Færslur

Magnúsarsæti

Gengið var um Vogastapa. Enn má sjá móta fyrir gamla Suðurnesjaveginum (um Reiðskarð) upp Stapann og liðast (Stapagatan) síðan áfram áleiðis upp að Grímshól. Grímshóll kemur við sögu þjóðsögunnar af vermanninum norðlenska.

Grímshóll

Á Grímshól.

Þess er getið um norðanmenn að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Landar hans gerðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.
Skoðaðar voru minjar eftir bæinn Brekku og heillegar sjóbúðir undir Stapanum; Hólmabúðir, Stapabúð og Kerlingarbúð, auk þess sem gengið var út í Hólmann og minjar þar skoðaðar. Gamall innrásarprammi marrar í fjöruborðinu. Sagan segir að honum hafi verið ætlað mikilvægt hlutverk, verið siglt þarna upp í fjöruna og síðan ekki söguna meir. Þarna hefur hann verið sem nátttröll gefinna vona.

Stapinn

Leifar Kerlingarbúða.

Kerlingarbúðir eru elstu sýnilegar minjar um búsetu manna á Ströndinni, að sagt er. Bæði við Brekku og Stapabúð eru hlaðnir brunnar. Ofar í hlíðinni eru hleðslur eftir menn. Nú er fuglinn í bjarginu næsta einráður á svæðinu, en selurinn vakir þó skammt utan við ströndina. Hann stingur ávallt upp hausnum þegar rautt vekur forvitni hans.
Í leiðinni, vegna þess hve veðrið var gott, var ákveðið að líta á Gíslaborg ofan Voga. Gengið var að stekknum í Kúadal og fjárborginni Hringnum innan við Knarrarnesholt. Þá var skoðaður rúnasteinninn við Knarrarnes (1700), ártalssteininn við Kálfatjörn (1706), legsteinninn á Flekkuleiði (?) og litið á áletranir (1888) yfir Magnúsarsæti í Hrafnagjá á Stóru-Vatnsleysu. Áletrunin er til minningar um nefndan Magnús, sem fann sér stað þarna við gjána til að friðþægjast við sjálfan sig. Sagt er þó að einhverju sinni hafi barn komið þar óvart undir. En það er nú önnur saga. Sem sagt: Margt og mikið merkilegt á skömmum tíma.
Frábært veður.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.