Eftir ferð FERLIRs upp í Brennisteinsfjöll um Fagradal á dögunum kom í ljós að hellarás sú, sem skoðuð var í leiðinni, gæti verið með þeim lengstu á landinu, eða u.þ.b. tveggja til þriggja km löng.
Enn og aftur var haldið eftir gömlu götunni í vestanverðum Fagradal, gengið upp hraunsneiðinginn innst í dalnum og upp á brún hans að vestanverðu. Með í för var Björn Símonarson frá Hellarannsóknarfélaginu, en hann var einmitt með í för hóps er fann og rannsakaði efsta hluta hellakerfis Kistuhraunshellanna árið 2002. Hópurinn skoðaði þá op og rásir næst Kistugígnum, en fylgdi ekki rásinni niður Kistuhraunið, enda ekki hægt að gera allt á einum degi þegar Brennisteinsfjöllin eru annars vegar. Þá bættist við í hópinn Óskar Sævarsson, forstöðumaður Saltfiskseturs Íslands og útvörður Grindvíkinga ásamt húsfrú þarna á ystu mörkum bæjarfélagsins. Þarna er vel fylgst með öllu – utan sem innan.
Haldið var eftir götu austur með sunnanverðri brúninni uns komið var inn í slétt ómosavaxið helluhraun. Jón Jónsson, jarðfræðingur nefndi þetta hraun Kistuhraun, en þessi hluti þess hefur einnig verið nefnt Breiðdalshraun því endi þess rann niður að Breiðdal um Fagradal. Líkt og áður var haldið upp eftir sléttu helluhrauninu. Það hefur runnið að Kistufellshrauninu að austanverðu, en vestan þess hefur Eldborgarhraun runnið að því. Undir því er eldra Eldborgarhraun úr hinni eiginlegu ELDBORG Brennisteinsfjallanna. Sú eldborg er skammt norðan þeirrar eldborgar er hæst stendur á hryggnum og sést víðast hvar frá.
Nú sem fyrr var haldið lengra til vesturs að Eldborgarhraunskantinum. Þegar upp á neðstu brún hraunsins var komið, þriðjungi leiðarinnar ófarinnar, birtist skyndilega Brennisteinsfjallsgarðurinn framundan; Vörufell vestast, Eldborgir, Kista og Kisturfells austast. Enn austar mátti sjá Hvirfil, hæstu brún fjallgarðsins. Fögur sjón í stórkostlegu veðri. Frá þessum stað má virða fyrir sér flest þau kennileiti er prýða norðanverð Fjöllin.
Eftir göngu upp slétt helluhraunið kom neðsta opið á rásinni, sem ætla mætti að gæti verið samfelld rás ofan frá vestari gíg Kistu.
Byrjað var þó að kíkja inn í stutta, en heila, rásina skammt ofar. Þar inni í henni var box það sem áður var, í fyrri ferð, barið augum. Í því voru nokkrir númeraðir trékubbar og tveir tússpennar. Bamburstafur lá þar hjá ásamt grænni þríhyrndri veifu. Þrjár þunnar tréfjallir með áletrunum stóðu þar hjá. Svo virtist sem þar hafi þeir, eða þau, er þangað rötuðu, að skrifa númer og nafn sitt til staðfestingar einhverju. Líklega eru þetta leifar af ratleik skáta frá fyrri tíð, sem af einhverri ástæðu hefur dagað þarna uppi. Þessi hluti rásarinnar er heilleg og vel manngang. Utan í veggjum er dropsteinar.
Skammt neðar eru gróin jarðföll í rásinni. Beggja vegna í henni eru hliðarrásir; sú vestari u.þ.b. 10 metra löng og sú eystri u.þ.b. 50 metra löng.
Rásinni var fylgt niður á við til að byrja með. Við neðsta opið er rásin tvískipt, en hún rennur saman í eina um 100 metrum neðar. Í báðum hlutunum eru fallegir dropsteinar og hraunstrá og loftum. Eystri rásin greinist í tvennt. Efri hlutinn er þakinn dropsteinum svo ekki verður komist þar inn fyrir nema eyðileggja hluta þeirra. Neðri hlutinn er einnig þakin dropsteinum, en fara má með gát áfram niður rásina án þess að valda skaða. Þar rennur hún saman við vestari hlutann.
Í vestari rásinni eru einstaklega fallegir dropsteinar, flóknari og litskrúðugri en gengur og kynjamyndarlegri. Við efri enda hans eru nokkrir dropsteinar á stalli – vel við hæfi.
Ekki var að sjá að nokkur hafi komið þangað inn á undan forsporendum dagsins því forfæra þurfti grjóf við opið svo manngengt yrði.
Þegar gengið var upp eftir rásinni virtist hraunið tiltölulega þunnt, en rásinn stækkaði eftir því sem ofar dró. Nokkur op eru á henni neðarlega með grónum jarðföllum á milli.
Ofan við “boxhluta” rásarinnar eru nokkur op á rásinni, en frá efsta opinu tók við alllöng hraunhella. Þegar farið var inn um eitt opið skammt ofar tók við löng heilleg rás. Ofarlega greindist hún í tvennt; annars vegar áfram upp á við. Þar þrengdist húnverulega svo skríða þyrfti á maganum áfram upp eftir henni. Það var ekki gert að þessu sinni. Hins vegar tók við hliðarrás til vinstri. Áður en að mótunum kom, eftir u.þ.b. 120 metra, sáust merkilegar “dellulengjur” á gólfinu. Slíkt hefur ekki sést í hellum hérlendis áður. Um var að ræða “festislega” röð af bólum af ætt dropsteina. Slík fyrirbæri voru víðar í rásinni. Í hliðarrásinni voru strýtulaga hraukar, einnig af ætt dropsteina. Þessar strýtur voru mjög svipaðar þeim er áður hafa fundist í innri hluta Bjargarhellis á Strandarhæð.
Einstaklega fallegar hraunmyndanir. Rásin beygði 90°, en eftir að hafa fylgt henni u.þ.b. 120 metra til hliðar og austan við fyrri rásina var ákveðið að bíða með frekari undirheimakannanir á þeirri leið.
Gengið var eftir yfirborðinu og reynt að fylgja rásinni áleiðis upp að Kistu. Neðan hennar eru nokkur op og rásin bæði stór og stutt milli jarðfalla. Hún liðast síðan upp með hlíðinni, upp á stall með nokkrum opum þar sem fyrir eru fallegir ráshlutar, jafnvel tvískiptir.
Efsta opið var einungis nokkra tugi metra frá vestari gíg Kistu. Svo virðist sem skoðað hafi verið heilstætt hellakerfi er ákvarðast af tiltekinni hraunrás úr Kistu, tveggja til þriggja km langt. Kerfið hefur ekki verið skoðað að fullu. Það verkefni bíður því annars leiðangurs.
Þegar neðri hluti rásarinnar var borinn saman við efri hlutann má með nokkrum sanni segja að þarna sé um einu og sömu hraunrásina að ræða. Ef satt er gæti þarna verið um eina lengstu slíka að ræða hér á landi.
Þá var stefnan tekin á hraunrásir austan við meginhrauntröð Kistufellshraunsrásarinnar – hinnar miklu. Austari hluti meginrásarinnar er gróin, en vestari hlutinn er hrikalegur, bæði djúpur og breiður. Við skoðun á hraunsvæðinu norðaustan hennar komu í ljós þrjú hellakerfi með mörgum opum og stuttum samfelldum rásum millum. Tvær syðri rásirnar hafa verið skoðaðar áður svo athyglinni var beint að nyrstu rásinni. Í henni, líkt og í hinum, komu í ljós stuttir ráshlutar með gróningum á millum. Allar virðast þessar rásir stefna í átt að meginhrauntröðinni miklu – nema sú nyrsta. Hún virtist hafa leikið sér að framhjáhaldinu.
Snyrtilegt op fannst á henni norðan vesturendar hrauntraðarinnar. Rásin virðist heilleg til austurs, en hrun hindrar umferð um hana til vesturs. Austurhlutinn, sem er vel manngengur, er enn ókannaður svo þar er og verður um að ræða enn eitt verkefnið fyrir FERLIR. Tröðinni var fylgt til vesturs og síðan til norðurs. Nokkur op eru á henni, en rásir stuttar.
Gengið var niður slétt austanvert helluhraun Kistu og kíkt í nokkra möguleika. Þeir reyndust takmarkaðir. Hins vegar var yfirborð hraunsins því áhugaverðara því einstakar hraunreipamyndanir leyndust þar á nokkrum stöðum. Sjámátti m.a. “kaðalmynstur”, “myndlistarmynstur”, “hringamynstur”, “litamynstur” þar sem hús- og fuglaglæða léku sér að sjáaldrinu. Auk þess brá þar fyrir annað það kynjamynstur, sem augað gat greint í kvöldhúminu.
(Árinu síðar var haldið upp Vatnshlíðina ofan Kleifarvatns og opnaður nyrsti hluti rásarinnar. Þar, líkt og fyrrum, blöstu við dropsteinar og falleg hraunstrá. Augljóslega mátti þó sjá að rásin langa var þarna að “syngja sitt síðasta”.)
Þegar komið var niður að brún Fagradals var stefnan tekin niður austlæga hlíðina og gengin sneiðingur niður mosabrúnina uns komið var niður á gömlu götuna, sem fyrrum var uppgengin. Útsýnið var bæði einstakt og litskúðugt.
Ljóst er að Brennisteinsfjallasvæðið býður upp á óendanlega möguleika til landkkönnunar – nú rúmlega 1100 árum eftir að fyrsti norræni landnámsmaðurinn, að talið er, settist að á svæðinu.
Til upplýsinga skal þess getið að um framangreint svæði er ætlunin, skv. áætlunum Hitaveitu Suðurnesja, að leggja veg til tilraunaborana í Brennisteinsfjöllum. Því mun fylgja ýmis konar rask á svæðinu öllu og umhverfi – sem og áður órannsökuðum náttúruminjum. Ef einhvern tímann hefur verið þörf fyrir umhverfisverndarsinna sem og meðvitund valdhafa um verðmæti náttúruverðmæta þá er það hér og nú.
“Almættið” forði alvaldinu slíkt rask á annar ómetanlegum jarð- og náttúruverðmætum landsins.
Sérhver ferð sem farin hefur verið upp í Brennisteinsfjöll að undanförnu, án þátttöku launaðra opinberra starfsmanna, hefur falið í sér opinberun áður ómetviðra verðmætra. Engra þeirra er þó sérstaklega getið í lærðum skýrslum “sérfræðinga” um svæðið.
Annars er fróðlegt að skoða aðgengi að svæðinu m.t.t. fótgangandi, sem í dag virðist mjög takmörkunum háð, en ætti í raun að vera þveröfugt…
Frábært veður – Gangan tók 6 klst og 6 mín.