Færslur

Þorbjarnastaðir

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum þar sem hann kemur út úr Kapelluhrauninu að vestanverðu og liðast í gegnum Selhraunið við tjarnirnar ofan við Straumsvík, neðan Gerðis.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjaarnarstaðir – brunnur.

Fallegar veghleðslur, sem enn hafa fengið að vera óhreyfðar, eru við veginn þar sem hann beygir niður með tjörnunum. Svipaðar hleðslur má einnig sjá með elsta hluta vegarins vestan Rauðamelsnámunnar í landi Óttarstaða. Ætlunin var að fylgja að mestu Alfaraleiðinni áleiðis að Lónakotsmörkum, en skoða þó hinar ýmsu minjar, sem eru beggja vegna hennar á þeiri leið.
Tóftir bæjar og útihúsa eru í Gerði. Þar er nú aðstaða Starfsmannafélags Ísals í uppgerðu húsi. Fallegar hleðslur eru með tjarnarbakkanum að norðvestanverðu. Álverið hefur nýlega keypt megnið af landinu ofan við sjálft sig, bæði af Skógrækt ríkisins og Hafnarfjarðarbæ, sem reyndar verður að telja mikil mistök af hálfu þess síðarnefnda.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Við bakkana má t.d. sjá hlaðin byrgi veiðimanna við tjarnirnar, hlaðin gerði til ullarþvotta, bryggju til slíkra verka og þar má einnig sjá hvernig ferskvatnið streymir undan hrauninu. Sagt er að Kaldá komi þarna upp, en hvað sem því líður er jafnan stöðugt rennsli ferskvatns á þessum stað. Bændur á Þorbjarnarstöðum sóttu vatn í “leysingarnarvatnið” og nýttu það til ýmissa nota. Á bökkum tjarnanna að vestanverðu má sjá tóftir útihúsa og hlaðna garða er mynda gerði.

Vörslugarðurinn um Þorbjarnastaði er tvöfaldur. Líklegt má telja að hann hafi verið hlaðinn vegna nægilegs framboðs af grjóti er verið var að rækta túnin, til að nýta til fjárrekstrar af heimatúninu í réttina norðan við túnin eða til að stækka hið ræktaða svæði með tilkomu girðinga.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnarstaðir fóru í eyði árið 1930, en þar hafði áður búið Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi og Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, bónda og hreppsstjóra á Setbergi, Jónssonar hins fjárglögga frá Geysi í Haukadal (Tortu og Helludal), fyrrum Áslákssstöðum á Skeiðum. Ein dóttirin bjó í Urriðakoti.
Börn Þorbjarnastaðahjónanna voru ellefu að tölu. Eitt þeirra var Ingveldur Þorkelsdóttir, húsfreyja í Teigi í Grindavík, mikil öndvegiskona líkt og annað það fólk er hún átti kyn til. Þorbjarnastaðabörnin hlóðu m.a. Þorbjarnastaðaborgina undir Brunntorfum og stendur enn, heil að mestu.

Ofan við Alfaraleiðina, ofan Þorbjarnastaða, er réttin. Hún er nokkuð heilleg. Þorbjarnastaðir notuðu, auk hennar, bæði heimaréttina, norðan vörslugarðsins, sem og vorréttina skammt norðaustar, undir vesturbrún Kapelluhrauns.

Vorrétt

Vorréttin.

Hún stendur enn og er nokkuð heilleg. Þessi rétt er með tveimur dilkum, líklega fyrir sauði, enda að mestu verið notuð sem rúningsrétt. Þá er og líklegt, miðað við mannvirkin, að hún hafi verið notuð sem stekkur og fráfærurétt um tíma. Ofar er nátthagi og styrkir það því þá tilgátu.

Miðmundarholt (-hóll), er skammt vestar. Á því er há og myndarleg varða, eyktarmark. Skammt vestan hennar eru gatnamót Alfaraleiðar og Straumsselsstígs. Sjást mótin vel, en þau eru ómerkt. Ofar má sjá vöru við selsstíginn, en handan hraunhryggs er hlaðið skjól við stíginn. Annars er selsstígurinn vel markaður í hraunið á kafla, einkum þar sem hann liggur um slétt ofanvert Selshraunið og hefur sameinast stígunum áleiðis upp í Gjásel og Fornasel, sem munu hafa verið sel frá Þorbjarnastöðum.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin – varða.

Nýlega var grafið í tóftir Fornasel og kom í ljós að þar reyndust vera minjar frá því á 14. eða 15. öld (BE).
Fallegar vörður varða Alfaraleiðina í gegnum tiltölulega slétt hraunið. Leiðin liggur framhjá Gvendarbrunni, vatnsstæði á tiltölulega sléttu hrauni, en norðvestan þess er hlesla fyrir fjárskjóli.
Þá liggur leiðin áfram til vesturs, um krókóttan stíg. Skammt vestan Gvendarbrunnsmá sjá móta fyrir tveimur föllnum vörðum, sem telja má að hafi verið nokkuð stórrará sínum tíma. Líklegt má telja að þær hafi haft ákveðin tilgang fyrrum, sem í dag verður að telja óljósan. Þær eru þó nálægt landamerkjum Óttarstaða og Straums.

Óttarsstaðaborg

Kristrúnarborg / Óttarsstaðaborg.

Skammt austan Smalaskálahæða er varða við Alfaraleiðina. Þar liggur Óttarstaðaselsstígurinn þvert á leiðina. Að þessu sinni var beygt til hægi og stígnum fylgt að Óttarstaðaborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundir Sveinssyni, um 1870. Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Í þeim vestanverðum var nýlega komið fyrir líki konu er myrt var í bæ Ingólfs, hins fyrsta skráða landnámsmanns á voru landi. Það mál upplýstist.
Gengð var til baka um gamla Keflavíkurveginn, framhjá Rauðamelsnámunum og að upphafsstað.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Tobba
Gengið var upp að Óttarsstaðaborg og um Smalaskálahæðir áleiðis upp í Brennisel. Á leiðinni var litið á Alfaraleiðina, skoðaðar leifar, sennilega kolasels, skammt norðvestan Brennisels og síðan haldið upp að Álfakirkju og skoðað fjárskjól þar undir kirkjunni; klofnum hraunkletti.
Óttarsstaðafjárborgin er heilleg. Hún hefur einnig verið nefnd Kristrúnarborg eftir samnefndri konu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hafði forgöngu um byggingu hennar um 1870.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Í Smalaskálahæðum eru sprungur. Ein þeirra kom við sögu í nýlegu sakamáli. Í hæðunum er falleg hraunskál með rauðamölshæð. Á henni var listaverk, sem nú er að mestu skemmt; Slunkaríki.
Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign. Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Þarna bjó fólk fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.
Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Brennisel

Brennisel – kolagröf fremst.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Í hrauninu sjást minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborgin og réttir. Í Almenningi eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt, frá 6. til 16. viku sumars.
Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort. Hér má sjá hverning hraunið mótaði umhverfi Hafnarfjarðar fyrir 5000 árum.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.
Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hellnahraun

Hraun í nágrenni Hafnarfjarðar.

Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.
Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Hin reglubundna dagskrá fór í gang á ný fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.
Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum.

Brennisel

Brennisel – skjól.

Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.
Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim.
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður. Án efa eru Hraunin mikils virði, þó ekki væri vegna annars en þess að þau eru rétt við þröskuldinn á höfuðborgarsvæðinu. Mörgum þætti ugglaust freistandi að byggja þar og má minna á, að í tímaritinu Arkitektúr verktækni og skipulag frá 1999, viðrar Gestur Ólafsson arkitekt hugmynd um samfellda borgarbyggð frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Með öðrum orðum: Höfuðborgarsvæðið verði í framtíðinni byggt á þann veginn í stað þess að teygja það upp á Kjalarnes.
Í landi Hafnarfjarðar er að finna mikla arfleifð gamalla bygginga og mannvistarleifa sem segja sögu bæjarins. Þessar minjar ber að varðveita fyrir komandi kynslóðir.

Álfakirkja

Fjárskjól undir Álfakirkju.

Upphaf náttúruverndar í Hafnarfirði má rekja til þess er málfundafélagið Magni fékk Hellisgerði til afnota árið 1922 og var tilgangur félagsins að koma í veg fyrir að sérkenni og tilbreytni frá náttúrunnar hendi hyrfi úr umhverfi byggðarinnar við mannvirkjagerð. Einnig var það markmið fyrstu skipulagsáætlunarinnar í bænum sem staðfest var árið 1933, að helstu einkennum hraunsins og fegurstu hraunborgunum skyldi lofað að standa án skemmda.
Mikið er af minjum í landi Hafnarfjarðar, rústum ýmis konar, gamlar alfaraleiðir, þurrabúðir, skreiðarklappir o.fl. Til þess að vernda þessar minjar þarf að hafa góða heildarsýn, hverju á að halda og hverju á að sleppa. Samkvæmt lögum teljast fornleifar hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Friðlýstar fornminjar í bæjarlandinu eru 16. Fornleifastofnun Íslands hefur útbúið skrá yfir fornleifar í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og fyrsti hluti þeirrar vinnu kom út árið 1998.

Straumssel

Straumssel.

Til þess að minjar í Hafnarfirði öðlist gildi fyrir almenning er nauðsynlegt að auka fræðslu og upplýsingar um einstaka staði og hluti af verndunarstarfi að kynna og fræða. Því er þörf á átaki í minjaskiltum, merkingu svæða og stikun þeirra. Sérstaklega á þetta við innan bæjarmarkana, því þar eru rústir víða án vitneskju bæjarbúa. Í dag er eitt minjaskilti í landi Hafnarfjarðar og er það við Krýsuvíkurkirkju.
Svonefnt Brennisel virðist hafa verið aðstaða til kolagerðar. Slík aðstaða hlýtur að hafa verið víða frá Hraunbæjunum því mikil hrístekja og skógarhögg hefur átt sér stað í grónum hraununum og uppi í Almenningum. Norðvestan við Brenniselið má slá leifar af annarri svipaðri aðstöðu. Í hraunbollanum þar sem selið er, er tóft, nú þakin runnum. Skammt utar, í norðaustur, er hlaðið fyrir skúta; gæti verið fjárskjól.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem saman var tekin 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á Almenningum. Skiptin er þannig eftir hreppum: “Grindavíkurhreppur 7 jarðir, Rosmhvalaneshreppur 24 jarðir, Vatnsleysustrandarhreppur 20 jarðir, Álftaneshreppur 21 jörð og Seltjarnarneshreppur 5 jarðir.
Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með Almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Nokkrar jarðir hafa ennþá haft skógarhögg á heimajörð og eru þessar nefndar.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Krýsuvík, heimaskógur lítill, Hvassahraun, hrísrif á heimalandi og einnig notað í heyskorti. Lónakot á Álftanesi, skógur að mestu eyddur, en notaður jafnvel fyrir nautpening. Hvaleyri, að mestu eytt. Setberg, hefur átt skóga til forna. Garðar á Álftanesi á skóg og tekur mjög að eyðast. Vífilsstaðir, skóg hefur jörðin átt og er hann nú eyddur svo mjög að kolagerð minnkaði um fjórar tunnur. Hólmur, skóg hefur jörðin átt, sem nú er aldeilis eyddur. Jörðin Reykjavík átti þá sel undir Undirhlíðum norðan við Kleifarvatn, þar var hrísrif til nota fyrir selið.”
Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir.
Í gegnum þessi skrif má lesa, að menn hafa gert sér grein fyrir því, að skógarnir eyddust, en annað var ekki tiltækt til kolagerðar og eldiviðar.
Gengið var upp að Álfakirkju. “Kirkjan” er klofinn hraunhóll. Undir honum er fjárskjól. Hlaðið er upp í lárétta sprungu í hólnum. Inni er rúmgott skjól, sem virðist hafa verið mikið notað. Páfakjör kaþólikka fór fram um svipað leyti og gangan. Minnti hraunhóllinn óneitanlega á Sixtusarkapelluna í Róm þótt enginn væri reykurinn.

Smalaskjól

Smalaskjól við Smalaskálahæð.

Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin. Í Straumsseli og Óttarsstaðaseli voru brunnar.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu oft einmanalegt og erfitt starf.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986.

Heimildir m.a.:
-http://www.simnet.is/annalar/hvassahraun/temp5-gudmundur-hvassahraun.htm
-http://www.hafnarfjordur.is/hafnarfjordur/skipulag_og_framkvaemdir/stadardagskra/

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Kristrúnarborg

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2017 fjallar Jónatan Garðarsson um “Kristrúnarborg og konuna á bak við borgina“:

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðarsson.

“Hún var frá Miðfelli í Þingvallasveit. Hún hlóð ásamt bróður sínum stóra fjárborg, missti mann sinn úr holdsveiki frá ungum syni, tók formannssæti hans á fiskifari heimilisins, sótti sjóinn ásamt vinnumönnum sínum, var órög við að sækja á djúpmið og stjórnaði hásetum sínum af myndugleik. Hún hét Kristrún og bjó á Óttarsstöðum í Hraununum.
Fjárborgir er víða að finna á Reykjanesskaganum og víðar og vitna um gott verklag og hyggjuvit þeirra sem hlóðu þær. Flestar borgirnar eru kenndar við þá bæi sem þær tilheyrðu, en ein fjárborg er kennd við konu og nefnd Kristrúnarfjárborg. Þessi fjárborg stendur á nokkuð sléttum hraunhrygg skammt vestan við Smalaskála í Hraunum sunnan við Straumsvík. Fjárborgin er allt eins nefnd Óttarsstaðafjárborg, en Kristrúnarborg er það nafn sem staðkunnugir notast jafnan við.
Konan sem fjárborgin er nefnd eftir hét Kristrún og var Sveinsdóttir en hún kom upphaflega sem vinnukona að Óttarsstöðum frá Miðfelli í Þingvallasveit og varð húsmóðir á bænum. Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði og örnefnasafnari segir frá því í örnefnaskrá sinni að Kristrún hafi hlaðið borgina ásamt vinnumanni sínum.
Það er rétt að huga aðeins nánar að því hver þessi kona var og hvernig stóð á því að hún settist að á Óttarsstöðum. En fyrst þarf að greina frá því hvernig málum á þessum slóðum var háttað áður en Kristrún kom til sögunnar.

Jón Hjörtsson
Óttarsstaðir
Þannig var að Jón Hjörtsson var leiguliði á Óttarsstöðum árið 1835, þá orðinn 59 ára gamall. Hann stundaði talsverða útgerð enda fiskveiðar góðar á þessum slóðum. Eiginkona Jóns var Guðrún Jónsdóttir, sem var 68 ára, og því nærri áratug eldri en eiginmaðurinn eins og algengt var á þessum tíma.
Rannveig dóttir þeirra hjóna var þrítug og bjó hjá þeim ásamt syni sínum Steindóri Sveinssyni, sem var tíu ára gamall. Vinnumaður á bænum var Guðlaugur Erlendsson, 39 ára gamall og Sigvaldi Árnason 43 ára tómthúsmaður, bjó einnig á Óttarsstöðum ásamt Katrínu Þórðardóttur 53 ára eiginkonu sinni.
Jón Hjörtsson keypti hálfa Óttarsstaðajörðina af konungssjóði 28. ágúst 1839 en hinn hlutann ásamt Óttarsstaðakoti keypti Guðmundur Guðmundsson í Straumsseli. Guðmundur var umsvifamikill á þessum tíma og eignaðist smám saman jarðirnar Stóra Lambhaga, Straum og Þorbjarnarstaði. Jón Hjörtsson og Guðrún stofnuðu til nýrrar hjáleigu í landi sínu fyrir 1850, sem fékk nafnið Kolbeinskot. Nafnið tengdist ábúandanum Kolbeini Jónssyni, sem var 34 ára árið 1850 og eiginkonan Halldóra Hildibrandsdóttir 40 ára. Þau áttu börnin Oddbjörgu 6 ára, Jón 2 ára og Hildibrand sem var eins árs.
Eyðikot
Fyrstu árin reyndu þau venjubundinn búskap, en túnin sem Kolbeinskot hafði til umráða voru ekki mikil, jafnvel þó að þau gætu slegið Kotabótina og beitt skepnum sínum á fjöru á vetrum og úthagann á sumrin. Veturinn 1859-60 reri Sighvatur Jónsson, sem kallaður var Borgfirðingur, á skipi Kolbeins og hafði fjölskyldan viðurværi sitt einvörðungu af fiskveiðum húsbóndans. Um þessar mundir bættist dóttirin Guðbjörg í barnahópinn og vegnaði fjölskyldunni ágætlega enda nóg að bíta og brenna. Árið 1890 þegar Kolbeinn var á 75. aldursári, en Halldóra að verða áttræð, bjuggu þau í Óttarsstaðakoti ásamt Jóni Bergsteinssyni, 14 ára dóttursyni sínum.

Kristrún kemur
Óttarsstaðir
Árið 1855 lést Guðrún Jónsdóttir húsmóðir á Óttarsstöðum, 88 ára gömul, en Jón Hjörtsson lifði konu sína, orðinn 79 ára gamall. Hann bjó á Óttarsstöðum í sambýli við Rannveigu dóttur sína og Steindórson hennar sem var 31 árs og einhleypur. Hann var í raun réttri húsráðandi og bóndi á bænum á þessum tíma. Steindór festi ekki ráð sitt fyrr en fimm árum seinna, en þá hafði vinnukonan Kristrún Sveinsdóttir verið á bænum um skeið. Kristrún fæddist 24. apríl 1832 að Miðfelli í Þingvallasveit. Hún var dóttir Sveins bónda Guðmundssonar og konu hans Þórunnar Eyleifsdóttur sem bjuggu að Miðfelli. Kristrún hafði orð á sér fyrir að vera tápmikil kona og eftirtektarverð. Hún kom að Óttarsstöðum ásamt Bergsteini bróður sínum, sem var einu ári eldri en hún, og var vinnumaður á bænum. Systkinin voru annálaðir dugnaðarforkar. Nokkru áður en þau komu að Óttarsstöðum hafði allt sauðfé verið skorið niður á suðvesturhorni landsins vegna fjárkláða. Bændur þurftu að koma sér upp nýjum fjárstofni og fengu sauðfé frá Norðurlandi sem var ekki hagvant í hraunlandslagi. Venja þurfti féð við nýju heimkynnin og þessvegna þótti skynsamlegt að breyta aðeins um búskaparhætti og hafa féð nær bæjum en áður hafði tíðkast. Um þessar mundir hættu margir bændur að færa frá í sama mæli og áður og selfarir lögðust af að miklu leyti og smám saman fóru selin í eyði.

Fjárborgin
Kristrúnarborg
Þegar fjárskiptin stóðu fyrir dyrum hófu menn víðsvegar á Suðurnesjum að hlaða upp hringlaga fjárborgir og var ein slík gerð í landi Óttarsstaða. Borginni var fundinn staður skammt vestur af Smalaskálahæð á sléttum hraunhól. Kristrún stjórnaði hleðslu fjárborgarinnar og tók virkan þátt í að koma henni upp, eða vann þetta að mestu ein ásamt vinnumanni sínum, samkvæmt því sem Gísli Sigurðsson komst næst, er hann safnaði upplýsingum um örnefni í landi Óttarsstaða. Alla vega fór það svo að fjárborgin var ætíð eftir það við hana kennd og kölluð Kristrúnarborg. Kristrún vann ekki ein að þessu því Bergsteinn bróðir hennar lagði drjúga hönd að verkinu, en þau voru vön að hlaða garða úr hraungrjóti sem nóg er af í Þingvallasveit. Hvort það var þessi atorka og verkkunnátta sem varð til þess að Steindór bóndi á Óttarstöðum heillaðist af Kristrúnu er ekki gott að fullyrða, en allavega fór það svo að þau gengu í hjónaband 9. október 1860. Hann var 36 ára en hún var 28 ára gömul þegar stofnað var til hjónabandsins.

Holdsveikin

Eyðikot

Óttarsstaðagerði.

Steindór var dugmikill bóndi og formaður sem aflaði vel og var ágætlega efnum búinn. Hjónabandið virðist hafa verið farsælt, en Steindórs naut ekki lengi við, því hann fékk holdsveiki og lést af völdum veikinnar árið 1870. Sveinn, sonur Steindórs og Kristrúnar, var á barnsaldri þegar faðir hans andaðist og átti Kristrún allt eins von á að þurfa að bregða búi.
Bergsteinn bróðir hennar byggði upp Eyðikotið árið 1864 og nefndi það Óttarsstaðagerði. Hann hafði nokkru áður gengið að eiga Guðrúnu Hannesdóttur, og árið 1870 áttu þau börnin Svein 9 ára, Þórönnu 6 ára, Guðmund 3 ára og Steinunni 1 árs. Hjá þeim var ennfremur Þorgerður Jónsdóttir móðir Guðrúnar og amma barnanna.
Kristrún sýndi einstakt þrek í því mótlæti sem á hana var lagt og tók á sig heimilisbyrðina alla óskipta og rekstur búskaparins út á við. Hún naut þess að Bergsteinn bróðir hennar bjó í Óttarsstaðagerði og settist sjálf að í litlu timburhúsi sem Vernharður Ófeigsson rokkasmiður byggði á Óttarsstöðum árið 1842, en hann andaðist tveimur árum seinna. Þá keypti Jón Hjörtsson húsið á 16 ríkisdali og frá þeirri stundu var það þurrabúð og leigt út sem slíkt um árabil. Kristrún samdi við Ólaf Magnússon, sem fæddist í Eyðikoti 1844, um að taka við búinu um hríð. Hann var sonur Magnúsar Jónssonar og Guðríðar Gunnlaugsdóttur og ólst upp í Hraunum. Eiginkona hans var Guðný, systir Guðjóns Jónssonar á Þorbjarnarstöðum, sem var þar leiguliði Árna Hildibrandssonar í Ási við Hafnarfjörð.

Kjarkmikil

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri.

Kristrún bjó í þurrabúðinni ásamt Sveini syni sínum, sem var aðeins 8 ára gamall, en hann átti seinna eftir að verða dugandi bóndi og formaður. Kristrún var kjarkmikil og áræðin og tók formannssæti bónda síns á fiskifari heimilisins. Sótti hún sjóinn ásamt vinnumönnum sínum með atorku og heppni, og samkvæmt manntalinu 1870 var hún sögð lifa á fiskveiðum, sem var ekki algengt starfsheiti kvenna á þessum árum. Var hún órög við að sækja á djúpmið og stjórnaði hásetum sínum af myndugleik. Jón Jónsson, 29 ára sjómaður, var hjá henni ásamt Björgu Magnúsdóttur, 23 ára eiginkonu sinni, og vinnumanninum Bergsteini Lárussyni, sem var einnig í skipsrúmi hjá Kristrúnu. Kristrún sá jafnframt um að versla til heimilisins og annaðist aðra aðdrætti, sem var óvenjulegt á þessum tíma. Kristrún giftist aftur, 16. nóvember 1871, Kristjáni Jónssyni sem var 12 árum yngri en hún. Kristján fæddist 12. september 1844 og var sonur Jóns Kristjánssonar bónda í Skógarkoti í Þingvallasveit og miðkonu hans, Kristínar Eyvindsdóttur, frá Syðri Brú í Grímsnesi, Hjörtssonar. Bróðir Kristjáns var Pétur Jónsson blikksmiður í Reykjavík. Kristján var dugandi efnismaður og tóku þau hjónin við búskap á Óttarsstöðum 1875. Þeim farnaðist vel og höfðu ágætar tekjur af fiskveiðum til að byrja með. Til marks um það má nefna að Kristján var sagður hafa 650 ríkisdali í tekjur 1873-74, sem segja má að Kristrún hafi aflað að mestu með formennsku sinni.

Þrjú börn

Hliðsnes

Hliðsnes – fjaran.

Þau Kristrún og Kristján bjuggu saman á Óttarsstöðum til ársins 1883, er þau fluttu að Hliðsnesi á Álftanesi. Þar bjuggu þau í 20 ár og eignuðust þrjú börn: Kristin stýrimann og seglmakara, sem bjó í Hafnarfirði og var kvæntur Rannveigu Jónsdóttur frá Setbergi; Þórunni húsfreyju sem giftist Ísaki Bjarnasyni bónda á Bakka í Garðahverfi og Jónu húsfreyju sem giftist Steingrími Jónssyni húseiganda í Hafnarfirði.
Kristrún lést 13. desember 1903 og fékk þau eftirmæli að hún hefði verið gædd miklu atgervi til sálar og líkama, verið kona tíguleg yfirlitum og mjög einarðleg, hreinlunduð, trygg og staðföst. Hún var ráðdeildarsöm, ástrík og umhyggjusöm móðir og eiginkona. Síðustu æviárin var heilsu hennar farið að hnigna og fékk hún slag að kvöldi 4. desember og lá síðan í dái þar til hún lést. Var hún jarðsett að Görðum 22. desember við hlið fyrri eiginmanns síns og nokkurra barnabarna.
Kristján flutti stuttu eftir andlát Kristrúnar frá Hliðsnesi til Hafnarfjarðar og hóf verslunarrekstur þar. Heppnaðist það miðlungi vel og gengu efni hans til þurrðar á skömmum tíma. Seldi hann verslun sína sumarið 1906 og bakaði fjárþurrðin honum þungar áhyggjur. Var hann ekki með sjálfum sér eftir það og gekk í sjóinn 2. september 1906, milli Hafnarfjarðar og Garðahverfis, og réð sér bana. Var hann tæpra 62 ára þegar þessi atburður átti sér stað. Svo aðgrunnt var á þessum slóðum að líkið var ekki alveg á kafi er það fannst. Var þessi atburður afar sorglegur og orti Friðrik Friðriksson eftirfarandi:

Ljúfur með líkn og dáð;
lengi var sveitarstoð,
grandvar með góðri lund,
gætinn í orði’ og hug.

Sonurinn Sveinn

Sjóróður

Sjóróður.

Sveinn, sonur Kristrúnar og Steindórs, kvæntist Þórunni Guðmundsdóttur frá Nýjabæ í Garðahreppi. Þau eignuðust dótturina Bertu Ágústu 31. ágúst 1896 er þau bjuggu í Hafnarfirði. Þegar dóttirin var tveggja ára fluttu þau að Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd og bjuggu þar í tíu ár, þar til þau fluttu að Stapakoti í Njarðvík.
Árið 1917 keypti Sveinn Lækjarhvamm í Laugarnesi, en hann andaðist stuttu eftir það. Þórunn bjó áfram að Lækjarhvammi, ásamt Bertu dóttur sinni, til 1925. Berta stundaði hannyrðanám í Askov í Danmörku og Kaupmannahöfn 1919 til 1921. Hún stundaði kennslu heima í Lækjarhvammi og bjó þar myndarbúi til ársins 1965 ásamt eiginmanni sínum Einari Ólafssyni, en þá var landið tekið undir byggingar.
Á meðal þeirra sem réðust sem vinnumenn að Óttarsstöðum var Brynjólfur Magnússon úr Holtum í Rangárþingi, sem varð seinna kennari. Hann kom til Kristrúnar og Kristjáns á Óttarsstöðum árið 1877, þegar hann var 16 ára. Taldi Brynjólfur sig eiga þeim og börnum þeirra mikið að þakka. Tókust góð kynni með honum og þeim, ekki síst dótturinni Þórunni, sem var ekki nema fjögurra ára gömul þegar hann kom á heimilið.

Studdi til náms
Kristrún gerði sér grein fyrir gáfum Brynjólfs og studdi hann til náms í Flensborgarskóla. Þaðan útskrifaðist hann 1891 og varð eftir það umferðakennari eða farkennari eins og það nefndist, á heimaslóðunum fyrir austan sem og í Gullbringusýslu. Var hann með fyrstu mönnum eystra til að læra að leika á orgel.
Síðustu sex ár ævi sinnar var Brynjólfur búsettur í Fífuhvammi í Seltjarnarneshreppi, hjá Þórunni Kristjánsdóttur frá Óttarsstöðum, sem var honum eins og litla systir. Brynjólfur lést 74 ára gamall, 8. október 1935, þegar bifreið ók á hann í suðurhlíðum Öskjuhlíðar, er hann var á leiðinni til Reykjavíkur til að sinna erindi fyrir Þórunni í Fífuhvammi. Hann höfuðkúpubrotnaði og lést á Landspítalanum.
Þessi frásögn gæti verið mun lengri en ástæðulaust er að tíunda fleira að sinni. Kristrún Sveinsdóttir var merkileg kona og það er full ástæða til að halda nafni hennar og ættmenna hennar á lofti. Fjárborgin ein og sér sýnir, svo ekki verður um villst, að hún kunni vel til verka og lét ekki sitt eftir liggja þegar til framfara horfði í einhverjum málum.”

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 1. tbl. 01.02.2017, Kristrúnarborg og konan á bak við borgina – Jónatan Garðarsson, bls. 3-5.

Óttarsstaðaborgin

Óttarsstaðaborgin / Kristrúnarborg.