Færslur

Kolagerð

Viðarkol eru unnin úr viði sem settur er í kolagröf, kveikt í og hún byrgð með torfi þannig að loft komst ekki að viðnum. Þetta var látið krauma í þrjá til fjóra daga. Viðarkolin voru nauðsynlegt eldsneyti í smiðjum og til rauðablásturs. Viðarkol eru notuð í svart púður. Á Íslandi var áður fyrr algengast að nota birki eða rekavið en stundum fjalldrapa til kolagerðar.

KolagerðSkúli Sæland lýsir ummerkjum og segir frá kolagerð í Úthlíðarhrauni. Þar segir hann m.a.: “Í örnefnaskrám er Kolgrímshól lýst þannig að hann sé „stærsti og fegursti hóllinn í hrauninu, skógi vaxinn að vestan að brún“ og að hann sé úr grágrýti og því hljóti hann að hafa staðið upp úr hrauninu þegar það rann. Um ástæður örnefnisins segir hins vegar einungis að „[n]afnið bendir til, að þar hafi áður verið gert til kola, enda má víða sjá móta fyrir gömlum kolagryfjum.“
Þegar gengið er við Kolgrímshól má finna fjölda gamalla kolagrafa við syðri enda Kolgrímshóls. Þessar kolagrafir eru margar illsýnilegar enda er svæðið vel gróið birkikjarri. Þessi ummerki benda til þess að töluvert hafi verið um vinnslu kola áður fyrr en þrátt fyrir trén sem eru uppi við hólinn er ekki mikið um birki á svæðinu. Vel þekktar eru þó frásagnir og ummerki um að landið hafi verið skógi vaxið við landnám. Slæmt árferði, ágangur búfjár og ekki síst kolavinnsla forfeðra okkar eru taldar helstu ástæður þess hve lítið er af skógi um allt Ísland.

Kolagerð

Kolagerð.

Nútíma Íslendingurinn á erfitt með að átta sig á því hvernig kolavinnsla gat verið jafn eyðandi og umfangsmikil og heimildir greina frá. Við skulum því skoða aðeins mikilvægi hennar í búskap forfeðra okkar.

Kolagerð var landbúnaði mikilvæg iðngrein því að kol voru nauðsynleg við járngerð og smíði allra verkfæra úr málmi. Einkum þurfti þeirra við til dengja ljái við viðarkolaeld. Birkiviður var yfirleitt notaður til að búa til viðarkolin.

Kolagröf

Kolagröf.

Viðarkol voru gerð þannig að viðurinn var kurlaður í smátt, kurlið látið í gryfjur, síðan kveikt í því og grafirnar byrgðar með torfi til þess að ekki logaði upp úr. Gryfjurnar hafa oftast verið þar sem skógurinn var höggvinn. Þær hafa verið misdjúpar og ákvæði voru í lagabálkum um að hylja ætti grafirnar eftir notkun til þess að sauðfé færi ekki í þær. Um kolagerð er líka oft getið í fornsögum, og oft er kveðið á um réttindi til kolviðarhöggs og kolagerðar í máldögum og jarðakaupabréfum frá miðöldum. Örnefni er líka víða að finna um land þar sem nú eru litlar eða engjar menjar um kolskóg.

Kolagröf

Kolagröf.

Kolagröfin sjálf var tæplega tveir til þrír og hálfur metrar að þvermáli og rúmlega metri á dýpt. Kurlinu var raðað í hana, og voru stærstu stykkin sett neðst. Kúfur var hafður á gröfinni sem var um það bil metri á hæð. Svo var slegið eldi í botninn og látið brenna, þangað til góður eldur var kominn í alla hrúguna. Þá var snöggtyrft yfir og mold mokað yfir gryfjuna svo að hvergi kæmist loft að. Kolagröfin var opnað eftir þrjá eða fjóra daga og kolin tekin upp. Kolagerðarmenn gátu vænst þess að fá að jafnaði fjórar til fimm tunnur kola úr slíkri gröf.

Víða sér nú í minjar gamalla kolagrafa, meðal annars á Framafréttinum í allt að fimmhundruð metra hæð yfir sjó, þar sem verið hefur örblásið land síðustu áratugi. Líklegt er að ágangur manna og dýra virðist hafa átt stóran þátt í að eyða skólendinu.

Kolagröf

Kolagröf.

Í “Nýjum kvöldvökum” árið 1914 er fjallað um “Kolagerð” á bls. 70: “Kolagerð var mikið stundað fyrrum, meðan skógar voru nógir í löndunum, enda hafa skógar víða mjög látið á sjá við hana, ekki sízt skógarnir hér á Íslandi, einn og kunnugt er. Úr skógunum voru gerð viðarkol, og hét það verk kolun eða kolagerð, og var það kallað að gera til kola. Þá er viðurinn brendur til hálfs, annaðhvort í kolagröfum eða þá með þurhitun; er þá viðurinn hitaður mjög í lokuðum járnhylkjum (retortum), og engu lofti hleypt að honum. Kolagerð í kolagröfum hefur þann kost, að að henni má vinna hvar sem er úti á víðavangi, en aftur þann ókost, að allar aukaafurðir af þurhituninni missast. Eigi þarf hér að lýsa kolagerð í gröfum, hún er altof kunn hér á landi frá fornu fari til þess, þótt miklum mun sé hún stórkostlegri þar sem stórviðarbolum er hlaðið saman til kolagerðar í 10—16 metra víðum gröfum. En aðferðin er hin sama og hér hefur veri$. Ef viðurinn er vel þur, verða kolin hérumbil fjórum sinnum léttari eftir brensluna en viðurinn var.”

Kolagröf

Unnið við kolagerð.

Í “Árbók Hins íslenska fornleifafélags” árið 1968 segir Sr. Einar Friðgeirsson frá “Að gjöra til kola“:
“Að gjöra til kola. Svo hét starfið í heild sinni. — Fyrst var felldur skógur til kolagerðarinnar. Var þá sneitt hjá öllum mjög grannvöxnum hríslum og eins þeim sverustu. Ágætur kolviður voru þeir leggir, sem voru á sverleika við orf. En auðvitað varð eigi fenginn svo jafnsver skógur, að sumt væri ekki helzt til svert, en þá voru líka sverustu leggirnir oft teknir frá og ætlaðir til smíða, ef þeir voru ekki of kræklóttir. Klyfberabogaefni og skammorfaefni voru einnig frátekin. Þegar nægilegt hafði verið fellt (þáð var eingöngu gjört með öxi, klippur þekktust ekki fyrr en Kofoed innleiddi þær) þá var tekið til að afkvista, og var það gjört með verkfæri, sem kallað var „sniðill”. Það var langt og svert sax, og krókbeygður oddurinn upp á við að framan. Með sniðlinum voru grennstu greinarnar sniðnar utan af hverri hríslu. Var trosið utan af hríslunum vanalega kallað „afkvistið” eða þá „limið”. Því var kastað saman í kesti. Limbyrðar voru þær kallaðar, afkvistisklyfjarnar. Ætíð var sagt hrísklyf, en ekki baggi.

Kolagröf

Kolagröf undirbúin.

Þegar hríslurnar höfðu verið afkvistaðar, var tekið til að kurla. Var það gjört á barmi gamallar kolagrafar, ef hún var til staðar, ella hjá góðu kolgrafarstæði. Mjög nærri gröfinni mátti kurlhrúgan þó ekki vera, svo að hún yrði ekki ofnærri eldinum, þegar farið væri að svíða. Kolgjörðarmaðurinn sat svo á hnaus eða þúfu og hafði viðhöggið fyrir framan sig og kurlaði, þ. e. hann hjó með öxinni hvern legg og lurk í smábúta. Þeir urðu auðvitað nokkuð mislangir, en flestir urðu þeir 3 til 4 þumlungar. Allra sverustu kurlunum var kastað sér í hrúgu, þó blönduðust sum saman við. Eins og nærri má geta, hrökk margt kurlið alllangt út í grasið eða lyngið í kringum kolgjörðarmanninn, og var oftast frágangssök að standa upp til að eltast við þau, og þó sumt væri tínt saman á eftir fóru ætíð mörg kurl að forgörðum. Það borgaði sig ekki það nostur að vera að eltast við þau. Þaðan er kominn talshátturinn: „Ekki koma öll kurl til grafar”.

Kolagerð

Kurlað í kolagröf.

Þegar búið var að kurla, byrjaði eiginlega kolagerðin, sem hét að svíða. Ef ekki var gömul kolagröf fyrir hendi, var ný gröf tekin. Grafirnar voru talsvert misstórar, eftir því hve mikið kurl var til að svíða, og vídd þeirra og dýpt fór eftir ástæðum jarðvegsins. Hann var sums staðar ofgrunnur til þess að djúp gröf yrði tekin. Dýpt grafanna fór víst einnig eftir sverleika kurlsins. En allar voru grafirnar kringlóttar og íhvolfar í botninn, eins og gömlu járnpottarnir, ekki með löggum við botninn. Nú var eldur látinn á botn grafarinnar og ofan á hann sverasta kurlið, en þegar það var orðið vel eldleikið og sviðið að utan, var grennra kurlinu bætt ofan á smátt og smátt, og það allra grennsta síðast, ef hirða hafði verið höfð á að aðgreina það eftir sverleika.

Kolagerð

Kolagröf við skráningu.

Þegar kolgjörðarmaðurinn áleit, að fullsviðið væri, kastaði hann blautum hnausum eða torfi á eldinn og mokaði í flýti yfir allri moldinni, sem komið hafði upp úr gröfinni, unz enginn reykur komst upp.
Svo var gröfin látin vera óhreyfð alllangan tíma. Þegar kolin voru síðan tekin upp, voru þau sigtuð í kolasíu. Það var grunnur kassi með strengdum sauðskinnsbotni, og var hann allur gataður. Götin voru öll kringlótt, ég held brennd á skinnið með sívölu járni, að sverleika á við grannan litlafingur.”

Bjarni Einarsson gerði skýrslu um “Hvaleyri – fornleifar á Hvaleyri í Hafnarfirði” árið 2005. Meginviðfangsefnið var kolagröf er uppgötvaðist við gröft á frárennslislögn. Ekki verður kolagröfinni lýst hér, en í samantekt Bjarna um kolagerð segir: “Í Kristinna laga þætti Grágásar, sem talinn er hafa verið ritaður á tímabilinu 1122 – 45, er tekið fram að menn megi vitja kola sinna þó á drottins degi sé.

Kolagröf

Kolagröf.

Viðarkola er einnig getið í Erfða- og Landabrigðisþætti Grágásar. Efirfarandi kafli úr Landabrigðisþætti segir svolítið um mikilvægi kolagerðar: „Ef maður á skóg í annars landi, og á hann að neyta skógar þess sem í hans landi sjálfs sé að höggi. Hann skal eigi hafa hross of nætur þar. Hann skal gera þar kol og hafa á braut færð fyrir veturnætur hinar næstu, og hylja grafar svo að eigi liggi fé í. Ef hann hylur eigi grafarnar svo, þá verður hann útlagur þrem mörkum, enda skal gjalda fé það er þar fær skaða af gröfum þeim, sem búar fimm virða þess er sóttur er. Í þessum þætti kemur fram að ef menn vinna svo mikinn skaða á annars manns skógi að metinn sé til fimm aura eða meir, þá varði það við fjörbaugsgarð. Gildir einu hvort þeir sjálfir eða skepnur þeirra séu valdir að skaðanum. Þá skyldi hann halda utan innan þriggja ára og dveljast þar í þrjú ár. Efir það gat hann snúið heim alsýkn. Viðkomandi var réttdræpur á meðna hann hélt ekki utan, en þó var hann friðhelgur á þremur stöðum og á leið sinni til skips.
Kolagerð
Í Jónsbók, sem lögtekin var árið 1281 eru nær sömu ákvæði þegar kemur að kolagerð. T.d. er tilvitnunin hér að ofan því sem næst eins í Búnaðarbálki Jónsbókar. Hugsanlega er þessi lagabókstafur enn í fullu gildi!
Kolagerð er einnig getið í öðrum rituðum heimildum íslenskum, fyrst árið 1327 í Rekaskrá Vatnsfjarðarkirkju í Ísafjarðardjúpi. Segir þar að kirkjan eigi „kolgerd j iokulkelldu skog.“
Næst er kolagerðar eða kolaskógar getið árið 1343 í máldaga Kálfafellskirkju í Fljótshverfi. Þar segir: „kolskog j vest[r]um skorum. sua sem til bus þarf.“
Í skrá um landamerki milli Hraunskarðs og Gufuskála á Snæfellsnesi frá því um 1360 er þess getið að jörðin Hraunskarð eigi; „frí kolatak í Hrísaskóg og raptvidarhögg í jördunne til uppheldis.“ Upp úr þessu er ítak í skógum til kolagerðar oftlega nefnt í fornbréfasafni þó það sé ekki tíundað frekar hér. Kolaítak hefur þótt mikilvæg auðlind skv. Fornbréfasafni og halda má því fram að svo hafi í raun verið frá upphafi byggðar í landinu.
KolagerðJárnframleiðsla og járnsmíðar verða vart stundaðar nema að kol hafi verið fyrir hendi. Hinir fyrstu landnemar hér á landi hafa varla getað verslað slíka vöru, heldur hafa þeir þurft að framleiða hana sjálfir, rétt eins og járnið þegar upphaflegar birgðir fóru að minnka. Sprek og birki hefur ekki nægt til að ná þeim hita sem nauðsynlegur er til að járn verði unnið, hvort heldur það er úr mýrarauða eða við smíðar eða þegar dengja þurfti ljáina.
Mýrarauðinn var ein af forsendum þess að hér hafi menn numið land á ofanverðri járnöld. Ekki var hægt að treysta á það að kaupmenn sæju mönnum fyrir nægu járni fyrst um sinn, það urðu menn að vinna úr mýrarauða, en hann finnst um allt land meira og minna.

Kolagröf

Kolagröf.

Innflutningur á járni verður mikilvægur mun síðar og að margra mati varð það til þess að járnframleiðsla lagðist hér af í lok 15. aldar. Þetta mun þó varla geta staðist því til eru heimildir um menn sem stunduðu járnframleiðslu um 1700 og síðar og heimildir sem þar er getið).
Mörg örnefni um landið allt eru dregin af kolagerð svo sem Kolgrafarfjörður á Snæfellsnesi, Kolagata í Geirþjófsfirði, Kolviðarhóll á Hellisheiði í Ölvushreppi og víða annarsstaðar hér o.s.frv. Líklega hefur kolagerð verið stundum um allt land eða alstaðar þar sem skógur leyfði slíkt.
Eiginleg [náttúruleg] kol munu vera fátíð hér á landi, en þó ku steinkol finnast á nokkrum stöðum.

Brennisel

Brennisel í Hraunum – kolagröf fremst.

Kolagrafir hafa fundist mjög víða á Íslandi. Þetta eru fornleifar sem finnast yfirleitt ekki nema að örnefni gefi til kynna að þeirra er að vænta eða við sérstaka leit fagmanna. Þetta á þó ekki við þar sem land er blásið, því þá má sjá þær á blásnu yfirborðinu svo sem á Rangárvöllum og víðar.
Um kolagerð á seinni tímum má t.d. lesa í ritgerðum um kolagerð eftir Guðmund Magnússon 1978, Hálfdan Björnsson 1978, Ragnar Stefánsson 1978, Einar Friðgeirsson 1968 og Odd Oddsson 1928. Nokkur munur virðist vera á vinnulagi eftir landshlutum, en athyglisverðasti munurinn er kannski sá að á Suðurlandi var viðurinn reiddur heim á bæ og fór kolagerðin fram þar. Þetta var um 1874.
Grafarstæðið var haft kringlótt og fór stærð þess nokkuð eftir hvað mikið var brennt. Ég áætla þvermál að tunnu gröf ca. 150 – 180 sm.
Guðbrandur Magnússon lýsir því hvernig kolagröf gæti við vettvangskoðun. “Oftast eru þetta bollar svo sem 140 sm í þvermál með finnungsgróðri í botninum og oft berjalyng í skálarbörmunum og vel af berjum. … Dýptin er ekki beint mikil enda var skylda að ryðja að nokkru ofan í þær að lokinni kolagerð svo ekki stafaði af þeim hætta fyrir sauðfé. Annars hefur dýptin verið svona 80 – 130 sm eftir því hvernig er mælt og þá miðað við botn.

Brennisel

Brennisel – kolasel í Hraunum.

Jarðvegur þurfti að vera þéttur og gjarnan leirkenndur og það leiddi af sér að oft safnaðist fyrir vatn í gröfunum.
Guðbrandur lýsir einni kolagröfinni svohljóðandi: Ég giska á að kolamagnið í gröf þessari hafi verið um 2 tunnur. Sumt af kurlinu virðist höggvið úr rótum og eru lengstu bútarnir um 10 sm. Vafalaust hefur kurlið brotnað og smækkað þegar gröf var troðin. Allt stærsta kurlið var í hringnum efst og utan með en það smæsta innan í. Á botninum var svo tjara en engin lykt var af þessu.”
Þessar lýsingar koma nokkuð vel heim og saman við kolagröfina á Hvaleyri. Sverleikinn á kvistunum (kurlinu), stærð hennar og umbúnaður er nærri lagi. Þó lýsingarnar eigi við mun yngri grafir frá 19. öld, er ljóst að aðferðin hefur að mestu leyti verið hin sama í aldanna rás.
Mikið af kolum þurfti við smíðar. Sem dæmi má nefna að til að smíða einn ljá í lok 19. aldar þurfti smiður eina tunnu af kolum. Síðan þurftu stöðugt að dengja ljáinn og í það þurfti kol. Miklu meira þurftu af kolum til að vinna járn úr mýrarrauða, bæði til að þurrka og bræða.

Kolagerð

Kolagröfin á Hvaleyri – eftir að fjórðungur hennar hafði verið hreinsaður.

Kolagröfin á Hvaleyrarholti færir okkur heim sannindin um að til kola gerðu menn strax í upphafi byggðar í landinu. Staðsetning grafarinnar á holtinu svona nálægt sjó er býsna óvenjuleg og þekki ég satt best að segja ekki sambærilega staðsetningu. Yfirleitt fara kolagrafir margar saman eins og í Fljótum, en á Hvaleyrarholti fundum við aðeins eina gröf. Annaðhvort þýðir þetta að kolagröfin sé í jaðri kolagrafasvæðis og aðrar grafir því skammt undan, eða að hér sé um staka kolagröf að ræða. Slíkt gæti hafa tíðkast í upphafi byggðar þó það hafi ekki verið venjan síðarmeir.

Kolagröf

Kolagröf.

Kolagröfin er sönnun þess að á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði hafa menn verið að störfum í kringum 900. Þar hafa þeir hugasanlega gert til kola í þeim tilgangi að vinna við járnsmíðar sínar heima við bæ. Ekki þykir mér líklegt að kolagröfin tengist járngerð vegna þess að á svæðinu er trúlega hvergi að finna mýri með mýrarrauða. Þá vaknar sú spurning hve langt fóru menn til kolagerðar sem þessarar? Hve langt frá kolagröfinni á Hvaleyrarholti er bærinn sem járnsmíðarnar fóru fram? Það kæmi mér ekki á óvart að það sé skemmra en margan grunar! Fyrst kemur upp í hugann gamla bæjarstæði Hvaleyrar skammt suður af gröfinni. Þar ná heimildir aftur til ársins 1300.
Munnmæli ná hins vegar aftur á landnámsöld. Sagt er í Hauksbók Landnámu að Hrafna – Flóki hafi komið á svæðið og fundið þar rekinn hval og nefnt staðinn Hvaleyri.

Kolagröf

Kolagröf.

Svo háttar til að Hvaleyrartjörn og Óseyrartjörn (Herjólfshöfn) eru af náttúrunnar hendi afbragðs skipalægi. Þar mátti draga upp skip án þess að að þeim stafaði hætta af brimi og stórsjó. Svipaðar aðstæður voru í Víkinni (Reykjavík) forðum þar sem sagt er að fyrsti landnámsmaður Íslands hafi sest að. Þá var fremur mjótt rif á milli hafsins og Tjarnarinnar (u.þ.b. þar sem Austurstrætið/Hafnarstræti liggur í dag) og draga mátti upp skip upp í Tjörnina þegar svo bar undir. Í Selvogi er einnig svipað uppi á teningnum. Þar var hægt að draga upp skip í Hlíðarvatn. Munnmæli herma að þar hafi verið landnámsbýli.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Allir þessir staðir eru á Reykjanesinu. Við upptalninguna mætti bæta Hólmastað eða eins og sumir vilja kalla Gömlu Krýsuvík eða Krýsuvík hina fornu í Húshólma í Ögmundarhrauni. Þar hefur því verið haldið fram að vík góð hafi forðum verið á þessum slóðum, en Ögmundarhraun fyllt hana árið 1151. Greining á gjóskulögum leiddi í ljós að túngarður einn í Húshólmanum mun vera eldri en landnámslagið svokallaða sem féll 871±2 e. Kr. Sé þessar vangaveltur vitrænar þá segja þær okkur að landnámsbýlis gæti verið að vænta á Hvaleyrinni eða Hvaleyrarholtinu. Þetta væri heppilegt að hafa í huga vegna framtíða framkvæmda og jarðrasks á Hvaleyrarholti og næsta nágrennis í framtíðinni.
Með þetta í huga ættu allar framkvæmdir á Hvaleyri að vera undir eftirliti fornleifafræðinga.

Kolhólasel

Kolhólasel í Vatnsleysuheiði.

Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni (angi af eldra Afstapahrauni). Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni Gvendarbrunnshæðarskjóli) suður yfir hraunið og þaðan upp í Mjósundavörðu.
Í örnefnalýsingu segir: „Töluvert norðvestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. “
Brennusel er greinilegt kolasel. Selstöður fyrrum voru til ýmissa nota, s.s. til fjár- og kúahalds, kolagerðar, fugla- og eggjatekju o.fl. Í dag eru slíkar selstöður nefndar „útstöðvar“ á fínu fjölmiðlafornleifamáli.
Framan við miklar hleðslur í jarðfalli eru leifar kolagrafar og skammt austar er hlaðið skjól. Áberandi varða er ofan við aðstöðuna.
Skammt norðar eru ennfremur leifar kolagerðar, m.a. grónar hleðslur og -grafir.”

Heimildir:
-https://origin-production.wikiwand.com/is/Vi%C3%B0arkol
-Skúli Sæland – Komalgerð; https://menningarmidlun.wordpress.com/tag/kolagerd/
-Nýjar kvöldvökur, 8. árg. 01.03.1914, Menningarþættir – Kolagerð, bls. 70.
-Árbók Hins íslanska fornleifafélags, 65. árg. 01.01.1968, Að gjöra til kola – Sr. Einar Friðgeirsson, bls. 108-110.
-Hvaleyri, fornleifar á Hvaleyri í Hafnarfirði, 2005, bls. 11-19; http://hdl.handle.net/10802/14039

Kolagerð

Kolagröf á Hvaleyri.

Brennisel

Kolagrafir hafa verið til allt frá því er landið byggðist. Kolin voru nauðsynleg til upphitunar og járngerðar, en auk þeirra var ýmsu öðru til tjaldað er verma þurfti híbýli og óna.
SkiltiSkilgreiningin á kolum er þessi: “Fast eldsneyti úr ummynduðum plöntuleifum. Í náttúrunni verða kol til úr jurtaleifum sem setjast til í mýrum og fenjum og ná ekki að rotna nema að takmörkuðu leyti sökum úrefnisfirrðar. Jurtaleifarnar lenda smám saman undir fargi jarðlaga og umbreytast á löngum tíma í kol. Kol innihalda mikið af kolefni og eru fyrirtaks eldsneyti.
“Kol finnast ekki í jörðu á Íslandi. Mór er í raun fyrsta stig kolamyndunar með um 60% kolefnisinnihald og surtarbrandur kemst enn nær því að vera kol með um 70% kolefni. Á Íslandi var stunduð kolagerð, sumstaðar allt fram til upphafs 20. aldar. Kolin voru gerð úr kurluðu birki eða rekavið og nefndust viðarkol.”
KolagröfKolagerð er skilgreind svona: “Sú athöfn að búa til viðarkol. Venjulega var talað um að gera til kola. Viður, oftast birki en stundum fjalldrapi eða rekaviður, var höggvinn og kurlaður, síðan settur í þar til gerða kolagröf. Þá var eldur borinn að en gröfin síðan byrgð með torfi. Þannig hélst glóð í kurlinu og var látin krauma í þrjá til fjóra daga. Afurðin var viðarkol.”
Kolagröf er/var “gryfja sem gert er til kola í. Kolagrafir finnast gjarnan nokkrar saman, oft upp af rekafjörum, á skógi vöxnum svæðum eða þar sem skógur hefur verið. Oft eru það sporöskjulaga eða hringlaga dældir með grónum krögum úr torfi í kring.
Viðarkol eru kol unnin úr viði þannig að viður, oftast birki eða rekaviður en stundum fjalldrapi, er settur í kolagröf, kveikt í og byrgð með torfi þannig að loft komst ekki að. Þetta var látið krauma í þrjá til fjóra daga. Viðarkolin voru nauðsynlegt Kolhólleldsneyti í smiðjum og til rauðablásturs.”
Í Heiðmörkinni er spjald við eina gönguleiðina. Á því stendur: “Víða í Heiðmörk má finna kolagrafir sem sýna að á svæðinu hefur verið mikill skógur. Um miðja sextándu öld voru jarðirnar Elliðavatn, Hólmur og Vatnsendi í konungseign og ábúendir greiddu hluta leigugjaldsins í viðarkolum, samtals 36 tunnur á ári. Til svo mikillar kolagerðar hefur þurft mikinn við og að auki nýttu ábúendur skóginn til eigin þarfa.” Hvergi eru nefndar kolagrafir staðsettar.
Það er ekki á hverjum degi sem gert er til kola á Íslandi lengur. Samt eru ekki nema tæp 200 ár síðan þetta var árlegur viðburður og hver bær þurfti sín kol. Á Miðaldadögum sem haldnir verða á Gásum í Eyjafirði var gert til kola í sveitinni í fyrsta skipti í 200 ár.

Kolagrof-1

Við kolagerðina var stuðst við heimildarmynd Ósvaldar Knútsen um kolagerð í Skaftafelli frá miðri síðustu öld. Einnig voru notuð ný fornverkfæri sem kallast páll, reka og sniðill. Á laugardeginum var tekin gröf og kurlað og kveikt í. Hún var svo hulin í sólarhring. Seinnipart á sunnudag var svo gröfin verða opnuð og kolin hirt.
Kolagerð var bönnuð með lögum árið 1755 því að sú skógareyðing sem henni fylgdi fór fyrir brjóstið á þáverandi kóngi. Skógar í Skagafirði og Eyjafirði voru illa farnir eftir þessa iðju eftir því sem heimildir eru til um. Fyrstu friðunarlög til verndunar skóga hér á landi voru því sett 10. maí 1755 og að tilskipan danska konungsins.
Í skýrslu Umhverfisráðuneytisins, Vernd og endurheimt íslenskra birkiskóga, frá 2007 segir m.a.: “
Lýsingar frá 18. öld benda til þess að skógar hafi einkum verið nýttir til kolagerðar og hrísrif til eldiviðar auk þess sem búpeningi var beitt á skóga að vetrarlagi. Viðarkol voru sérstaklega mikilvæg til að smíða og dengja ljái en án þeirra varð ekki heyjað, búpeningur svalt og síðan fólkið. 

Kolanef-2

Árið 1755 var gefin út tilskipun um að skógarleifar skyldu verndaðar en ekki verður séð að hún hafi dugað enda var þjóðin háð nýtingu skóganna.”
Kolagrafir má sjá víða á Reykjanesskaganum, s.s. í Almenningi og í Strandarheiði. Á fyrrnefnda staðnum má finna leifar “Brennisels” sem og nálægra mannvirkja er benda til kolagerðar. A.m.k. tíu kolagrafir eru augljósar þar í nágrenninu. Á síðarnefnda staðnum má finna örnefni, s.s. Kolhól. Þar eru og minjar er benda til aðstöðu til kolagerðar fyrrum. Auk þess má sjá minjar slíkrar vinnslu í Kolgrafarholti nokkru neðar í heiðinni.
Eitt örnefni enn, hugsanlega tengt kolagerð, er þekkt á svæðinu; Kolanef. Í örnefnalýsingu fyrir Urriðakot segir Svanur Pálsson m.a. um Kolanef og nágrenni: “Suðaustur af einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns. Austur og suðaustur af beitarhúsrústunum er hraunið tiltölulega slétt og lægra en umhverfið og nefnist Flatahraun. 

Kolanef-1

Flatahraun nær norður á móts við Kolanef í Vífilsstaðahlíð. Í Flatahrauni hefur verið gróðursett töluvert [af] furu og greni. Í norðaustur frá rústum beitarhússins í norðausturbrún hraunsins gegnt Kolanefi í Vífilsstaðahlíð við Kolanefsflöt, sjá örnefnaskrá Vífilsstaða, er lítill hellir, sem nefnist Sauðahellir. Veit op hans að hlíðinni, og eru hlaðnir kampar báðum megin við innganginn. Við hann var sauðum frá Urriðakoti gefið á gadd (á jörðina) allt frá því, að heimildarmaður man fyrst eftir sér til 1933. Heyið var borið heiman frá Urriðakoti í poka á bakinu.”

 Í örnefnalýsingu SP fyrir Vílfilsstaði segir m.a.: “Ef 

Kolanef-3

Heiðmerkurvegurinn er farinn suðaustur með Vífilsstaðahlíð, er rúmlega einum kílómetra suðaustan Maríuhella komið að smábungu á hlíðinni, sem kallast Kolanef. Í því er nú bæði sitkagreni- og stafafuruskógur. Vestan við Kolanef er lítil flöt, nú mjög eydd, sem kallaðist Kolanefsflöt.”
Gísli Sigurðsson segir í sinni örnefnalýsingu um Vífilsstaði af Kolanefi: “síðan inn eftir lægð milli Vífilsstaðahlíðar og hraunsins. Er þá komið að hrygg sem liggur upp hlíðina er nefnist Kolanef og niður undan því er Kolanefsflöt. Hér fyrir innan er mikill slakki í hlíðinni, nefnist Ljóskollulág.”
Nefndur Sauðhellir gæti auðveldlega hafa verið afdrep fyrir kolagerðafólk við Kolanefsflöt neðan Kolanefns. Við hellinn má a.m.k. sjá móta fyrir kolagröfum.

Heimildir m.a.:
www.instarch.is/instarch/ordasafn/k/
www.wikipedia.org/wiki/Viðarkol
-http://www.pressan.is/ferdapressan/Lesa_ferdapressan/kolagerd-a-gasum–midaldahatid-i-eyjafirdi-naestu-helgi-
-Lovsamling for Island III, nr. 559, bls. 219.
-http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Birkiskogar.pdf
-Svanur Pálsson – örnefnalýsing fyrir Urriðakot.
-Svanur Pálsson – örnefnalýsing fyrir Vífilsstaði.
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Vífilsstaði.

Skógur