Tag Archive for: Kolbeinshæðaskjól

Vorréttin

Gengið var með manni, fæddum í Straumi fyrir um 70 árum, eftir Gerðisstíg frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel. Norðan Rauðamelsins, undir Rauðamelsklettum, eru Neðri-Hellar, fjárhellar frá Gerði.

Vorrétt

Vorréttin.

Ofar með kapelluhraunskantinum er Rauðamelsréttin, eða Vorréttin, fallega hlaðin. Enn ofar við hraunkantinn eru Efri-Hellar, fjárhellar frá Þorbjarnastöðum. Hægt er að ganga á milli þessara staða eftir gömlum stíg, en Gerðisstígurinn liggur vestar og ofar í grónu hrauninu, á milli Kapelluhrauns og Selhrauns. Stígurinn er nokkuð vel varðaður og tiltölulega auðvelt að fylgja honum. Þegar komið er skammt upp fyrir Efri-hella er há varða á vinstri hönd, svolítið frá stígnum. Hún stendur ofan við Kolbeinshæðahelli, en hellirinn er nokkurn veginn þar sem Kolbeinshæðir byrja að norðanverðu. Þetta er rúmgóður fjárhellir.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Frá honum er stutt eftir á stígnum að Kolbeinshæðaskjóli. Skjólið sést vel á grasi grónu svæði fyrir framan það og í næsta nágrenni. Það er í skúta í vestanverðum hæðunum og er hlaðið fyrir. Áður var reft yfir og má enn sjá leifar timburverksins. Fjárskjól þetta var notað frá Þorbjarnastöðum. Sunnan við skjólið er sléttur hraundalur áður en komið er upp á hæðirnar þar fyrir ofan. Suðvestan er Straumsselshöfði, en í skammt suðri má sjá háa vörðu á hól. Hún stendur skammt norðvestan við Gjásel. Frá því er stutt í Straumssel í vestri.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Gengið var áfram upp með hraunkantinum og beygt með honum til vesturs og síðan til norðvesturs með kanti Selhrauns og yfir á Straumsselsstíg. Allt þetta svæði er nokkuð gróið, en mun auðveldara yfirferðar en selhraunið sjálft, sem er nokkuð úfið.
Gengið var til norðvesturs vestan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel og að hlaðinni rétt undir hraunhól sunnan við Þorbjarnastaði. Svæðið við réttina er nokkuð gróið og nefnist það Stekkjatún. Í vestur frá því er há varða upp á hól. Hún heitir Miðmundarvarða og er eyktarmark frá Þorbjarnastöðum (kl. 15:00 í sólarstað).
Gangan tók um klukkustund í björtu og góðu veðri.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðaskjól.

Hrauntungustígur

Gengið var eftir Hrauntungustíg frá Krýsuvíkurvegi að malargryfjunum, sem eru á sunnan vegarins, á milli hans og Hrauntungu. Eini sýnilegi hluti stígsins, sem ekki hefur enn verið eyðilagður, er um 300 metra langur. Hann sést greinilega í tiltölulega sléttu hrauninu og síðan upp hraunbakka við gryfjurnar.

Hrautungustígur

Hrauntungustígur.

Efst á bakkanum er varða, en við hana hefur stígurinn verið tekinn í sundur. Hann sést síðan handan við gryfjurnar þar sem hann kemur inn í Hrauntunguna. Tungan er stór gróin tóa inni í nýrra mosahrauni. Þegar stígnum er fylgt inn í gegnum tunguna má sjá vörðu upp á hraunhól á vinstri hönd. Handan við hólinn er jarðfall. Í jarðfallinu er stór birkihrísla. Við norðurjaðar þess er stór fyrirhleðsla með opi á. Innan við opið er smalaskjól (Hrauntunguskjól). Þegar komið er út úr Hrauntungunni að vestanverðu er stutt upp í Kolbeinshæðaskjólin og þaðan upp í Straumssel.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur austan Hrútfells.

Þá var Stórhöfðastíg fylgt í gegnum Dyngnahraun við Stórhöfðahraun. Eins og við Hrauntungustíginn hefur Stórhöfðastígurinn af skammsýni verið hreinsaður upp að hluta þar sem eru stórar malargryfjur. Ef gryfjurnar hefðu verið örlítið norðar hefði stígurinn sloppið. Við norðausturjaðar þeirra er stór hraunklettur. Stígurinn liggur niður með klettinum og liðast síðan um hraunið í átt að suðurhorni Stórhöfða. Stígurinn hefur einhvern tímann verið ruddur hluta leiðarinnar og þannig gerður akfær inn í hraunið. Ruðningurinn endar við háan flatan hraunstand. Frá honum til norðurs sést gamli Stórhöfðastígurinn vel þar sem liggur að línuvegi, sem liggur þvert á hann. Þegar komið er yfir línuveginn liggur stígurinn um nokkuð slétt helluhraun alveg að höfðanum. Á leiðinni eru nokkur lítil jarðföll og stór hraunskúti, en engir hellar. Stórhöfðastígurinn á þessum kafla er nú einungis heill á u.þ.b. 500 metra kafla. Sunnan við Krýsuvíkurveginn liggur hann upp og suður í hraunið með stefnu í vörðu á hraunhól. Stígurinn er óljós á nokkrum kafla í grónu hrauninu, en þegar komið er ofar í það verður hann aftur greinilegur. Hann er varðaður á hluta leiðarinnar, en þar sem hann liggur í áttina og ofan við Fjallið eina er stígurinn vel greinilegur. Hann liggur síðan upp með Húshelli, framhjá Hellinum eina (Steinbogahelli) og áfram suður með vestanverðri Hrútargjárdyngju og upp á Ketilsstíg.
Frábært veður.

Kolbeinshæðaskjól

Kolbeinsstaðaskjól.