Færslur

Ísólfsskáli

Gengið var um Ísólfsskála, frá Skálabót að Gvendarvör skammt austar og mannvirkjunum ofan hennar, að Tröntum og áfram um Hattvík og Kvennagöngubása. Haldið var eftir ruddum slóða út í Hraunsnes og hin merkilegu jarðfræðifyrirbæri skoðuð. Þá var haldið áfram ofan við Veiðibjöllunef, framhjá Mölvik og inn í borgirnar (Ketilinn) áður en komið var að Selatöngum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Á Ísólfsskála var gengið að bæjarstæði gamla bæjarins, sem var þar sem nú er sumarhús niður við sjó, ofan við Skálabótina, vestast í túninu. Vestan og neðan við hann var sjóbúð, sem enn sést móta fyrir. Þar sem járnhlið er á girðingunni sjávarmegin var brunnurinn, sem nú er kominn undir sjávarkambinn. Sjóbúðun var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Réttin var undir hamrinum ofan við núverandi íbúðarhus að Ísólfsskála, þ.a.e.s. það íbúðarhús, sem síðast var búið í. Nú er húsið notað sem “fjölskyldurefreshment” skv. nútímamáli, sem endurspeglar að nokkru nálægð varnarliðsins um nokkurt skeið. Það hafi fjarskiptastöð undir Fiskidalsfjalli/Húsafjalli er lagðist af undir lok sjötta áratugar tuttugustu aldar.
Gengið var austur með Skálabótinni að Gvendarvör. Hún er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála.

Nótarhóll

Nótarhóll.

Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið var hann tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær voru á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast Alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Lending var í Börubót, sem var beint neðan við bæinn. Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli -málverk eftir ljósmynd 1956.

Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn.

Gamla lestargatan, eða rekagatan (lestargatan) vestari, liggur frá Ísólfsskála, í gegnum hraunið til austurs og út að Selatöngum. Þangað er um 20 mín. gangur. Gatan er áberandi ígegnum hraunið, en þegar hún kemur út á sandflákana ofan við ströndina (ofanvið Veiðibjöllunef og Mölvík, hverfur hún að mestu. Þó má sjá þar vörðubrot á stangli.
Djúp gjá opnaðist nýlega við götuna skömmu áður en komið er að Smíðahellinum austan við Ketilinn (Borgirnar) í Katlahrauni. Gatan, sem hefur verið löguð til, liggur niður í Ketilinn, gegnum hann og út hann að austanverðu. Þaðan er ágætt útsýni yfir Selatangasvæðið.

Hraunssnes

Hraunsnes – bergsstandur.

Á Selatöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Þar eru verbúðarústir, fiskbyrgi og fiskgarðar auk hraunhella sem voru notaðir til ýmissa hluta. Standa mörg fiskbyrgin og fiskgarðarnir enn að miklu leyti. Svæði þetta var allt friðlýst 1966 af Kristjáni Eldjárn, þáverandi þjóðminjaverði.
Selatangar eru í Ögmundarhrauni á mörkum jarðanna Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Landamerkin liggja um klett (Dágon) í ofan við fjöruborðið. Ljóst er að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld því undir því eru leifar mannvirkja sem greinilegar eru t.d. á svonefndum Húshólma.
Geislakolsaldursgreining á koluðum gróðurleifum dagsettu hraunið til miðrar 12. aldar og annálar nefna eldgos 1151. Óvíst er hvenær útgerð hefst frá Selatöngum en samkvæmt ofangreindu eru minjarnar ekki eldri en frá miðri 12. öld.

Hraunsnes

Í Hraunsnesi.

Víst er að útgerðin lagðist niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799, og svo að fullu og öllu 1884 en það ár var síðast róið frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.
Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla. Á næstu nibbu austan við eru rústir sömuleiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi.

Selatangar

Rekagatan.

Fleiri rústir eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka flestar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðartóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast. Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman. Reykjavík 1990.
-Ísólfsskáli. Örnefnalýsing. Guðmundur Guðmundsson bóndi Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnastofnun Íslands.
-Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir II. Rvk. 1982, bls. 410-11

Ísólfsskáli

Brimketill utan við Ísólfsskála.