Færslur

Bollar

Selvogsgatan var gengin frá Bláfjallavegi áleiðis að Grindarskörðum við Kristjánsdali.

Ekkitilvatn

Ekkitilvatn.

Gamla þjóðleiðin var fetuð upp skörðin, upp á brún og síðan haldið áfram til vesturs ofan hennar. Komið var inn í tiltölulega sléttan dal, opinn til suðurs. Haldið var upp úr honum að norðanverðu. Þegar komið var upp yfir brúnina að austanverðu blasti við fallegt lítið ónafngreint vatn. Á vatninu var gullkista.
Sú saga fylgdi kistunni að hún sæist á vatninu einungis einn dag á ári. Reyndar væri vatnið ekki til, stundum nefnt Ekkitilvatn, en hér verður það nefnt Gullkistuvatn.

Ekkitilvatn

Við Ekkitilvatn.

Sagan segir að í fyrndinni hafi bóndi nokkur, vel efnum búinn, staðið í búferlaflutningum að vetrarlagi. Á leiðinni suður með sjóð sinn hafi hann villst af leið í ófærð, orðið hræddur og ákveðið að sökkva kistlinum, sem sjóðinn geymdi, í vatnið í von um að enginn myndi verða hans var. Auðnaðist honum að komast til byggða myndi hann koma aftur síðar og sækja sjóðinn. Það gekk eftir, en er hann ætlaði að leita vatnsins nokkrum dögum síðar, fann hann það hvergi. Kom hann þá þeirri sögu á framfæri að ef einhver kæmi að vatni á þessum slóðum skyldi hinn sá sami varast að snerta það því vatnið væri eitrað.

Kóngsfell

Kóngsfell.

Nú voru góð ráð dýr. Þarna var gullkista úti á vatninu, en ekki mátti snerta vatnið. Á bakkanum lágu nokkrir bandspottar. Einhverjum datt í hug að binda þá saman í einn langan, ganga síðan með annan endann yfir á öndverðan bakka og reyna að slæða kistuna þannig yfir vatnið. Það gekk eftir. Þegar kistan var opnuð leyndist í henni bréf frá bóndanum forna, en hins vegar engin veraldleg verðmæti. Kistunni ásamt bréfinu góða var því komið fyrir aftur á sama stað á vatninu. Þess skal getið að er FERLIR kom þarna að nokkrum dögum seinna var ekkert vatn þar að sjá.

 

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli (Konungsfelli).

Gengið var niður af hlíðunum að sunnanverðu og strikið síðan tekið að Kóngsfelli, landamerkjum Gullbringu- og Árnessýslu. Sumir segja þau reyndar vera í Stóra-Kóngsfellið við Drottningu í Bláfjöllum og enn aðrir í Litla-Kóngsfell undir Stórkonugjá, sem er suðaustan við fyrstnefnda Kóngsfellið. Kóngsfellið er fallegur eldgígur, klofinn og auðveldur gegnumgöngu. Í miðju hans er laut, gott skjól fyrir öllum áttum. Segir sagan að nafngiftin sé komin til vegna þess að þarna hafi fjárkóngarnir hist í upphafi leita, ráðið ráðum sínum og skipt liði.
Þá var gengið til vesturs sunnan við Stórabolla og Miðbolla að Kerlingarskarði, niður það með stuttu stoppi við Drykkjarsteininn efst í því og götunni síðan fylgt uns komið var að upphafsstað við Bláfjallaveginn.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Bollar

Bollar.

Stóribolli

Gengið var upp með vestanverðu Stóra-Kóngsfelli austan við hraungíginn Eyra. Stefnt var að því að komast í Litla-Kóngsfell, en í því vestanverðu er Dauðsmannsskúti þar sem maður varð úti.

Eyra

Eyra.

Haldið var á bratt hraunflæmið þar sem það kemur í breiðum fossi fram af hlíðinni norðvestan við fellið. Nokkur myndarleg op eru í hlíðinni og líklegt er að þar kunni að leynast nokkrar hraunrásir, sem vert er að skoða við tækifæri.
Framundan var fallegur eldgígur, sem stundum hefur verið nefndur Kóngsfell, en er í rauninni hinn myndarlegasti þrátt fyrir ruglinginn. Nafnið er sennilega tilkomið vegna þess að gígurinn hefur nokkurn veginn sömu lögun og hinir tveir kóngsfellsgígarnir á svæðinu. Gamburmosinn er þykkur á kafla og rjúpan virtist kunna vel við sig á “teppinu”.
Haldið var áfram suður með vestanverðum Strompum. Ekki var kíkt í hellana að þessu sinni, heldur gengið hiklaust áfram upp með gígaröðinni og suður fyrir hana. Þar mátti sjá u.þ.b. fimm metra rifu í sléttu helluhrauni. Undir var greinileg rás, en ekki var hugað frekar að henni að þessu sinni, enda lljóslaust. Þoka lagðist að á báðar hendur, en ratljóst var til suðurs.

Bláfjöll

Gengið um Bláfjallasvæðið.

Stefnan var tekin á sérkennilega nafnlausa gígaröð í nálægt hálftíma gang frá syðsta hluta Strompanna. Yfir slétt helluhraun var að fara. Gígaröð þessi liggur frá SV til NA eins og venjulega gildir um slíkar raðir. Hún er innan við kílómeters löng. Hún gæti verið hluti af lengri sprungurein lengra til norðurs. Fremur lítið hraun hefur runnið frá gosinu, aðallega til vesturs. Um er að ræða apalhraunsafsprengi inni í miðju helluhrauninu allt um kring. Hraunæðar voru víðar, en allar stuttar og þröngar. Norðan við gígaröðinni lá greinileg gömul gata áleiðis inn á heiðina há. Varða var þar skammt austar.
Frá gígaröðinni var að sjá að nálægt tuttugu mínútna gangur væri yfir að Litla-Kóngsfelli, þ.e. fjörutíu mínútur fram og til baka. Ákveðið var því að geyma heimsóknina í Dauðsmannskúta til betri tíma. Þá verður farið um Kerlingarskarð og áleiðis niður Selvogsgötu. Um 1 og 1/2 klst gang er að ræða þá leiðina.

Stóra-Kóngsfell

Stóra-Kóngsfell og nágrenni.

Þegar staðið var á gígaröðinni rofaði til. Ágætt útsýni var yfir að Miðbolla og Þríhnúkagígunum. Dökk þokuslæðan lá hins vegar yfir austrinu. Þá heyrðist sérkennilegt hljóð í þögninni er nálgaðist óðfluga. Skyndilega flugu fjölmargar gæsir í oddaflugi út úr þokunni til vesturs. Fögur sjón og einstök. Farfuglarnir á heimleið.

Talsverður ruglingur hefur verið á Kóngsfellsnafninu í gegnum tíðina. Líklega er það vegna þess að Kóngsfellin eru þrjú á þessum slóðum; Kóngsfell, Stóra-Kóngsfell og Litla-Kóngsfell.

Stóra-Kóngsfell

Gígur í Stóra-Kóngsfelli.

Landamerkin hafa verið dregin um “Kóngsfell”, svonefnt “Konungsfell”, einnig nefnt “Stóri-Bolli”, og því sýna landakort hinar ýmsustu útgáfur landamerkjalínanna. Þær eru ýmist dregnar í Kóngsfell (Konungsfell/Stórabolla) ofan við Miðbolla, Stóra-Kóngsfell norðvestan Drottningar eða Litla-Kóngsfell sunnan Stórkonugjár. Kóngsfellið var nefnt svo vegna þess að á haustin söfnuðust í því fjárkóngar svæðanna, sem áttu mörk um fjallið. Þar réðu þeir ráðum sínum áður en hver hélt í sína áttina með sínum mönnum.
Haldið var til baka að Strompunum og þeir síðan þræddir til norðurs, að upphafsreit. Snjór lá í lautum svo ráðlegra var að halda sig á hraunhryggjum í göngunni. Þarna eru víða göt og hellar undir svo allur er varinn góður.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Konungsfell

Konungsfell – kort 1908.