Tag Archive for: Kristján Sæmundsson

Festarfjall

Meðfram fræðslufæti Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, var gengið um Hraunssand og Skálasand undir Festisfjalli (Festarfjalli), þar sem þjóðsagan er tengist bergganginum og festinni á að hafa gerst.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli.

Svæðið lýsir stórbrotinni jarðsögu storkubergs, setbergs og myndbreytts bergs, gefur setlögun fyrri jökulskeiða og forðum sjávarstöðu til kynna og kynnir til sögunnar bergganga, syllur og innskot, sprungufyllingar, frumsteindir og samsetningu þeirra. Sjórinn hefur brotið sér leið inn rúmlega miðja eldstöð með öllum þeim „dásemdum“ sem því fylgir. Jarðfræðin og jarðsagan á nútíma er óvíða bersögulli en undir Festisfjalli.

Kristján ásamt félögum sínum hefur staðsett og aldursgreind svo til öll hraun á Reykjanesskaganum og þótt víða væri leitað. Hann þekkir jarðfræði skagans eins og handabökin á sér, enda kom frá honum í ferðinni hafssjór af fróðleik.
Eftir að hafa farið yfir Slokahraun, sem skv. mælingum Kristjáns er um 2300 ára gamalt (hann hafði drög að jarðfræðikorti af ofanverði Grindavík meðferðis) þar sem m.a. kom fram lega Vatnsheiðahraunsins og nýrra yfirspil Sundhnúkahraunsins, en hið nýjasta, Melhólshraunið, á hins vegar meginefni þess hrauns, sem bærinn stendur á eða við.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, í með drög að jarðfræðikortinu í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Örlög Melhólsins urðu lík og svo margra annarra fallegra gosgíga, að verða rótað upp og ekið undir vegi og hús.
Byrjað byrjað á því að fara niður á vestanverðan Hraunssandinn. Skoðuð voru berglög. Efst trjónar storkubergshraunlag, misþétt, en undir því er aska og gosmöl, þ.e. öfug gossagan. Undir hvorutveggja er móberg frá fyrra ísaldarskeiði. Forvitnilegt er að sjá ísaldarrákirnar á sléttyfirborðs jökul(set)berginu, móbergslagið þar ofan á og enn ofar það sem að framan greinir. Allt sést þetta mjög vel þarna á hraunstöllum þeim er hábáran hefur brotið niður og er smám saman að draga til sín. Víða má sjá bergganga upp í gegnum móbergið sem og sprungur, sem fyllst hafa með setlögum neðanfrá, en gosmöl og ösku ofan frá. Niðri á vestanverðum Hraunssandi er frábær aðstaða til að skoða hraun neðanfrá, þ.e. botninn á því þar sem það hefur runnið yfir og storknað á rakri gosmöl. Neðsta lagið ber þess glögg merki, en síðan þéttist bergið eftir því sem ofar dregur.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli neðst.

Hafaldan hafði tekið Dúnknahelli. Hellirinn, sem áður var orðinn nokkuð stór innvortis og með fallegu loftgati, lá nú eins og hrávirði neðan undir berginu. Ægisaldan hafði sprengt hellinn svo að segja frá berginu og skilið hann eftir berrassaðan fyrir verði og vindum.

Þegar gengið var undir Festisfjalli mátti vel sjá „festina“, berggang er gengur upp í gegnum fjallið. Um er að ræða fóðuræð fyrir yngra berg, en Festisfjall er lagskipt og hefur því orðið til í fleiru en einu gosi. Undir eru bólstranir, þá móberg, bólstra- og brotaberg þar fyrir ofan og loks móbergshetta með jökulsorfnu yfirborði. Austan við vestursnösina, sem skilur af Hraunssand og Skálasand þar austar, er annars konar berglag, olivíninnihaldríkara og enn austar brotabergskenndara. Austast er svo enn eitt berglagið.

Festarfjall

Festarfjall – jökulberg.

Jökulberg er undir neðsta bólstraberginu undir Festisfjalli, en annað slíkt lag tekur síðan við að nýju enn austar, undir Lambafelli. Um er að ræða jökulberg frá tveimur jökulskeiðum. Í þeim má vel sjá grannbergið, sem jökulsetið hefur hnoðað undir sig. Það er hnöttótt, en í nálægum móbergslögum má sjá köflóttara nærberg.
Í Rauðskinnu segir að „austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.“

Festarfjall

FERLIRsfélgar ferðast um neðsta hluta „Festarinnar“ undir Festarfjalli.

Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
Inn undir bergið eru fallegir smáskútar.
Þar sem ekki var vel fært fótum lítilmátturga manna fyrir sæiðandi ytri snösina var ákveðið að nýta tímann og ganga til baka um Hraunssand og koma inn á Skálasand úr austri, frá Lambastapa.

Strax þegar komið er niður í fjöruna vestan Lambastapa, inn í svonefndar Mávafláar, kom í ljós ódílótt bólstraberg, rauðleitt. Annars var losaralegt brotabergið ráðandi. Jökulbergið er skammt að handan, niðurundir bjargbrúninni. Stigi var notaður til að komast niður af austari jökulbergsstappanum og áfram til vesturs inn á Skálasand. Þar tók við stórkostlegt útsýni um bergið, bæði austanvert Festisfjall og vestanvert Lambafell.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Skútar eru víða og sjá má glögglega jökulbergið þar undir. Ofar trjóna skessumyndir, en ljósbrúnar steinmóbergsklessur niðurundir. Þótti við hæfi að nefna þær skessuskít.

Toppurinn á ferðinni var uppgötvun Kristjáns á fóðuræð Lyngfells. Hún liggur upp í gegnum bergið skammt austan markanna, um 170 cm, breið neðst og liggur áleiðis út í sjó. Þar fyrir utan eru há sker er mynda nokkurn veginn hring. Ekki er með öllu útilokað að þau kunni að geyma fornan eldgíg er fóðraði bæði Festisfjall og Lyngfell, eða a.m.k. annað hvort þeirra.
Skammt austar er berggangur, er virðist nokkuð sprunginn. Hann er yngri en bergið umhverfis og virðist hafa fóðrað eldstöðvar ofar í landinu. Við vettvangsskoðun eftir gönguna komu í ljós tvö móbergssvæði sunnan Mókletta er gætu hafa verið afurðir þessa berggangs.

Festarfjall

Sjávarhellir í Festarfjalli.

Allt í ferðinni var hið fróðlegasta. Segja má að hún hafi verið svolítið innlegg í skráningu jarðsögu svæðisins.
Kristján var, sem fyrr sagði, hafsjór fróðleiks. Hann á nú nálægt fimm mánuðum til eftirlaunaaldurs, en virðist aldrei hafa verið frískari í viðleitni sinni og leit að nýjum uppgötvunum um myndun landsins.
Að lokinni göngu var þegið kaffi og meðlæti á Ísólfsskála þar sem farið var yfir helstu áhættuþætti og uppgötvanir ferðarinnar.
Staðreyndin er sú að einungis örfáir núlifandi (og þótt lengra væri leitað) hafa farið þá leið, sem farin var að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, skrifar grein í Náttúrufræðinginn 1983 um „Hálfrar aldar þögn um merka athugun“. Þar segir hann m.a.:

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsfer undir Festisfjalli.

„Einhvers staðar í ritum sínum segir Helgi Péturss, að ekki sé nóg að gera uppgötvun, heldur þurfi aðrir líka að uppgötva að uppgötvun hafi verið gerð. Hér skal getið um eitt slíkt tilfelli, þar sem mér og fleirum hefur sést yfir snjalla ályktun um eldvirkni á Reykjanesskaga.
Síðustu æviár sín vann Guðmundur G. Bárðarson að jarðfræðirannsóknum þar, en féll frá í miðju verki.
Hálfkarað handrit af jarðfræðikorti (í vörslu Náttúrufræðistofnunar) er til frá hans hendi og auk þess nokkrar prentaðar ritgerðir og greinar í blöðum um Reykjanesskagann. Á „18. Skandinaviske Naturforskermöde“ í Kaupmannahöfn 1929 lagði Guðmundur kortið fram og flutti um það erindi, sem seinna var prentað í skýrslu fundarins undir heitinu „Geologisk Kort over Reykjanes-Halv0en’ (Guðmundur G. Bárðarson 1929). Þar er höfundi ljós aldursmunur dyngjuhrauna og sprunguhrauna og fjallar niðurlag greinarinnar um sprunguhraunin undir yfirskriftinni „De yngste Lavadoekker“. í lýsingu sinni á sprungugosunum aðgreinir Guðmundur fjögur belti (Vulkanbælter) sem hann gerir síðan nánari grein fyrir. Belti þessi svara nákvæmlega til eldstöðvakerfanna, sem við yngri mennirnir höfum verið að vekja máls á næstliðinn áratug.

Kristján Sæmundsson

Kristján skoðar berggang undir Lyngfelli.

Beltin sem Guðmundur aðgreinir á Reykjanesskaga ná (1) frá Reykjanesi norðaustur fyrir Grindavík. – (2) Yfir Vesturháls og Austurháls. Nefnt er, að hverirnir í Mosfellssveit séu í norðaustur framhaldi þess. — (3) Yfir Brennisteinsfjöll og Grindaskörð. — (4)  Frá Selvogsheiði norðaustur yfir Hengil og áfram norðaustur um gjárnar á Þingvöllum. Seinni höfundar, sem lýstu jarðfræði skagans, virðast ekki hafa haft sama skilning á aðskiljanlegum eldvirknibeltum. Svo er t. d. um Kuthan (1943), sem gekk þó fram úr hófi langt í túlkun sinni á jarðfræði Reykjanesskaga. Skipan eldsprungna, gjásvæða og móbergshryggja fangar þó augað strax og litið er á kort hans. Sama gildir um jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar (1960). Sjálfur vakti ég upp hugmyndina um stórar einingar í gosbeltinu þ. á. m. á Reykjanesskaga kringum 1970 (Kristján Sæmundsson 1971a og b) og hélt þá í barnaskap mínum að ég væri að benda á eitthvað nýtt. Veifaði ég á fundi í Jarðfræðafélagi Íslands korti Kuthans og jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar framan í viðstadda félagsmenn til að þeir mættu sjá einingar þessar ljóslifandi á eldri kortum þótt enginn hefði bent sérstaklega á þær fyrr. Hefði ég þá betur verið búinn að lesa grein Guðmundar G. Bárðarsonar, því hann hafði sagt 40 árum fyrr aðalinntakið í því, sem ég var að boða kollegum mínum á þessum fundi.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – eldstöðvakerfi; sveimar.

Það kom fljótlega fram, að fleiri jarðfræðingar lögðu sama skilning í byggingu Reykjanesskagans og raunar landsins alls (Eysteinn Tryggvason 1973, G. P. L. Walker 1975, Sveinn Jakobsson o. fl. 1978). Almennt er nú farið að kalla einingar þessar eldstöðvakerfi, en það er bein þýðing á „volcanic system“ sem ameríkumenn nota um sömu fyrirbæri. Amerískur jarðfræðingur, J. G. Moore, benti hérlendum á enska heitið og er það fyrst notað af Sveini Jakobssyni (1979a) og í sérhefti Jökuls um jarðfræði íslands (1979b).
Eldstöðvakerfin eru í mörgum tilfellum saman sett af einni megineldstöð og gossprungum og gjám sem liggja í gegnum hana. Megineldstöð er þýðing á ensku „central volcano“ og mun fyrst koma fyrir hjá Þorleifi Einarssyni í 1. útg. jarðfræðibókar hans (1968). Bæði þessi orð voru innleidd um rofin eldfjöll í tertíera bergstaflanum. Í rofnum bergstafla koma gossprungur og gjár fram sem berggangar.

Kristján Sæmundsson

Kristján skoðar bergganga í Hraunsfjöru.

Gangasveimur var það kallað er margir gangar lágu því sem næst í sömu stefnu út frá megineldstöð og mynduðu aflanga heild. Orðið kemur einnig fyrst fyrir hjá Þorleifi í áður tilvitnaðri jarðfræðibók (1968). Það er bein þýðing á ensku „dyke swarm“. Þegar farið var að draga fram hliðstæður í virku gosbeltunum voru þessi heiti yfirfærð með þeirri breytingu einni, að í stað gangasveims var talað um sprungusveim (fissure swarm) (Kristján Sæmundsson 1971a og b). Hliðstæð fyrirbæri við eldstöðvakerfin í virku gliðnunarbeltunum hér á landi eru eldstöðvakerfin á Hawaii. Þar heitir megineldstöðin „shield volcano“ en sprungusveimurinn „rift zone“. Íslensk þýðing á shield volcano er eiginlega ekki til*, en um „rift zone“ hefur verið haft orðið gjástykki (Kristján Sæmundsson 1979). Bæði ensku og íslensku heitin hafa hér þrengri merkingu en felst í orðunum megineldstöð (central volcano) og sprungusveimur (fissure swarm). Margir eru þeir sem ekki fella sig við orðið sveimur, og því mjög á reiki hvað einstakir höfundar nefna þessi fyrirbæri á íslensku. Um þetta hafa sést á prenti eftirtalin orð: þyrping (Sveinn Jakobsson 1979b, Ari T. Guðmundsson 1982), belti (Oddur Sigurðsson 1976), belti eða rein (Freyr Þórarinsson o. fl. 1976), kerfi (Guðmundur E. Sigvaldason 1982, Guðrún Larsen, 1982), stykki (Axel Björnsson, í fyrirlestrum).

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

Sjálfum er mér tamast að nota orðið sveimur og sama gera þeir Sigurður Þórarinsson, Sigurður Steinþórsson og Sveinbjörn Björnsson og Páll Einarsson í ritgerðum sínum á 2. útg. af Náttúru Íslands (1981). Orðin sveimur og þyrping missa að nokkru marks, vegna þess að þau gefa ekki til kynna að regla sé í dreifingu sprungnanna. Það undirstrika hins vegar orðin belti og kerfi. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvert af þessum orðum sé skárst.
Framar í þessum greinarstúf var þess getið að sá maður sem fyrstur kom auga á og lýsti eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga hafi verið Guðmundur G. Bárðarson. Notaði hann um þau orðið belti. Eitt framantaldra orða var haft til að lýsa skyldu fyrirbæri rúmum þremur öldum fyrr: „Frá Eldeyjum og Geirfuglaskeri grynnra og nyrðra skal telja 7 smásker og sést hvert frá öðru á sömu rein rétt í haf frá Reykjanesi“. Þannig komst Jón lærði að orði í riti sínu „Ein stutt undirrjetting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur“ (tilvitnað eftir útg. Halldórs Hermannssonar 1924). Kannske er þar komið heitið, sem allir hefðu getað fellt sig við.“

Heimild:
-Náttúrfræðngurinn, Kristján Sæmundsson, „Hálfrar aldar þögn um merka athugun“, 52. árg. 1-4 tbl, 01.05.1983, bls, 102 -103.

Kristján Sæmundsson

Í Hraunsfjöru.

Draugahlíðagígur

Á Haustráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands árið 2010 til heiðurs Sigurði Steinþórssyni, prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, á 70. afmælisári hans, fjölluðu Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson hjá Íslenskum orkurannsóknum um „Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld„. Hér er ágrip af erindi þeirra:

Hraunakort

Útbreiðsla hrauna frá 8. og 9. öld á Reykjanesskaga. Einnig eru sýnd hraun frá sögulegum
tíma (heimild: Kristján Sæmundsson o. fl. 2010).

„Kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hefur leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé. Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja. Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.

Hraun - aldur

Jarðvegssnið í Móhálsadal, við Hrútagjá og í Brennisteinsfjöllum.

Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr. (Karl Grönvold o.fl. 1995), finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess (Magnús Á. Sigurgeirsson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 2000).

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – hraun.

Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind (Jón Jónsson 1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.

Brennisteinsfjöll

Gígaröð í Brennisteinsfjöllum.

Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu síðustu tvö sumur kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld. Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur í Brennisteinsfjöllum.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Móhálsadalur

Hraun við Móhálsadal.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).

Brennisteinsfjöll

Vörðufellsborgir í Brennisteinsfjöllum.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.
Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi.

Brennisteinsfjöll

Bláfeldur (Draugahlíðagígur) í Brennisteinsfjöllum. Hraun úr honum rann niður í Herdísarvík.

Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn. Bergfræðirannsókn hefur ekki farið fram á hraununum, en samkvæmt athugunum Jóns Jónssonar (1978) er Hvammahraun fremur ólivínríkt.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum.“

Heimild:
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands árið 2010 til heiðurs Sigurði Steinþórssyni, prófessor í jarðfræði við Háskóla
Íslands, á 70. afmælisári hans. Ágrip erinda Magnús Á. Sigurgeirssoog Kristján Sæmundsson hjá Íslenskum orkurannsóknum um „Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld.

Móhálsadalur

Gígar við Lækjarvelli.