Færslur

Hafnaberg

Við bílastæði á Nesvegi ofan við Hafnaberg eru tvö skilti. Annað felur í sér upplýsingar um bjargið og íbúa þess og hitt eru nánari skil á hinum síðarnefndu. Reyndar er textinn orðinn allmáður, en með því að rýna í hann af gaumgæfni má lesa eftirfarandi á textaskiltinu:

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

“Bjargið er myndað úr basalt hraunlögum sem mynda syllur. Sökum þess hve vogskorið það er býður það upp á gott aðgengi til fuglaskoðunar og í því má sjá flestar tegundir íslenskra bjargfugla.

Efst með brúnum verpa fýlar á breiðum hraunsyllum og í litlum skútum. Flestir taka þó eftir ritunni, bæði er mest af henni og að auki er hún hávær fugl. Bjargið ómar af hástemmdum klið frá ritum, blönduðum lágstemmdari röddum svartfuglanna. Rituhreiðrin eru dreifð um allt bjargið og á mjóum syllum byggir ritan upp hreiður úr sinu og gróðri, sem límd eru saman með driti. Langvían er næst ritunni að fjölda. Langvían er frekar hnappdreifð og býr í þéttu sambýli á tiltölulega breiðum syllum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

Í bjarginu eru hellar með þéttri langvíubyggð. Stuttnefjan verpir á þrengri syllum en langvían og ekki í eins miklu þéttbýli. Stuttnefjum hefur fækkað mikið í Hafnabergi undanfarna áratugi. Eggjum langvíu og stuttnefju er verp beint á grjótsylluna og skurn eggjanna er frekar þykk. Litamynstur þeirra er fjölbreytt og talið að foreldrarnir þekki egg sitt á því. Lögum eggjanna er þannig að þau velta ekki beint undan halla, heldur í hring.

Meðal annarra fugla sem verpa í bjarginu er álkan, en erfitt getur verið að koma auga á hreiður hennar þar sem það er oftast inni í urðum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – textinn.

Lundinn verpir einnig í bjarginu í sprungum og holum, en pörin eru nokkuð fá. Sama er að segja um teistur sem verpa í urðum neðst í bjarginu.

Varp hefst í bjarginu seinni hluta maí og liggja svartfuglar á eggjum í rúma 30 daga. Ungar svartfuglanna hoppa svo ófleygir úr bjarginu um 20 daga gamlir og halda með foreldrunum á haf út. þegar ungarnir hoppa heyrast mikil hljóð í foreldrunum þegar þau hvetja ungana til dáða og tíst í unganum á móti. Þetta gerist helst um lágnættið þegar farið er að skyggja svo skúmar og aðrir ræningjar komi síður auga á ungana þegar þeir taka fyrstu skrefin.”

Hafnaberg

Hafnaberg – hreiður.

Hrossagaukur

Hrossagauksungi var nýlega á vegi FERLIRs á einni göngunni. Vesalingurinn litli reyndi að dyljast fyrir manninum sem best hann gat inni á milli þúfnakolla, en það dugði ekki til. Sá var þó heppinn að verða á vegi FERLIRsfélaga því náttúrunnar börnum stafar engin hætta af slíkum mannana börnum.

Hrossagauksunginn

Hrossagaukur (eða mýrarskítur, mýrifugl, mýriskítur, mýrisnípa, mýrispói eða mýrispýta) (fræðiheiti: Gallinago gallinago) er fugl af snípuætt.
Heimkynni hrossagauksins eru mýrar, fen, túndrur og votir hagar á Íslandi, Færeyjum, norður-Evrópu og Rússlandi. Hrossagaukurinn gerir hreiður sitt á huldum stað á jörðinni.
Hrossagaukurinn er mósvartur ofan með ryðlitum langröndum, grár á bringu og ljós á kviði, goggurinn langur og þykkri í endann. Hrossagaukurinn „hneggjar“, en hljóðið myndast milli stélfjaðra fuglsins á flugi, og myndast þegar fuglinn tekur dýfur í loftinu.
Mýri er landssvæði þar sem grunnvatnsstaða er há og jafnvel í yfirborði jarðvegsins. Gróður í mýrum er oft grófari og harðgerðari en í þurru landi, þar vaxa einkum starir og mosi. Allt að helmingur gróins lands á Íslandi er mýrlendi.
Freðmýri eða túndra er heiti á nyrsta gróðurbelti jarðar, þar sem sífreri er við -1°C. Þar er hiti of lágur og vaxtartími of stuttur til að tré geti dafnað. Orðið „túndra“ kemur úr samískri mállýsku og þýðir “trjálaus slétta”, en þó vaxa sums staðar tré í túndru. Mörkin á milli góðurbelta freðmýrar og skóglendis er kölluð trjálína (skógarmörk). Á túndru vaxa lágvaxnar jurtir eins og lágvaxnar víðitegundir, fjalldrapi, grös, starir, mosi og fléttur.
HrossagaukurFrostið í freðmýrum getur mótað landslagið og lyft því upp og skapað freðmýrarfyrirbæri eins og rústir og melatígla.
Hreiður er bæli sem fuglar gera sér til að verpa eggjum í og unga þeim út. Hreiður geta verið mjög mismunandi, allt frá því að vera einungis dæld í sandi, fóðruð með örfáum stráum, að því að vera mjög flóknar samsetningar úr greinum, munnvatni og öðru. Á Íslensku er einnig talað um að mýs gera sér hreiður, sbr. músarhreiður.
Skömmu eftir aldamótin 1800 hófst deila á Íslandi um það hvernig hrossagaukurinn hneggjaði. Fram til þess tíma héldu menn að hneggið væri raddhljóð. En þá komu þýskir vísindamenn fram með þá kenningu að hrossagaukurinn hneggi með flugfjöðrunum. Þessari kenningu var síðan hrundið þegar færðar voru sönnur á að gaukurinn hneggjaði með stélfjöðrunum, þ.e. að loftstraumur lendi á milli stélfjaðra og þannig myndist hljóðið.
Þrátt fyrir allt framangreint komst FERLIR að raun um að hrossagauksunginn þessi átti þá einu lífsafkomu að halda kyrru fyrir og dyljast þegar maðurinn nálgaðist. Þjálfuð augu leitandans uppgötvaði þrátt fyrir það litla skinnið undir einum þúfnakollinum. Að kollaklappi og augngotum loknum fékk hann þó að sjálfsögðu að fara sína leið óhindrað.

Heimild:
-Wikipedia.org

Hrossagauksunginn

Helsingi

Í Morgunblaðinu 1986 er fjallað um “Landnema í íslenskri náttúru – 20 tegundir sjaldgæfra fugla hafa reynt varp á seinni árum” í tveimur greinum:

Fuglalíf er allmikið og fjörlegt hér á landi, einangrun landsins veldur því þó að tegundafæð er nokkur miðað við nágrannalöndin. Miklu væri Ísland fátækara án fugla sinna og má hafa af þeim hreina unun við hin ýmsu skilyrði og kringumstæður.

Ævar Pedersen

Ævar Pedersen.

Landsmenn þekkja ákaflega misvel til íslenskra fuglategunda og þær njóta auk þess ákaflega misjafnra vinsælda. Það er ekki sama heiðlóa og veiðibjalla frekar en Jón og séra Jón. Það sýna dæmin, að fuglar geta verið geysivinsælir þótt fól og fjandar séu í eðli sínu, sbr. krummi gamli, en vandfundnir eru skemmtilegri fuglar hvað þá samviskulausari hreiðurræningjar og ungamorðingjar.
Flestar algengustu fuglategundir landsins munu þó ugglítið vera tiltölulega vel þekktar hjá öllum þorra landsmanna. En til er hópur fugla sem hefur á undanförnum árum verið að þreifa fyrir sér með varp hér á landi. Tegundir þessar hafa ekki náð fótfestu og alls ekki útséð um hvernig þau mál fara. Í sumum tilvikum virðist það næsta vonlítið, en í öðrum tilvikum virðast skilyrði vera fyrir hendi. Í síðarnefndu tilvikunum er spurningunni vandsvarað hvers vegna það gengur illa að hasla sér völl. „Þetta eru yfirleitt flækingsfuglar og það má segja að það detti úr þeim egg,” sagði Ævar Pedersen dýrafræðingur í samtali við Morgunblaðið um þetta mál. Yfirleitt er hér um spörfuglategundir að ræða, einnig fáeinar tegundir vaðfugla og andfugla. Skrítin nöfn eins og kolþerna og skógarsnípa ber á góma, en við skulum byrja yfirreiðina á spörfuglunum í þessum fyrri hluta, en í síðari hluta verður fjallað um dúfur, vaðfugla, andfugla, auk annars sem hér hefur uppi dagað.

Gráþröstur og svartþröstur

Svartþröstur

Svartþröstur.

Frændurnir gráþröstur og svartþröstur eru návenslaðir skógarþrestinum okkar eina sanna og þeir hafa verið að þreifa fyrir sér hér á landi á seinni árum með varpi. Sérstaklega hefur gráþrösturinn virst ætla að ná fótfestu, en enn um sinn hefur það þó ekki tekist sem skyldi. Fuglar þessir eru auðþekktir, þrastarlagið leynir sér ekki og gráþrösturinn er greinilega grár að ofan og svartþrösturinn allur eins og nafnið gerir ráð fyrir. Þessir fuglar koma hér báðir á haustin frá heimkynnum sínum í Skandinavíu og yfirleitt fylgir varp því að óvenjulega margir einstaklingar hafí komið. Áraskipti eru að því hversu margir þessir þrestir eru.
Um 1950 kom mikið af gráþresti hingað til lands að vetri til og vorið eftir var enn talsvert af fugli sem hafði þraukað. Þá hófst varp nokkurra para á Akureyri og hélst það í nokkur ár og svo virtist sem lítill stofn ætlaði að ná þar fótfestu. En allt kom fyrir ekki. Um 1980 komu svo margir fuglar sömu tegundar að vetrarlagi og upp frá því hófst dálítið varp næstu þrjú árin, þá fundust hreiður bæði á Akureyri og á Selfossi. Mest var þá um gráþrestina á Húsavík, en einhverra hluta vegna varð ekki úr varpi þar eftir því sem menn komust næst.

Gráþröstur

Gráþröstur.

Ævar fuglafræðingur telur að þessi fuglategund ætti að geta lifað við þær aðstæður sem Ísland býður upp á, en sá galli sé hins vegar á gjöf Njarðar, að komutími fuglanna ár hvert er það sem stendur í veginum, þ.e.a.s. mörg ár koma tiltölulega fáir fuglar og þeir sem koma verða að byrja á því að hjara yfir veturinn og það er ekkert auðhlaupið að slíku fyrir lítinn fugl. Margir falla ævinlega. Tilraunir svartþrastarins hafa ekki verið jafn þróttmiklar og hjá frændanum.
Þrisvar hefur svartþröstur vitanlega orpið hér á landi, í Reykjavík, í Skaftafelli og í Svínafelli, en báðir síðast nefndu staðirnir eru í Öræfasveit. Svartþrösturinn hefur það sérkenni fram yfir hina tvo, að hann verpir ævinlega í trjám. Svartþrösturinn er árviss gestur hér á landi eins og gráþrösturinn og eins og með hann, eru áraskipti að því hversu margir fuglar koma hvert haust. Svartþrösturinn virðist ekki eiga neitt verra með að lifa við íslenskar aðstæður en gráþrösturinn, en hvað veldur því að hann hefur ekki ílenst hér á landi? Gefum Ævari Pedersen orðið: „Þetta eru hvort tveggja tegundir sem hafa verið reglulegir vetrargestir í mörg hundruð ár og sennilega enn lengur. Þær hefðu átt að vera búnar að hasla sér völl skyldi maður ætla. En hvað veit maður? Það eru svo voðalega margir þættir sem geta spilað inn í.

Gráþröstur

Gráþrastarhreiður.

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að einhver fjöldi fugla reyni varp. Þetta atriði skiptir meira máli meðspörfugla heldur en t.d. vaðfugla, því þeir eru til muna skammlífari. Það var ansi mikil vantrú á kenningum hins breska David Beck rétt eftir árið 1950, er hann lýsti yfir að meðalaldur glóbrystings í Bretlandi væri aðeins hálft ár. Þetta hnekkti að miklu leyti þeirri trú fólks að smáfuglar gætu lifað árum saman, þó trúlega geti einstaklingar orðið mun eldri, e.t.v. nokkurra ára. Hver þekkir ekki þegar fólk talar um það ár eftir ár að „músarindillinn minn” eða „þrösturinn minn” sé nú kominn í garðinn? Þetta er ekki einhlítt, en í flestum slíkum tilfellum er hæpið að um sömu fugla sé að ræða. Þetta eru sem sagt skammlífir, en afar frjósamir fuglar sem geta orpið tvisvar til þrisvar á ári ef tíðin er góð. Örfá hreiður eða bara eitt, eru því ekki líklega ein sér til að koma af staðvarpi undir venjulegum kringumstæðum. Það þarf meira til.”

Fjallafinka

Fjallafinka

Fjallafinka.

Fjallafinka heitir smáfugl af finkuætt sem reynt hefur varp hér á landi nokkrum sinnum. Lengi hefur tegundin verið all tíður gestur á haustin og fram eftir vetri. Þetta er lítið kríli, 15 sentimetrar á lengd að meðaltali, en til samanburðar má geta, að meðallengd músarindils er 12 sentimetrar og auðnutittlings 13 sentimetrar.
Það eru áraskipti að því hversu margar fjallafinkur koma hingað ár hvert og þær sem það gera eru taldar eiga uppruna að rekja til Skandinavíu þar sem þær eru algengir varpfuglar í furuskógum.

Fjallafinka

Fjallafinka.

Hér á landi fundust fyrst hreiður fyrir um 10—12 árum og þá var um samfellt varp að ræða í nokkur ár, t.d. í Fljótshlíð. Síðan fjaraði varpið út, en aftur fór að bera á fjallafinkuvarpi rétt fyrir 1980 og aftur hófst samfellt varp sem stóð yfir í fáein ár. Fundust þá hreiður í Reykjavík, í Fljótshlíð og í Öræfasveit. Þetta voru fá hreiður.
Fjallafinkan hefur komið upp ungum á Íslandi og virðist ekki eiga erfitt uppdráttar. Ævar Pedersen fuglafræðingur telur að ein ástæðan sé sú að fjallafinkan sé frææta og eigi því meiri lífsmöguleika heldur en skordýra- og berjaætur. „Þessi tegund á möguleika á því að ílendast hér,” segir Ævar og getur þess einnig að hugsanleg skýring á því að tekið hafi að bera á fjallafinkuvarpi í vaxandi mæli á seinni árum kunni að vera vaxandi skógrækt sem skapi aukið kjörlendi fyrir þessa fuglategund.

Gráspörvar

Gráspörvi

Gráspörvi.

Gráspörvavarp á Íslandi á sér nokkuð sérkennilegan aðdraganda og má segja að litlu hafi munað að þessi fugl ílentist hér á landi fyrir atbeina eins manns, en orðið undan að láta fyrir atbeina eins kattar. Gráspör er nokkur reglulegur vetrargestur hér á landi, kemur á haustin og dvelur yfir veturinn, en sjaldan eru fuglarnir margir.
Fyrir árið 1970 var þrívegis vitað um tilraunir gráspörva til varps, tvívegis í Reykjavík og einu sinni í Vestmannaeyjum. En undrið sem hlaut hinn sorglega endi byrjaði 1970.
Jón Helgason í Borgarfirði eystri tók þá nöndum tveim hóp af gráspörvum sem tóku sér vetrarbólfestu við hús hans. Jón gaf fuglunum, hlúði að þeím sem mest hann mátti, leyfði þeim m.a. afnot af skemmu sinni til að skýla sér í er veður gerðust köld og ströng. Fyrir vikið voru flestir fuglanna á lífi um vorið og svo vel hafði þeim líkað vistin að þeir ákváðu að fara hvergi, heldur hefja varp. Gerðist það nú, að næstu árin urpu gráspörvar við hús Jóns og þar í grennd og nutu verndar hans í hvívetna.

Gráspörvi

Gráspörvi.

Fuglunum fjölgaði og eftir tíu ára varp voru í Borgarfirði nokkrir tugir fugla og árvisst og öruggt varp.
En allt í einu fóru þeir að tína tölunni og vissi enginn fyrst í stað hvað ylli því. Er allt var um seinan, komst upp um fuglaveiðar flækingskattar, en þá var aðeins einn kvenfugl eftir lifandi. Síðustu fregnir hermdu, að sá fugl hafi verið á lífi enn síðasta sumar, en einn síns liðs réttir hann ekki Borgarfjarðarstofninn við.
Atburðarásin í Borgarfirði var einstæð og athyglisverð, verk eins manns urðu næstum til þess að nýr og fastur varpfugl bættist í fuglafánu landsins. Árangur Jóns Helgasonar bendir til þess að endurtaka mætti tilraunina, næst er liðmargur flokkur gráspörva leitar til landsins frá vetrarhörkum í heimahögum.

Landsvala og bæjarsvala

Landsvala

Landsvala.

Þetta eru algengir flækingsfuglar hér á landi og koma á vorin og sumrin gagnstætt þeim tegundum sem nefndar hafa verið. Í fljótu bragði mætti ætla að þær hefðu því frekar möguleika á því að ílendast, en svo mun vart vera. Landsvölur hafa á seinni árum reynt varp 10—15 sinnum og áreiðanlega hafa fuglarnir orpið nokkrum sinnum án þess að því hafi verið gefinn sérstakur gaumur. Bæjarsvöluhreiður hafa hins vegar aðeins fundist tvisvar síðustu árin í Vestmannaeyjum og í Sandgerði. Landsvalan hefur einni orpið nær eingöngu á Suður- og Suðvesturlandi.

Bæjarsvala

Bæjarsvala.

Báðar tegundirnar hafa komið hér upp ungum. En hvers vegna er ólíklegt að tegundirnar geti fest rætur?
Ævar svarar: „Þessir fuglar lifa eingöngu á skordýrum sem þær veiða á flugi. Þær eru mikið á flugi og bruninn í líkamanum er því örari en ella. Stöðugt skordýralíf er því nauðsynlegt til þess að þessir fuglar geti lif að góðu lífi og í þeim umhleypingum sem hér geta verið að sumarlagi er slíkt alls ekki fyrir hendi. Það getur rignt dögum saman og blásið, þannig að skordýralífið liggur niðri, svölurnar geta þá ekki veitt og þær veslast upp.”

Hettusöngvari, seftittlingur og glóbrystingur

Hettusöngvari

Hettusöngvari.

Hettusöngvari er lítill og fallegur spörfugl og hann er eigi ótíður haustgestur hér á landi. Laust eftir árið 1970 brá svo við að hettusöngvarapar var í garði í Reykjavík um varptíma og lét eins og hreiður væri á staðnum. Það fannst ekki en grunur leikur samt á því að um varp hafi verið að ræða. Talið er að þessí tegund geti lifað hér af veturinn og þá upp á náð mannsins komin með matargjafir.
Sömu söguna má segja um seftittlinginn, skv. fuglabók Landverndar er talið að þessi tegund hafi orpið í Kvískerjum í Öræfum vorið 1972 og komið upp ungum.
Glóbrystingsvarp hérlendis hefur verið óburðugt, tegundin sést hér oft á haustin og veturna, en fyrir 25—30 árum gerðist það að einn kvenfugl gerði sér hreiður í Hvalfirði og verpti, en ekkert varð úr þar sem karlfugl vantaði.

Dvergkráka

Dvergkráka

Dvergkráka.

Það er kannski ekki rétt að hafa dvergkrákuna með, því vitanlega hefur hún ekki orpið á Íslandi. Á hinn bóginn „fylltist all” af dvergkrákum rétt fyrir árið 1980, „það kom meira af þessum fuglum en við vitum dæmi um áður”, sagði Ævar Pedersen. Þetta voru líklega hundruð fugla og sáust þeir víða á sunnanverðu landinu, ekki síst í Reykjavík þar sem þeir vöktu mikla athygli.
„Innrásin” var um haustið og margar krákur voru hér enn er tók að vora. Þær fóru að bera í hreiður, stífluðu m.a. skorstein í bænum, margir sáu þær fljúga út í Tjarnarhólmann og koma þaðan með nefin full af hreiðurefni sem þær svo flugu með á tilvalda staði.
Þrátt fyrir allt saman varð ekkert úr varpi og krákurnar smátýndu tölunni, hafa trúlega ýmist drepist eða horfið til síns heima. „Þetta er nær árviss gestur hér á landi og ein af þeim fuglategundum sem gæti allt í einu farið að verpa hér á landi,” segir Ævar.
Látum þessu svo lokið í bili, þetta yrði of langt mál ef allt kæmi á einu bretti, en það hefur e.t.v. vakið athygli lesenda að saga fuglanna er aðeins rakin til sumarsins 1985, en það er vegna þess að þetta sumar er alls ekki liðið þótt haustið sverfi óðfluga að og því eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi tilraunavarp fugla í sumar ef eitthvað hefur verið.

Hringdúfa og tyrkjadúfa

Tyrkjadúfa

Tyrkjadúfa.

Þessar villtu dúfutegundir hafa báðar orpið hér á landi og komið upp ungum. Fyrir um 20 árum fannst hringdúfuhreiður í Svínafelli í Öræfum, en eggin voru ófrjó og varpið misfórst því. Vorið 1974 fannst svo hringdúfuhreiður í Reykjavík og gekk betur í það skiptið, ungar komust á legg.
Tegund þessi verpir um alla Mið- og Suður-Evrópu og einnig nokkuð í sunnanverðri Skandinavíu. Hún er farfugl heimkynnum sínum og er flækingur hér á landi. Fremur hæpið virðist að tegund þessi ílendist hér þó að hún kunni að geta lifað hér á sumrin.

Hringdúfa

Hringdúfa.

Tyrkjadúfan er náskyld tegund, en hún hefur verið að breiðast út um alla Evrópu síðustu áratugina, varp áður einkum á Balkanskaga. Tyrkjadúfa sást fyrst á Íslandi árið 1968 og vorið 1970 fannst svo hreiður í Reykjavík og komu þar ungar úr eggjum.
Fyrir fáum árum sást svo tyrkjadúfa í Vesturbænum og var hún ein á ferð. Önnur settist um borð í fiskibáti úti fyrir ströndum landsins og var henni sleppt til þeirrar í Vesturbænum. Þar voru þær í um eitt og hálft ár án þess að til varps kæmi og lék grunur á að báðir fuglarnir væru karlkyns. Örlög þessara útvarða urðu þau, að hreinsunardeild Reykjavíkurborgar skaut þá eftir að kvartanir húsmæðra gerðust þrálátar en fuglar þessir voru bæði árrisulir og háværir. Ævar segir: „Tyrkjadúfan er enn að breiðast út, hún gæti alveg komið hingað til lands enn og numið hér land.”

Kolþerna

Kolþerna

Kolþerna.

Eitthvert óvenjulegasta varp flækingsfugla hin síðari ár var er kolþernuhjón urpu í kríuvarpi skammt fyrir vestan vestustu hús Stokkseyrarþorps sumarið 1983. Hreiðrið fannst fyrst 16. júlí og voru tvö egg í því, töluvert stropuð.
Daginn eftir skoðuðu nokkrir fuglafróðir menn hreiðrið, en báða dagana sást aðeins ein kolþerna við hreiðrið. Ekki var vitjað um hreiðrið aftur fyrr en 21. júlí, en þá fannst ekkert við varpstaðinn, hvorki kolþernueggin né egg og ungar kría sem urpu þar í kring. Óveður með háum straum var nýafstaðið og lék grunur á því að allt varp á þessu svæði hefði orðið því að bráð. Við leit fundu athugunarmenn tvær kolþernur og vakti það athygli þeirra, að önnur þeirra virtist tilheyra bandaríska stofninum, en varpstöðvar hans vestra eru miklu mun sunnar á hnettinum en Ísland, t.d. má nefna Flórídaríki.

Kolþerna

Kolþerna.

Það var álitið að þar hafi verið um karlfuglinn að ræða, en hinn fuglinn var erfiðara að ákvarða, því hann var farinn að missa sumarskrúðann. Var það fuglinn sem sást liggja á eggjunum fyrstu tvo dagana.
Kolþerna er heldur sjaldséður flækingur á Íslandi, aðeins 30 sinnum hefur fuglinn sést síðan að sú fyrsta sást árið 1949. í nokkrum tilvikum hefur verið um bandarísku deilitegundina að ræða og vita menn ekki til þess að sú tegund hafi sést annars staðar í Evrópu.
Þessi saga er ekki öll, því kolþernurnar voru mættar aftur til Stokkseyrar sumarið eftir og urpu þar aftur. Að þessu sinni skreið ungi úr eggi, en talið er að hann hafi drepist í óveðri sem gekk yfir nokkru síðar. Í fyrrasumar sáust engar kolþernur, varpið virðist liðið undir lok.

Vepja

Vepja

Vepja.

Fugl þessi er náskyldur heiðlóunni, en varpheimkynni hans liggja yfirleitt sunnar en Ísland. Vepjan er tíður flækingur á Islandi og kemur hingað stundum í stórum hópum á haustin og veturna. Þegar slíkir hópar hafa komið, hefur stundum dregið til varps að vori og vepjan hefur orpið hér á landi nokkrum sinnum og ungar hafa komist á legg.
Fyrst er vitað til þess að vepja varp vorið 1959 og líklega komust 3 ungar á legg. 1963 verpti vepjupar í Kelduhverfi og komst einn ungi á legg að minnsta kosti. Árið eftir urpu vepjur í Eyjafirði og komust 3 ungar á legg. í 2—3 ár í kringum 1980 er talið að vepjur hafi orpið austur á Héraði, en hreiður fundust ekki. 1983 var örugglega vepjuvarp í Meðallandi. Glöggir menn sáu þá fimm vepjur snemma í júlímánuði og voru þrjár þeirra, augljóslega nýlega fleygir ungfuglar.

Vepja

Vepja.

Tvær vepjur höfðu sést á þessum slóðum fyrst um miðjan apríl en ungarnir komu fyrst í Ieitirnar um mánaðamót júní og júlí. Í fyrrasumar er svo talið að vepjur hafi orpið. Tvö pör sáust snemma vors í Eyjafirði, en brátt hurfu tveir fuglar og aðeins tveir urðu eftir. Létu þeir í alla staði eins og varpfuglar væru á ferðinni, en eigi að síður fannst hreiðrið ekki. Það er því óvíst um afdrif þessa varps. Að sögn Ævars Pedersens tekur vepjan sig upp í heimahögum sínum er harðindi sverfa að og fer á flakk í fæðuleit. Því koma þær hingað svo að segja árlega og sem fyrr segir, stundum í stórum hópum. Hvort vepjan verður hér einhverntíma fastur varpfugl er ekkert hægt að segja, hana vantar að því er virðist herslumuninn.

Flóastelkur

Flóastelkur

Flóastelkur.

Um 1960 urðu menn fyrst varir við flóastelk hér á landi að sumarlagi og lék fljótlega grunur á því að tegundin yrpi. Fuglarnir sáust eingöngu við Mývatn, en þó þeir létu „varplega” fundu menn hvorki hreiður eða unga enda slíkt ekkert grín. Það varð ekki fyrr en eftir 1980 að vissa fékkst fyrir varpi og er því talið að um varp hafi verið að ræða, a.m.k. síðan 1960. „Það er hægt að tala um afar lítinn íslenskan flóastelksstofn. Þeir hafa ekki sést á hverju ári, til dæmist sáust þeir ekki í fyrrasumar, en á hinn bóginn fer afar lítið fyrir þeim og svæðið sem þeir hafa sést á er stórt.
Það er auðvelt að ganga framhjá þeim. Auk þess þarf ekki endilega árvisst varp, þetta eru mun langlífari fuglar en spörfuglar og 1—2 pör geta viðhaldið svona smástofni þó ekki sé orpið á hverju ári,” segir Ævar um flóastelkinn.

Skógarsnípa

Skógarnípa

Skógarnípa.

Egg eða ungar þessa fugls hafa ekki fundist, en í nokkra áratugi hefur menn grunað að þeir verpi hér, gefum Ævari orðið: „Karlfuglar skógarsnípu haga sér sérkennilega um varptímann og er þeir helga sér óðul á vorin. Þá fljúga þeirum syngjandi að næturþeli. Þetta hefur verið nokkuð árvisst fyrirbæri hér á landi á nokkrum stöðum síðustu áratugi, sérstaklega í Ásbyrgi þar sem varpkjörlendi sem hentar
þessum fugli er fyrir hendi.
Við Egilsstaði hefur þetta einnig borið við, t.d. sást til þriggja karlfugla leika þessar listir í fyrrasumar. Húsafellsskógur er þriðji staðurinn þar sem skógarsnípukarlar hafa sést leika listir sínar. Það er erfitt að finna hreiður og unga þessarar tegundar, sérstaklega þegar fuglafjöldinn er afar lítill og svæðið stórt, auk þess hefur ekki beinlínis verið kíkt eftir þeim. Þó mun hægt skv. framansögðu að tala um mjög lítinn íslenskan skógarsnípustofn og þess má geta, að þetta hefur verið árlegt fyrribæri allra síðustu árin.

Skutulönd

Skutulönd

Skutulönd.

Þessi andartegund er afar fáliðuð á íslandi. Hreiður fannst fyrst 1954 og er hugsanlegt að tegundin hafi orpið þar síðan. Hvort það hafi verið árlegt varp er óvíst, því fá hreiður hafa fundist. Tegundin sést á Mývatni flest ár, aðallega á vorin og sumrin. Í Fuglabók AB er hún talin sjaldgæfur en öruggur varpfugl, en í Fuglabók Landverndar, sem er mun nýrra rit, er hún talin fastur sumargestur, en ekki nefnd í hópi varpanda. Ævar Pedersen sagði skutulandartilfellið vera svipað og með flóastelkinn í sömu sveit, fuglarnir væru fáir og hreiður afar vandfundin. Það væri hins vegar auðvelt að yfirsjást tegundina og hún sæist ef hennar væri leitað. „Þetta eru nokkur stykki,” sagði Ævar.

Helsingi

Helsingi

Helsingi.

„Það er pínulítill varpstofn í Breiðafjarðareyju, en á þeim slóðum hafa þessir fugla orpið á seinni árum þó engin vissa sé fyrir þvi að varpið hafi verið árlegt. Sumarið 1983 fundust fimm hreiður, 1984 3 hreiður, en í fyrrasumar hins vegar ekkert.” Ævar sagði það enga sögu segja, því helsingjarnir færðu varpið til og frá um hinar mörgu Breiðafjarðareyjar og það gæti því hæglega hafa verið varp í fyrrasumar þó engin hreiður hafi fundist.
Heimkynni helsingja eru miklu norðar en Ísland, það er því spurning hvort hann sé ekki í hópi með fuglum eins og haftyrðli, snæuglu og þórshana, sem álitið er að fækki á Íslandi vegna þess að það sé ekki nógu kalt hér á landi!

Kanadagæs

Kanadagæs

Kanadagæs.

Það gerðist sumarið 1984, að grágæsarkvendi eitt kom frá vetrarstöðvum sínum í Bretlandseyjum í fylgd karlfugls kanadagæsar. Þetta skrautlega par verpti austur á Héraði, en varpið misfórst.
Síðastliðið sumar var parið enn á ferð á sömu slóðum og komust fjórir ungar á legg. „Það er spurning hvort þessir ungar verða frjóir,” sagði Ævar Pedersen um fyrirbærið og bætti við að andfuglar væru allra fugla frjálslegastir í kynferðismálum. „Það eru allir með öllum og þetta eru oft svo skyldar tegundir að þær geta átt egg og unga saman,” bætti hann við. Ævar sagði ennfremur, að kanadagæsin hefði verið flutt til Bretlandseyja fyrir nokkrum árum og hefði henni fjölgað mikið og breiðst út. Hún hefur sést hér á landi nokkrum sinnum. „Þetta er tegund sem gæti farið að verpa hér á landi fyrirvaralaust,” sagði Ævar.

Bleshæna (eða blesönd)

Bleshæna

Bleshæna.

„Það er ansi lang síðan að bleshæna reyndi hér varp, nokkrir áratugir, en síðasta sumar vorum við að vona að reynt yrði að nýju, þá var par í Húsavíkurhöfn mikinn hluta vetrar og fylgst var með fuglunum um vorið. Þeir fluttu sig á Víkingavatn í Kelduhverfi, þar sem bleshænur hafa einu sinni áður opið, en að þessu sinni varð ekkert úr varpi, fuglarnir voru á vatninu fram eftir sumri en hurfu svo. Bleshænan hefur þrívegis vitanlega reynt varp, hreiður hafa fundist í Borgarfirði, á Víkingavatni í Kelduhverfi og við Mývatn. Engir ungar hafa komist á legg. Þetta er algengur haust- og vetrargestur hér á landi, en virðist eiga erfitt uppdráttar er til lengdar lætur.”

Lokaorð

Seftittlingur

Seftittlingur.

Það hefur verið ríkuleg áhersla á það lögð í þessari umfjöllun, að ekkert er hægt að tjá sig að gagni um horfurnar á því hvort einstakar tegundir sem nefndar hafa verið taki sig til og fjölgi sér og myndi stæðilegan varpstofn. Í nokkrum tilvikum virðist vera um reglulegt varp í afar smáum stíl, (helsingi, flóastelkur og líklega skógarsnípa), í öðrum tilvikum óreglulegt varp sem ræðst helst af fjölda flækingsfugla sem koma til landsins að hausti eða vetri og eru hér enn að bauka á vorin. Í þriðja lagi handahófskenndara varp sjaldgæfra flækinga eins og kolþernu og eru slík fyrirbæri kannski hvað skemmtilegust.
Í fjórða lagi tækifærisvarp vor- og sumargesta eins og landsvölu og bæjarsvölu. Tíminn einn ber svörin í skauti sér og takmarkalaus forvitni áhugamanna fær engu breytt.
Við verðum bara að bíða og sjá hvaða skrítnu gestir verpa næsta vor, og næsta vor og það næsta o.s.frv. Hver veit nema Ísland verði einni, fimm eða tíu varpfuglategundum ríkara um aldamótin. Og verða þá kannski einhverjar gamalgrónar horfnar? – gg.

Heimildir:
-Morgunblaðið, B-07.09.1986, Landnemar í íslenskri náttúru, grein 1 – 20 tegundir sjaldgæfra fugla hafa reynt varp á seinni árum, bls. 4-5.
-Morgunblaðið – B 14.09.1986, Landnemar í íslenskri náttúru, grein 1 – 20 tegundir sjaldgæfra fugla hafa reynt varp á seinni árum, bls. 16-17.

Þórshani

Þórshani.

Fugl

„Reykjanes er alveg einstakur staður á jörðinni því þar má sjá flekaskil milli meginfleka jarðskorpunnar, Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans, á þurru landi.

pall E

Páll Einarsson.

Flekaskilunum fylgir landmótun, eyðing, eldvirkni, jarðhitavirkni, sprungur, misgengi og jarðskjálftar. Flekarnir fjarlægjast hver annan um tvo sentímetra á ári “sagði Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og einn helsti sérfræðingur landsins í jarðskjálftum við upphaf 6 klst ferðar um Reykjanesið. “Þegar ný kvika kemur ekki upp úr iðrum jarðar, eins verið hefur s.l. 800 árin verða afleiðingarnar þær að landið lækkar og sjórinn nær að éta smám saman af landinu, einkum á sunnanverðum Skaganum. Í þessari ferð var m.a. ætlunin var að skoða bæði jarðsöguna, – mótunina og kíkja á mögulega þróun í þeim efnum í nánustu framtíð. Páll var annar tveggja leiðsögumanna í skoðunarferð sem farin verður um Reykjanesið sem lið í afmælisdagskrá Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Hinn var Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur, og er fjallað um hans þátt hér á eftir.

gja-22

Svæðið er stöðugt viðfangsefni vísindamanna, bæði innlendra og erlendra, sem koma til að rannsaka þau ferli sem skapa nýja jarðskorpu á flekaskilum. Í ferðinni voru m.a. skoðuð þversnið í gegnum eldgíga og gossprungur sem og mismunandi gerðir sprungna athugaðar. Sérstök stopp voru áætluð ofan við Sandvík og á Reykjaneshæl.
Strax í upphafi ferðar fjallaði Páll um flekaskil Ameríkuflekans annars vegar og Evrasíuflekans hins vegar. Sagði hann líta mæti t.d. á Keflavík sem “ameríska borg” en Grindavík aftur móti sem “evrópska borg”. Skilin væru um 5 km breið, en þau væru hvergi skýrari en yst á Reykjanesi.

Flekaskil

Flekaskil.

Flekarnir rækju í burt frá hvorum öðrum sem næmi að jafnaði 18-19 mm á ári. Þannig mætti greina 18 cm rek á 10 ára tímabili, 1.80 m á einni öld og 18 m á þúsund árum. Það samsvarði nokkurn veginn breidd svonefndrar gjáar á milli meginlenda, sem væri einungis skemmtileg framsetning á efninu, en fjarri lagi. Jaðar Ameríkuflekans væri nokkurn veginn þarna, en eins og fyrr sagði, er jaðar Evrópuflekans í u.þ.b. 5 km fjarlægð í austri. Þegar um hreint frárek væri að ræða færðust flekarnir beint í sundur, en þegar flekarnir hliðruðust kallaðist það hliðrek.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa.

Þannig væri ysti hluti jarðar samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk. Við flekamót rekur fleka saman, líkt og sjá mátti afleiðingarnar af nálægt Japan nýlega, en við flekaskil rekur þá í sundur.
Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð. Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau geysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd.

Sprunga

Hraunsprunga.

Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar og það gerir Reykjanesið sem og Ísland allt svo sérstakt. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja.
Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland.
Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.
AtlantshafshryggurinnTil eru þrjár gerðir af hreyfingum við flekamæri, svæðin sem tveir flekar liggja saman. Sú fyrsta er tveir samliggjandi flekar færast í átt hvor frá öðrum á svæði sem nefnist flekaskil, önnur er að flekar færast hvor í átt til annars á svæði sem kallað er flekamót og sú þriðja er sniðgeng flekamæri (þverbrotabelti, hliðrunarbelti) þar sem tveir flekar færast meðfram hvor öðrum. Við flekaskil, þar sem plöturnar færast í sundur, eins og t.d. á Íslandi, er uppsteymi í möttli jarðar og ný jarðskorpa myndast stöðugt þar sem flekarnir skilja eftir sig gliðnunina. Við flekamót gerist  annaðhvort það að þar sem flekar rekast hvor á annan eyðist jarðskorpan hjá þyngri flekanum en léttari flekinn byggist upp eða þá að tveir jafnþungir flekar rekast hvor á annan en þá geta þeir ekkert annað en þrýst upp á við. Við sniðgeng flekamæri geta verið miklar jarðskjálftahreyfingar þar sem mikill þrýstingur myndast við mismunandi hreyfingar tveggja fleka.

Atlantshafshryggurinn-2

Frá því að Atlantshafið byrjaði að opnast, í lok Miðlífsaldar og upphafi Nýlífsaldar, hefur Norður-Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekið í gagnstæðar áttir. Á gliðnunarsvæðinu í miðju Norður-Atlantshafi hefur byggst upp hryggur og þessi hryggur skýtur kollinum upp úr hafinu hér á Íslandi. Fljótlega eftir að endurbætt landrekskenning varð viðurkennd á 7. áratugnum
var ljóst að tilvera Íslands er mjög tengd landrekinu og í raun afleiðing þess og samspils við möttulstrókinn. Ísland gnæfir um 2-4 km yfir venjulega hæð Norður-Atlantshafshryggjarins.

Landris

Landris.

Það sem skapar Íslandi þessa sérstöðu, er að undir landinu er óvenjumikið uppstreymi heits efnis úr möttlinum, svokallaður möttulstrókur eða heitur reitur. Þessi heiti reitur hefur verið virkur að minnsta kosti síðustu 55 milljónir árin og virkni hans virðist ekki fara minnkandi enn sem komið er.

Sandfellshaed

Talið er að fyrir um 20 milljónum ára hafi flekaskilin rekið yfir heita reitinn og þar með hafi myndun Íslands hafist.
Páll sagði megineldfjöllin eftir síðustu ísöld, dyngjurnar, hafa gefið af sér undirlendi það er Reykjanesskaginn byggist á nú. Í raun væru þau ekki líkar hinum gríðarstóru dyngjum er þekkjast víða um heim, heldur mætti fremur kalla þær dyngjuskyldi. Á leið um Reykjanesbrautina var ekið yfir hraun frá Hrútargjárdyngju vestan við Straum. Dyngjan gaus fyrir ca. 7.000 árum og hefur, líkt og aðrar dyngjur, gosið samfleitt í nokkra áratugi eða jafnvel í eina öld. Hrútagjárdyngjan hefði gefið af sér apalhraun. Þegar litið væri yfir slík hraun mætti víða sjá flatar ójöfnur og hraunkýli (hraunhveli). Þegtta gerðist þegar fljótandi efsti flötur hraunkvikunnar storknaði en fljótandi hraunið streymdi fram undir. Þá safnaðist það stundum í þrær eða hólf, lyftu storknuðu þakinu um stund, en rynni síðan áfram ef og þegar kvikan næði að bræða sér áframhaldandi leið – og landið sigi á ný. Við þessar aðstæður spryngi storknuð hraunkvikan ofan á glóðinni.

Berggangur a reykjanesi

Apalhraun, lík Afstapahrauni, gerðu sig á annan hátt; yltu fram seigfljótandi undan þunga straumsins og mynduðu gróf hraun sem jafnan væru síðar erfið yfirferðar.
Þráinsskjöldurinn væri dyngjuskjöldur allt frá því í lok síðustu ísaldar. Sjá mættu leifar þessa efst við gígbrýnina. Sandfellshæðin væri litlu yngri, en frá henni hefði runnið mikið magn hraunvikur er myndaði núverandi undirlag ysta hluta Reykjanesskagans, stranda á millum. Tvo hliðarskyldi mætti sjá á dyngjuskyldinum; annars vegar Berghóla og Hafnarbergs og hins vegar Langhól miklu mun ofar. Einn væri þó sá dyngjuskjöldur, sem ekki  væri ætlunin að heimsækja að þessu sinni, þ.e. Heiðin há. Hún væri dæmigerður dyngjuskjöldur, líkt og Skjaldbreið og Trölladyngja.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Páll lýsti Kapelluhrauni (rann 1151) og Afstapahrauni (ca. 1700 ára) þegar ekið var í gegnum þau. Auk þess fjallaði hann nánar um nýhraunin á Skaganum. Fram kom að kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hafi leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé. Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja.
Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga Atlantshafshryggurinn-23byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.
Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr., finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess. Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteins-fjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind af Jóni Jónssyni (1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.

Atlantshafshryggurinn-24

Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld.

gja-22

Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár. Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjalla-kerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Nutimahraun

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun. Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi. Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn.

Sveifluhals-22

Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum. Eldgos á Reykjanesskaga á næstunni kæmi ekki á óvart.
brennisteinsfjoll-222Vísindamenn sem voru við rannsóknir á Reykjaneshrygg síðasta sumar rak í rogastans þegar þeir uppgötvuðu gríðarstóra megineldstöð á hryggnum en fræðilega ætti hún ekki að geta verið þar. Er hún líklega sú eina sinnar tegundar í heiminum. Fullyrt er að þetta sé með merkustu uppgötvunum í jarðvísindum í áratugi. Auk eldfjallsins fundu þeir tvö gömul rekbelti sem stjórnuðu upphleðslu Vestfjarðarkjálka og Snæfellsness. Á meðal þess sem finna mátti á hafsbotninum voru greinileg ummerki eftir borgarísjaka og fornir árfarvegir.
Megineldstöðin, sem fengið hefur nafnið Njörður, er á stærð við Reykjanes, eða um 50 km í þvermál. Í toppi hennar má greina öskju, eða sigketil sem er um 10 km í þvermál. Núverandi rekás Reykjaneshryggjar liggur í gegnum Njörð. Reykjanes-sprungukrefiAðstæður við Njörð eru því svipaðar og í Kröflu, þar sem að megineldstöðin og sigketill hennar er klofin af Kröflusprungu-sveimnum.
Reykjaneshryggurinn er því um margt stórmerkilegur jarðfræðilega. Einnig Reykjanesið, sem er eini staðurinn á jarðkringlunni þar sem glögglega má sjá úthafshrygg ganga á land.
Sprengigígur er á Reykjaneshæl og 6-7 slíkir í Krýsuvík, þ.e. Gestsstaðavatn, Grænavatn, Stamparnir og Augun og a.m.k. einn norðan við Grænavatn. Þeir hefðu orðið til vegna kvikuuppleitunar undir bergvatn, sem sprenging hafi hlotist af með tilheyrandi afleiðingum.
Páll taldi að Sveifluháls (Austurháls) hefði orðið til í nokkrum gosum, bæði undir snemmjökli og undir lok síðasta jökulsskeiðs þegar íshettuna var að leysa. Mætti sjá þess glögg merki á einstaka hnúkum hálsins.
Greanavatn-22Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
nedansjavargosNeðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. Þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.
Á Krýsuvíkursvæðinu má víðast hvar sjá túff, brotaberg, móberg og bólstraberg. Sumstaðar er þessu öllu hrært saman líkt og í risastórum grautarpotti. Landlyfting hefur orðið í Krýsuvík síðustu par ára. Landið suðvestan við Kleifarvatn hefur risið um 5-15 cm sem getur gefið vísbendingu um að ekki verði langt að bíða eftir einhvers konar hraunuppstrymi þar. Einkennin eru dæmigerð fyrir aðdraganda goss, þ.e. landlyfting og tíðir litlir skjálftar í langan tíma. Að vísu seig landið um tíma, en hefur nú verið að rísa á nýjan leik. Svona goshrinur eru taldar koma eftir öllu Reykjanesinu á um 1000 ára fresti og standa í um 300 ár með hléum. Síðasta hrina hófst fyrir um 1100 árum.

bolstraberg-22“Ég vildi gjarnan sjá Hafnfirðinga taka tillit til staðreynda tilverunnar eins og íbúar snjóflóðahættusvæða gera. Það er þó alls ekki raunhæf hætt á að sprunga opnist inn í byggðina þarna – en ansi nálægt (það er verið að moka gjallinu úr gígunum í burtu þarna rétt fyrir ofan) og það ætti að gera fyrirfram ráð fyrir varnar-mönum til að stýra hugsanlegu hraunflóði því þau munu koma og eru fremur þunnfljótandi á Reykjanesi – þarna ættu ekki síður að vera hraunvarnar-manir fyrir ofan byggðina en að menn reisa hljóðvarnar-manir meðfram götum og hraðbrautum til að verja hús fyrir hávaða. Það er engin hætta á miklum sprengigosum á Reykjanesi og fyrir ofan Hafnarfjörð heldur fyrst og fremst hraungosum. –

Sundhnúkur

Sundhnúkur ofan Grindavíkur.

Grindavík æti að huga að þessu líka – þó aldir geti liðið þá getur það líka gerst á morgun. Menn byggja háhýsi með hliðsjón af miklum jarðskjálftum þó líkur á að stór jarðskjálfti ríði yfir Reykjavík (með upptök við eða undir Reykjavík) séu nær engar – þegar aftur víst er að fyrr að síðar mun hraun renna þar sem Vallahverfi er nú og víðar. Því ætti að skipuleggja byggð frá upphafi þannig að byggðin þoli það, rétt eins og að gera þarf ráð fyrir að hús þoli jarðsjálfta af stærð sem aldrei eða nær aldrei kemur í Reykjavík. Einföld en nægilega efnismikil og öflug efnis-mön ofan byggðar stýrir hrauninu frá byggðinni”

Gunnar thor-2Gunnar Þór Hallgrímsson fuglafræðingur annaðist leiðsögnina ásamt Páli. Gunnar hefur unnið að doktorsverkefni um máfa og tófur á Reykjanesi ásamt því að rannsaka fuglalíf svæðisins fyrir  Náttúrustofu Reykjaness í Sandgerði. „Á Reykjanesi er eitt fjölbreyttasta fuglalíf á landinu yfir vetrartímann og það er viðkomustaður fjölmargra farfugla á haustin og vorin. Þar eru  líka nokkur fuglabjörg þar sem finna má mikinn fjölda sjófugla,“ segir Gunnar og bætir við. „Í ferðinni sjáum við flesta þá vetrargesti sem enn eru til staðar og einnig fyrstu farfuglana, eins og sílamáv og lóu.“
Gunnar Þór Hallgrímsson er líffræðingur frá Háskóla Íslands og er í doktorsnámi við sama skóla. Helstu verkefni Gunnars eru á sviði fuglafræði en mörg verkefni eru í vinnslu á því sviði. Þannig fylgist Gunnar mjög náið með sílamávavarpinu á Miðnesheiði en samkvæmt gögnum frá 1995 er það eitt hið stærsta í heimi.

Sílamávur

Sílamávur.

Athuganir á sílamávavarpinu felast meðal annars í að skoða aðferðir sem nota megi til fækkunar máfsins en bent hefur verið á vandamál tengdu svo stóru varpi í nágrenni alþjóðaflugvallar. Samhliða rannsóknum á sílamávi sem unnar eru í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskólans vinnur Gunnar m.a. að athugunum á sendlingum í samstarfi við skoska aðila, æðarfugli í samstarfi við Háskólann í Glasgow, eiturefnavistfræði í samstarfi við Stokkholmsháskóla og vöktun arnarstofnsins í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Vestfjarða, Náttúrustofu Vesturlands og Fuglavernd.

loa-12

Undanfarin tvö ár hefur mikið borið á mávum í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum og hafa margir kvartað undan átroðningi fuglsins inn í mannabyggðir. Fuglafræðingar benda á að ástandið sé mjög óvenjulegt og að það tengist atferlisbreytingum hjá fuglategundinni. Fæðuskortur rekur máva frá varpstöðvum inn í þéttbýlið.
„Mávarnir eru að segja okkur að það er ekki allt í lagi í sjónum,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur hjá Náttúrustofnun Reykjaness, í samtali við mbl.is „Það er alvarlegt ástand í gangi sem við skiljum ekki og mávarnir eru að minna okkur á það.“  Sílamávurinn hefur til að mynda verið mjög aðgangsharður í ætisleit við Reykjavíkurtjörn og jafnvel veitt sér andarunga til matar. Gunnar segir stofn sílamávsins hafa fjölgað mjög mikið undanfarin ár en árið 2004 virðist sem að hann hafi náð hámarki. Ári síðar hafi farið að halla undan fæti í varpi hjá mávnum og það varð algjör viðkomubrestur, þ.e. fáir ungar komust á legg úr varpinu.

Fjöruspói

Fjöruspói.

Gunnar Þór benti þátttakendum á sílamáva, bjartmáva (sem eru vetrargestir hér, en verpa á Grænlandi), urtönd (sem er smæst anda), skúfönd, stokkendur, tjald (sjá má aldur hans bæði á gogg og fótum), fjöruspóa (sem er sjaldgæfastur fugla hér á landi, telur einungs ca. 10 fugla), lóu (sem nýkominn var til landsins, m.a. sást hópur slíkra með ca. 30 fuglum koma inn yfir ströndina), geirfuglinn og margt fleira.

geirfuglar

Gunnar benti reyndar á að síðustu tveir geirfuglarnir í heiminum hefðu verið veiddir  á syllu í Eldey þann 3. júní 1844. Þar með hefði þeirri merkulegu fuglategund verið útrýmt endanlega. Geirfuglinn var allt að 70 cm hár, vóg um 5 kg og var ófleygur. Í útliti líktist geirfuglinn nokkuð mörgæsum, en er ekki af sömu ætt. Geirfuglinn var góður sundfugl og nærðist einkum á fiski. Útbreiðslusvæði geirfuglsins voru strandsvæði Norður-Atlantshafsins. Geirfuglinn var algengur víða í Norður-Atlantshafinu allt fram á 16. öld, en veiði gekk grimmt á stofninn. Einhverjar sögur fara af því að til geirfugls hafi sést eftir það, einkum á Grænlandi allt fram á sjötta áratug 19. aldar, en óvíst er um áreiðanleika þeirra sagna. Framan af var geirfugl veiddur til matar, en þegar fuglinum fór að fækka verulega fóru safnarar og náttúrugripasöfn að borga háar fjárhæðir fyrir fuglinn og má segja að það hafi verið hinn endanlegi dauðadómur tegundarinnar.

Geirfugl

Geirfulg á Náttúruminjasafninu.

Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Einn þeirra má finna á Náttúrufræðistofnun Íslands.
Gunnar Þór fjallaði auk þess m.a. um sendil, súlu og fýl, en síðastnefndi er ekki mávategund þó svo að flestir teldu svo vera. Í Eldey væri ein af stærstu súlubyggðum í heimi og sú stærsta hér við land. Þar væri fjöldinn orðin svo mikill að fáar fleiri kæmust þar að.
Þá fjallaði Gunnar Þór um tófuna og tilvist hennar á Skaganum, ekki síst til að stemma stigu við fjölda máva við flugbrautirnar á Miðnesheiði.
Frábært veður. Ferðin tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-Páll Einarsson, prófessor við HÍ.
-Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur.
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010.
-Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson, Íslenskar Orkurannsóknir, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík.

Eldey

Eldey.

Kría

Finnur Jónsson, náttúrfræðingur, fjallar um kríuna í Náttúrufræðingnum árið 1957:

Íslenzkir fuglar XIV – Kría (Sterna paradisaea)

Náttúrufræðingurinn 1957

Náttúrufræðingurinn 1957.

“Máfaættinni (Laridae) er venjulega skipt í tvær deildir, hina eiginlegu máfa (Larinae) og þernur (Sterninae). Þernur eru að ýmsu leyti frábrugðnar hinum eiginlegu máfum. Þær eru meðal annars miklu lágfættari og smáfættari en máfarnir, og nefið er oftast beint, þ.e. efri skoltur er aldrei krókboginn í oddinn, eins og á flestum máfum. Stélið er oftast klofið eða áberandi sýlt. Alls eru taldar 42 tegundir af þernum í heiminum, þar af eru 10 tegundir verpandi í Evrópu, en aðeins 1 tegund hér á landi, og er það krían. Önnur tegund hefur þó sézt og náðst hér í nokkur skipti síðustu árin, en það er sótþernan (Chlidonias niger).
Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar bar krían annað nafn en nú. Hún gekk þá undir nafninu þerna og hefur það nafn haldizt í örnefnum, eins og t. d. Þerney, Þernunes, Þernuvík og mörgum fleirum. Í öðrum norrænum málum hefur þernunafnið haldizt allt fram á þenna dag (sbr. tarna á sænsku, terne á norsku og dönsku og terna á færeysku), en Íslendingar hafa hins vegar varpað þessu forna nafni fyrir borð og tekið upp hljóðnefnið kría í staðinn. Kríunafnið virðist hafa verið orðið rótgróið hér á landi þegar á öndverðri 16. öld, en vel má vera, að það hafi verið orðið ríkjandi allmiklu fyrr.
Ég hef valið þann kost að takmarka kríunafnið við þá einu tegund, sem er varpfugl hér á landi, en kalla hinar tegundirnar þernur. Fullorðnar kríur vega 100—120 g. Krían er því fremur lítill fugl, en þar sem hún er bæði mjög vængjalöng og stéllöng og auk þess fiðurmikil, sýnist hún öllu stærri en hún í raun og veru er. Litarraunur eftir kynferði er enginn, en karlfuglar eru ívið stærri en kvenfuglar.

Finnur Guðmundsson

Finnur Guðmundsson, t.v.

Í sumarbúningi eru fullorðnar kríur ljóssteingráar með svarta hettu á höfðinu, og nær hún frá enni aftur á hnakka. Þær eru dekkstar á baki, herðum og vængjum, en ljósastar á kverk og næstum hvítar á vöngum, neðan við svörtu kollhettuna, og hvítar á yfirgumpi. Yfir- og undirstélþökur eru hvítar. Stélfjaðrirnar eru einnig hvítar nema 2—3 yztu fjaðrirnar hvorum megin, sem eru meira eða minna gráar á útfönum. Yzta handflugfjöður er næstum svört á útfön, og allar eru handflugfjaðrirnar meira eða minna hvítar á innfönum, en hvíti liturinn minnkar eftir því sem innar dregur.
Armflugfjaðrir eru hvítar í oddinn og næstum alhvítar á innfönum. Lengstu axlarfjaðrirnar eru hvítyddar. Nefið er blóðrautt, efri skoltur stundum grásvartur í bláoddinn. Fætur eru hárauðir, klær mósvartar. Lithimna augans er dökkbrún. — í vetrarbúningi er krían alhvít á hálsi, bringu og kviði. Ennfremur er hún hvít á enni og aftur fyrir augu, en mósvört á aftanverðum kolli og hnakka. Í kringum augun eru dökkar írur. Nef og fætur er hvort tveggja svart, stundum þó með dálítið rauðleítum blæ. Að öðru leyti er enginn munur á sumar- og vetrarbúningi.

Kría

Kríur.

Dúnungar eru gulbrúnir (stundum ljósgráir) að ofan með allþéttum, svörtum dílum eða flikrum. Á bringu og kviði eru þeir hvítir, en grásvartir á hálsi, kverk og kringum nefrót. Þó er oftast hvítur eða ljósleitur smáblettur á kverk við rót neðra skoks. Nefið er ljósrauðbleikt, svart í oddinn og með hvítan eggnadd. Fætur eru ljósrauðbleikir og klær grásvartar eða gráar. Á einstaka unga er nefið hvítgrátt og fætur næstum hvítir. — Fleygir ungar líkjast talsvert fullorðnum fuglum í vetrarbúningi, en axlar- og herðafjaðrir eru þó með dökk- eða gulbrúnum fjaðrajöðrum, og smáþökur á yfirvæng eru dökkgráar. Að neðan eru þeir líka oft með móleitum flikrum, einkum á kverk og hálsi. Ungarnir hafa að nokkru leyti búningaskipti á tímabilinu ágúst—nóvember, og líkjast eftir það enn meir fullorðnum fuglum í vetrarbúningi. Þessi búningaskipti ná þó ekki nema til nokkurs hluta af kroppfiðrinu, en á tímabilinu febrúar—júní skipta þeir alveg um búning og klæðast þá sumarbúningi. í þeim búningi er vart hægt að þekkja ungfuglana frá fullorðnum fuglum í vetrarbúningi. Þó eru smáþökur á yfirvæng dekkri og stélið yfirleitt styttra og margar stélfjaðranna meira eða minna gráar.

Kría

Kría.

Ekki er vitað með vissu, hvort krían klæðist búningi fullorðinna fugla þegar á 2. sumri, og það er heldur ekki vitað með vissu, hvenær hún verður kynþroska. Sumir ætla, að hún verði kynþroska ársgömul, en það getur varla verið rétt. Að vísu sjást stundum kríur með öllum einkennum ársgamalla fugla í kríuvörpum, en ólíklegt er, að þetta séu varpfuglar. Kríur á þessum aldri líkjast mjög fullorðnum fuglum í vetrarbúningi, eins og áður var getið, en í kríuvörpum verður auk þess stundum vart við kríur, sem eru með hvítt enni og skolrautt nef og fætur, en líkjast að öðru leyti fullorðnum kríum í sumarbúningi. Menn virðast almennt vera þeirrar skoðunar, að þetta séu einnig ársgamlar kríur, en þetta gætu líka verið tveggja ára kríur. Þeir, sem aðhyllast þá skoðun, að þetta séu ársgamlar kríur, halda því fram, að litur ársgamalla fugla, eftir að þeir hafa klæðzt 1. sumarbúningi, geti verið mjög breytilegur. Sumir séu eins á lit og fullorðnir fuglar í vetrarbúningi, aðrir eins og fullorðnir fuglar í sumarbúningi, og enn aðrir standi hvað lit snertir einhvers staðar þar á milli. Það er mjög vafasamt, hvort þetta er rétt. Að minnsta kosti er sú skýring jafnlíkleg, að krían klæðist ekki búningi fullorðinna fugla og verði ekki kynþroska fyrr en hún er þriggja ára.

Kría

Kríur.

Krían er norrænn fugl og eru varpheimkynni hennar í íshafslöndum allt í kringum jörðina, svo og í nálægum löndum, er liggja að norðanverðu Atlantshafi og Kyrrahafi. í Evrópu ná varpheimkynni hennar suður til stranda Eystrasalts og Norðursjávar, og til Bretlandseyja og eyja við Bretagne-skaga í Frakklandi. Á austurströnd Ameríku er hún varpfugl suður til Massachusetts og á vesturströndinni suður til Brezku Kólúmbíu. Á austurströnd Síbiríu er krían varpfugl suður að Okotska-hafi og nokkuð suður með ströndum þess að vestan, en á Kamtsjatkaskaga er hún ekki varpfugl svo vitað sé.

Kría

Kría.

Kríur við norðanvert Atlantshaf, bæði austan hafs og vestan, og ennfremur kríur nálægra íshafslanda, halda á haustin suður með vesturströndum Evrópu og Afríku og alla leið til syðsta hluta Atlantshafsins eða Suður-íshafsins. Það er athyglisvert í þessu sambandi, að kríur frá Grænlandi og öðrum austlægum löndum Norður-Ameríku, skuli fyrst halda þvert yfir Atlantshafið til Evrópu og síðan suður með vesturströndum Afríku, í stað þess að fara suður með austurströnd Ameríku. Skýringin á þessu fyrirbæri er eflaust sú, að með því að haga ferðum sínum þannig fara þær um hafsvæði með tiltölulega köldum og átuauðugum straumum og tryggja sér þar með betri lífsskilyrði en ef þær færu suður með austurströnd Ameríku, þar sem heitir og átusnauðir straumar eru ríkjandi. Kríur, sem byggja lönd við norðanvert Kyrrahaf (Beringshaf) og nálæg íshafslönd, halda á haustin suður með vesturströnd Ameríku og líklega alla leið suður fyrir syðsta odda Suður-Ameríku. Eins og kríur í Atlantshafi þræða þær tiltölulega kalda og átuauðuga hafstrauma á ferðum sínum.

Kríuegg

Kríuegg.

Syðst í Atlantshafinu og í Suður-íshafinu er sól og sumar, þegar vetur ríkir í hinum norðlægu varplöndum kríunnar. Þar morar sjór af átu, sem er undirstaða að fjölbreyttu æðra dýralífi, og þar unir krían hag sínum vel, unz liausta tekur á suðurhveli jarðar. Þá leggur hún aftur upp í hina löngu ferð til hinna norðlægu átthaga sinna og kemur þangað, einmitt þegar sumarið hefur haldið þar innreið sína. Krían býr því við eilíft sumar, en til þess að geta notið hinna góðu lífskjara, sem því eru samfara, þarf hún líka að leggja mikið á sig. Að því er bezt er vitað, er vegalengd sú, sem krían fer haust og vor, lengri en hjá nokkrum öðrum farfugli. Kríur hafa fundizt verpandi á 8214° n.br., þ.e. í aðeins 7 1/2° fjarlægð frá Norðurskautinu, en á suðurhvelssumri hafa kríur fundizt gerjandi í átu við strendur Suðurskautslandsins í kringum Weddellflóa. Endurheimtar, merktar kríur sýna líka á ótvíræðan hátt, að það eru engar smáræðis vegalengdir, sem krían fer í þessum árstíðabundnu ferðum sínum. Metið á kríuungi, sem var merktur í júlí 1951 við Diskóflóa á vesturströnd Grænlands og náðist aftur í október sama ár hjá Durban á austurströnd Suður-Afríku, en sá staður er í 18000 km fjarlægð frá merkingarstaðnum.

Kría

Kría.

Hér á landi er krían ákaflega algengur fugl. Hún er algengust við sjávarsíðuna, þar sem hún verpur í smáum og stórum byggðum á strandlengjunni sjálfri eða í eyjum og skerjum með ströndum fram allt í kringum land. En hún verpur líka við ár og vötn langt uppi í landi, jafnvel uppi á heiðum og í sumum af gróðurverum Miðhálendisins. Meðal annars verpa kríur við vötn eða í vatnahólmum á Arnarvatnsheiði, og svolítill slæðingur af kríu verpur í gæsabyggðunum í Þjórsárverum við Hofsjökul. Við Mývatn verpur talsvert af kríu í smáhólmum í vatninu, en mikil kríuvörp eru þar hvergi. í Breiðafjarðareyjum eru víða mikil kríuvörp og í Grímsey (Eyf.) er mjög mikið kríuvarp. Aftur á móti verpa kríur ekki í Vestmannaeyjum nema aðeins eitt eða örfá pör öðru hvoru, Kríuvörpin eru mjög mismunandi að stærð. Fyrir kemur, að eitt og eitt par verpi alveg út af fyrir sig, en það er fremur sjaldgæft. Í smæstu kríuvörpunum skipta varppörin tugum eða hundruðum, í miðlungsvörpunum skipta þau þúsundum, og í stærstu vörpunum geta þau verið tíu þúsund eða þar yfir. Yfirleitt virðist svo sem stærstu kríuvörpin hér séu á annesjum og í úteyjum eða að minnsta kosti fyrir opnu hafi.

Kría

Kría og ungi.

Yzt á Reykjanesskaganum, milli Reykjaness og Hafna, og yzt á Snæfellsnesi, eru t. d. mjög mikil kríuvörp, og áður hefur verið minnzt á hið mikla kríuvarp í Grímsey (Eyf.). Eigi að síður eru víða allmikil kríuvörp innfjarða og þá helzt í eyjum eða skerjum. Við ár og vötn upp til landsins eru hvergi eins stór kríuvörp og við ströndina. Einstætt er kríuvarpið í hólmanum í Reykjavíkurtjörn, en Reykjavík er áreiðanlega eina höfuðborgin og að öllum líkindum eina borgin í heiminum, sem státað getur af kríuvarpi í miðbænum.

Kría

Kríuungi.

Erlendis verpa oft fleiri þernutegundir saman í byggðum. Hér kemur þetta auðvitað ekki til greina, þar sem aðeins ein þernutegund, krían, er varpfugl hér á landi. Hins vegar eru allmörg dæmi þess, að hettumáfar hafi tekið að verpa hér í kríubyggðum, einkum í hólmum og skerjum með ströndum fram eða í vötnum. Getur þetta leitt til nokurra átaka um varplandið, og þar stendur hettumáfurinn yfirleitt betur að vígi en krían, því að hann verpur mun fyrr. Ekki er mér kunnugt um, að hettumáfurinn hafi samt nokkurs staðar bolað kríunni burtu með öllu. Þá er það og allalgengt, að kríur verpi hér í hólmum og skerjum, þar sem æðarvarp er. Er það yfirleitt talið til bóta, þar sem krían verji varpið fyrir vargi. Flestir munu kannast við það, hve herskáar kríur eru um varptímann, ef óboðnir gestir koma í varplönd þeirra. Gera þær aðsúg að slíkum friðarspillum, hvort sem um er að ræða fuglvarg, menn eða skepnur, og reyna að hrekja þá úr varpinu. Beita þær óspart hvössu og beittu nefinu í þessu skyni. Enda þótt mörg kríuvörp hér á landi séu eflaust mjög gömul, er þó ekki ótítt, að vörp líði undir lok og til nýrra sé stofnað. Orsakir að þessu geta verið hinar margvíslegustu, og skal ekki fjölyrt um það hér. Þó má geta þess, að skefjalaus eggjataka mörg ár í röð getur leitt til þess, að krían færi sig um set, yfirgefi gamla varplandið og stofni til nýs varps einhvers staðar í grennd. Ýmsar aðrar orsakir geta og valdið eyðingu varpa, m.a. breytingar á fiskgöngum og átugengd, breytingar á varplandinu sjálfu o.s.frv.

Kría

Kríuungi.

Varpkjörlendi kríunnar getur verið ákaflega margbreytilegt, en hún forðast þó jafnan staði, þar sem gróður er mikill. Þetta stafar af því, að hún er svo fótsmá, að hún á erfitt með að sitja þar sem gróður er þéttur og þroskamikill. Við sjó verpur hún helzt á grundum eða í móum með kyrkingslegum gróðri, en auk þess oft á hálfgrónum melum, í sand- eða malarfjörum og í þarahrönnum. Þar að auki verpur hún víða í hálfgrónum hraunum, á söndum, á áreyrum og í mýrum.

Kría

Kría við Knarrarnes.

Einhver einkennilegasti kríuvarpstaður, sem ég þekki, er í skógivöxnum smáhólma í Sandvatni í Mývatnssveit. Þar verpur slæðingur af kríum og hettumáfum á skógarsverðinum inn á milli trjánna. Krían verpur aldrei eins þétt og sumar erlendar þernutegundir, sem oft verpa í svo þéttum hnapp, að sáralítið bil verður milli hreiðranna. Í kríuvörpum verpa fuglarnir yfirleitt alldreift, að minnsta kosti þar sem landrými er nóg, og jafnvel í þéttustu vörpunum mun fremur sjaldgæft, að minna en 2 m bil sé milli hreiðranna. Hreiðurgerð kríunnar er mjög óbrotin. Hreiðrið er aðeins grunn laut, oft án nokkurra hreiðurefna, en oft líka losaralega fóðruð með svolitlu af stráum og mosa eða steinvölum og skeljabrotum. Eggin eru 1—3, hér á landi langoftast 1—2, en sjaldan 3. Hreiður með 2 eggjum eru algengust, en ungir fuglar, sem eru að byrja að verpa, eiga oftast aðeins 1 egg, og í eftirvarpi er tíðast, að eggið sé aðeins 1. Eggin eru ljósgrá, grágræn eða grábrún með dökkbrúnum blettum og dílum, sem stundum renna saman í stærri skellur eða mynda hring í kringum gildari enda eggsins eða þvert yfir mitt eggið. Afbrigðilega lit egg eru vel þekkt. Stundum eru þau hvít eða ljósblá, einlit eða með strjálum, brúnum dílum. Útungun eggjanna tekur um 3 vikur (21—22 daga), og ungarnir verða fleygir, þegar þeir eru 3—4 vikna gamlir. Bæði kynin taka þátt í útungun eggjanna og öflun fæðu handa ungunum, en þeir yfirgefa hreiðrið skömmu eftir að þeir koma úr eggi.

Kría

Kría á hreiðri.

Hér á landi er krían algerður farfugl. Á vorin kemur hún fyrri helming maímánaðar og er víðast alkomin um 14 maí. Á Suðausturlandi fer stundum að verða vart við fyrstu kríurnar síðustu dagana í apríl og sum ár jafnsnemma á Norðausturlandi. Á vestanverðu landinu er hún yfirleitt seinna á ferðinni, og á Vestfjörðum kemur hún stundum ekki fyrr en um 20. maí. Aðalvarptíminn er fyrri helming júnímánaðar.

Kría

Kría.

Tíðarfar getur valdið miklu um það, hvenær varpið hefst, og ýmis önnur staðbundin, ytri skilyrði geta líka beint eða óbeint haft mikil áhrif á varptímann. Afleiðing af þessu verður sú, að það getur munað allmiklu, hvenær varpið hefst í einstökum vörpum, jafnvel þótt tiltölulega stutt sé á milli þeirra. Á stöku stað hefst varpið stundum seint í maí, ef tíð er hagstæð, en á öðrum stöðum getur það dregist þangað til síðari hluta júní. Algengast mun þó vera, að varpið hefjist ekki fyrir alvöru fyrr en um viku af júní, og það stendur venjulega sem hæst um eða upp úr miðjum júní. Oft misferst allmikið af eggjum, og auk þess eru eggin víða tekin, og leiðir það til þess, að fuglinn verpur aftur, jafnvel oftar en einu sinni, og í mörgum vörpum má því finna óunguð egg alveg fram í júlílok, auk unga á ýmsum aldri. Ungarnir drepast oft unnvörpum, einkum nýklaktir ungar og ungar, sem eru um það bil að verða fleygir. Aðalorsakir að ungadauðanum munu vera átuskortur og köld og vætusöm tíð, en margt fleira kemur hér einnig til greina. Sum ár kveður svo rammt að ungadauðanum, að aðeins fáir ungar komast á legg í stórum vörpum.
Það má teljast nokkurn veginn öruggt, að hér fari fyrstu kríurnar að leita til hafs og suður á bóginn þegar upp úr miðjum júlí. Ágúst er þó aðalbrottfarartími kríunnar hér og um mánaðamótin ágúst-september er krían að mestu farin og vörpin auð og yfirgefin. Framan af september er þó enn strjálingur af kríu með ströndum fram, og einstaka eftirlegukindur sjást stundum fram í byrjun október.

Kría

Kría og ungi.

Hér að framan hefur þegar verið rætt um ferðir og vetrarheimkynni kríunnar og má telja víst, að það, sem þar var sagt, gildi einnig um íslenzkar kríur. Að vísu hafa aðeins tvær merktar, íslenzkar kríur náðst erlendis. Önnur þeirra náðist við strönd Belgíu að vorlagi, og hefur hún því verið á norðurleið, en hin náðist í september í Nígeríu á vesturströnd Afríku, og hefur hún bersýnilega verið á suðurleið.

Kría

Kría.

Sú síðarnefnda hafði verið merkt ungi á Grímsstöðum við Mývatn, og var hún 21 árs gömul, þegar hún náðist. Aftur á móti hafa um 50 merktar, íslenzkar kríur náðst einu eða fleiri árum eftir merkingu á sama stað og þær voru merktar. Þessar endurheimtur bera glöggt vitni um átthagatryggð kríunnar og veita auk þess nokkra vitneskju um, live gömul liún getur orðið. Af 30 kríum, sem merktar voru fnllorðnar og hafa síðan náðst á sama stað og þær voru merktar, náðust 12 einu ári eftir merkingu, 8 tveimur árum eftir merkingu, 4 þremur árum eftir merkingu, 1 sjö árum eftir merkingu, 3 átta árum eftir merkingu, 1 tólf árum eftir merkingu og 1 fimmtán árum eftir merkingu. Af 19 kríum, sem merktar voru ungar og hafa síðan náðst á sama stað og þær voru merktar, voru 3 þriggja ára, 1 fjögurra ára, 3 fimm ára, 2 sex ára, 1 sjö ára, 3 tíu ára, 1 ellefu ára, 2 fjórtán ára, 2 átján ára og 1 tuttugu og fimm ára.

Kría

Kría og ungi.

Bæði innlendu og erlendu endurheimturnar sýna, að kríur geta náð allháum aldri, ef slys eða sjúkdómar verða þeim ekki að aldurtila. Það er athyglisvert í sambandi við innlendu endurheimturnar, að 2/3 af þeim endurheimtu kríum, sem merktar voru fullorðnar, hafa náðst einu eða tveimur árum eftir merkingu, en af þeim endurheimtu kríum, sem merktar voru ungar, hafa engar náðst fyrstu tvö árin eftir merkingu. Þetta bendir ótvírætt til þess, að krían verði ekki kynþroska fyrr en hún er þriggja ára. Að öllum líkindum dvelst meginhlutinn af ársgömlum og tvegja ára kríum sumarlangt á hafi úti. Þó má telja líklegt, að þær leiti lengra eða skemmra norður á bóginn, þegar vora tekur á norðurhveli jarðar, enda þótt þær leiti ekki til lands á æskustöðvum sínum nema að litlu leyti.

Kría

Kría og ungi.

Ársgamlar kríur eru auðþekktar á því, að þær líkjast fullorðnum kríum í vetrarbúningi, þ. e. þær eru að mestu hvítar að neðan, hvítar á enni og með svart nef og fætur. Hópa af slíkum kríum hef ég séð í júní og júlí í grennd við kríuvörp á suðurströnd Íslands, einkum í grennd við ósa stóránna þar. Þær sátu venjulega í þéttum hnapp í útjöðrum kríubyggðanna eða í grennd við þær, flugu upp um leið og fullorðnu varpfuglarnir og gerjuðu yfir varplandinu innan um þá; en þegar fuglinn settist aftur, skildu þær sig frá fullorðnu fuglunum og settust einhvers staðar í hnapp út af fyrir sig. í öðrum landshlutum hefur einnig orðið vart við ársgamlar kríur í kríuvörpum, en aldrei nema einn og einn fugl. Ekkert bendir til þess, að þessir ársgömlu fuglar hafi nokkurn tíma orpið hér eða þeir séu yfirleitt kynþroska. Um tveggja ára kríur er miklu minna vitað, og stafar það einkum af því, að óvíst er talið, að hægt sé að þekkja þær frá eldri fuglum. Með tilliti til þess, sem vitað er um ársgömlu kríurnar, má þó ætla, að tveggja ára kríur leiti hér engu síður lands á sumrin en þær og jafnvel í enn ríkari mæli.

Kría

Kríur sækja í heitt malbikið. Aka þarf varlega við slíkar aðstæður.

Aðalfæða kríunnar eru smáfiskar og fiskseiði, ýmis lægri svifdýr (m. a. ljósáta), skordýr og skordýralirfur, og ormar (ánamaðkar). Af fiskum, sem krían sækir í sjó, má nefna sandsíli, loðnu, smásíld og ufsaseiði, en sjálfsagt tekur hún einnig seiði fleiri tegunda. Af fiskum í ósöltu vatni tekur krían mest af hornsílum, en hún tekur einnig silungs- og laxaseiði, þegar hún á þess kost. Kríur leita sér mjög oft ætis í ræktuðu landi, enda er skordýralíf þar oftast auðugra en víðast hvar annars staðar og meira um ánamaðka. Meðal annars sækja þær mjög í nýslegin tún og jafnvel garðlönd, enda eru skordýr, skordýralirfur og ánamaðkar eflaust mjög þýðingarmikill liður í fæðu þeirra hér á landi.
Þegar krían er í ætisleit, flýgur hún venjulega lágt og skimandi með samanlagt stél og veit nefið niður á við. Verði hún vör við eitthvað ætilegt staðnæmist hún á fluginu, breiðir úr stélinu og sveigir það niður á við og svífur andæfandi yfir staðnum, unz hún steypir sér með aðdregna vængi á bráðina og grípur hana með nefinu, oftast án þess að setjast. Stundum tekur hún líka skordýr á flugi, og auk þess er algengt, að hún steypi sér að nokkru eða öllu leyti á kaf í sjó eða vötn, ef hún nær ekki til bráðarinnar með öðru móti. Hins vegar setjast kríur sjaldan á sjó eða vatn nema til að baða sig. Þó geta þær synt, enda þótt þær geri það mjög sjaldan. Stálpaðir ungar forða sér þó oft á sundi. Í kríuvörpum gefst alloft tækifæri ti] að fylgjast með mjög einkennilegum þætti í háttalagi kríunnar. Hávaðinn í gargandi kríugerinu yfir varplandinu færist allt í einu í aukana, en síðan dettur skyndilega á dúnalogn og allur kríuskarinn sópast á svipstundu út á sjó, en kemur aftur eftir nokkrar sekúndur og tekur upp sína fyrri háttu. Enn sem komið er hefur ekki tekizt að skýra þetta einkennilega fyrirbæri á fullnægjandi hátt.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 01.01.1957, Íslenskir fuglar XIV; Kría – Finnur Guðmundsson, bls. 206-214.

Kría

Kría.