Fugl

„Reykjanes er alveg einstakur staður á jörðinni því þar má sjá flekaskil milli meginfleka jarðskorpunnar, Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans, á þurru landi.
pall EFlekaskilunum fylgir landmótun, eyðing, eldvirkni, jarðhitavirkni, sprungur, misgengi og jarðskjálftar. Flekarnir fjarlægjast hver annan um tvo sentímetra á ári “sagði Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og einn helsti sérfræðingur landsins í jarðskjálftum við upphaf 6 klst ferðar um Reykjanesið. “Þegar ný kvika kemur ekki upp úr iðrum jarðar, eins verið hefur s.l. 800 árin verða afleiðingarnar þær að landið lækkar og sjórinn nær að éta smám saman af landinu, einkum á sunnanverðum Skaganum. Í þessari ferð var m.a. ætlunin var að skoða bæði jarðsöguna, – mótunina og kíkja á mögulega þróun í þeim efnum í nánustu framtíð. Páll var annar tveggja leiðsögumanna í skoðunarferð sem farin verður um Reykjanesið sem lið í afmælisdagskrá Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Hinn var Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur, og er fjallað um hans þátt hér á eftir.

gja-22

Svæðið er stöðugt viðfangsefni vísindamanna, bæði innlendra og erlendra, sem koma til að rannsaka þau ferli sem skapa nýja jarðskorpu á flekaskilum. Í ferðinni voru m.a. skoðuð þversnið í gegnum eldgíga og gossprungur sem og mismunandi gerðir sprungna athugaðar. Sérstök stopp voru áætluð ofan við Sandvík og á Reykjaneshæl.
Strax í upphafi ferðar fjallaði Páll um flekaskil Ameríkuflekans annars vegar og Evrasíuflekans hins vegar. Sagði hann líta mæti t.d. á Keflavík sem “ameríska borg” en Grindavík aftur móti sem “evrópska borg”. Skilin væru um 5 km breið, en þau væru hvergi skýrari en yst á Reykjanesi.

Flekaskil

Flekaskil.

Flekarnir rækju í burt frá hvorum öðrum sem næmi að jafnaði 18-19 mm á ári. Þannig mætti greina 18 cm rek á 10 ára tímabili, 1.80 m á einni öld og 18 m á þúsund árum. Það samsvarði nokkurn veginn breidd svonefndrar gjáar á milli meginlenda, sem væri einungis skemmtileg framsetning á efninu, en fjarri lagi. Jaðar Ameríkuflekans væri nokkurn veginn þarna, en eins og fyrr sagði, er jaðar Evrópuflekans í u.þ.b. 5 km fjarlægð í austri. Þegar um hreint frárek væri að ræða færðust flekarnir beint í sundur, en þegar flekarnir hliðruðust kallaðist það hliðrek.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa.

Þannig væri ysti hluti jarðar samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk. Við flekamót rekur fleka saman, líkt og sjá mátti afleiðingarnar af nálægt Japan nýlega, en við flekaskil rekur þá í sundur.
Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð. Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau geysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd.

Sprunga

Hraunsprunga.

Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar og það gerir Reykjanesið sem og Ísland allt svo sérstakt. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja.
Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland.
Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.
AtlantshafshryggurinnTil eru þrjár gerðir af hreyfingum við flekamæri, svæðin sem tveir flekar liggja saman. Sú fyrsta er tveir samliggjandi flekar færast í átt hvor frá öðrum á svæði sem nefnist flekaskil, önnur er að flekar færast hvor í átt til annars á svæði sem kallað er flekamót og sú þriðja er sniðgeng flekamæri (þverbrotabelti, hliðrunarbelti) þar sem tveir flekar færast meðfram hvor öðrum. Við flekaskil, þar sem plöturnar færast í sundur, eins og t.d. á Íslandi, er uppsteymi í möttli jarðar og ný jarðskorpa myndast stöðugt þar sem flekarnir skilja eftir sig gliðnunina. Við flekamót gerist  annaðhvort það að þar sem flekar rekast hvor á annan eyðist jarðskorpan hjá þyngri flekanum en léttari flekinn byggist upp eða þá að tveir jafnþungir flekar rekast hvor á annan en þá geta þeir ekkert annað en þrýst upp á við. Við sniðgeng flekamæri geta verið miklar jarðskjálftahreyfingar þar sem mikill þrýstingur myndast við mismunandi hreyfingar tveggja fleka.

Atlantshafshryggurinn-2

Frá því að Atlantshafið byrjaði að opnast, í lok Miðlífsaldar og upphafi Nýlífsaldar, hefur Norður-Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekið í gagnstæðar áttir. Á gliðnunarsvæðinu í miðju Norður-Atlantshafi hefur byggst upp hryggur og þessi hryggur skýtur kollinum upp úr hafinu hér á Íslandi. Fljótlega eftir að endurbætt landrekskenning varð viðurkennd á 7. áratugnum
var ljóst að tilvera Íslands er mjög tengd landrekinu og í raun afleiðing þess og samspils við möttulstrókinn. Ísland gnæfir um 2-4 km yfir venjulega hæð Norður-Atlantshafshryggjarins.

Landris

Landris.

Það sem skapar Íslandi þessa sérstöðu, er að undir landinu er óvenjumikið uppstreymi heits efnis úr möttlinum, svokallaður möttulstrókur eða heitur reitur. Þessi heiti reitur hefur verið virkur að minnsta kosti síðustu 55 milljónir árin og virkni hans virðist ekki fara minnkandi enn sem komið er.

Sandfellshaed

Talið er að fyrir um 20 milljónum ára hafi flekaskilin rekið yfir heita reitinn og þar með hafi myndun Íslands hafist.
Páll sagði megineldfjöllin eftir síðustu ísöld, dyngjurnar, hafa gefið af sér undirlendi það er Reykjanesskaginn byggist á nú. Í raun væru þau ekki líkar hinum gríðarstóru dyngjum er þekkjast víða um heim, heldur mætti fremur kalla þær dyngjuskyldi. Á leið um Reykjanesbrautina var ekið yfir hraun frá Hrútargjárdyngju vestan við Straum. Dyngjan gaus fyrir ca. 7.000 árum og hefur, líkt og aðrar dyngjur, gosið samfleitt í nokkra áratugi eða jafnvel í eina öld. Hrútagjárdyngjan hefði gefið af sér apalhraun. Þegar litið væri yfir slík hraun mætti víða sjá flatar ójöfnur og hraunkýli (hraunhveli). Þegtta gerðist þegar fljótandi efsti flötur hraunkvikunnar storknaði en fljótandi hraunið streymdi fram undir. Þá safnaðist það stundum í þrær eða hólf, lyftu storknuðu þakinu um stund, en rynni síðan áfram ef og þegar kvikan næði að bræða sér áframhaldandi leið – og landið sigi á ný. Við þessar aðstæður spryngi storknuð hraunkvikan ofan á glóðinni.

Berggangur a reykjanesi

Apalhraun, lík Afstapahrauni, gerðu sig á annan hátt; yltu fram seigfljótandi undan þunga straumsins og mynduðu gróf hraun sem jafnan væru síðar erfið yfirferðar.
Þráinsskjöldurinn væri dyngjuskjöldur allt frá því í lok síðustu ísaldar. Sjá mættu leifar þessa efst við gígbrýnina. Sandfellshæðin væri litlu yngri, en frá henni hefði runnið mikið magn hraunvikur er myndaði núverandi undirlag ysta hluta Reykjanesskagans, stranda á millum. Tvo hliðarskyldi mætti sjá á dyngjuskyldinum; annars vegar Berghóla og Hafnarbergs og hins vegar Langhól miklu mun ofar. Einn væri þó sá dyngjuskjöldur, sem ekki  væri ætlunin að heimsækja að þessu sinni, þ.e. Heiðin há. Hún væri dæmigerður dyngjuskjöldur, líkt og Skjaldbreið og Trölladyngja.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Páll lýsti Kapelluhrauni (rann 1151) og Afstapahrauni (ca. 1700 ára) þegar ekið var í gegnum þau. Auk þess fjallaði hann nánar um nýhraunin á Skaganum. Fram kom að kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hafi leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé. Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja.
Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga Atlantshafshryggurinn-23byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.
Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr., finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess. Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteins-fjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind af Jóni Jónssyni (1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.

Atlantshafshryggurinn-24

Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld.

gja-22

Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár. Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjalla-kerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Nutimahraun

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun. Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi. Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn.

Sveifluhals-22

Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum. Eldgos á Reykjanesskaga á næstunni kæmi ekki á óvart.
brennisteinsfjoll-222Vísindamenn sem voru við rannsóknir á Reykjaneshrygg síðasta sumar rak í rogastans þegar þeir uppgötvuðu gríðarstóra megineldstöð á hryggnum en fræðilega ætti hún ekki að geta verið þar. Er hún líklega sú eina sinnar tegundar í heiminum. Fullyrt er að þetta sé með merkustu uppgötvunum í jarðvísindum í áratugi. Auk eldfjallsins fundu þeir tvö gömul rekbelti sem stjórnuðu upphleðslu Vestfjarðarkjálka og Snæfellsness. Á meðal þess sem finna mátti á hafsbotninum voru greinileg ummerki eftir borgarísjaka og fornir árfarvegir.
Megineldstöðin, sem fengið hefur nafnið Njörður, er á stærð við Reykjanes, eða um 50 km í þvermál. Í toppi hennar má greina öskju, eða sigketil sem er um 10 km í þvermál. Núverandi rekás Reykjaneshryggjar liggur í gegnum Njörð. Reykjanes-sprungukrefiAðstæður við Njörð eru því svipaðar og í Kröflu, þar sem að megineldstöðin og sigketill hennar er klofin af Kröflusprungu-sveimnum.
Reykjaneshryggurinn er því um margt stórmerkilegur jarðfræðilega. Einnig Reykjanesið, sem er eini staðurinn á jarðkringlunni þar sem glögglega má sjá úthafshrygg ganga á land.
Sprengigígur er á Reykjaneshæl og 6-7 slíkir í Krýsuvík, þ.e. Gestsstaðavatn, Grænavatn, Stamparnir og Augun og a.m.k. einn norðan við Grænavatn. Þeir hefðu orðið til vegna kvikuuppleitunar undir bergvatn, sem sprenging hafi hlotist af með tilheyrandi afleiðingum.
Páll taldi að Sveifluháls (Austurháls) hefði orðið til í nokkrum gosum, bæði undir snemmjökli og undir lok síðasta jökulsskeiðs þegar íshettuna var að leysa. Mætti sjá þess glögg merki á einstaka hnúkum hálsins.
Greanavatn-22Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
nedansjavargosNeðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. Þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.
Á Krýsuvíkursvæðinu má víðast hvar sjá túff, brotaberg, móberg og bólstraberg. Sumstaðar er þessu öllu hrært saman líkt og í risastórum grautarpotti. Landlyfting hefur orðið í Krýsuvík síðustu par ára. Landið suðvestan við Kleifarvatn hefur risið um 5-15 cm sem getur gefið vísbendingu um að ekki verði langt að bíða eftir einhvers konar hraunuppstrymi þar. Einkennin eru dæmigerð fyrir aðdraganda goss, þ.e. landlyfting og tíðir litlir skjálftar í langan tíma. Að vísu seig landið um tíma, en hefur nú verið að rísa á nýjan leik. Svona goshrinur eru taldar koma eftir öllu Reykjanesinu á um 1000 ára fresti og standa í um 300 ár með hléum. Síðasta hrina hófst fyrir um 1100 árum.

bolstraberg-22“Ég vildi gjarnan sjá Hafnfirðinga taka tillit til staðreynda tilverunnar eins og íbúar snjóflóðahættusvæða gera. Það er þó alls ekki raunhæf hætt á að sprunga opnist inn í byggðina þarna – en ansi nálægt (það er verið að moka gjallinu úr gígunum í burtu þarna rétt fyrir ofan) og það ætti að gera fyrirfram ráð fyrir varnar-mönum til að stýra hugsanlegu hraunflóði því þau munu koma og eru fremur þunnfljótandi á Reykjanesi – þarna ættu ekki síður að vera hraunvarnar-manir fyrir ofan byggðina en að menn reisa hljóðvarnar-manir meðfram götum og hraðbrautum til að verja hús fyrir hávaða. Það er engin hætta á miklum sprengigosum á Reykjanesi og fyrir ofan Hafnarfjörð heldur fyrst og fremst hraungosum. –

Sundhnúkur

Sundhnúkur ofan Grindavíkur.

Grindavík æti að huga að þessu líka – þó aldir geti liðið þá getur það líka gerst á morgun. Menn byggja háhýsi með hliðsjón af miklum jarðskjálftum þó líkur á að stór jarðskjálfti ríði yfir Reykjavík (með upptök við eða undir Reykjavík) séu nær engar – þegar aftur víst er að fyrr að síðar mun hraun renna þar sem Vallahverfi er nú og víðar. Því ætti að skipuleggja byggð frá upphafi þannig að byggðin þoli það, rétt eins og að gera þarf ráð fyrir að hús þoli jarðsjálfta af stærð sem aldrei eða nær aldrei kemur í Reykjavík. Einföld en nægilega efnismikil og öflug efnis-mön ofan byggðar stýrir hrauninu frá byggðinni”

Gunnar thor-2Gunnar Þór Hallgrímsson fuglafræðingur annaðist leiðsögnina ásamt Páli. Gunnar hefur unnið að doktorsverkefni um máfa og tófur á Reykjanesi ásamt því að rannsaka fuglalíf svæðisins fyrir  Náttúrustofu Reykjaness í Sandgerði. „Á Reykjanesi er eitt fjölbreyttasta fuglalíf á landinu yfir vetrartímann og það er viðkomustaður fjölmargra farfugla á haustin og vorin. Þar eru  líka nokkur fuglabjörg þar sem finna má mikinn fjölda sjófugla,“ segir Gunnar og bætir við. „Í ferðinni sjáum við flesta þá vetrargesti sem enn eru til staðar og einnig fyrstu farfuglana, eins og sílamáv og lóu.“
Gunnar Þór Hallgrímsson er líffræðingur frá Háskóla Íslands og er í doktorsnámi við sama skóla. Helstu verkefni Gunnars eru á sviði fuglafræði en mörg verkefni eru í vinnslu á því sviði. Þannig fylgist Gunnar mjög náið með sílamávavarpinu á Miðnesheiði en samkvæmt gögnum frá 1995 er það eitt hið stærsta í heimi.

Sílamávur

Sílamávur.

Athuganir á sílamávavarpinu felast meðal annars í að skoða aðferðir sem nota megi til fækkunar máfsins en bent hefur verið á vandamál tengdu svo stóru varpi í nágrenni alþjóðaflugvallar. Samhliða rannsóknum á sílamávi sem unnar eru í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskólans vinnur Gunnar m.a. að athugunum á sendlingum í samstarfi við skoska aðila, æðarfugli í samstarfi við Háskólann í Glasgow, eiturefnavistfræði í samstarfi við Stokkholmsháskóla og vöktun arnarstofnsins í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Vestfjarða, Náttúrustofu Vesturlands og Fuglavernd.

loa-12

Undanfarin tvö ár hefur mikið borið á mávum í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum og hafa margir kvartað undan átroðningi fuglsins inn í mannabyggðir. Fuglafræðingar benda á að ástandið sé mjög óvenjulegt og að það tengist atferlisbreytingum hjá fuglategundinni. Fæðuskortur rekur máva frá varpstöðvum inn í þéttbýlið.
„Mávarnir eru að segja okkur að það er ekki allt í lagi í sjónum,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur hjá Náttúrustofnun Reykjaness, í samtali við mbl.is „Það er alvarlegt ástand í gangi sem við skiljum ekki og mávarnir eru að minna okkur á það.“  Sílamávurinn hefur til að mynda verið mjög aðgangsharður í ætisleit við Reykjavíkurtjörn og jafnvel veitt sér andarunga til matar. Gunnar segir stofn sílamávsins hafa fjölgað mjög mikið undanfarin ár en árið 2004 virðist sem að hann hafi náð hámarki. Ári síðar hafi farið að halla undan fæti í varpi hjá mávnum og það varð algjör viðkomubrestur, þ.e. fáir ungar komust á legg úr varpinu.

Fjöruspói

Fjöruspói.

Gunnar Þór benti þátttakendum á sílamáva, bjartmáva (sem eru vetrargestir hér, en verpa á Grænlandi), urtönd (sem er smæst anda), skúfönd, stokkendur, tjald (sjá má aldur hans bæði á gogg og fótum), fjöruspóa (sem er sjaldgæfastur fugla hér á landi, telur einungs ca. 10 fugla), lóu (sem nýkominn var til landsins, m.a. sást hópur slíkra með ca. 30 fuglum koma inn yfir ströndina), geirfuglinn og margt fleira.

geirfuglar

Gunnar benti reyndar á að síðustu tveir geirfuglarnir í heiminum hefðu verið veiddir  á syllu í Eldey þann 3. júní 1844. Þar með hefði þeirri merkulegu fuglategund verið útrýmt endanlega. Geirfuglinn var allt að 70 cm hár, vóg um 5 kg og var ófleygur. Í útliti líktist geirfuglinn nokkuð mörgæsum, en er ekki af sömu ætt. Geirfuglinn var góður sundfugl og nærðist einkum á fiski. Útbreiðslusvæði geirfuglsins voru strandsvæði Norður-Atlantshafsins. Geirfuglinn var algengur víða í Norður-Atlantshafinu allt fram á 16. öld, en veiði gekk grimmt á stofninn. Einhverjar sögur fara af því að til geirfugls hafi sést eftir það, einkum á Grænlandi allt fram á sjötta áratug 19. aldar, en óvíst er um áreiðanleika þeirra sagna. Framan af var geirfugl veiddur til matar, en þegar fuglinum fór að fækka verulega fóru safnarar og náttúrugripasöfn að borga háar fjárhæðir fyrir fuglinn og má segja að það hafi verið hinn endanlegi dauðadómur tegundarinnar.

Geirfugl

Geirfulg á Náttúruminjasafninu.

Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Einn þeirra má finna á Náttúrufræðistofnun Íslands.
Gunnar Þór fjallaði auk þess m.a. um sendil, súlu og fýl, en síðastnefndi er ekki mávategund þó svo að flestir teldu svo vera. Í Eldey væri ein af stærstu súlubyggðum í heimi og sú stærsta hér við land. Þar væri fjöldinn orðin svo mikill að fáar fleiri kæmust þar að.
Þá fjallaði Gunnar Þór um tófuna og tilvist hennar á Skaganum, ekki síst til að stemma stigu við fjölda máva við flugbrautirnar á Miðnesheiði.
Frábært veður. Ferðin tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-Páll Einarsson, prófessor við HÍ.
-Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur.
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010.
-Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson, Íslenskar Orkurannsóknir, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík.

Eldey

Eldey.