Hrossagauksungi var nýlega á vegi FERLIRs á einni göngunni. Vesalingurinn litli reyndi að dyljast fyrir manninum sem best hann gat inni á milli þúfnakolla, en það dugði ekki til. Sá var þó heppinn að verða á vegi FERLIRsfélaga því náttúrunnar börnum stafar engin hætta af slíkum mannana börnum.
Hrossagaukur (eða mýrarskítur, mýrifugl, mýriskítur, mýrisnípa, mýrispói eða mýrispýta) (fræðiheiti: Gallinago gallinago) er fugl af snípuætt.
Heimkynni hrossagauksins eru mýrar, fen, túndrur og votir hagar á Íslandi, Færeyjum, norður-Evrópu og Rússlandi. Hrossagaukurinn gerir hreiður sitt á huldum stað á jörðinni.
Hrossagaukurinn er mósvartur ofan með ryðlitum langröndum, grár á bringu og ljós á kviði, goggurinn langur og þykkri í endann. Hrossagaukurinn „hneggjar“, en hljóðið myndast milli stélfjaðra fuglsins á flugi, og myndast þegar fuglinn tekur dýfur í loftinu.
Mýri er landssvæði þar sem grunnvatnsstaða er há og jafnvel í yfirborði jarðvegsins. Gróður í mýrum er oft grófari og harðgerðari en í þurru landi, þar vaxa einkum starir og mosi. Allt að helmingur gróins lands á Íslandi er mýrlendi.
Freðmýri eða túndra er heiti á nyrsta gróðurbelti jarðar, þar sem sífreri er við -1°C. Þar er hiti of lágur og vaxtartími of stuttur til að tré geti dafnað. Orðið „túndra“ kemur úr samískri mállýsku og þýðir “trjálaus slétta”, en þó vaxa sums staðar tré í túndru. Mörkin á milli góðurbelta freðmýrar og skóglendis er kölluð trjálína (skógarmörk). Á túndru vaxa lágvaxnar jurtir eins og lágvaxnar víðitegundir, fjalldrapi, grös, starir, mosi og fléttur.
Frostið í freðmýrum getur mótað landslagið og lyft því upp og skapað freðmýrarfyrirbæri eins og rústir og melatígla.
Hreiður er bæli sem fuglar gera sér til að verpa eggjum í og unga þeim út. Hreiður geta verið mjög mismunandi, allt frá því að vera einungis dæld í sandi, fóðruð með örfáum stráum, að því að vera mjög flóknar samsetningar úr greinum, munnvatni og öðru. Á Íslensku er einnig talað um að mýs gera sér hreiður, sbr. músarhreiður.
Skömmu eftir aldamótin 1800 hófst deila á Íslandi um það hvernig hrossagaukurinn hneggjaði. Fram til þess tíma héldu menn að hneggið væri raddhljóð. En þá komu þýskir vísindamenn fram með þá kenningu að hrossagaukurinn hneggi með flugfjöðrunum. Þessari kenningu var síðan hrundið þegar færðar voru sönnur á að gaukurinn hneggjaði með stélfjöðrunum, þ.e. að loftstraumur lendi á milli stélfjaðra og þannig myndist hljóðið.
Þrátt fyrir allt framangreint komst FERLIR að raun um að hrossagauksunginn þessi átti þá einu lífsafkomu að halda kyrru fyrir og dyljast þegar maðurinn nálgaðist. Þjálfuð augu leitandans uppgötvaði þrátt fyrir það litla skinnið undir einum þúfnakollinum. Að kollaklappi og augngotum loknum fékk hann þó að sjálfsögðu að fara sína leið óhindrað.
Heimild:
-Wikipedia.org