Færslur

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp Kerlingarskarð frá sæluhúsinu við Bláfjallaveg, gengið suður með vestanverðum Draugahlíðum, inn í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum, og þær skoðaðar sem og tóftir búðanna. Litið var eftir hellisopum, sem spurnir hafa borist af, í suðaustanverðu Kistufelli og kíkt á flugvélaflak sunnan í fellinu. Þá var gengið upp í Kistufellsgíg og til norðurs austan Hvirfils. Ljósmyndari frá tímaritinu Útiveru var með í för til að festa landslag, minjar og fleira á filmu til birtingar með grein, sem mun birtast fljótlega í tímaritinu.

Kerlingarskarð

Búð námumanna undir Kerlingaskarði.

Þegar gengið er áleiðis upp í skarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Á uppleiðinni eru nokkrir stuttir hellar og stór hrauntröð úr Miðbolla. Fallegar hraunmyndanir eru í sumum hellanna. Efst í Kerlingarskarði er drykkjarsteinn. Hann var hálffullur af vatni. Sumar sagnir segja að drykkjarsteinarnir hafi átt að vera tveir þarna. Þegar betur var að gáð sást hvar önnur skál í móbergsklöpp var þar örfáum metrum ofar. Eftir að hafa hreinsað mold og möl upp úr skálinni kom í ljós hinn myndarlegasti drykkjarsteinn, greinilega mikið notaður í gegnum aldir. Sennilega hefur hann fyllst þegar ferðir lögðust að mestu af um götuna og enginn orðið til að halda honum við (hreinsa upp úr honum eins og drykkjarsteina er þörf). Nú er þessi stærri skál orðin tilbúin að nýju og vonandi fyllst hún fljótlega af vatni, vegfarendum til svölunar.

Kerlingarskarð

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Ofan við skarðið var staðnæmst og dást að útsýninu. Ofan þess blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna. Kannski þess vegna hefur línan einhvern tímann verið dregin í Stóra-Kóngsfell, svona til að hafa það með í hópnum.

Miðbolli er einn fallegasti eldgígur landsins. Neðar mátti sjá Litla Kóngsfell og sunnar Draugahlíðar. Í suðri voru nokkrir eldgígar.

Brennisteinsfjöll

Miðbolli (t.h.) og Kóngsfell.

Gengið var meðfram þeim og síðan til suðurs vestan Draugahlíða, framhjá útdauðu hverasvæði og síðan suður með miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónaði stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Gengið var á ská niður gróna hlíð, niður að tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni. Reyndar var hann vatnslítill þetta sinnið. Tveir hálfleygir rjúpuungar leituðu að öruggara skjóli. Móðirin fylgdist lífsreynd með.

Brennisteinsfjöll

Tóft námumanna í Námuhvammi.

Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hafði hrunið yfir ofninn, en með því að skafa lausan jarðveg ofan af kom efsti hluti hans í ljós.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld.

Brennisteinsfjöll

Bræðsluofn í brennisteinsnámunum.

Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279. Mest er af brennisteini á norðausturhluta og suðvesturhluta landsins og er þar að finna stærstu námurnar, t.d. í Reykjahlíð í Mývatnssveit á Norðausturlandi en í Brennisteinsfjöllum og í Krísuvík á Suðvesturlandi.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:

Brennisteinsfjöll

Ofninn.

“Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.”

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Brennisteinsfjöll

Gata í námunum.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini.

Brennisteinsfjöll

Í brennisteinsnámunum.

Námusvæðið var rissað upp til varðveislu í Reykjanesskinnu til síðari tíma nota.
Þá var gengið til suðurs með Brennisteinsfjöllum og áleiðis upp í suðausturhlíðar Kistufells. Þar var að sjá mikið brak úr flugvél, sem brotlenti í hlíðinni. Mótorinn var neðar, en talsvert af hlutum á víð og dreif hingað og þangað. Um var að ræða Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum. Slysið varð í 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Af einhverri ástæðu varð ein FERLIRshúfan eftir þegar svæðið var yfirgefið. Hún kom hins vegar í leitirnar síðar þegar annar leiðangur heimsótti svæðið.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Gengið var upp með sunnanverðu Kistufelli og að Kistufellsgíg (Kistugíg). Hann er einn stórkostlegasti gígur landsins. Háir hamraveggir eru umhverfis gíginn og nýrri hraun hefur runnið ofan í hann á tveimur stöðum. Lóuhreiður var á gjárbarminum og var fyrsti unginn að reyna að brjóta sér leið út. Móðirin hafði greinilega verpt öðru sinni þetta sumarið. Hálffleigur lóungi reyndi að flögra í felur, en stefndi fram af gígbarminum. Aðstaðan hlaut að hafa komið honum á óvart. Kistufellið er 602 m.y.s.

Kistufell

Kistufellstaumur.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir(dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigíga. Flest þessara einkenna má finna í Brennisteinsfjöllum.
Gengið var niður í gíginn og hann skoðaður neðanfrá. Þá sást vel hversu stórfengleg náttúrusmíð hann er. Gígurinn er sigdæld líkt og misgengisdalurinn austan Hvirfils. Norðan gígsins er stór og mikið hrauntröð er liggur til norðurs og beygir síðan til vesturs.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Skoðað var í hellaop suðaustan í Kistufelli og síðan haldið til norðurs milli Hvirfils og Draugahlíða. Þar á ás, ofan við brennisteinsmámasvæðið, er varða. Frá henni sést í aðra vörðu ofar á ásnum. Við hana er stórt vatnsstæði í gíg. Talsverð landeyðing er þarna efst, en þegar götu frá vörðunni er fylgt til norðurs má sjá hana greinilega liggja niður ásinn og áfram með vestanverðum hraunkantinum, milli hans og hlíðarinnar. Varða er við rætur ássins þeim megin og síðan tvær fallnar vörður við stíginn þar sem hann liggur áleiðis að sunnanverðum syðsta Syðstabolla.

Brennisteinsfjöll

Leið vestan Kerlingarhnúka að Kerlingarskarði.

Þar liggur gatan greinilega niður dalverpi með háum hamravegg á vinstri hönd og Bollann á þá hægri. Þetta er mjög falleg leið og auðfarin. Þegar halla fer niður á við beygir gatan til vinstri og síðan áleiðis niður mosahlíðina vestan undir Bollunum. Hér gæti hafa verið um aðra leið brennisteinsnámumanna að ræða, en hún er stysta og einnig sú greiðfærasta þangað, auk þess bæði áreiðanlegt og gott vatnsstæði er á leiðinni.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Um brennistein:
http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Kistufellsgígur

Ætlunin var að leita að hyldýpum þeim er fundust og týndust aftur norðvestan Kistufells í Brennisteinsfjöllum. Opin eru skammt suðaustan við sjálfstæð eldvörp. Þau eru a.m.k. tvö, lítil umleikis, en undir sléttri hraunhellunni virtist einungis vera svart myrkrið.

Kistufell (neðst t.h.) og hrauntraðir

Gengið var upp Kerlingargil á Lönguhlíð, haldið upp rofsléttu og inn í “eldvörp” norðvestan mikillar hrauntraðar frá Kistufellsgígnum. Þaðan reyndist vera hið ágætasta útsýni að Kistufelli og Kistufellshellunum.
Forsagan er sú að þegar FERLIRsfélagi var á gangi á þessum slóðum á óhefðbundinni leið inn að Kistufelli fyrir u.þ.b. hálfum áratug síðan kom hann að litlu opi, u.þ.b. 2 metrar í þvermál. Opið var á sléttri hraunhellu eldra hrauns milli Kistufellshraunanna, norðvestan gígsins, milli hrauntraðanna tveggja, heldur þó nær þeirri austari. Þegar hann lagðist á magann og horfði niður í myrkrið sá hann að hvorki sáust veggir né botn. Kalt loft kom upp um opið, enda snemmsumar. Skammt frá þessu opi var annað, svolítið minna, einnig á sléttu helluhrauni. Þar undir sást ekki heldur til botns. Og þar sem ferðalangurinn var einungis á leið inn að Kistufellsgígnum hafði hann þá engan sérstakan áhuga á götunum – hvorki merkti þau með vörðum né lagði staðsetninguna sérstaklega á minnið – og hélt því ferð sinni áfram. Það var ekki fyrr en seinna að ferðalagið rifjaðist upp og götin þóttu einkar athyglisverð. Sérstök ferð var síðar farin með Birni Hróarssyni, jarð- og hellafræðingi, sömu leið með það fyrir augum að endurfinna götin. Þau fundust ekki, en hins vegar fannst vænlegt op nokkru norðvestar, fullt af snjó.

Kerlingargil

Gangan upp um Kerlingargil tók um 50 mín. Um er að ræða auðvelda leið upp á Lönguhlíðar. Gengið er í urð lækjarfarvegs alveg upp í “fóðurkistuna” efra. Ljós rák leysingarvatnsins, sem nú var löngu uppþornað, á steinunum rekja leiðina. Í þeim farvegi er grjótið fast fyrir og traust undir fót. Ef hins vegar staldrað var við miðleiðis og lagt við hlustir mátti heyra steinvölur skoppa niður hlíðarnar áleiðis að gilbotninum. Þarna voru greinilega stöðugar umhverfisbreytingar í gangi, með góðri aðstoð veðra, vatns og vinda.

Þegar upp úr gilinu var komið tók við flatlend “vatnsfóður”skál. Myndarleg varða trjónir efst á brúninni. Ástæða er til að leggja hana á minnið. Hún verður einkar hjálpleg þegar ganga þarf til baka því þá verður hún eina virkilega kennileitið og getur sparað verulegan tíma.
Hrauntröð KistufellsgígsSkálinni var fylgt upp með hamrabrúnum og síðan haldið upp fyrir þær. Þá tók við berangurslegur klapparmói. Einkennisplanta efribrúna Lönguhlíða upp að Brennisteinsfjöllum er smjörvíðirinn. Aðgengilegast er að rekja fóðurskál gilsins áfram upp á brúnirnar ofan við Urðalágar, en það nafn á tveimur grunntjörnum undir klapparholti. Ofar tekur við urðarangur. Báðar tjarnirnar voru nú þurrskroppa með vatn og þurrtíglar byrjaðir að myndast í moldarbotnum þeirra.
Hér efra tók söngur lóunnar að vekja sérstaka athygli, en þögnin hafði einkennt neðrihlutann. Rjúpnavængur, eggjaskurn og fleira gáfu til kynna hver sökudólgurinn væri. Hann lét þó ekki á sér kræla að þessu sinni.
Hrauntröðsendi KistufellsgígsinsÞá var komið að góðgætinu; hraunleifum Kistufellshrauns. Þær birtust sem útvörður sem dagað hafði upp – þvert á leiðina. Þegar meðfylgjandi loftmynd var skoðuð mátti sjá hvar mikil hrauntröð hafði komið úr Kistufellsgígnum, runnið til norðurs, en síðan beygt til norðvesturs. Á leið hans hafði tröð myndast til vesturs, en meginstraumurinn eftir sem áður fylgt meginhrauntröðinni lengra til norðvesturs. Þar við endimörk klofnaði hraunstraumurinn. Suðaustari hrauntröðin endar í myndarlegri hraunskál, gróinni líkt og tröðin í heild. 

Í norðvestari hrauntröðinni má sjá hvar endi hennar hefur aðskilist með hraunbrú eins og umhverfis og líkist hann stakri gígskál. Þarna hefur fyrrum verið minni rás á milli, en lokast.
Um 30 metrum suðaustan við austari hrauntröðina er gat í hraunið, um 10 metra djúpt og um 5 metrar í þvermál. Ekki verður komist niður í gatið nema með aðstoð kaðalstiga, kaðals eða 6 m stiga. Hægt væri að láta stigann nema við brún neðra og forfæra hann síðan niður á við. Ómögulegt er að svo komnu máli að segja til um hvað þar kann að leynast.

KistufellsgatiðHaldið var áfram yfir þennan annars meginhraunstraum Kistufellsgígsins yfir á eldra og sléttara helluhraun. Gengið var um fyrrnefnda hraunhelluna, en segja verður eins og er að þar er saman að líkja nálinni og heystaknum. Í minni ferðalangsins “gekk hann fram á opinn, án þess að sjá þau úr fjarlægð”.
Þótt svæðið sé ekki yfirþyrmandi þarf að gefa sér góðan tíma til að skoða það allt. Það verður gert enn á ný í sumar.
Þegar haldið var til baka lagðist loka skyndilega yfir svæðið. Hún lagðist þó aldrei yfir gönguleiðina. Þéttur þokuveggurinn lá með henni, svo þykkur að þegar göngustaf var stungið inn í hann, hvarf endinn sjónum. Handan veggjarins réði birtan ríkjum og framundan mátti sjá vörðuna ofan Kerlingargils. Stefnan var tekin á hana og brúnum fylgt að gilinu.
Þegar holan var borin undir Björn kom í ljós að hann hafði þegar klifrað niður í hana. “En það þarf járnkarla og verkfæri til að færa til grjót neðst í holunni til að komast inn í rásina”, að hans sögn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.