Færslur

Kirkjugata

Í tilefni jólanna var gengið eftir gömlu kirkjugötunni milli kirkjunnar á Stað í Staðarhverfi og Járngerðarstaða.
GamlaKirkja Grindvíkinga var á Stað fram til 1907 og endurreist í Járngerðastaðahverfi 1909. Götuna gengu ungir sem aldnir um aldir.
Staðnæmst var við Ósinn þar sem gatan hélt áfram yfir Hópið og sem leið lá áfram austur að Þórkötlustöðum.
Á leiðinni bar ýmislegt forvitnilegt fyrir augu, bæði mannvistarleifar við Tóftarbrunna, Miðbrunna og Gerðavallabrunna sem og staðsetningar sögulegra atburða, s.s. Anlabystrandið árið 1900.
Í raun var táknrænt að ganga frá Stað að Járngerðarstöðum, ekki síst vegna flutnings kirkjunnar fyrir nákvæmlega einni öld síðan.
Gatan, sem slík, sést nú einungis á litlum köflum, annars vegar ofan við Hvirfla í staðarhverfi og hins vegar suðvestan við Brunnana á Gerðisvöllum.
Þar greinist gatan í tvennt; önnur fer norður fyrir BrakMiðbrunna og Tóftarbrunna og hin suður fyrir þá. Sérstök lýsing á kirkjugötunni í heild sinni er ekki til, en hennar er þó getið í örnefnaskrám. Ástæðan er sennilega sú að gatan var svo sjálfsögð allt þar skömmu áður en fyrsti bíllinn kom til Grindavíkur (akvegurinn var lagður þangað 1918) að ekki hefur verið talin ástæða til að skrifa um hana sérstaklega.
Staður er nú eyðibýli. Prestssetur og kirkjustaður var á Stað frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.
GrindavíkurkirkjaÍ klukknaportinu í kirkjugarðunum á Stað má t.d. sjá skipsklukkuna úr Alnaby, torgaranum er fórst utan við Jónsíðubás skömmu eftir aldamótin 1900. Með honum fórst skipstjórinn, Nilson, sá hinn sami og hafði verið valdur að láti Íslendinga í Dýrafirði er Hannes Hafsteinn ætlaði að koma lögum yfir hann þar fyrir ólöglegar veiðar.
Sú saga hefur gengið á Stað að venja hafi verið að ganga rekann. Vegna veðurs þennan dag var það ekki gert. Daginn eftir fannst stígvéli ofan við fjöruna er benti til þess að einn áhafnameðlima hafi komist lífs af, en orðið úti. Vildu menn að nokur kenna sé rum að hafa ekki gengið rekann að venju og þar með getað bjargað skipsbrotsmanninum. Um söguna af Nilson og strandið í Grindavík hefur Árni Óla m.a skrifað sem og fleiri. Hún er t.d. í Staðhverfingabókinni.
Sjá meira um svæðið (Tóftarbrunna, Anlaby, Jónssíðubás og Bóndastekktún).
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Jónsbásar

Jónsbás – kirkjugatan.

Garðakirkja

Á vefsíðu Garðakirkju er m.a. fjallað um kirkjuna fyrr og síðar. Fyrrum var kirkjan sóknarkirkja Hafnfirðinga og þurftu þá bæði bæjarbúar og sóknarbörn Garðaprestakalls, sem bjuggju sunnan bæjarins, að sækja þangað messur. Í þá daga var ekki þyrlum fyrir að fara svo nota þurfti annað hvort tvo jafnfljóta eða þess umfram tveimur fljótari.

Garðavegur

Kirkjugatan – gamla sjávargatan.

Löngum fetaði fólkið austan kirkjunnar fjörugötuna, en fljótlega um og eftir aldarmótin 1900 var farið að huga að því að leggja slóða og götur um hið strjála kofaþyrpingasvæði Hafnarfjarðar ofan strandarinnar. Ein af fyrstu götunum, sem lagðar voru í byrjun aldarinnar var Garðavegur – kirkjugatan, sem þá lá upp frá austanverðu Akurgerði og nefndist Kirkjuvegur.
Garðavegurinn hefur týnst að hluta, einkum þar sem hann lá um Víðisstaði og núverandi byggingarsvæði Norðurbæjar Hafnarfjarðar að ofanverðum Hleinum (þar sem Hrafnista trjónir nú ofan við gamla Allianz fiskreitinn). Í nýlegri fornleifaskráningu fyrir Hafnarfjörð hefur láðst að skrá Garðaveginn þar sem hann lá fyrrum í gegnum Norðurbæinn. Þar er einungis vitnað í þekkta fiskreiti og hlaðna garða (sem flestir eru reyndar frá nútíma).
Hér verður reynt að gefa fólki mynd af legu þessa gamla tímabundna kirkjuvegar, er þjónaði sínu hlutverki allt fram yfir fyrsta áratug 20. aldar.

Garðavegur

Garðavegur 1942.

“Garðakirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í Vilkins-máldaga frá 1397, þar sem skráðar eru allar eignir kirkna í Skálholts- biskupsdæmi, vekur það sérstaka athygli, að eignir Garðakirkju eru þá þegar orðnar ótrúlega miklar, og það svo, að landaeignir hennar munu ekki hafa aukist svo neinu næmi eftir það. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Jón Vídalín

Jón Vídalín.

Í Görðum er fæddur séra Jón Þorkelsson Vídalín (1666-1720), sem var biskup í Skálholti 1698-1720. Jón biskup Vídalín samdi “Guðrækilegar predikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll” og gaf út í húspostillu sinni, sem prentuð var fyrst á Hólum í Hjaltadal 1718-20. Árið 1995 var Vídalínspostilla gefin út í fimmtánda sinn, og hefur sú bók lengst, ásamt Passíusálmunum, dugað íslensku þjóðinni til guðrækilegrar iðkunar, allt þar til að húslestrar lögðust af eftir að Ríkisútvarpið tók til starfa og útvarpsmessur hófust árið 1930.

Árið 1875 vísiterar Dr. Pétur Pétursson biskup í Görðum. Þá stóð þar gömul timburkirkja í miðjum gamla hluta kirkjugarðsins og svo hrörleg orðin, að hún verður ekki talin nothæf öllu lengur að dómi biskups. Séra Þórarinn Böðvarsson, sóknarprestur í Görðum og prófastur í Kjalarnesprófastdæmi, hvatti til þess, að kirkjan yrði endurreist en ágreiningur varð um hvort byggja skyldi í Görðum eða í Hafnarfirði og náðist ekki samkomulag.

Garðavegur

Garðavegur 1957.

Séra Þórarinn lét því árið 1879 byggja nýja kirkju í Görðum á eigin kostnað. Hann velur kirkjunni nýjan stað ofar og hærra en aðrar Garðakirkjur höfðu áður staðið og ákvað, að þessi nýja kirkja yrði gjörð af steini og var grjót til hennar tekið úr holtinu fyrir ofan kirkjuna. Þórarinn leggur allan sinn metnað í það, að kirkjan verði svo vönduð og vegleg sem verða má. Til marks um hve vel var vandað til alls, sem að kirkjusmíðinni laut, má geta þess, að þegar Garðakirkja var rifin, nær 60 árum síðar, sást hvergi ryðblettur á þakjárni hennar, og hafði þakið þó aldrei verið málað.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

Kirkjuhúsið var hlaðið úr tilhöggnum steini, eins og fyrr er sagt.. Blámálað hvolfþak var í ferhyrndum reitum með gylltri stjörnu í hverjum reit og þótti kirkjan eitt glæsilegasta guðshús landsins á þeim tíma. Ekki hefur fundist skráð hvenær kirkjan var vígð, en trúlega var það á annan í hvítasunnu 1880.

Eftir vígslu nýrrar kirkju í Hafnarfirði hinn 20. desember 1914 er Garðakirkja lögð af sem sóknarkirkja, en kirkjulegar athafnir fóru þó fram í Garðakirkju eftir það, enda sat sóknarpresturinn, séra Árni Björnsson, prestsetrið að Görðum og flutti ekki til Hafnarfjarðar fyrr en um haustið 1928. Séra Árni kom að Görðum frá Reynistað í Skagafirði árið 1913. Hann varð prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1916. og þjónaði Garðaprestakalli til dauðadags 26. mars 1932.

Garðavegur

Garðavegur – loftmynd 1952.

Útfarir fóru fram öðru hverju frá Garðakirkju þegar jarðsett var í Garðakirkjugarði, einnig eftir að kirkjan var seld í nóvember 1917. og fór síðasta athöfnin fram í maí 1937.
Eftir byggingu Hafnarfjarðarkirkju var söfnuðurinn í fjárþröng. Á aðalsafnaðarfundi 31. október 1915 var smþykkt einróma að selja Garðakirkju og í apríl næsta ár er auglýst eftir tilboðum. Þrjú tilboð bárust og voru opnuð á sóknarnefndarfundi 10. maí. Hæsta tilboðið reyndist sautján hundruð krónur. Horfið var frá því að taka nokkru tilboði þar eð fundinum barst eindregin ósk frá herra Þórhalli Bjarnarsyni biskupi, sem lofaði í þess stað tvö þúsund króna láni úr almennum kirkjusjóði með veði í Garðakirkju.

Garðavegur

Garðavegur – loftmynd 1952 m.v. loftmynd 1992.

Sú orðsending fylgdi frá biskupi, “að hann mætti ekki til þess hugsa að hið fornmerka kirkjuhús væri niður rifið, og það því fremur, sem Garðakirkja væri minnisvarði þjóðhöfðingjans, Þórarins heitins Böðvarssonar, sem hafði byggt hana og lagt til hennar mjög stóran skerf úr eigin vasa”. Á safnaðarfundi 29. október 1916 eru á ný flutt eindregin tilmæli frá Þórhalli biskupi um, að frestað yrði enn að selja Garðakirkju. Biskup hafði þá sótt um heimild stjórnarráðsins um að Garðakirkja yrði keypt af Thorchillisjóði er síðar kæmi þar upp “barnauppeldisstofnun”. Áður en stjórnarráðið svaraði þessu erindi lést biskup hinn 15. desember 1916. Hinn 21. maí 1917 ritar sóknarnefnd eftirmanni hans, herra Jóni Helgasyni biskupi langt bréf með beiðni um að málið yrði tekið upp að nýju en sú málaleitan bar engan árangur.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Loks kemur að því, að Garðakirkja er auglýst til sölu öðru sinni. Hinn 11. nóvember 1917 eru tvö tilboð opnuð, hið hærra kr. 2.000 og er báðum tilboðum hafnað. Á fundinn voru komnir þeir Ágúst Flygenring og Einar Þorgilsson og tjá sóknarnefnd að þeir og átta menn aðrir hafi bundist samtökum um að kaupa Garðakirkju, svo að hún yrði ekki rifin niður, og var tilboð þeirra kr. 2.800. Sóknarnefnd samþykkti tilboð þeirra. Þeir aðrir, sem að kaupunum á Garðakirkju stóðu, voru: Carl Proppé, Christian Zimsen, Gunnar Egilsson, Jes Zimsen, Jón Einarsson, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason og Þórarinn Egilsson. Árið 1938 var Garðakirkja orðin mjög illa farin og turn hennar að falli kominn. Hvorki þeir, sem eftir lifðu af eigendum hennar né sóknarnefnd töldu sér fært að gera á kirkjunni bráðnauðsynlegar endurbætur og fór svo að kirkjan var rifin næsta ár.

GarðakirkjaSvo var komið um miðja tuttugustu öldina að eftir stóð af Garðakirkju tóftin ein, þak- og gluggalaus og hinir hlöðnu steinveggir Þórarins Böðvarssonar óvarðir fyrir veðri og vindum. Kom jafnvel til tals að brjóta þá niður og flytja grjótið í fyllingu í Hafnarfjarðarhöfn. Því menningarslysi varð þó forðað og komu konurnar í nýstofnuðu kvenfélagi Garðahrepps þar til sögunnar og ákváðu að hefjast handa og endurreisa Garðakirkju. Þær máttu ekki til þess hugsa, að þessi forni og merki kirkjustaður legðist af. Garðar höfðu skipað virðingarsess í íslenskri kirkjusögu um aldir. Meðal fyrstu verkefna Kvenfélags Garðahrepps var endurreisn Garðakirkju. Á fundi félagsins hinn 6. október 1953 voru þrjár konur, þær Úlfhildur Kristjánsdóttir, Dysjum, Ásta G. Björnsson, Reynihlíð og Ólafía Eyjólfsdóttir, Hausastöðum, kosnar í nefnd til að vinna að þessu mikla áhugamáli. “

Hátíðarræða flutt í Garðakirkju 6. mars 2016.

Garðavegur

Garðavegur í dag – Fátt markvert að sjá….

Við hátíðarguðsþjónustu, sem haldin var þann 6. mars af tilefni 50 ára vígsluafmæli Garðakirkju, fluttu hjónin Steinar J. Lúðvíksson og Gullveig Sæmundsdóttir afar fróðlega og skemmtilega hátíðarræðu um sögu Garðakirkju.

“Hér erum við stödd í helgu húsi á sögufrægum stað. Senn eru liðin 50 ár frá því kirkjan okkar hér í Görðum var endurreist og endurvígð til þeirra mikilvægu verkefna sem unnin eru í kristilegu starfi í bæjarfélaginu okkar. Garðakirkja er eitt af kennileitum bæjarfélagsins. Kennileiti sem okkur þykir einkar vænt um og vístum til með virðingu og stolti. Að stofni til er kirkjubyggingin senn 140 ára sem telst hár aldur í byggingasögu landsins. Hún var á sínum tíma reist af miklum stórhug og þótti þá ein glæsilegasta kirkjubygging landsins.

Garðavegur

Garðavegur í gegnum Norðurbæinn fyrrum (1952).

Á þeim tímamótum að minnst er 50 ára endurvígslu Garðakirkju er ekki nmea eðlilegt að hugurinn reiki til fyrra tíma og hann sé borinn saman við þann tíma sem við lifum nú. Það er undarlegt að hugsa til þess að það eru ekki nema nokkrir mannsaldrar síðan að næfellt fjórðungur íslensku þjóðarinnar var á flótta. Voru flóttamenn í eigin landi og að á tveimur árum fórst nærfellt fimmtungur þjóðarinnar af fátækt og hungri. Miðað við það alsnæktaborð sem við sitjum nú við er hollt fyrir okkur að minnast þess að hér á þessu svæði bjó kynslóð afa okkar og önnu við það að vita ekki hvort til væri málungi matar næsta dag, – hvort unnt yrði að gefa börnunum eitthvað að borða þótt ekki væri nema þang eða fiskruður.

Garðar

Garðar í nútíma..

Og vert er líka að geyma í minni að það eru innan við hundrað ár síðan hreppsnefnd Garðahrepps sat á rökstólum í þinghúsinu hérna á holtinu og freistaði þess að útdeila mat til nánast allra heimila í hreppnum. Það var ekki auðvelt hlutskipti, ekki síst vegna þess að þá vildi enginn sem átti veraldleg verðmæti lána þau Garðahreppi.

Þótt fátækt og erfiðleikar væru miklir hér á svæðinu hélt kirkjustaðurinn Garðar jafnan reisn sinni. Í gegnum tíðina urðu margir Garðaklerkar nafntogaðir og landsþekktir og höfðu mikil áhrif á samtíð sína. Enginn þó eins og Jón Vídalín sem fæddist og ólst upp hér. Var hér sóknarprestur í eitt ár en lengst af starfsævi sinnar biskup í Skálholti.

Garðakirkja

Garðakirkja 2023.

Hér er ekki staður né stund til að fjalla um þann merka mann en aðeins sagt að enginn einn maður hefur haft eins djúpstæð áhrif á trúarlíf Íslendinga í langan tíma sem hann, auk þess sem hann lagði mikilvæg lóð á vogaskálar menntunar og uppbyggingar landsins á mörgum sviðum. Faðir Jóns, Þorkell Arngrímsson, sonur Arngríms lærða, var prestur hér í tvo áratugi. Hann var sagður lærðasti maður samtíðar sinnar – fyrsti Íslendingurinn sem lauk háskólanámi í læknisfræði og var einnig hámenntaður í jarðvísindum en mun aldrei hafa lokið námi í guðfræði. Marga aðra mætti nefna svo sem séra Jón Kráksson sem sat embættið í 50 ár, séra Guðlaug Þorgeirsson, séra Árna Helgason sem jafnan var nefndur „biskupinn í Görðum.“ Honum margstóð til boða biskupsdómur en afþakkaði jafnan, séra Helga Hálfdánarson sálmaskál, séra Þórarin Böðvarsson og séra Jens Pálsson. Og meðal merkra presta hér má vissulega líka nefna samtímamann okkar, séra Braga Friðriksson.

Garðaholt

Garðaholt 1952.

Fáum sögum fer af kirkjubyggingum í Görðum. Líklega hafa þær verið eins og víðast annars staðar á Íslandi, fyrst byggðar úr torfi og grjóti en síðar úr timbri. Ugglaust hefur það verið timburkirkja sem á sínum tíma fauk í ofvirði alla leið út á Svið. Vildi til að þar sat maður undir árum á báti sínum og sá svarta flyksu stefna til sín. Greip hann flyksunar og reyndist hún vera Garðakirkja. Lét hann sig ekki muna um að hengja hana aftan í bátinn er hann reri til lands og koma henni fyrir á grunninum. Ekki var kannski alveg að marka söguna, þótt góð væri, því sá er hana sagði var Vellygni Bjarni sem sjaldan gerði lítið úr afrekum sínum.

Garðavegur

Garðavegur í dag (2022).

Þegar leið á 19. öldina tók byggðamynstrið hér á svæðinu verulegum breytingum. Með skútuútgerðinni myndaðist þéttbýli í Hafnarfirði og þá fóru að heyrast raddir um að sóknarkirkjan væri best komin þar. Hafnfirðingar þóttu latir að ganga illfæra leið út að Görðum til kirkjulegra athafna. Á sama tíma var kirkjan í Görðum orðin svo hrörleg að endurbygging var nauðsynleg. Þegar ekkert gerðist í málinu bauð séra Þórarinn Böðvarsson sókninni að byggja hér steinkirkju á eigin kostnað. Var það ekki eina stórgjöfin sem séra Þórarinn færði sveitarfélaginu þar sem hann og eiginkona hans Þórunn Jónsdóttur gáfu líka skóla – Flensborgarskólann – til minningar um son þeirra, Böðvar, sem þótti einstakur efnismaður en lést ungur, þegar hann var við nám í Lærða skólanum.

Víðistaðir

Garðavegurinn um Víðistaði.

Nýja kirkjan var reist á árunum 1878-1880. Hleðslugrjótið var tekið hér í Garðaholti en gífurleg vinna var að höggva það til. Kalkið sem notað var til að líma steinana saman var úr Esjunni, unnið í kalkofni sem stóð skammt frá Arnarhól. Ekki hafa fundist heimildir um vígsludag kirkjunnar en séra Bragi Friðriksson taldi líklegt að hann hefði verið hvítasunnudagur árið 1880.

Nú þarf að gera langa sögu stutta.

Hafnarfjarðarkirkja

Hafnarfjarðarkirkja.

Árið 1909 var ákveðið að byggja sóknarkirkju í Hafnarfirði og var hún vígð 20. desember árið 1914. Eftir stóð yfirgefin kirkja að Görðum sem nýbyggð var talin ein glæsilegasta kirkja á Íslandi. Nú laut hún allt í einu lögmálum yfirgefinna bygginga, – að láta smátt og smátt undan veðri og vindum og grotna niður. Árið 1938 var turn kirkjunnar rifinn svo og þak og gluggar. Eftir stóð gapandi steintóft sem enginn vissi hvað átti að gera við. Til stóð reyndar að rífa hleðsluna og nota sem uppfyllingu í hafnarmannvirki í Hafnarfirði en þegar á herti var slíkt ekki talið svara kostnaði. Úr varð að kirkjan var auglýst til sölu og barst í hana tilboð upp á tvö þúsund krónur. Enn átti kirkjan sér velunnara?. Nokkrir menn sem áttu rætur í Garðahverfinu yfirbuðu og keyptu rústirnar á 2.800 krónur.

Garðakirkja

Garðakirkja 2022.

Og árin liðu. Garðakirkja hafði verið traustlega byggð og steinhleðslan stóð eins og hún vildi sýna að hennar tími myndi koma. Og sá tími kom þegar konur í Garðahreppi tóku málin í sínar hendur.  Stórt skref var stigið er Garðasókn var endurvakin árið 1960 en þá tók sóknarnefnd undir forystu Óttars Proppé við framkvæmdum við kirkjuna.

Garðakirkja var endurvígð 20.mars 1966. Var það vel við hæfi þar sem þá var þess minnst að þrjár aldir voru liðnar frá fæðingu Jóns Vídalín.”

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðskort frá 1903. Hér sjást báðir kirkjuvegirnir á milli Garða og Hafnarfjarðar.

Í framgreindum fróðleik kemur ekki fram hvaða veg og torfærur allan ársins hring Hafnfirðingar og útliggjandi Garðhreppingar þurftu að feta til að komast að og frá Garðakirkju til að hlusta á guðspjallið er annað er klerkinum lá að hjarta, þá og meðan kirkjan var við líði. Hér hefur verið úr því bætt…

Heimild:
-http://gardasokn.is/gardakirkja/

Garðakirkja

Garðakirkja.

Þórkötlustaðahverfi

Kirkjan í Grindavík var á Stað í Staðarhverfi fram til 1909. Þá var hún flutt yfir í Járngerðarstaðar-hverfi þar sem hún hefur verið síðan – að vísu á tveimur stöðum.
KirkjugatanKirkjugatan frá Hrauni og Þórkötlustaða-hverfi lá yfir norðanvert Þórkötlustaða-nesið, um Gjána og framhjá Vatnsstæðinu að Rifsósi, eiðinu er lokaði Hópið af að utanverðu. Síðar, á fjórða áratug 20. aldar og síðar, var opnað inn í Hópið, rásin breikkuð og dýpkuð og eiðið þar með fjarlægt að mestu. Jafnan var gengið um ósinn væri hann fær. Sú leið var styttri. Kirkjuhóll (Kirkjuhólar) voru á norðaustanverðri Gjárbrúninni á leiðinni frá Þórkötlustöðum framhjá Hópi að Járngerðarstaðarhverfi. Nokkru sunnar er Gjáhóll, sunnan götunnar, og sést hann enn – gróinn í kollinn. Á fyrstu árum 20. aldar byrjuðu Hópsmenn að opna ósinn inn í Hópið, bæði til að koma bátum sínum í betra skjól og einnig til að stytta sjávargötuna. Hópsvörin var áður utan við rifið og sést hún að hluta til þrátt fyrir miklar framkvæmdir við varnargarða á umliðnum árum. Í lok fjórða áratugarins var hafist handa við að grafa ósinn enn frekar og opna öðrum bátum leið inn á leguna í Hópinu – þar sem núverandi höfn er nú. Kirkjugatan yfir Nesið, eins og sýnt er á meðfylgjandi mynd, lagðist því af í byrjun síðustu aldar. Ummerkin um hana sáust þó lengi á eftir, m.a. á meðfylgjandi ljósmynd frá 1942. Garðarnir á myndinni eru seinni tíma matjurtargarðar Þórkötlustaðarbúa.
Þórkötlustaðanesið 1942Gjáin er hrauntröð frá því að hraunið, sem myndaði Þórkötlustaða-nesið-/Hópsnesið, rann fyrir nálægt 2400 árum. Hún er að mestu heil að sunnanverðu, en á norðanverðu Nesinu hefur hún verið fyllt. Loftmynd, sem tekin var árið 1942 sýnir braggabyggð í þeim hluta rásarinnar, en hann var síðar notaður fyrir ruslahaug og þá fylltur. Segja má að þar hafi Grindvíkingar sagt amen eftir efninu. Kirkjugatan hafði þá verið aflögð, en ruslahaugar komnir í götustæðið. Eldsneytisgeymar (Esso) eru skammt norðvestar. Sunnan þeirra lá gatan yfir hæðina.
Gatan sést enn á stuttum kafla sunnan undir hraunbakka á norðaustanverðu Nesinu þar sem hún liggur vestur yfir það. Hlaðið er um kálgarða utan í kantinum. Innan hans eru tveir aðrir minni garðar. Austari garðurinn hefur verið settur ofan í götuna. Vestan hans lá gatan upp geil í hæð og sést hún enn þar sem hún lá upp lága hæðarbrún. Handan þess hefur svæðinu verið raskað, bæði með sorphaugunum, mannvirkjunum og sáningum. Þegar komið er upp á brúnina sést gatan enn þar sem hún lá niður mosahraunið í átt að Vatnsstæðinu og framhjá því, með stefnu að ósnum fyrrverandi. Handan þess taka við hlaðnir garðar, malarvegur og meira rask við Síkin. Sunnan þeirra voru sjóbúðir Hópsmanna. Enn má sjá kofatóftir við Síkin.
Eftir að kirkjan var endurreist í Járngerðarstaðahverfi styttist kirkjugata Hrauns- og Þórkötlustaðahverfisbúa verulega.
Hópsnesið - gatanÁ fyrrnefnda staðnum var rekið myndarbýli á 19. öld. Um 30 manns voru þar í heimili. Til samanburðar voru 32 í heimili á Járngerðarstaðabæjunum tveimur árið 1901. Þórkötlustaðabæirnir þrír voru einnig mannmargir, en auk þeirra voru jafnan þrír aðrir bæir í hverfinu frá því í byrjun 19. aldar; Einland, Klöpp og Buðlunga. Íbúar voru að jafnaði um 30 talsins. Auk þessara bæja sótti fólkið á Ísólfsskála (Ýsuskála) kirkju á Stað og síðar Járn-gerðarstöðum. Allt hefur þetta fólk fetað kirkjugötuna meira og minna reglulega yfir Nesið, sem enn sést – að hluta. Prestarnir, Kristján Eldjárn Þórarinsson, Geir Bachmann og Oddur Gíslason, virðast hafa haft það aðdráttarafl í þá tíð er dugði til að draga þreytta fætur austlægra Grindvíkinga alla leið vestur yfir Nesbrúnina – og þurfti þá mikið til.
Grindvíkingar hafa ávallt verið trúrækið fólk, enda fylgir trúin sjómennskunni. Gamla gatan, sem hér hefur verið lýst, bar þess líka merki. Á loftmyndinni, sem tekin var árið 1942, sem fyrr sagði, sést kirkjugatan mjög vel þar sem hún liggur á ská þvert yfir hana. Myndin er því miklu mun merkilegri en ella. Leiðin lagðist af með tilkomu akvegarins skammt norðar og nú má berja augum. FERLIR gekk leiðina fyrir skömmu og skoðaði sérstaklega þá hluta hennar er enn sjást. Ljósmyndir voru teknar og það markverðasta skráð.
Brátt mun þessi gamla kirkjugata heyra sögunni til – eins og svo margt annað.

Heimildir m.a.:
-Loftur Jónsson.
-Ljósm./rétth.: Sævar Jóhannesson.

Þórkötlustaðahverfi

Kirkjugatan.

 

Sigurður Eiríksson

Gengið var með Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti og fleirum eftir gömlu kirkjugötunni milli Býjaskers og Hvalsness. Leiðirnar fyrrum þarna á millum voru tvær; Neðri-gatan, sem lá með ströndinni, og Efri-Efri-gatagatan, sem lá ofar í landinu.
Gatan síðarnefnda sést víða enn mjög vel og er ætlunin að ganga hana milli hverfanna og jafnframt skrá á spjöld sögunnar – því ekki er vitað til þess að henni hafi áður verið lýst, hvorki á prenti né skjá. Sigurður þekkir örnefnin best núlifandi manna og kann að segja sögur af eftirminnilegum atburðum. Þetta var því söguleg ganga.
Byrjað var þó á því að skoða Bæjarskersgötuna þar sem frá var horfið.
Reynt var að skrá niður það helsta er fyrir augu bar á leiðinni, en vegna þess hversu margt það var, verður sumt að bíða betri síðna.
Sigurður býr nú að Norðurkoti III, austan Stafnesvegar. Þegar hann vildi hliðra til og hleypa yngra fólkinu að búskapnum í Norðurkoti mættu honum ýmsar hindranir, sem bæði eðlilegt og sjálfsagt hefði verið að leysa af verandi ráðamönnum í Sandgerði. Má þar t.d. nefna viðurkenningu á búsetu í hina ágæta nýja húsi, sem sumir vildu flokka undir sumarbústað.
Norðurkot IIISkv. túlkun þeirra mátti Sigurður ekki hafast þar við yfir vetrarmánuðina. Hann þurfti þá að greiða fullt verð fyrir rafmagn, vera án þjónustu sveitarfélagsins og svo mætti lengi telja. Auðvitað verður að flokka þessi viðbrögð undir þröngsýni og lýsir kannski best þeim er þau sýndu – og hafa sýnt. En nóg með það að sinni…
Gangan hófst við leifar gamla bæjarins Bæjarsker. Þar eru nú engin ummerki eftir gömlu götuna.
Að sögn Sigurðar má sjá Neðri-götuna stutta kafla á þremur stöðum, s.s. við Norðurkot. Annars væri hún að mestu horfin. Í lýsingu segir Sigurður m.a. svona frá þessari götu: “Neðri göngugatan milli hverfa, stundum kölluð kirkjugata. Hún lá með bæjum. HólkotÉg man vel eftir henni á Háabakkahólnum. Þar var hún vel merkjanleg eftir miðju Norðurkotstúni. Kom gatan upp úr Fúluvíkinni um hlaðið í Fuglavík, í traðir sem liggja með Fjósakotstúni sunnan til sjávar. Gatan þar er vel sjáanleg í dag, lá með sjó yfir Melabergsá og í gegnum hlaðið á Nesjum og Löndum. Efri-gata var notuð líka og víða sjáanleg.”
Gengið var í fyrstu yfir að og framhjá tóftum Hólkots, Hábæjar og Miðkots. Þar eru á öllum stöðum tóftir torfbæja og hlaðnir grjótveggir.
Efri-gatan kom glögglega í ljós sunnan við Setberg, vestan Stafnesvegar. Götunni var fylgt áleiðis til suðurs. Þegar komið var á móts við Kambsstekk benti Sigurður á grónar leifar hans skammt ofan þjóðvegarins.

Skammt sunnar mátti sjá móta fyrir nánast jarðlægum hlöðnum görðum: “Gilsgarðar, sagði Sigurður”: Gilsgarðar voru hlaðnir af Þorgils Árnasyni í Hamrakoti.
Skammt sunnar staldraði Sigurður við, snérist um 90° og benti til austurs, áleiðis upp heiðina: “Þetta er forvitnilegt, hluti gamals vegar, sem átti að liggja héðan til Keflavíkur. Hér má sjá hvernig mótar fyrir veginum, sem byrjar hér við Efri-götu ofan Vatnagarðs. Hluti vegarins var skemmdur töluvert þegar slitlag var sett á Stafnesveg. Var mjög vel hlaðinn og breiður.
Gamlir menn sögðu, að hestvagnar hafi átt að geta mæst Götuhlutinná honum. Hann hefði átt að liggja til Keflavíkur en draugar hefðu stoppað áframhald. Voru menn hér í hverfinu svona framsýnir og langt á undan tímanum og einhverjir draugar, e.t.v. mennskir, tafið og viljað láta hann liggja með byggð?”
Sigurður taldi að þarna hefði getað verið um vegabótavinnu að ræða. Þegar fjármagn hefði skort var ekki lengra farið. Eflaust hefur líka verið ágreiningur um vegstæðið, sem er svolítið einkennilega staðsett, millum Fuglavíkur og Melabergs.
MarkavarðaOfan við þjóðveginn eru Fuglavíkurstekkir; Neðri-Stekkur (grjóthlaðinn) og Efri-Stekkur (torfhlaðinn). Efri stekkurinn ber við sjónarröndina. Eftir er að skoða hann nánar, en ekki er ólíklegt að þar kunni undir háum gróningunum að leynast fjárborg. Ætlunin er að skoða þessi mannvirki betur fljótlega.
Framundan til hægri mátti sjá Markavörðuna svonefndu. Um hana sagði Sigurður: “Markavarðan er á mörkum milli Fuglavíkur og Melabergs. Varðan er neðst í Almenningum og í klöpp við hana er höggvið L.M. Almenningur var samkomulag milli fjárbænda í Bæjarskershverfi og Fulavíkurhverfi, suður í Nesjar. Almenningur hafði þann tilgang að fé kæmist í fjöru. 

Hábær

Vel má sjá móta fyrir útlínum stekksins. “Kambsstekkurinn er norðast í Setbergsgirðingu (eða Bárugirðingu). Gæti hafa verið stekkur frá Syðstakoti?”, segir í lýsingu Sigurðar. Suðaustan við hann er lítil tjörn, sem þornar á sumrum. Stekkurinn er norðan í svonefndu Kambsgili, sem er aflíðandi slakki upp í landið.
Þá liggur gatan innan girðingarinnar í Norðurkoti og færist smám saman nær henni við þjóðveginn. Þegar komið var inn fyrir Norðurkot III (Bjarghús), þar sem Sigurður býr núna, var staldrað við. Það er í svonefndu Gili.

Kambsstekkur

Austan við húsið í Norðurkoti I er sæmileg tjörn. Hana sagðist Sigurður hafa búið til á sínum tíma. Norðan við Norðurkotsbæinn er Lón, nefnt Skurðir. Um Norðurkotstjörnina segir Sigurður: “Hún var mikið minni hér áður og náði Háibakki mikið ofar og var mjótt haft á milli upp í tangann sem nú er orðinn hólmi. Var farið á steinum yfir á Háabakkann. Pabbi (Eiríkur) byrjaði að laga til og búa til hólma um 1939. Hólmarnir voru búnir til með því að aka grjóti á ís og laða æðarfugl að og smám saman fjölgaði fugli. Var það aðallega úti í hólmunum, en eftir að minkurinn kom, þá flutti fuglinn sig upp í landið.” Sigurður lýsti því hvernig æðarvarpinu var komið á legg, baráttunni við nálægan varg, sem reyndust vera kettir úr Bæjarskershverfi, uppsetningu 5 km langra varnarneta umleikis o.fl.
Brókarlaut er austar, þar sem Stafnesvegur fer upp brekku suðvestan Norðurkots III. Sagði Sigurður nafnið hafa komið til vegna þess að vegagerðarmenn við veginn hafi þurft að klæðast hlífðarbrókum vegna þess hversu blautt vegarstæðið hafi verið.
Gatan við KlapparkotshólFarið var yfir heimreiðina að Norðurkoti. Þar á hægri hönd mátti sjá leifar af gömlum hlöðnum túngarði. Gatan liggur þarna upp stutta hæ
ð. Á hægri hönd er aflangur klapparhóll, Klapparkotshóll. “Klapparkot stóð vestur undir hólnum”, sagði Sigurður. Þar má enn sjá tóftir þess. Skammt sunnar mátti sjá leifar Hamrakots, hjáleigu frá Fuglavík. Við þær er trjárækt austanvert. Að sögn Sigurðar plantaði Una í Fuglavík, systir Jónínu, þessum trjám löngu eftir að kotið var aflagt. Kotið stóð við Hamrakotshól. Vestar, austan Fuglavíkurbæjarins, var Móhús. Sunnan við Fuglavík er Fuglavíkurtjörn. Hún var einnig nefnd Varptjörn. Sést hún vef frá götunni, sem og annað er lýst hefur verið.
Fuglavíkurbærinn er vestan við Norðurkot. Frá fundi húsfreyjunnar þar, Jónínu, á fornum ártalssteini, segir annars staðar á vefsíðunni.
Ofan götunnar, móts við Hamrakot, er aflangur klettur með hárri fuglaþúfu á, grónar leifar vörðu. “Álfakirkja heitir hann þessi”, sagði Sigurður. Sagðist hann ekki þekkja til sagna af álfum þarna, en þær gætu þó tengst konu einni (Stína) er umsetin var álfum. Bjó hún fyrrum í Hamrakoti. Hún kom þangað einus inni á ári og gekk þá um Hólinn. “Sögur hef ég heyrt um dularfulla hegðun og hvörf hennar þegar hún var ung í Hamrakoti. Ein er sú að bankað var þar að kvöldi, fór hún til dyra en kom ekki aftur og var horfin. Fannst hún inn á Njarðvíkurfitjum. Fleiri sögur eru til skráðar.”
Ofar má sjá steypta veggi Hóla. Faðir Sigurðar, sem bjó í Fjósakoti niður við Fuglavík, byggði húsið, nýbýlið, 1934. Sigurður (f: 1929) flutti síðan í húsið ásamt foreldrum sínum, en það brann árið 1937. Um það leyti var Norðurkotið laust til ábúðar og fluttist þá fjölskyldan þangað. 

Álfakrikjan

Eiríkur Jónsson keypti Norðukotið af Guðmundi Gíslasyni, sem fékk að vera þar áfram meðan hann lifði. Eiríkur reif öll hús í Norðurkoti, sem þá voru úr torfi og grjóti, og reisti ný.
Þarna, upp frá Fuglavík, liggur Fuglavíkurvegur. Um hana segir Sigurður: “Fuglavíkurvegur, gömul leið til Keflavíkur. Man eftir honum liggja frá Efri-götu sunnan Norðurkotsafleggjara, norðan hænsnakofa, norðan Háamels og upp, beygði svo norður af Folaldatjörn og inn á Einstæðingsmel, vestan Gotuvörðu á Sandgerðisvegi. Gotuvarða er ný upphlaðin og merkt af okkur Guðmundi Sigurbergssyni.”
Efri-gataUtan við Hóla og ofan Stafnesvegar er Siggavarða. Ekki sagðist Sigurður vita hvaðan nafngiftin er komin, en hann og Jónína í Fuglavík væru sammála um að hún væri gömul. Skammt sunnar er Dagmálavarða á ílangri Dagmálahæð. Um var að ræða eyktarmark frá Fuglavík.
Frá þessum stað við gömlu götuna benti Sigurður til vesturs og sagði að þarna neðar hefði verið býli er nefndist Vatnagarðar eða Vatnagarður. Sunnar hefðu Kaðalhamrar verið, niður við ströndina. Um væri að ræða stórtgrýttan kletthöfða. Sagði hann fróða menn hafa talað um að nafnið væri sennilega keltneskt. Svo væri og um mörg önnur áhrifaorð í íslensku. Tók hann sem dæmi orðið “geir” í merkingunni “mör”. Þannig mætti nefna geirfuglinn “mörfugl”, en það væri einfaldlega rökrétt þegar afurð hans væri skoðuð í samhengi. Mörgæsin væri t.a.m. ekki ólíkur þeim fugli, sem reyndar er ekki  útdauð eins og hann. Fleiri dæmi tók Sigurður af nafngiftum kelta og áhrif þeirra á þessu svæði við gömlu kirkjugötuna.

Seinna, um 1945 varð gert samkomulag um að loka þessu til að stjórna flæðihættu. Norðurkot hafði alltaf aðgang að sinni spildu í gegnum Almenning, þangað til 2005, að Melabergsbændur girtu hana af einhliða.”
LindinÞrátt fyrir leit á klöppum við vörðufótin sást engin áletrun. Hún mun þó geta leynst þarna undir sandi, sem fokið hefur um svæðið og þakið misfellur.
Það kom líka augsýnilega í ljós á götukaflanum, sem framundan var. Allt Melabergssvæðið vestanvert er sandoprið þótt takist hafi að rækta þar upp á seinni árum. Gatan er því horfin í sandinn. Syðst á svæðinu staðnæmdist Sigurður við litla tjörn. “Hér neðar er Lindarsandur og þetta er Lindin. Lindarkot var hér skammt ofar, rétt ofan þjóðvegarins, og enn ofar er Melaberg. Í Lindinni þraut aldrei vatn. Hún var hlaðinn niðurgenginn brunnur. Tröppur voru hér að suðvestanverðu og hlaðið umleikis, líkt og sjá má í brunninum forna á Merkinesi. Sandurinn fyllti síðan brunninn og nú er hann horfinn. Það væri létt verk og löðumannlegt að grafa hann upp og gera aðgengilegan áhugasömum ferðalöngum um svæðið”. Í örnefnalýsingu fyrir Melaberg segir um lind þessa: “Er sandur þessi niður undan bænum Melaberg og heitir Lindarsandur. Dregur hann nafn af lind þeirri, sem er þar vestan við túnið. Hún var vatnsból og talin eins konar lífslind. Þetta sýnist þó vera ómerkileg hola í slétta grund og mun hafa verið talin hættuleg skepnum. Þau ummæli voru á Lindinni, að aldrei mætti fylla hana upp. Þetta var þó gjört á síðari hluta 19. aldar, og hlaut sá, er verkið vann, ógæfu nokkra. Hann hafði lokið verkinu, en var eigi genginn frá Lindinni er hann tók sjúkleika, sem varaði í nokkur ár, og fleira gekk

 báglega um tíma. Voru ummælin talin valda. 

Smalinn

Lindin var grafin upp aftur og hreinsuð; hefir ekki ógæfa á legið síðan. Þó Lindin sé eigi enn þá vatnsból Melabergs, er vatnið í henni hreint og tært. Hún hefir nú fengið þann umbúnað, að partur af tunnu hefir verið festur í botninn, og góður gangvegur er nú niður í holuna á einn veg. Geta kýr og aðrar skepnur gengið þangað sjálfkrafa til brynningar sér.”
Leiðin liggur nú yfir að því er virðist gamlan árfarveg, svonefnda Melabergsá. Utan við hana eru nokkrir steina á lágu hloti. Komið var að “Melabergsbræðrum og smalanum”; þremur stórum steinum á lágri aflangri hæð. Þjóðsaga kveður á um tilurð steinanna, smalinn austast og bræðurnir þétt saman vestar. Í kringum þá eru minni steinar; ær er urðu að steinum líkt og hinir fyrrnefndu.

Norður-Nesjar

Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, sem Félag Suðurnesjamanna gaf út í í Reykjavík, 1960, bls. 131-133, segir m.a. um neðanvert svæðið nálægt Melabergi: “Upp af Skjólgarðsbökkum, norðan við Melabergsá ofanverða, eru tveir stórir klettar með 3—4 faðma millibili; heita þeir Melabergsbræður, en í daglegu tali stytt í „Bræður“. Um 20—30 föðmum austar er einn steinn af sömu stærð og líkri lögun; heitir hann Smali.
Milli þessara einstæðu kletta eru nokkrir tugir smærri steina, sem eru öðru vísi en annað grjót á þessum slóðum. Þeir eru sléttir, ljósir að lit, líkir að stærð og lægri í vesturendann. Ef á að lýsa þeim nánar, þarf að hafa sömu aðferð og þegar skoðað er gott málverk, en það er: að vera í hæfilegri fjarlægð og horfa á þá frá réttri hlið.
Bezt er að standa spölkorn fyrir sunnan þá eða suðaustan og hugsa sér Suðurnesjaveðrá
ttu, útsynning með hryðjum eða éljum. Er þá ekki öðru líkara en að þarna sé fjárhópur og snúi allar „kindurnar“ í veðrið og séu að bíta. Enda segir gamla sögnin, að Melabergsbræður, ásamt með sauðamanni og búsmala, hafi þarna dagað uppi um eina fagra sólarupprás einhvern tíma í fyrndinni.
Efri-gata

Margar og miklar sögur hafa gengið frá Melabergi og Melabergsmönnum; eru nokkrar þeirra skráðar í þjóðsögum. Það var í munnmælum, á unglingsárum mínum, að Melaberg hafi einhvern tíma áður verið stórbýli með 50 hurðir á járnum, aðrir sögðu 80 og einstöku maður komst upp í hundrað. Enginn hefir þó getað sagt, hvar þennan fróðleik er að finna.”
Þegar lengra var haldið blasti Másbúðarvarða við niður við ströndina; sundvarða í Keili. Komið var að gatnamótum Hvalsnesgötu frá Keflavík og Efri-götu. Frá þeim tók gatan svo til beina stefnu á efsta grjótgarðinn við Nesjar. Ekki er auðvelt við fyrstu sýn að greina götustæðið, en úr því rættist fljótlega. Á leiðinni var gengið yfir jarðlægan garð Norður-Nesja. Tóftir bæjarins eru á lágum hól sunnan við túngarðinn. Hleðslur sjást enn er forma fyrrum bæjarstæðið. Um hann og fleira á leiðinni má t.d. lesa í Rauðskinnu.

Hvalsnes

Gengið var ofan garðs við Nesjar og Lönd. Þar fylgdi gatan utanverðum görðum. Að sögn Sigurður má enn greina Virkið (Virkishól) og Gömlu Nesjar á bak við bílskúrinn á Nesjum. Másbúðarhólmi er neðar, landfastur á fjöru.
Nýlegt sumarbýlissvæði var á hægri hönd er lengra var haldið og þá Bursthús. Nýlenda var síðasti bærinn á hægri hönd áður en haldið var heim á hlað að Hvalsnesi. Frægastur ábúenda á Hvalsnesi er að ölluk líkindum séra Hallgrímur Pétursson.
Að lokinni göngu bauð Sigurður þátttakendum til stofu í Norðurkoti III. Til að bæta um betur fyrir hinar ellefu sortir og laufabrauð á borðum eftir fyrri ferðina galdraði hann fram rúsínur í súkkulaðihjúp og bauð rjúkandi kaffi með.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mínútur.

Heimild:
-Sigurður K. Eiríksson í Norðurkoti (f: 1929)

Hvalsnes