Færslur

Borgarkot

Krosshlaðin skjól má finna á a.m.k. þremur stöðum á Reykjanesskaganum, þ.e. við Borgarkot, á Njarðvíkurheiði og við Breiðagerði. Valdimar Samúelsson hefur skoðað þessi mannvirki með hliðsjón af því hvort þau hafi haft einhvern annan tilgang en að veita skepnum skjól fyrir veðrum og vindum. Hann hefur einnig verið í sambandi við FERLIR um önnur mannvirki á Skaganum er gætu tengst svipuðum mannvirkjum í öðrum löndum, einkum á víkingaslóðum vestanhafs.

Stóra-Krossskjól

Stóri-Krossgarður á Njarðvíkurheiði.

Samkvæmt mælingum Valdimars er Borgarkotskrossinn um 30 cm á hæð og lengdin er 14 metrar x 14 metrar. Garðar er mynda krossinn eru um 2 metrar á breidd. Mannvirkið er innan jarðlægs túngarðs um tóftir Borgarkots, skammt norðan þeirra. Því var raskað talsvert fyrir nokkrum árum er minkaveiðinn gengu þar berserksgang í leit að bráð sinni.
Breiðagerðiskrossinn er um 30 cm á hæð. Hann er hlaðinn á föstu bergi. Lengd á krossinum er 11 x 12 metrar og breidd garðanna er um 180 cm. Hann er því litlu minni en sá fyrrnefndi.
Krossinn fyrir innan og ofan Innri Njarðvík (sunnan Reykjanesbrautar) er hæstur eða um 60 til 70 cm þar sem hann er óhruninn og hefir sjálfssagt verið hærri fyrrum . Hann er stærstur af krossunum þrem eða 16 metra x 16 metrar, enda í enda. Garðar eru rúmir 2 metrar á breidd.
“Eftir þessar mælingar fór ég að spekúlera að það hlyti að vera einhvað meira við þessa krossa en það eina að vera skjólgarðar fyrir kindur þó ég viti hins vegar að kindur munu hafa notað þá sem skjólgarða.

Borgarkot

Krossskjól við Boargarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Það sem kom í ljós eftir töluverða kortaskoðun og spekúlasjónir er það að allir þessir krossar eiga það sameiginlegt að hver og einn hefur mið af mjög sögulegum og landfræðilegum stöðum á sömu breiddarbaugslínu. Miðað við þessi gögn þá skera vestur og austur línur eftirtalda staði: Borgarkots kross á miðjan topp á Öræfajökli. Breiðagerðiskross á hæstu bungu á Ingólfsfjalli þ.e. Inghól sjálfan. Innri Njarðvíkurkrossinn fer beint í gegn um vörðurnar þrjár sunnan í Ingólfsfjalli.
Það væri gaman ef einhverjir geti sannreynt þetta en mér finnst þetta það merkilegt sögulega séð að þetta gæti orðið nánara rannsóknarefni.”
Að sjálfsögðu þurfa “krossskjólin” á Reykjanesskaganum ekki að hafa verið búin til fyrir kindur – upphaflega. Tilgangurinn gæti verið annar þótt skjólkenningin virðist nú nærtækust og sennilegust. En hvers vegna hlóðu menn þá ekki hringborgir á framangreindum stöðum til skjóls fyrir fé, eins og algengt var (þekktar eru um 70 slíkar á Skaganum)?

Borgarkot

Krossgarður við Borgarkot.

Borgarkotskrossinn er heima við bæ. Breiðagerðiskrossinn er skammt frá bæ. Innri-Njarðvíkurkrossinn er alllangt frá bæ. Þarna virðist því ekki vera um tengingu að ræða. Sá síðastnefndi er þó ekki langt frá Narfakotsborginni (Grænuborg), sem er hringhlaðin fjárborg.
Spurningin er hvort svarið við krosshleðslunum, ef það er annað en í fljótu bragði virðist, liggi í meiri nálægð við þau en að framan greinir – eitthvað sem menn gætu hafa haft í sjónlínu og verið þeim sameiginlegt gildi?
Krosshlaðin gerði veita skjól fyrir öllum áttum, líkt og hringhlaðnar fjárborgir. Þau hafa því þjónað sama tilgangi sem slík – en bara með öðru lagi.
En sem fyrr segir – hið augljósa og nærtækasta þarf ekki endilega að vera sennilegasta skýringin. Ef einhver hefur verið að velta þessu fyrir sér (því varla verður hjá því komist þar sem um áberandi mannvirki er að ræða) þá væri áhugavert að heyra frá hinum sama (ferlir@ferlir.is).

Stóri-krossgarður

Stóri-krossgarður.