Færslur

Kollafjarðarrétt

Kollafjarðarrétt er hlaðin fjárrétt ofan Kollafjarðar á Kjalarnesi. Auk gerðis eru þar 15 dilkar. Þegar FERLIR heimsótti réttina [2007] var ekki að sjá að hún hafi verið notuð um skeið. Veggir eru hlaðnir úr mógrjóti af vettvangnum, vel þykkir og standa enn vel.

Kollafjarðarrétt

Kollafjarðarrétt – loftmynd.

Ekki er kunnugt um aldur réttarinnar,  Steinunn Guðmundsdóttir, húsfreyja á Heiðarbæ í Þingvallasveit, fæddist í Kollafirði, en flutti þaðan árið 1961. Hún kvaðst muna eftir réttinni, en líklega væri Magnús í Stardal fróðari um hana.  Aðspurður kvaðst Magnús Jónasson muna eftir því að réttin lagðist af um það  leiti sem Kjalarnes sameinaðist Reykjavík [1998]. Faðir hans, Jónas Magnússon, hefði verið þar réttarstjóri og auk þess Oddur gamli í Þverákoti (kom þangað 1916- eða ’17). Kjalarnesrétt hefði legið mjög vel við Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjós, auk þess sem bændum úr Þingvallasveit hafi verið skipað til réttar þar. Magnús kvaðst ekki vita hversu gömul réttin væri, en hún væri a.m.k. frá 19. öld. Eftir að hætt var að rétta þar hefðu hestamenn notað réttina og hefðu þá hleðsluveggirnir skemmst talsvert vegna ágangs hrossanna. Vonaðist hann til að réttin yrði einhvern tímann hlaðin upp að nýju.
Úr KollafjarðarréttUndir réttarveggnum voru rifjuð upp skáldsöguleg tengsl hennar við frumburð skáldsögunnar hér á landi. Rétt þessi þykir nefnilega ekki síst merkileg fyrir það að hún kemur fyrir í skáldsögunni Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen (1818-1868) frá árinu 1850, sbr. meðfylgjandi: “
Það var einn dag um þetta leyti og skömmu eftir að Ormur var suður kominn, að veður var fagurt, en vegir þurrir, og var réttað upp í Kollafjarðarrétt, og reið margt fólk úr Víkinni sér til skemmtunar upp í réttirnar, bæði konur og flestar gervistúlkur bæjarins, svo og margir karlmenn, sem við voru látnir. Gjörðist þá mikill skortur reiðskjóta í bænum, og urðu margir að setjast aftur, sem höfðu ætlað að fara. Kaupmaður Á. og kona hans fóru. Guðrún hafði einhvers staðar getað aflað sér hests, en Sigríði vantaði reiðskjóta, og leit út fyrir, að hún yrði heima að sitja, en þó langaði hana til að fara, því hún hafði aldrei komið þar upp eftir. Möller átti hest gráan, það var gæðingur, norðlenskur að kyni, af Bleikáluætt úr Skagafirði, er þá var mest orðlögð um landið. Hesturinn var stríðalinn á hverjum vetri, en lítið riðið á sumrin, því sjaldan kom nokkur annar maður honum á bak en eigandi, og ekki hlýddi nokkrum að biðja um hann til láns, hvað sem við lá. Líður nú fram að hádegi, og ríða allir á stað, sem hesta höfðu fengið, en ekki hafði Sigríður enn getað útvegað sér neinn reiðskjóta, en Guðrún beið hennar þó, ef verða mætti, að eitthvað réttist úr fyrir henni.

Kollafjarðarrétt

Í Kollafjarðarrétt.

Nú er hvergi fyrir sér að leita, Sigríður mín! Ég býst við, að þú verðir að sitja kyrr, nema þú viljir biðja hann kaupmann Möller um hann Grána hans; ég held það sé eini hesturinn, sem til er hérna eftir í Víkinni, sagði Guðrún.
Það gjöri ég ekki, og ég get ekki ætlast til þess, að hann ljái mér hann, þar sem hann vill ekki ljá nokkrum öðrum hann.
Veit ég það, að hann hefur afsagt þeim þremur eða fjórum hérna í morgun um hann, en hvar kemur það þá fram, sem hann segir um þig, ef hann gjörir sér ekki mannamun? Og farðu, Sveinki litli, og skilaðu við hann kaupmann Möller, að hún Sigríður, sem er hjá honum kaupmanni Á., biðji hann að ljá sér hann Grána sinn upp að réttunum í dag.

Sveinn litli fór og kom aftur að lítilli stundu liðinni og teymdi þá Grána og sagði, að kaupmaður hefði beðið sig að skila, að hann hefði ekki vitað, að hún ætlaði að fara, ella mundi hann hafa boðið henni hann að fyrra bragði.
KollafjarðarréttSér þú nú, góða mín, sagði Guðrún, hvernig Möller er, þar sem hann tekur því, enda vissi ég það, hvernig fara mundi, ef hann fengi boð frá þér, en ekki hefði hann gjört það fyrir aðrar hérna í Víkinni; því það er eins og ég segi þér, þó þú trúir því ekki.
Ekki trúi ég því nú heldur fyrir að tarna, sagði Sigríður, en nú er þá best að ríða á stað, fyrst reiðhesturinn er fenginn.
Síðan ríða þær stöllur, og með því hestarnir voru góðir, náðu þær flokknum, sem á undan var riðinn, skammt fyrir innan Hellisárnar; og brá þá mörgum í brún, er þeir sáu Sigríði koma þeysandi á Grána Möllers og varð mönnum harla fjölrætt um það, hverju það sætti, að Sigríður hefði orðið fyrir þeirri mildi að fá hann. Um daginn skemmtu menn sér við réttirnar, en sneru heim um kvöldið, og var þá komið fram á nótt, er menn komu aftur til Reykjavíkur.”
Svo mörg voru þau orð, en myndirnar segja kannski svolítið meira um það sem allflestir eru ómeðvitaðir um í “örskotsfjarlægð” frá fjölmennstu byggðasvæði landsins.

Heimild m.a.:
-Piltur og stúlka – skáldsaga – Jón Thoroddsen.

Kollafjarðarrétt

Kollafjarðarrétt – uppdráttur ÓSÁ.