Færslur

Gálgaklettar

Listasafn Reykjavíkur efndi til gönguferðar um Gálgahraun og Klettahraun að kvöldi 14. júní 2012 í tengslum við sýninguna “Gálgaklettur og órar hugans” sem stendur yfir á Kjarvalsstöðum um þessar mundir.
Kjarval-221Þar eru m.a. sýnd um 30 
málverk sem Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði í Klettahrauni, sem er hluti Garðahrauns, en hann nefndi myndirnar ýmist úr Bessastaðahrauni, úr Gálgahrauni eða jafnvel Gálgaklettur þó svo að hann hafi ekki málað Gálgakletta enda komst hann aldrei nálægt þeim stað þar sem þeir klettar standa.
Ólafur Gíslason listheimspekingur og sýningarstjóri hefur lagt út af málverkum Kjarvals og hvernig hann nálgaðist viðfangsefnið á afskaplega fjölbreyttan hátt í fyrirlestrum sínum í Listaháskólanum og víðar. Á sýningunni eru verk eftir fjölda annarra listamanna og talaði einn þeirra Halldór Ásgeirsson um nálgun sína við viðfangsefnið þegar komið var að Kjarvalsflöt og Kjarvalsklettum eins og farið er að nefna klettana sem Kjarval heillaðist svo mjög af og málaði aftur og aftur.
Kjarval-222Jónatan Garðarsson fór fyrir göngu um svæðið og byrjaði á að ganga um Vatnagarða í áttina að Gálgaklettum. Þar var staldrað við í bíðskaparveðri á meðan rætt var um staðinn og þá atburði sem talið er að þar hafi átt sér stað á meðan fógetavaldið var á Bessastöðum. Síðan var förinni heitið að Kjarvalsklettum og gengið frá Gálgahrauni, um Flatahraun milli Stóra-Skyggnis og Garðastekks í áttina að Klettum. Staldrað var við á nokkrum stöðum á leiðinni og rætt um það sem fyrir augu bar.
Göngufólk var ánægt með framtakið og ekki spillti veðrið fyrir en það var um 16 stiga hiti og sannkölluð rjómablíða. Hér eru tvær myndir af svæðinu, bæði nú og fyrrum af þeim mótífum sem Kjarval málaði á þeim aldarfjórðungi sem hann sótti sér efnivið á þessar slóðir.
Svo er hægt að skoða nokkur málverka Kjarvals og ljósmyndir sem teknar eru á sömu stöðum og hann málaði á 25 ára tímabili undir lok starfsferilsins.

Kjarvalsklettur

Kjarvalsklettur í Garðahrauni.

Garðahraun

Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði nokkur málverka sinna í Garðahrauni þar sem hraunmyndanir voru notaðar sem fyrirmyndir (,,Kjarvalssvæði“). Árið 1955 var haldin yfirlitssýning á verkum Kjarvals í Listasafni Íslands. Um 25.000 manns sóttu sýninguna. Þá hafði hann uppgötvað Gálgahraun á Álftanesi og hafði málað þar oft, stundum nokkrar myndir af sömu fyrirmyndinni. Þrátt fyrir verðmætin, sem í verkum Jóhannesar felast, eru mótvív hans, þ.e. hraunmyndanirnar, ekki síður verðmætar.
KjarvalJóhannes Sveinsson Kjarval fæddist í Efriey í Skaftafellssýslu árið 1885. Fjögurra ára var hann sendur í fóstur til frændfólks síns í Geitavík í Borgarfirði eystra og ólst þar upp.
Þegar Kjarval var 17 ára fluttist hann til Reykjavíkur. Hann hafði lengi verið áhugasamur um myndlist og einsetti sér að mennta sig og taka framförum á listabrautinni. Vann hann fyrir sér með sjómennsku og ýmsum störfum í landi en teiknaði og málaði þegar tími vannst til.
Kjarval var ljóst að til að ná árangri í myndlist yrði hann að fara utan. Síðla árs 1911 sigldi hann með togara til London með það að markmiði að komast inní Konunglega listaháskólann. Ekki fékk Kjarval skólavist en hann notaði tímann í London til að skoða söfn og mála. Næsta vor hélt hann til Kaupmannahafnar. Að loknu árs teikninámi við tækniskóla fékk hann inngöngu í Konunglega listaháskólann. Þar stundaði hann nám næstu árin og brautskráðist í árslok 1917.
KjarvalskletturÁ námsárunum kom Kjarval oftast heim á sumrin og málaði. Að loknu náminu í Kaupmannahöfn ferðaðist hann um Norðurlönd og dvaldist einnig um hríð á Ítalíu.
Kjarval fluttist til Reykjavíkur við upphaf 20. aldar. Þá var höfuðstaðurinn mjög frábrugðinn því sem nú er. Um aldamótin bjuggu í Reykjavík tæplega 7000 manns, flestir í torf- eða timburhúsum. Fyrsta myndlistarsýningin á Íslandi var haldin árið 1900. Þá sýndi Þórarinn B. Þorláksson (1867-1924) málverk sín. Þórarinn var fyrsti íslendingurinn sem fór til útlanda gagngert til þess að læra listmálun, en Ásgrímur Jónsson (1876-1958) varð fyrstur íslendinga til að gera myndlistina að aðalstarfi sínu. Kjarval naut tilsagnar beggja þessara manna.
KjarvalÁ fimmtugsafmæli Kjarvals 1935 var haldin yfirlitssýning á verkum hans í Menntaskólanum í Reykjavík. Með þeirri sýningu festi hann sig í sessi sem einn ástsælasti og virtasti málari þjóðarinnar. Vinsældir hans jukust og fjárhagurinn batnaði. Árið 1945 sýndi hann 41 mynd í Listamannaskálanum. Af þeim seldust 38 strax fyrsta klukkutímann. Á hálfum mánuði sáu um 14 þúsund manns sýninguna, eða um þúsund gestir á hverjum degi. Þessi mikli áhugi endurspeglaði ekki aðeins aukinn áhuga á list Kjarvals heldur einnig breytingu sem var að verða á íslensku samfélagi.
KjarvalskletturEftirfarandi tilvitnanir lýsa vel viðhorfi Kjarvals til náttúrunnar, lífsins og listarinnar: “Það er svo mikill vandi að vera manneskja. Það hefur alltaf verið erfitt fyrir mig. Við höfum margs að gæta, náttúran leikur við mannseðlið og ef við gætum okkar ekki á leik náttúrunnar verður engin list til. Og við verðum að hugsa um steinana. Við megum ekki alltaf láta þá liggja undir skugganum okkar, við eigum stundum að klappa þeim og hlusta á þá og heyra hvað þeir hugsa.”
Kjarval málaði víða um land. Fram til 1939 fór hann aðallega á Þingvöll og aðra staði í nágrenni Reykjavíkur. Bágur efnahagur takmarkaði möguleika hans til ferðalaga. Eftir 1939 ferðaðist Kjarval meira um Samalandið. Staðir sem hann fór oft á að mála voru: Þingvellir, Svínahraun, Álftanes, Snæfellsnes, Skagaströnd, Vestur-Skaftafellssýsla og Borgarfjörður eystri.
Í útvarpsviðtali frá 1957 segir Kjarval um verk sín: “Listin mín er innifalin í mótívinu og á mörgum myndum af sama mótívi ef mér finnst það vera það gott að það sé hægt að búa til margar myndir af því úr sama stæði, ekki kóperuð mynd af mynd, heldur standa og sjá mótívið í mismunandi veðri.”
Oft er talað um að með landslagsmyndunum sem Kjarval málaði á síðari hluta ævinnar hafi þjóðin lært að sjá og meta fegurðina sem býr í íslenskum mosa og hraungrjóti. Áður var náttúrufegurð einkum talin felast í tignarlegum fjöllum, birkihríslum og grænum túnum.
MálningHér er ekið dæmi í Garðahrauni (Gálgahrauni), sem Kjarval festi á striga, stundum nefndur Kjarvalsklettur. Sjá má hleðslu í skjóli undir klettavegg þar sem hann hefur setið og málað klettinn. Ofan við skjólið eru litir þar sem hann hafði skolað úr penslum sínum. Þessi ummerkri sjást enn á vettvangi:
Þótt staðir sem Kjarvalsfyrirmyndir teljist ekki til fornleifa og eigi því ekki að vaðveitast sem slíkir er engu að síður ástæða til að umgangst þá af virðingu því það kom ekki af engu að listamaður með svo næmt auga fyrir fegurð umhverfisins taldi ástæðu til að festa þá á striga svo aðrir mættu njóta þess með honum til framtíðar.

Heimild:
-www.listasafnreykjavikur.is

Garðahraun

Kjarvalsklettur í Garðahrauni.