Færslur

Kolhólasel

Ákveðið var að reyna að rekja stíg, sem fannst nýlega þegar farið var í Kolhólassel undir Kolhólum.

Kolhólastígur

Kolhólastígur.

Stígur lá til norðurs úr selinu og niður Efri-Heiði í Vatnsleysuheiði. Nú átti að kanna hversu langt upp fyrir selið hægt væri að rekja stíginn og einnig hversu nálægt Vatnsleysu hann lægi. Heyrst hafði af svonefnum Höskuldarvallastíg er liggja átti upp heiðina og upp á Höskuldarvelli. Þegar Þórður Jónason, bóndi á Stóru-Vatnsleysu, hugðist leggja veg upp á Höskuldarvelli hafði hann augastað á hinni gömlu leið, um Efri-Heiði ofan Grindavíkurgjár og áfram yfir Kolhólagjár. Hann ákvað hins vegar (1953-’54) að leggja veginn um Afstapahraun frá Kúagerði. Hann hóf ræktun á Höskuldarvöllum með stórt kúabú í huga, en entist ekki aldur til þess að ljúka þeim áformum.
Reynt var að finna norðurenda stígsins norðan Reykjanesbrautar. Byrjað var að því að skoða tvær heillegar vörður og hálfri betur, en sennilega eru það markavörður við Flekkuvíkurland. Skammt austar er gróinn hóll. Á honum er fallin varða, sennilega sundvarða. Hana ber í aðra, stóra, á hól sunnan við Reykjanesbraut. Skammt austan við hana er lítil varða á hól, vestan hóls með hlöðnu byrgi refaskyttu.
Ákveðið var að byrja við uppþornuð vatnsstæði ofan við Brennhóla. Syðst í þeim eru Djúpidalur, áberandi gróin skeifulaga hvylft. Þar ofar eru vatnsstæðin. Ofan við þau er stígurinn áberandi í móanum. Honum var fylgt áleiðis upp í Kolhólaselið. Litlar vörður eru við stíginn, sumar fallnar. Vörðurnar, mannanna verk, benda til þess að stígurinn hafi haft ákveðinn tilgang.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Stígurinn lá um brú á Kolhólagjám og upp í selið. Þar hélt hann spölkorn áfram vestan við það, beygði til vesturs og sameinaðist öðrum stíg þar skammt ofan við gjárnar. Líklega liggur hann áfram til vesturs og sameinast Þórustaðastíg, sem liggur þarna skammt vestar, áleiðis upp að Kolhól. Á honum er varða. Í honum miðjum er djúp skál. Talið er að í henni hafi verið unnin kol fyrrum.
Gengið var til norðurs frá Kolhólagjám og niður að Grindavíkurgjá. Við austurenda hennar er varða. Haldið var inn á selsstí
ginn og honum fylgt niður að fyrrnefndum vatnsstæðum ofan við Djúpadal. Þar fannst stígurinn á ný þar sem hann liggur austan við vatnsstæðin og liðast niður með austanverðum Brennhólum. Tvær litlar vörður er á hólunum, líkt og annars staðar við stíginn. Þær eru allar austan við hann.

Norðan við Brennhóla hverfur stígurinn, nema á u.þ.b. 20 m kafla vestan þeirra. Hann kemur síðan aftur í ljós við

Kolhólasel

Kolhólasel – stekkur.

vörðu á hól skammt norðar. Þar er hann áberandi niður móann. Vörðubrot er við hann á lágum klapparhól. Stígurinn endar loks skammt ofan við hin nýju undirgöng á Reykjanesbraut vestan Kúagerðis. Þar var rekinn niður tréhæll – stígnum til staðfestingar. Eflaust hefur ekki einn einasti, er skráði fornleifar við hina nýju Reykjanesbraut, látið sér detta í huga að þarna kynni að vera forn selstígur áður en vegurinn var lagður. Hins vegar gæti sá, sem er sæmilega vel að sér í umhverfi og sögu Reykjanesskagans, vitað að stígar hljóta að hafa legið að þeim u.þ.b. 250 selstöðum, sem enn má sjá leifar af á skaganum.
Nefndur selsstígur liggur vel við landinu. Þótt eftir sé að rekja hann að Vatnsleysu norðan Reykjanesbrautar er ljóst að hann hefur legið eðlilegustu leið með grónum hraunkantinum frá heimabæjunum og síðan tekið hentuga stefnu upp heiðina. Líklegt má telja að þar nyrst við hraunkantinn, skammt vestan Kúagerðis, séu gatnamót Kolhólastígs og Rauðhólastígs, en Rauðhólasel var einnig frá Vatnsleysu, ofar og austar en Kolhólasel. Líklegt má telja að hið síðarnefnda sé mun eldra og að bæði tilvist þess sem og stígurinn hafi fyrir löngu tapast úr munnmælum.

Kolhólasel

Í Kolhólaseli.

Fróðlegt væri að gefa sér tíma og skoða hinar fornu leiðir í heiðinni, bæði austan og vestan Þórustaðastígs. Norðvestan við Keili mótar t.d. vel fyrir mikið farinni götu, sennilega svonefndri leið um Brúnir. Norðaustan við stíginn mótar og fyrir götum, sem fróðlegt væri að reyna að skilgreina. Sennilega verður þó seint hægt að fá fram nöfn þeirra með óyggandi hætti.

Til fróðleiks væri gaman að velta fyrir sér hversu selstígurinn hafi verið langur á Reykjanesskaganum hér áður fyrr, líkt og vangaveltur fornleifafræðinga um lengd stekksstígsins (stekksgötunnar) almennt hefur verið hér á landi. Í stuttu máli er niðurstaðan þessi: Á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs) eru þekktar 252 selstöður. Selsstígar þeirra eru mislangir. Meðaltal selstígsins hefur þó að jafnaði verið um 6 km langur.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur.

Yfirleitt voru u.þ.b. 1-2 klst gangur frá bæ að seli á Reykjanesskaganum. Það eru 4-8 km. Lengra var frá bæjum í Grindavík eftir að selsstaðan færðist frá Baðsvöllum inn á Selsvelli. Hraunsselið, sem síðast lagðist af á landssvæðinu (1914), er í rauninni dæmigert fyrir fyrrnefnan selsstíg. Syttra var þó í sum önnur sel, t.d. í Stakkavíkursel og Hlíðarsel. Krýsuvíkurbæirnir áttu mislangt í sel, allt frá Selöldu í suðri til Sogasels í norðri. Síðastnefnda selstaðan féll síðar til Kálfatjarnar í skiptum fyrir hlunnindi.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Sel og selstöður hafa verið vanmetin í sögu Reykjanesskagans. Ástæðan er fyrst og fremst sú að lítið sem ekkert hefur verið skrifað um þann þátt búskaparsögunnar. Skýringin á því er að ekki var talin ástæða til að skrifa um það sem sjálfsagt þótti. Seljabúskapurinn var stundaður hér á landi fram undir aldamótin 1900. Prestar, annálahöfundar eða ferðamenn töldu ekki ástæðu til að minnast á hvað fólk borðaði, hverju það klæddist eða hvert lífsviðurværi þess væri. Þess vegna er lítið sem ekkert til um fyrrnefnt sem og það sem skiptir afkomendurnar hvað mestu máli – hið daglega líf og sjálfsagða strit forfeðranna.
Þegar selstígarnir af Ströndinni og frá Grindavík eru skoðaðir er ljóst að lengri leiðirnar tóku gjarnan mið af áberandi kennileitum, s.s. hæðum og fjöllum. Þannig er t.d. Keilir augljóst göngumið, líkt og Trölladyngja og Selsvallafjall ofan við Sogin.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Kolhólaselsstígur

Kolhólastígur.