Tag Archive for: Konungsútgerð

Staðarhverfi

Fríða Sigurðsson skrifaði grein um Afnám konungsútgerðar 12. des. 1769 í Faxa árið 1969:
„Það hefur sennilega alltaf verið róið á Íslandi, en útgerð á fiskimiðin var ekki hafin að ráði fyrr en þau þáttaskil gerðust í íslenzkri verzlunarsögu á öðrum fjórðungi 14. aldar, að sjávarafurðir urðu helzta útflutningsvara þjóðarinnar. Þá fóru allir, sem nokkuð máttu sín, að sækjast eftir jörðum við sjávarsíðuna. Sérstaklega höfðu kirkjunnar menn öll spjót úti til þess, að na í útvegsjarðir. Í hve miklum mæli þetta tókst, sést á dæmi Vatnsleysustrandar, þar sem 1551 var engin einasta hinna 18 jarða lengur bóndaeign. (Árni Óla: Strönd og Vogar). Á Reykjavíkursvæðinu var Viðeyjarklaustur allsráðandi. Þegar það var lagt niður um miðja 16. öld, átti það 116 jarðir, sem það hafði eignazt á þeim rúmlega 300 árum tilveru sinnar. En 89 af þessum 116 jörðum voru í Gullbringu- og Kjósarsýslu, það vill segja, voru útvegsjarðir. En aðallega Skálholtsstóllinn eignaðist allmargar jarðir á Suðurnesjum.
gardur-221Konungurinn átti í lok miðalda fáar fasteignir á Íslandi. En eftir siðaskiptin tók hann undir sig allar klaustraeignir á landinu auk jarða Skálholtsstóls og jarða þeirra manna, sem mest höfðu barizt móti hinum nýja sið. Er sagt, að hann hafi átt fimmtung allra jarðeigna á Íslandi. Í Útskálasókn t. d. átti hann 1703 27 af 33 jörðum. Þessum 27 jörðum fylgdu 53 hjáleigur. „Kóngurinn átti því sem heita mátti allan Garðskaga, þar sem nú er Garður og Leira, Stafnes, Sandgerði og Keflavík“ (Gunnar M. Magnúss: Undir Garðskagavita bls. 50). Í Og flotann eignaðist konungur með Alþingisdómnum frá 1544 um útræði og verzlun erlendra manna við Ísland. „Voru 45 skip erlendra gerð upptæk, flest þýzk skip… voru skipin dæmd konungseign, og með þeim hófst konungsútgerðin á Suðurnesjum.“ (Sami: bls. 123). Ábúendum allra þessara kirkna-, klausturs- og konungsjarða bar að gjalda tolla og veita þjónustu, en þó að gjöldin þættu há og hrossalán, ferjun og hýsing erfiðar skyldur, þá var þó langóvinsælast mannslán til sjóróðra. Fyrsti votturinn um þá kvöð finnst þegar í Vilkinsmáldaga frá 1397, þar sem lagt er á landseta, að fara með skip staðarins og kosta það að öllu. 100 árum seinna, 1493, skyldar Páll Jónsson biskup landseta Skálholtsstóls til að ljá stólnum hesta í skreiðarferðir í Grindavík og á Rosmhvalanes, og er sennilegt, að mannslán hafi fylgt. En það versnaði um allan helming, þegar konungur hóf útgerð, bæði af því, að hann jók útgerðina að mun, og af því, að kröfurnar til landsmanna urðu meiri og harðari.
Konungur tók t. d. við útgerð Viðeyjarklausturs á Holminn-221Vatnsleysuströnd, og við vitum, að árið 1553 gerði hann út frá Vatnsleysuströnd 1 tólfæring, 7 átta-manna-för, 2 fjögurramanna-för, 5 þriggja-manna-för og eina ferju, alls 16 skip. Áhöfn á vertíð var um 100 manns. „Leið þá eigi á löngu, áður en farið var að heimta af konungsland-setunum alls konar kvaðir og köll að útlendum sið, og gerðust einkum mikil brögð að því í Gullbringusýslu, þar sem höfuðsmennirnir og fógetarnir voru einráðir.“ (Jón Aðils: Einokunarsaga Íslands bls. 209).
„En verst urðu menn þó úti í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og þóttust konungsbændur þar um slóðir ærið hart leiknir, því jarðarbókarleigjendur (1684—1732) fjölguðu konungsbátunum úr 15 upp í 80 til 90 eða jafnvel 100 og juku svo kvaðir og mannslán, að bændur fengu ekki undir risið. Varð efnahagur manna þar um slóðir svo bágborinn við þetta, að engu tali tók, og réttu sveitirnar ekki við aftur fyrr en eftir nokkra mannsaldra.“
selatangar-881Enginn mun gera ráð fyrir því, að bændur hafi lagt sig í líma fyrir konungsútgerðina, enda kærðu kaupmennirnir á árunum 1750 til 1755 fyrir stjórninni, að þeir fengju lítinn fisk til útflutnings vegna hirðuleysis og ómennsku landsmanna. Árið 1756 skrifar Rentukammer amtmanni, að hann leggi fyrir sýslumenn, að taka árlega þingvitni í héruðum sínum um það, hvernig sjór hefði verið sóttur þar, hvort allir, sem hefðu heilsu til þess, hefðu til vers farið og hvort nokkur hefði látið sjósókn undir höfuð leggjast af öðrum ástæðum en ógæftum. Var amtmanni vald fengið til þess, „að skapa mönnum sektir“, ef þeir vanræktu sjósókn. (Konungsbréf 28. febrúar 1758). Þrátt fyrir allt var komið að því um miðja 18. öld, að konungsútgerðin var rekin með tapi.
Árið 1766 urðu konungaskipti, og hinn kornungi nýi konungur, Kristján VII., gerði á fyrstu stjórnarárum sínum margar endurbætur á ýmsum sviðum. Hann lét líka til skarar skríða á Íslandi. Hinn 12. desember 1769 var lögð niður konungsútgerð á Íslandi.“

Heimild:
-Faxi, 29. árg. 1969, 10. tbl., bls. 165-167.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Stafnes

Fríða Sigurðsson skrifaði um konungsútgerðina á Stafnesi í Faxa árið 1969:

stafnes-221

Stafnes.

„Konungsútgerðin hafði aðalbækistöð sína á Stafnesi. Þaðan var stutt á miðin. Þar var „annáluð veiðistöð“, talin bezta vetrarverstöðin á öllu landinu. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. 1742, þegar Skúli Magnússon var ráðsmaður á Hólum, komu þaðan 9 sjómenn suður á Stafnes, og enn minnir örnefnið „Norðlingabaðstofa“ á þessa menn. Það var Stafnesbóndinn, Guðni Sigurðsson, sem 1749 var settur landfógeti, fyrstur allra íslenzkra manna. Hann gegndi þessu embætti, þangað til Skúli Magnússon tók við því 1750. Þá gerðist Guðni sýslumaður, og næstu 2 árin var Stafnes sýslumannssetur, en 1752 fluttist Guðni að Kirkjuvogi.
stafnes-222Tveir verzlunarstaðir voru í nánustu nánd við Stafnes: Þórshöfn, sem á 18. öld var reyndar ekki lengur notuð, og Bátsendar, sem síðan 1640 voru hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum. Þegar konungsútgerðin var lögð niður 1769, hnignaði mjög sjávarútvegi á Stafnesi.
Fljótlega fóru Refshalabæirnir, hjáleigur frá Stafnesi, í eyði. Í Stafnesi sjálfu bjó gamli bóndinn, Magnús Jónsson, til 1784, og síðan ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, sem var 73 ára gömul, þegar maður hennar dó. 1786 eru aðeins 3 menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað, 1790 jafnvel bara ein hjón. Þau tolla þar upp undir aldamót og ala á þessum árum nokkur börn, en þegar flóðið mikla brýtur húsin á Bátsendum þann 9. janúar 1799, þá fær kaupmannsfólkið frá Bátsendum í hálfan mánuð húsaskjól á Loddu, en hreiðrar þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi“.

Heimild:
-Faxi, 29. árg. 1969, 10. tbl., bls. 167.

Stafnes

Á Stafnesi.