Draugahlíðagígur

Á Haustráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands árið 2010 til heiðurs Sigurði Steinþórssyni, prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, á 70. afmælisári hans, fjölluðu Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson hjá Íslenskum orkurannsóknum um “Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld“. Hér er ágrip af erindi þeirra:

Hraunakort

Útbreiðsla hrauna frá 8. og 9. öld á Reykjanesskaga. Einnig eru sýnd hraun frá sögulegum
tíma (heimild: Kristján Sæmundsson o. fl. 2010).

“Kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hefur leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé. Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja. Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.

Hraun - aldur

Jarðvegssnið í Móhálsadal, við Hrútagjá og í Brennisteinsfjöllum.

Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr. (Karl Grönvold o.fl. 1995), finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess (Magnús Á. Sigurgeirsson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 2000).

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – hraun.

Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind (Jón Jónsson 1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.

Brennisteinsfjöll

Gígaröð í Brennisteinsfjöllum.

Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu síðustu tvö sumur kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld. Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur í Brennisteinsfjöllum.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Móhálsadalur

Hraun við Móhálsadal.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).

Brennisteinsfjöll

Vörðufellsborgir í Brennisteinsfjöllum.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.
Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi.

Brennisteinsfjöll

Bláfeldur (Draugahlíðagígur) í Brennisteinsfjöllum. Hraun úr honum rann niður í Herdísarvík.

Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn. Bergfræðirannsókn hefur ekki farið fram á hraununum, en samkvæmt athugunum Jóns Jónssonar (1978) er Hvammahraun fremur ólivínríkt.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum.”

Heimild:
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands árið 2010 til heiðurs Sigurði Steinþórssyni, prófessor í jarðfræði við Háskóla
Íslands, á 70. afmælisári hans. Ágrip erinda Magnús Á. Sigurgeirssoog Kristján Sæmundsson hjá Íslenskum orkurannsóknum um “Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld.

Móhálsadalur

Gígar við Lækjarvelli.