Tag Archive for: Klifhæð

Klifhæð

Í Árbókinni 1943-48 segir Ólafur Þorvaldsson frá leiðinni milli Herdísarvíkur og Sýslusteins. Þar fjallar hann m.a. um Selhól, Hrísbrekkur (Litlu- og Stóru-), Klifhæð og Sængurkonuhelli:
Vegurinn„Af Seljabót held ég svo austur hraun og fer Gamlaveg, sem liggur frá eystra horni Geitahlíðar, ,,niður á milli hrauna“, niður á Seljabót austast; er þá Seljabótarbruni á hægri hönd, en Kolhraun á vinstri. Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö brunabelti austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið. Þá er austarlega kemur á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af hér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann hafa
hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið. Snúum við nú aftur í vesturátt og förum út með vegi. Fyrst liggur vegurinn um hólótt land og óslétt. Þegar út á móts við Selhól kemur, en hann er skammt neðan vegar, er farið yfir dálítinn hæðarhrygg, sem heitir Ingimundarhæð. Þegar út yfir hana kemur, taka við sléttar hellur, og er von bráðar komið að dálítilli hæð, sem er fast við veginn norðanmegin, gróin móti suðri, en grasflöt fram af. Er þetta Litla-Hrísbrekka. Nokkru vestar gengur hár brunahryggur norðvestur frá fjallinu fram að veginum, og er hér komið að Stóru-Hrísbrekku. Þar er gras í bollum og brekkum, svo og viðarkjarr nokkurt.
HrísbrekkurFrá Stóru-Hrísbrekku er land á fótinn vestur á Klifhæð. Þar sem hún er hæst, liggur vegurinn gegnum klauf, sem rudd hefur verið í mjótt, en hátt brunahaft. Skammt austan undir klifinu, sjávarmegin götu, er lítill hellir, snúa dyr mót austri, en lágar mjög, þetta er Sængurkonuhellir. Sagan segir, að þar hafi göngukona ein endur fyrir löngu alið barn. Vestan Klifhæðar er geil af eldra hrauni með miklum lynggróðri, en vestan hennar samfelld brunabreiða, sem runnið hefur ofan af fjalli vestan Lyngskjaldar.
Austarlega í þessari brunabreiðu, en ofan vegar, er stór, stakur hraungrýtissteinn, og er hér Sýslusteinn, auðþekktur sökum stærðar og einstæðingsskapar. Sýslusteinn er á mörkum milli Árnes- og Gullbringusýslu, og þá einnig merkjasteinn milii Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.“
Leit var gerð að framangreindum Sængurkonuhelli m.v. lýsinguna. Lítill skúti fannst á svæðinu sem og tvö op í stærri hraunrásir, sem verða skoðaðar síðar.

Heimild:
-Ólafur Þorvaldsson, Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-48, Herdísarvík í Árnessýslu – Stutt lýsing jarðarinnar, bls. 133-134.

Selhóll

Selhóll.