Í Morgunblaðinu 1986 er fjallað um “Landnema í íslenskri náttúru – 20 tegundir sjaldgæfra fugla hafa reynt varp á seinni árum” í tveimur greinum:
Fuglalíf er allmikið og fjörlegt hér á landi, einangrun landsins veldur því þó að tegundafæð er nokkur miðað við nágrannalöndin. Miklu væri Ísland fátækara án fugla sinna og má hafa af þeim hreina unun við hin ýmsu skilyrði og kringumstæður.
Landsmenn þekkja ákaflega misvel til íslenskra fuglategunda og þær njóta auk þess ákaflega misjafnra vinsælda. Það er ekki sama heiðlóa og veiðibjalla frekar en Jón og séra Jón. Það sýna dæmin, að fuglar geta verið geysivinsælir þótt fól og fjandar séu í eðli sínu, sbr. krummi gamli, en vandfundnir eru skemmtilegri fuglar hvað þá samviskulausari hreiðurræningjar og ungamorðingjar.
Flestar algengustu fuglategundir landsins munu þó ugglítið vera tiltölulega vel þekktar hjá öllum þorra landsmanna. En til er hópur fugla sem hefur á undanförnum árum verið að þreifa fyrir sér með varp hér á landi. Tegundir þessar hafa ekki náð fótfestu og alls ekki útséð um hvernig þau mál fara. Í sumum tilvikum virðist það næsta vonlítið, en í öðrum tilvikum virðast skilyrði vera fyrir hendi. Í síðarnefndu tilvikunum er spurningunni vandsvarað hvers vegna það gengur illa að hasla sér völl. „Þetta eru yfirleitt flækingsfuglar og það má segja að það detti úr þeim egg,” sagði Ævar Pedersen dýrafræðingur í samtali við Morgunblaðið um þetta mál. Yfirleitt er hér um spörfuglategundir að ræða, einnig fáeinar tegundir vaðfugla og andfugla. Skrítin nöfn eins og kolþerna og skógarsnípa ber á góma, en við skulum byrja yfirreiðina á spörfuglunum í þessum fyrri hluta, en í síðari hluta verður fjallað um dúfur, vaðfugla, andfugla, auk annars sem hér hefur uppi dagað.
Gráþröstur og svartþröstur
Frændurnir gráþröstur og svartþröstur eru návenslaðir skógarþrestinum okkar eina sanna og þeir hafa verið að þreifa fyrir sér hér á landi á seinni árum með varpi. Sérstaklega hefur gráþrösturinn virst ætla að ná fótfestu, en enn um sinn hefur það þó ekki tekist sem skyldi. Fuglar þessir eru auðþekktir, þrastarlagið leynir sér ekki og gráþrösturinn er greinilega grár að ofan og svartþrösturinn allur eins og nafnið gerir ráð fyrir. Þessir fuglar koma hér báðir á haustin frá heimkynnum sínum í Skandinavíu og yfirleitt fylgir varp því að óvenjulega margir einstaklingar hafí komið. Áraskipti eru að því hversu margir þessir þrestir eru.
Um 1950 kom mikið af gráþresti hingað til lands að vetri til og vorið eftir var enn talsvert af fugli sem hafði þraukað. Þá hófst varp nokkurra para á Akureyri og hélst það í nokkur ár og svo virtist sem lítill stofn ætlaði að ná þar fótfestu. En allt kom fyrir ekki. Um 1980 komu svo margir fuglar sömu tegundar að vetrarlagi og upp frá því hófst dálítið varp næstu þrjú árin, þá fundust hreiður bæði á Akureyri og á Selfossi. Mest var þá um gráþrestina á Húsavík, en einhverra hluta vegna varð ekki úr varpi þar eftir því sem menn komust næst.
Ævar fuglafræðingur telur að þessi fuglategund ætti að geta lifað við þær aðstæður sem Ísland býður upp á, en sá galli sé hins vegar á gjöf Njarðar, að komutími fuglanna ár hvert er það sem stendur í veginum, þ.e.a.s. mörg ár koma tiltölulega fáir fuglar og þeir sem koma verða að byrja á því að hjara yfir veturinn og það er ekkert auðhlaupið að slíku fyrir lítinn fugl. Margir falla ævinlega. Tilraunir svartþrastarins hafa ekki verið jafn þróttmiklar og hjá frændanum.
Þrisvar hefur svartþröstur vitanlega orpið hér á landi, í Reykjavík, í Skaftafelli og í Svínafelli, en báðir síðast nefndu staðirnir eru í Öræfasveit. Svartþrösturinn hefur það sérkenni fram yfir hina tvo, að hann verpir ævinlega í trjám. Svartþrösturinn er árviss gestur hér á landi eins og gráþrösturinn og eins og með hann, eru áraskipti að því hversu margir fuglar koma hvert haust. Svartþrösturinn virðist ekki eiga neitt verra með að lifa við íslenskar aðstæður en gráþrösturinn, en hvað veldur því að hann hefur ekki ílenst hér á landi? Gefum Ævari Pedersen orðið: „Þetta eru hvort tveggja tegundir sem hafa verið reglulegir vetrargestir í mörg hundruð ár og sennilega enn lengur. Þær hefðu átt að vera búnar að hasla sér völl skyldi maður ætla. En hvað veit maður? Það eru svo voðalega margir þættir sem geta spilað inn í.
Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að einhver fjöldi fugla reyni varp. Þetta atriði skiptir meira máli meðspörfugla heldur en t.d. vaðfugla, því þeir eru til muna skammlífari. Það var ansi mikil vantrú á kenningum hins breska David Beck rétt eftir árið 1950, er hann lýsti yfir að meðalaldur glóbrystings í Bretlandi væri aðeins hálft ár. Þetta hnekkti að miklu leyti þeirri trú fólks að smáfuglar gætu lifað árum saman, þó trúlega geti einstaklingar orðið mun eldri, e.t.v. nokkurra ára. Hver þekkir ekki þegar fólk talar um það ár eftir ár að „músarindillinn minn” eða „þrösturinn minn” sé nú kominn í garðinn? Þetta er ekki einhlítt, en í flestum slíkum tilfellum er hæpið að um sömu fugla sé að ræða. Þetta eru sem sagt skammlífir, en afar frjósamir fuglar sem geta orpið tvisvar til þrisvar á ári ef tíðin er góð. Örfá hreiður eða bara eitt, eru því ekki líklega ein sér til að koma af staðvarpi undir venjulegum kringumstæðum. Það þarf meira til.”
Fjallafinka
Fjallafinka heitir smáfugl af finkuætt sem reynt hefur varp hér á landi nokkrum sinnum. Lengi hefur tegundin verið all tíður gestur á haustin og fram eftir vetri. Þetta er lítið kríli, 15 sentimetrar á lengd að meðaltali, en til samanburðar má geta, að meðallengd músarindils er 12 sentimetrar og auðnutittlings 13 sentimetrar.
Það eru áraskipti að því hversu margar fjallafinkur koma hingað ár hvert og þær sem það gera eru taldar eiga uppruna að rekja til Skandinavíu þar sem þær eru algengir varpfuglar í furuskógum.
Hér á landi fundust fyrst hreiður fyrir um 10—12 árum og þá var um samfellt varp að ræða í nokkur ár, t.d. í Fljótshlíð. Síðan fjaraði varpið út, en aftur fór að bera á fjallafinkuvarpi rétt fyrir 1980 og aftur hófst samfellt varp sem stóð yfir í fáein ár. Fundust þá hreiður í Reykjavík, í Fljótshlíð og í Öræfasveit. Þetta voru fá hreiður.
Fjallafinkan hefur komið upp ungum á Íslandi og virðist ekki eiga erfitt uppdráttar. Ævar Pedersen fuglafræðingur telur að ein ástæðan sé sú að fjallafinkan sé frææta og eigi því meiri lífsmöguleika heldur en skordýra- og berjaætur. „Þessi tegund á möguleika á því að ílendast hér,” segir Ævar og getur þess einnig að hugsanleg skýring á því að tekið hafi að bera á fjallafinkuvarpi í vaxandi mæli á seinni árum kunni að vera vaxandi skógrækt sem skapi aukið kjörlendi fyrir þessa fuglategund.
Gráspörvar
Gráspörvavarp á Íslandi á sér nokkuð sérkennilegan aðdraganda og má segja að litlu hafi munað að þessi fugl ílentist hér á landi fyrir atbeina eins manns, en orðið undan að láta fyrir atbeina eins kattar. Gráspör er nokkur reglulegur vetrargestur hér á landi, kemur á haustin og dvelur yfir veturinn, en sjaldan eru fuglarnir margir.
Fyrir árið 1970 var þrívegis vitað um tilraunir gráspörva til varps, tvívegis í Reykjavík og einu sinni í Vestmannaeyjum. En undrið sem hlaut hinn sorglega endi byrjaði 1970.
Jón Helgason í Borgarfirði eystri tók þá nöndum tveim hóp af gráspörvum sem tóku sér vetrarbólfestu við hús hans. Jón gaf fuglunum, hlúði að þeím sem mest hann mátti, leyfði þeim m.a. afnot af skemmu sinni til að skýla sér í er veður gerðust köld og ströng. Fyrir vikið voru flestir fuglanna á lífi um vorið og svo vel hafði þeim líkað vistin að þeir ákváðu að fara hvergi, heldur hefja varp. Gerðist það nú, að næstu árin urpu gráspörvar við hús Jóns og þar í grennd og nutu verndar hans í hvívetna.
Fuglunum fjölgaði og eftir tíu ára varp voru í Borgarfirði nokkrir tugir fugla og árvisst og öruggt varp.
En allt í einu fóru þeir að tína tölunni og vissi enginn fyrst í stað hvað ylli því. Er allt var um seinan, komst upp um fuglaveiðar flækingskattar, en þá var aðeins einn kvenfugl eftir lifandi. Síðustu fregnir hermdu, að sá fugl hafi verið á lífi enn síðasta sumar, en einn síns liðs réttir hann ekki Borgarfjarðarstofninn við.
Atburðarásin í Borgarfirði var einstæð og athyglisverð, verk eins manns urðu næstum til þess að nýr og fastur varpfugl bættist í fuglafánu landsins. Árangur Jóns Helgasonar bendir til þess að endurtaka mætti tilraunina, næst er liðmargur flokkur gráspörva leitar til landsins frá vetrarhörkum í heimahögum.
Landsvala og bæjarsvala
Þetta eru algengir flækingsfuglar hér á landi og koma á vorin og sumrin gagnstætt þeim tegundum sem nefndar hafa verið. Í fljótu bragði mætti ætla að þær hefðu því frekar möguleika á því að ílendast, en svo mun vart vera. Landsvölur hafa á seinni árum reynt varp 10—15 sinnum og áreiðanlega hafa fuglarnir orpið nokkrum sinnum án þess að því hafi verið gefinn sérstakur gaumur. Bæjarsvöluhreiður hafa hins vegar aðeins fundist tvisvar síðustu árin í Vestmannaeyjum og í Sandgerði. Landsvalan hefur einni orpið nær eingöngu á Suður- og Suðvesturlandi.
Báðar tegundirnar hafa komið hér upp ungum. En hvers vegna er ólíklegt að tegundirnar geti fest rætur?
Ævar svarar: „Þessir fuglar lifa eingöngu á skordýrum sem þær veiða á flugi. Þær eru mikið á flugi og bruninn í líkamanum er því örari en ella. Stöðugt skordýralíf er því nauðsynlegt til þess að þessir fuglar geti lif að góðu lífi og í þeim umhleypingum sem hér geta verið að sumarlagi er slíkt alls ekki fyrir hendi. Það getur rignt dögum saman og blásið, þannig að skordýralífið liggur niðri, svölurnar geta þá ekki veitt og þær veslast upp.”
Hettusöngvari, seftittlingur og glóbrystingur
Hettusöngvari er lítill og fallegur spörfugl og hann er eigi ótíður haustgestur hér á landi. Laust eftir árið 1970 brá svo við að hettusöngvarapar var í garði í Reykjavík um varptíma og lét eins og hreiður væri á staðnum. Það fannst ekki en grunur leikur samt á því að um varp hafi verið að ræða. Talið er að þessí tegund geti lifað hér af veturinn og þá upp á náð mannsins komin með matargjafir.
Sömu söguna má segja um seftittlinginn, skv. fuglabók Landverndar er talið að þessi tegund hafi orpið í Kvískerjum í Öræfum vorið 1972 og komið upp ungum.
Glóbrystingsvarp hérlendis hefur verið óburðugt, tegundin sést hér oft á haustin og veturna, en fyrir 25—30 árum gerðist það að einn kvenfugl gerði sér hreiður í Hvalfirði og verpti, en ekkert varð úr þar sem karlfugl vantaði.
Dvergkráka
Það er kannski ekki rétt að hafa dvergkrákuna með, því vitanlega hefur hún ekki orpið á Íslandi. Á hinn bóginn „fylltist all” af dvergkrákum rétt fyrir árið 1980, „það kom meira af þessum fuglum en við vitum dæmi um áður”, sagði Ævar Pedersen. Þetta voru líklega hundruð fugla og sáust þeir víða á sunnanverðu landinu, ekki síst í Reykjavík þar sem þeir vöktu mikla athygli.
„Innrásin” var um haustið og margar krákur voru hér enn er tók að vora. Þær fóru að bera í hreiður, stífluðu m.a. skorstein í bænum, margir sáu þær fljúga út í Tjarnarhólmann og koma þaðan með nefin full af hreiðurefni sem þær svo flugu með á tilvalda staði.
Þrátt fyrir allt saman varð ekkert úr varpi og krákurnar smátýndu tölunni, hafa trúlega ýmist drepist eða horfið til síns heima. „Þetta er nær árviss gestur hér á landi og ein af þeim fuglategundum sem gæti allt í einu farið að verpa hér á landi,” segir Ævar.
Látum þessu svo lokið í bili, þetta yrði of langt mál ef allt kæmi á einu bretti, en það hefur e.t.v. vakið athygli lesenda að saga fuglanna er aðeins rakin til sumarsins 1985, en það er vegna þess að þetta sumar er alls ekki liðið þótt haustið sverfi óðfluga að og því eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi tilraunavarp fugla í sumar ef eitthvað hefur verið.
Hringdúfa og tyrkjadúfa
Þessar villtu dúfutegundir hafa báðar orpið hér á landi og komið upp ungum. Fyrir um 20 árum fannst hringdúfuhreiður í Svínafelli í Öræfum, en eggin voru ófrjó og varpið misfórst því. Vorið 1974 fannst svo hringdúfuhreiður í Reykjavík og gekk betur í það skiptið, ungar komust á legg.
Tegund þessi verpir um alla Mið- og Suður-Evrópu og einnig nokkuð í sunnanverðri Skandinavíu. Hún er farfugl heimkynnum sínum og er flækingur hér á landi. Fremur hæpið virðist að tegund þessi ílendist hér þó að hún kunni að geta lifað hér á sumrin.
Tyrkjadúfan er náskyld tegund, en hún hefur verið að breiðast út um alla Evrópu síðustu áratugina, varp áður einkum á Balkanskaga. Tyrkjadúfa sást fyrst á Íslandi árið 1968 og vorið 1970 fannst svo hreiður í Reykjavík og komu þar ungar úr eggjum.
Fyrir fáum árum sást svo tyrkjadúfa í Vesturbænum og var hún ein á ferð. Önnur settist um borð í fiskibáti úti fyrir ströndum landsins og var henni sleppt til þeirrar í Vesturbænum. Þar voru þær í um eitt og hálft ár án þess að til varps kæmi og lék grunur á að báðir fuglarnir væru karlkyns. Örlög þessara útvarða urðu þau, að hreinsunardeild Reykjavíkurborgar skaut þá eftir að kvartanir húsmæðra gerðust þrálátar en fuglar þessir voru bæði árrisulir og háværir. Ævar segir: „Tyrkjadúfan er enn að breiðast út, hún gæti alveg komið hingað til lands enn og numið hér land.”
Kolþerna
Eitthvert óvenjulegasta varp flækingsfugla hin síðari ár var er kolþernuhjón urpu í kríuvarpi skammt fyrir vestan vestustu hús Stokkseyrarþorps sumarið 1983. Hreiðrið fannst fyrst 16. júlí og voru tvö egg í því, töluvert stropuð.
Daginn eftir skoðuðu nokkrir fuglafróðir menn hreiðrið, en báða dagana sást aðeins ein kolþerna við hreiðrið. Ekki var vitjað um hreiðrið aftur fyrr en 21. júlí, en þá fannst ekkert við varpstaðinn, hvorki kolþernueggin né egg og ungar kría sem urpu þar í kring. Óveður með háum straum var nýafstaðið og lék grunur á því að allt varp á þessu svæði hefði orðið því að bráð. Við leit fundu athugunarmenn tvær kolþernur og vakti það athygli þeirra, að önnur þeirra virtist tilheyra bandaríska stofninum, en varpstöðvar hans vestra eru miklu mun sunnar á hnettinum en Ísland, t.d. má nefna Flórídaríki.
Það var álitið að þar hafi verið um karlfuglinn að ræða, en hinn fuglinn var erfiðara að ákvarða, því hann var farinn að missa sumarskrúðann. Var það fuglinn sem sást liggja á eggjunum fyrstu tvo dagana.
Kolþerna er heldur sjaldséður flækingur á Íslandi, aðeins 30 sinnum hefur fuglinn sést síðan að sú fyrsta sást árið 1949. í nokkrum tilvikum hefur verið um bandarísku deilitegundina að ræða og vita menn ekki til þess að sú tegund hafi sést annars staðar í Evrópu.
Þessi saga er ekki öll, því kolþernurnar voru mættar aftur til Stokkseyrar sumarið eftir og urpu þar aftur. Að þessu sinni skreið ungi úr eggi, en talið er að hann hafi drepist í óveðri sem gekk yfir nokkru síðar. Í fyrrasumar sáust engar kolþernur, varpið virðist liðið undir lok.
Vepja
Fugl þessi er náskyldur heiðlóunni, en varpheimkynni hans liggja yfirleitt sunnar en Ísland. Vepjan er tíður flækingur á Islandi og kemur hingað stundum í stórum hópum á haustin og veturna. Þegar slíkir hópar hafa komið, hefur stundum dregið til varps að vori og vepjan hefur orpið hér á landi nokkrum sinnum og ungar hafa komist á legg.
Fyrst er vitað til þess að vepja varp vorið 1959 og líklega komust 3 ungar á legg. 1963 verpti vepjupar í Kelduhverfi og komst einn ungi á legg að minnsta kosti. Árið eftir urpu vepjur í Eyjafirði og komust 3 ungar á legg. í 2—3 ár í kringum 1980 er talið að vepjur hafi orpið austur á Héraði, en hreiður fundust ekki. 1983 var örugglega vepjuvarp í Meðallandi. Glöggir menn sáu þá fimm vepjur snemma í júlímánuði og voru þrjár þeirra, augljóslega nýlega fleygir ungfuglar.
Tvær vepjur höfðu sést á þessum slóðum fyrst um miðjan apríl en ungarnir komu fyrst í Ieitirnar um mánaðamót júní og júlí. Í fyrrasumar er svo talið að vepjur hafi orpið. Tvö pör sáust snemma vors í Eyjafirði, en brátt hurfu tveir fuglar og aðeins tveir urðu eftir. Létu þeir í alla staði eins og varpfuglar væru á ferðinni, en eigi að síður fannst hreiðrið ekki. Það er því óvíst um afdrif þessa varps. Að sögn Ævars Pedersens tekur vepjan sig upp í heimahögum sínum er harðindi sverfa að og fer á flakk í fæðuleit. Því koma þær hingað svo að segja árlega og sem fyrr segir, stundum í stórum hópum. Hvort vepjan verður hér einhverntíma fastur varpfugl er ekkert hægt að segja, hana vantar að því er virðist herslumuninn.
Flóastelkur
Um 1960 urðu menn fyrst varir við flóastelk hér á landi að sumarlagi og lék fljótlega grunur á því að tegundin yrpi. Fuglarnir sáust eingöngu við Mývatn, en þó þeir létu „varplega” fundu menn hvorki hreiður eða unga enda slíkt ekkert grín. Það varð ekki fyrr en eftir 1980 að vissa fékkst fyrir varpi og er því talið að um varp hafi verið að ræða, a.m.k. síðan 1960. „Það er hægt að tala um afar lítinn íslenskan flóastelksstofn. Þeir hafa ekki sést á hverju ári, til dæmist sáust þeir ekki í fyrrasumar, en á hinn bóginn fer afar lítið fyrir þeim og svæðið sem þeir hafa sést á er stórt.
Það er auðvelt að ganga framhjá þeim. Auk þess þarf ekki endilega árvisst varp, þetta eru mun langlífari fuglar en spörfuglar og 1—2 pör geta viðhaldið svona smástofni þó ekki sé orpið á hverju ári,” segir Ævar um flóastelkinn.
Skógarsnípa
Egg eða ungar þessa fugls hafa ekki fundist, en í nokkra áratugi hefur menn grunað að þeir verpi hér, gefum Ævari orðið: „Karlfuglar skógarsnípu haga sér sérkennilega um varptímann og er þeir helga sér óðul á vorin. Þá fljúga þeirum syngjandi að næturþeli. Þetta hefur verið nokkuð árvisst fyrirbæri hér á landi á nokkrum stöðum síðustu áratugi, sérstaklega í Ásbyrgi þar sem varpkjörlendi sem hentar
þessum fugli er fyrir hendi.
Við Egilsstaði hefur þetta einnig borið við, t.d. sást til þriggja karlfugla leika þessar listir í fyrrasumar. Húsafellsskógur er þriðji staðurinn þar sem skógarsnípukarlar hafa sést leika listir sínar. Það er erfitt að finna hreiður og unga þessarar tegundar, sérstaklega þegar fuglafjöldinn er afar lítill og svæðið stórt, auk þess hefur ekki beinlínis verið kíkt eftir þeim. Þó mun hægt skv. framansögðu að tala um mjög lítinn íslenskan skógarsnípustofn og þess má geta, að þetta hefur verið árlegt fyrribæri allra síðustu árin.
Skutulönd
Þessi andartegund er afar fáliðuð á íslandi. Hreiður fannst fyrst 1954 og er hugsanlegt að tegundin hafi orpið þar síðan. Hvort það hafi verið árlegt varp er óvíst, því fá hreiður hafa fundist. Tegundin sést á Mývatni flest ár, aðallega á vorin og sumrin. Í Fuglabók AB er hún talin sjaldgæfur en öruggur varpfugl, en í Fuglabók Landverndar, sem er mun nýrra rit, er hún talin fastur sumargestur, en ekki nefnd í hópi varpanda. Ævar Pedersen sagði skutulandartilfellið vera svipað og með flóastelkinn í sömu sveit, fuglarnir væru fáir og hreiður afar vandfundin. Það væri hins vegar auðvelt að yfirsjást tegundina og hún sæist ef hennar væri leitað. „Þetta eru nokkur stykki,” sagði Ævar.
Helsingi
„Það er pínulítill varpstofn í Breiðafjarðareyju, en á þeim slóðum hafa þessir fugla orpið á seinni árum þó engin vissa sé fyrir þvi að varpið hafi verið árlegt. Sumarið 1983 fundust fimm hreiður, 1984 3 hreiður, en í fyrrasumar hins vegar ekkert.” Ævar sagði það enga sögu segja, því helsingjarnir færðu varpið til og frá um hinar mörgu Breiðafjarðareyjar og það gæti því hæglega hafa verið varp í fyrrasumar þó engin hreiður hafi fundist.
Heimkynni helsingja eru miklu norðar en Ísland, það er því spurning hvort hann sé ekki í hópi með fuglum eins og haftyrðli, snæuglu og þórshana, sem álitið er að fækki á Íslandi vegna þess að það sé ekki nógu kalt hér á landi!
Kanadagæs
Það gerðist sumarið 1984, að grágæsarkvendi eitt kom frá vetrarstöðvum sínum í Bretlandseyjum í fylgd karlfugls kanadagæsar. Þetta skrautlega par verpti austur á Héraði, en varpið misfórst.
Síðastliðið sumar var parið enn á ferð á sömu slóðum og komust fjórir ungar á legg. „Það er spurning hvort þessir ungar verða frjóir,” sagði Ævar Pedersen um fyrirbærið og bætti við að andfuglar væru allra fugla frjálslegastir í kynferðismálum. „Það eru allir með öllum og þetta eru oft svo skyldar tegundir að þær geta átt egg og unga saman,” bætti hann við. Ævar sagði ennfremur, að kanadagæsin hefði verið flutt til Bretlandseyja fyrir nokkrum árum og hefði henni fjölgað mikið og breiðst út. Hún hefur sést hér á landi nokkrum sinnum. „Þetta er tegund sem gæti farið að verpa hér á landi fyrirvaralaust,” sagði Ævar.
Bleshæna (eða blesönd)
„Það er ansi lang síðan að bleshæna reyndi hér varp, nokkrir áratugir, en síðasta sumar vorum við að vona að reynt yrði að nýju, þá var par í Húsavíkurhöfn mikinn hluta vetrar og fylgst var með fuglunum um vorið. Þeir fluttu sig á Víkingavatn í Kelduhverfi, þar sem bleshænur hafa einu sinni áður opið, en að þessu sinni varð ekkert úr varpi, fuglarnir voru á vatninu fram eftir sumri en hurfu svo. Bleshænan hefur þrívegis vitanlega reynt varp, hreiður hafa fundist í Borgarfirði, á Víkingavatni í Kelduhverfi og við Mývatn. Engir ungar hafa komist á legg. Þetta er algengur haust- og vetrargestur hér á landi, en virðist eiga erfitt uppdráttar er til lengdar lætur.”
Lokaorð
Það hefur verið ríkuleg áhersla á það lögð í þessari umfjöllun, að ekkert er hægt að tjá sig að gagni um horfurnar á því hvort einstakar tegundir sem nefndar hafa verið taki sig til og fjölgi sér og myndi stæðilegan varpstofn. Í nokkrum tilvikum virðist vera um reglulegt varp í afar smáum stíl, (helsingi, flóastelkur og líklega skógarsnípa), í öðrum tilvikum óreglulegt varp sem ræðst helst af fjölda flækingsfugla sem koma til landsins að hausti eða vetri og eru hér enn að bauka á vorin. Í þriðja lagi handahófskenndara varp sjaldgæfra flækinga eins og kolþernu og eru slík fyrirbæri kannski hvað skemmtilegust.
Í fjórða lagi tækifærisvarp vor- og sumargesta eins og landsvölu og bæjarsvölu. Tíminn einn ber svörin í skauti sér og takmarkalaus forvitni áhugamanna fær engu breytt.
Við verðum bara að bíða og sjá hvaða skrítnu gestir verpa næsta vor, og næsta vor og það næsta o.s.frv. Hver veit nema Ísland verði einni, fimm eða tíu varpfuglategundum ríkara um aldamótin. Og verða þá kannski einhverjar gamalgrónar horfnar? – gg.
Heimildir:
-Morgunblaðið, B-07.09.1986, Landnemar í íslenskri náttúru, grein 1 – 20 tegundir sjaldgæfra fugla hafa reynt varp á seinni árum, bls. 4-5.
-Morgunblaðið – B 14.09.1986, Landnemar í íslenskri náttúru, grein 1 – 20 tegundir sjaldgæfra fugla hafa reynt varp á seinni árum, bls. 16-17.