringum heitir einnig eftir henni. Auk þess Helguhóll í Viðey og Helgusker í Kollafirði. Helgustekkur hefur verið látinn óáreittur og er nú við göngustíg er liggur aftan (austan) við háu fjölbýlishúsin við Frostafold. Fleiri minjar, sem minnst er á, má enn sjá í Keldnalandi. Þá kemur fram að Kaldá sé afrennsli Kleifarvatns.
“Slöðrið eða slakkinn milli holtanna Grafarholts og Keldnaholts heitir Klofningur. Þar niður vildi Einar skáld Benediktsson veita Úlfarsá [þetta er hið forna og upphaflega nafn árinnar (sbr. Landnámu) en hún er nú oftast nefnd Korpólfsstaðaá, Korpa, eða eftir öðrum bæjum sem eiga land að henni, einkum þar sem vöð voru á ánni.
GröfBjörn segist hafa átt hlut að því að nafni Kálfakots var breytt í Úlfarsá til þess að festa hið forna nafn], svo að hún félli í Grafarvog og mætti verða að góðri laxveiðiá í líkingu við Elliðaárnar. Einar eða faðir hans hafði keypt lönd á þessu svæði (Gröf og Keldur) og fengu þeir feðgar Björn, sem var þá ekki enn farinn að búa í Gröf, til að mæla fyrir þessari vatnsveitingu. Birni mældist að skurðurinn þyrfti að vera 11 feta djúpur, þar sem þurfti að grafa dýpst. Var verkið hafið og nokkur dagsverk unnin, en aðrir, sem lönd áttu að Úlfarsá, munu hafa amast við þessari röskun og bannaði Benedikt þá frekari framkvæmdir.

 

Gröf-2

Áður en sneiðin norðan af Keldnalandi var seld undir Korpólfsstaði (Thor Jensen), áttu Keldur slægjuland uppi við Úlfarsá, sem hét Tjarnengi [samnefnt slæguland var einnig frá Grafarholti litlu ofar. Á þeim slóðum byggði tengdasonur Bjarnar (Hreiðar Gottskálksson) nýbýlið Engi. Þar er hvylft mikil, sem heitir Flykkisgróf, og segir Björn, að hún sé norðaustur endinn á langri gjá, sem muni mega rekja við og við allt suðvestur að Kleifarvatni. Í gjá þessari hyggur Björn að vera muni afrennsli Kleifarvatns og komi fram í Kaldá. (Hann hefur þó að vísu ekki komið lengra suður en í Gjárétt)] .
Lautin austan [vestan] við túnið á Keldum, þar sem sumarhús Einars Pálssonar stendur nú, heitir Kúalág. Það nafn er frá þeim tímun er kýr voru látnar liggja úti á nóttum og lágu þær þá einna helst þar.

 

Keldur

Keldnakot.

Fyrir norðan Keldnabæinn og upp af honum er Keldnaholt. Vestan í því er Keldnakot. Þar var búið fram á seinni hluta síðastliðinnar aldar. Utan í Keldnaholti, norður af Kotinu, er hóll sem heitir Skyggnir [enn má sjá hlaðinn garð, nú kominn inn í skógrækt, frá Keldnakoti, allstóra tvískipta fjárhústóft og fleiri mannvirki skammt þar frá sem kotið var].
Suðvestur af kotinu gengur grjóthóll út úr holtinu. Suður og niður af honum var svo kallaður Lambarimi, nú sléttaður og ræktaður í tún, nyrsta nýræktin. Nafnið kom til af því að riminn var áður sleginn næst á eftir túninu og þótti hey af honum gott og var ætlað lömbum.
Gröf-3Mýrardragið upp með Keldnaholti að vestan heitir Keldnasund eða Sundið.
Á hábungunni beint vestur af Keldum er hringmynduð rúst, kölluð Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft. Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi.
Niðri við Grafarvog, í mörkum Keldna- og Gufunesslands, heitir Kattarnef. Góðan spöl innar gengur lítil og lág eyri út í voginn. Hún heitir Naustatangi. Þar höfðu Keldnamenn lendingarstað og uppsátur fyrir báta, sem voru aðallega notaðir til hrognkelsaveiða. Voru þær veiðar stundaðar nokkuð frá bæjunum við Grafarvog, þó óhentugt væri vegna útfiris, en netalagnir voru út undan Gufuneshöfða.
Gröf-4Í fjöruborði milli Kattarnefs og Naustatanga skagar allmikil eyri út í voginn frá suðurlandinu (Grafarholtslandi). Á þessari eyri og síðan þvert yfir voginn er gamall grjótgarður, sem sést vel um fjöru. Þetta mannvirki segir Björn, að heiti frá fornu fari Síldarmannagarður. En síðustu not, sem hann veit til, að menn hafi reynt að hafa af garðinum, voru þó til laxveiði. Um það hafði hann fyrir sér frásögn Ólafs Stephensens frá Viðey, sem hafði sjálfur verið við þá veiðitilraun. Það mun hafa verið á árunum 1870-80.

 

Um flóð eða með byrjandi útfalli var dregið net í hlið, sem var á garðinum, og var ætlunin að króa fiskinni inni, svo að hann fjaraði uppi. Var mikill lax fyrir innan og enda selur. En undan útfallinu settist slý og þaraslæðingur í netið, og fiskurinn lagðist fast á, og undan þessum þunga öllum sprakk netið, svo að afli varð lítill eða enginn. Þessi garður er nú allmikið raskaður af sjávarfangi og af völdum veiðimanna, er voru þar með laxakláfa um og eftir síðustu aldamót. [Sem hliðstæðu við þennan garð bendir Björn á, að inni í Hvalfjarðarbotni er til örnefnið Vogargarðslág, þó að garður sjáist þar nú enginn. Þar eru og Síldarmannagötur. Garður þessi virðist nú alveg horfinn í leirunar í voginum].
KeldnakotÍ botni Grafarvogs eru grjótgarðar, sem mynda litla kví við ós Grafarlækjar. Þar hagar þannig til, að Keldnamegin við ósinn gengur fram smáeyri eða hryggur, og þar hefur því ekki þurft mikla hleðslu, aðeins að raða steinum ofan á. Grafarholtsmegin hefur hleðslan þurt að vera hærri, og þar er mjótt hlið á garðinum fyrir lækjarrennslið og sjávarföll. Þetta heitir Króargarður og mun hafa verið gerður kringum 1870 til laxveiði.
Landarmerki milli Grafarholts og Keldna segir Björn, að sé bein lína frá Grafarvaði á Úlfarsá í Grafarlæk, þar sem hann beygir fyrir Svartabakka. Þaðan ræður lækurinn til sjávar.
Örnefnatalningunni má ljúka með því að geta þess, að holtið þar sem nýi vegurinn að Keldum kemur á aðalveginn, heitir Nónholt og var eyktarmark frá Gröf. En ekki kvaðst Björn kunna að skilgreina með vissu eyktarmörk frá Keldum.”

Heimildir m.a.:
-http://www.keldur.hi.is/um_ornefni.htm?detail=1003119&name=frettasida

Grafarkot

Grafarkot, Grafarholt, Gröf og Keldur – kort 1908.

Björn Bjarnason

Í skýrslu Árbæjarsafns um “Grafarvog – minjar og sögu” frá árinu 1998 er fjallað um Gröf (Grafarholt), Grafarkot (Holtsstaði), Oddgeirsnes, Keldur og Keldnakot (Lausingjastaði):

Gröf – Grafarholt
“Jörðin Gröf fékk nafnið Grafarholt þegar bærinn var fluttur á núverandi stað 1907.

Grafarholt

Grafarholt – byggt 1907.

Ekki er Grafar getið í Landnámu en byggð hefur trúlega hafist þar fljótt. Fyrst er hennar getið í máldaga Maríukirkju á Bessastöðum 1352 og seinna sem eign Viðeyjarklausturs 1395. Árið 1503 er gefið út skiptibréf þeirra Áma ábóta í Viðey og Halldórs Brynjólfssonar ájörðunum Strönd í Hvolhreppi og Gröf í Mosfellssveit. Við siðaskipti um 1550 sló konungurinn eign sinni á allar klausturjarðir á Íslandi og varð Gröf í Mosfellssveit því konungsjörð.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason 90 ára. Hér þakkar hann fyrir góðar kveðjur honum til handa.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 er konungur talinn eigandi, en ábúandi er Einar Þórðarson. Leiga var greidd konungi í smjöri til Bessastaða. Kvaðir um mannslán, hestlán til Þingvalla og annarra staða, jafnvel stundum norður í land og í ýmsar áttir. Skila átti tveimur dagsláttum, tveimur hríshestum og einum eða tveimur móhestum. Skera átti torf, flytja lax úr Elliðaánum, sjá um skipaferðir, sækja timbur til Þingvalla, hússtörf á Bessastöðum og fleira. Engjar jarðarinnar voru mjög litlar.
Kvikfénaður er skráður 6 kýr, 1 kvíga tvævetur, 8 ær með lömbum og 4 hestar. Heimilismenn eru skráðir 10. Kostir jarðarinnar eru taldir litlir. Hjáleigur eru taldar tvær, það eru Grafarkot sem byggðist upp þá fyrir 50 árum og hét hugsanlega Holtsstaðir áður og hjáleigan Oddgeirsnes sem er búin að vera eyðijörð í allra manna minni.
Litlum sögum fer af jörðinni en skömmu fyrir 1840 er hún seld eins og flestar konungsjarðir á þessum slóðum. Gröf var mjög landstór jörð.

Grafarholt

Fjölskyldan í Grafarholti. Efri röð frá vinstri: Kristrún Steindórsdóttir (1915-1998), Björn Steindórsson (1921-1974), Einar Þórir Steindórsson (1916-1991), Steindór Björnsson (1885-1972), Gunnar Steindórsson (1918-1966) og Guðni Örvar Steindórsson (1913-1981). Neðri röð frá vinstri: Steinunn María Steindórsdóttir (1922-2005), Vignir Guðbjörn Steindórsson (1919-1945), Rúnar Geir Steindórsson (1925-2012) og Guðrún Eybjörg Steindórsdóttir (1921-1948).

Framan af öldinni bjó í Grafarholti bændahöfðinginn Björn Bjarnason hreppstjóri og um skeið alþingismaður, fróðleiksmaður mikill, en sérkennilegur í mörgu.
Árið 1943 var jörðin Grafarholt lögð undir Reykjavík samkvæmt lögum og meginhluti hennar síðan tekin eignarnámi 1944.

Keldur

Keldur

Keldur.

Jörðin Keldur er norðaustan við Grafarvog. Bærinn sjálfur hefur alla tíð verið á svipuðum stað eða þar sem tilraunastöðin í meinafræðum er núna. Ekki er vitað hvenær byggð hófst á Keldum, en jörðin var talin meðal eigna Viðeyjarklausturs árið 1395, verður síðan konungseign við siðaskiptin eins og aðrar klausturjarðir. Litlar sögur fara af ábúendum í gegnum aldirnar. Samkvæmt Jarðabók árið 1704 voru ábúendur á Keldum, Sveinn Jónsson og ekkjan Vigdís Ketilsdóttir sem bjuggu á sitthvorum helmingi jarðarinnar.

Keldnasel

Keldnasel.

Leigajarðarinnar átti að borgast með smjöri til Bessastaða eða Viðeyjar. Kvaðir um mannslán voru eitt frá báðum, hestlán til alþingis meðan hestar voru til, hafa reipi, reiðinga og klyfbera til fyrir alþingisreiðina, dagslættir í Viðey tveir, hríshestar tveir og móhestar einn frá báðum, fóðra misjafnt eitt sinn hest og eitt sinn naut og ekki minna en tvö lömb, auk fleiri hvaða. Landþraung var mikil. Sveinn átti tvær kýr, tvær ær með lömbum, tvo veturgamla sauði, einn kálf og eitt hross. Vigdís átti fjórar kýr, einn kálf, þrjár ær með lömbum og ein gelda, einn sauð tvævetur og tvo veturgamla. Heimilismenn hjá Sveini voru fjórir en fimm hjá Vigdísi. Torfskurður til húsagerðar var nógur, en til eldiviðar var mótekja lök. Um vetur leggur bæ allan í fönn.

Keldnakot

Keldnakot.

Hjáleiga Keldna var Keldnakot. Það hafði árið 1704 verið í eyði í 20 ár en byggð þar fyrir um 20 ár. Sagt er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að þar hafi forn jörð verið og heitið Lausingjastaðir að sögn gamalla manna.

Jörðin var seld skömmu fyrir 1840 og var í einkaeign rúmlega eina öld þar til ríkissjóður kaupir hana árið 1941. Ýmsar byggingar hafa risið þar síðan á vegum háskólans, t.d. tilraunastöðin í meinafræðum sem reist var á árunum 1945-1948.”

Sjá meira um svæðið HÉR.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason (14.08.1856-
15.03.1951).

Í Morgunblaðinu 21. mars 1951 segir: “Björn Bjarnason í Grafarholti jarðsunginn í dag“:

“Hinn landskunni bændaöldungur, Björn Bjarnarson í Grafarholti verður jarðsunginn í dag að Lágáfelli í Mosfellssveit. Hann var á 95. aldursári, fæddur 1856 í Skógarkoti í Þingvallasveit.
Hann var einn þeirra Íslendinga, sem seint á öldinni, sem leið stunduðu bufræðinám við búnaðarskólann að Stend í Noregi og hóf síðan búskap hjer heima samkvæmt þeirri hagnýtu þekkingu, er hann aflaði sjer við þessa ágætu menntastofnun norskra bændaefna.
Nokkru eftir að hann kom heim, gerðist hann forgöngumaður að stofnun Hvanneyrarskólans. Á hann hlóðust fjölmörg trúnaðarstörf, sem of langt yrði upp að telja. Hreppstjóri Mosfellshrepps var hann í áratugi og þátttakandi í flestum meiri háttar fjelagssamtökum sunnlenskra bænda, er stofnað var til um og upp úr síðustu aldarmótum.

Grafarholt

Guðrún Björnsdóttir (1889-1935) árið 1911 – húsfreyja.

Björn heitinn var fæddur gætinn umbótamaður er unni þjóð sinni, velgengni hennar og bar hagsmuni sveitarfjelags síns mjög fyrir brjósti. Um tíma var hann þingmaður Borgarfjarðarsýslu.
Er hann hafði látið af búskaparstörfum og flestum trúnaðarstörf fyrir fyrir aldurssakir lagði hann stund á ýms íslensk fræði, málvöndun og hagnýtan fróðleik er hann hugði að komið gæti bændum og búaliði að gagni.
Hann átti lengi sæti á Búnaðarþingi og var árið 1932 kjörinn heiðursfjelagi Búnaðafjelags Íslands eftir 50 ára fjelagsstarf.
Á langri æfi átti hann í fórum sínum meira af lifandi fróðleik úr sögu íslenskrar bændastjettar en aðrir samtíðamenn hans.”

Heimild:
-Grafarvogur, Borgarhluti 8 – Minjar og saga, Reykjavík 1998 (Skýrslur Árbæjarsafns).
-Morgunblaðið 21. mars 1951, Björn Bjarnason í Grafarholti jarðsungin í dag, bls. 2.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.