Tag Archive for: Krosshólar

Litlistekkur
Gengið var um Knarrarnesland og skoðaðar minjar, sem ekki hafði verið litið á áður í fyrri FERLIRsferðum. Þessarra minja er getið í örnefnalýsingum eða öðrum heimildum.
Fjóla Jóhannsdóttir (72 ára) dvelur nú í húsi skammt sunnan við Stóra Knarrarnes. Hún hefur verið tengd svæðinu í yfir hálfa öld, en hún er gift Guðmundi ÁrnastekkurViggó Ólafssyni frá Stóra Knarrarnesi. Kritur hafa löngum verið millum fólks á Knarrarnestorfunni vegna landamerkja-ágreinings – og það þrátt fyrir að nægt land virðist vera þarna til handa öllum lítilmátlegum til allra nútímaþarfa. Gömul fyrrum „Nes“ og „Höfði“ virðast hafa færst um set í baráttunni og jafnvel landamerkjasteinar lagt land undir fót. Þátttakendur í deilunni hafa og verið skipulagsyfirvöld í Vogum, sem varla hafa skilið hvað snýr upp eða niður í þeim málum. En í sæmilega litlu, en upplýstu sveitarfélagi, þar sem starfsfólk fær greitt fyrir að leysa vandamál frekar en að búa þau til, ætti að vera tiltölulega auðvelt að skapa sátt meðal þegnanna. Það er a.m.k. eitt af opinberum markmiðum stjórnsýslunnar.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Þegar fulltrúi FERLIRs mætti á staðinn voru fyrstu viðbrögðin þessi: „Ertu frá skipulagsyfirvöldum í Vogum?“ „Nei“, var svarið. „Ertu að skoða eitthvað um landamerkin?“ „Nei“, var svarið. „Ertu sérfæðingur?“ „Nei“, var svarið enn sem fyrr. „Ég er áhugamaður um fornar minjar á Reykjanesskaganum og hef verið að reyna að staðsetja þær eftir því sem gamlar heimildir segja til um – og nútímaugað nær að sjálfsögðu“. Þetta dugði – að vera hvorki fulltrúi né sérfræðingur – til að fá hlýrra viðmót og viðhlítandi upplýsingar, sem leitað var að, enda áhugamaðurinn bæði afhuga deilnaþátttöku og launum fyrir verkið. Reyndar hefur þátttakendum FERLIRs hvarvetna verið vel tekið af fólki, sem búið hefur yfir upplýsingum um minjar og forna tíð.
Fjóla sýndi FERLIR í framhaldi af þessu gamla loftmynd af Stóra Knarrarnesi. Á henni voru tvo hús; Vesturbær, þ.e. hið gamla Stóra Knarrarnes, og Austurbær (jafnan nefndur Austurbær II), auk hinna gömlu tófta Stóra Knarrarness. Hið merkilega við loftmyndina er það að á henni séstvel móta fyrir Gamlabrunni, en hann var einmitt eitt af viðfangsefnum FERLIRs þessu sinni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Stóra Knararrness er getið í Jarðabókinni 1703. Jörðin er þá konungseign. Þann 9. september 1447 er jarðarinnar getið í bréfi um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr) og Breiðagerði fyrir (10 hdr). Árin 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. Seinna, eða 1584 segir: „Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eru 5 vættir fiska.“ Árið 1703 er ein hjáleiga í eyði sem heitir Helgahús.
Í Knarrarnesi var oft tvíbýli, nefndist Austurbær og Vesturbær 1703: “Túnin fordjarfast árlega af sjáfarágángi og stöðutjörnum þeim, sem innan garðs liggja, og það so frekt, að gamlir menn minnast til þar hafi fóðrast x kýr og i griðúngur, og nú eru þau so spilt, að ekki fóðrast meir en áður er sagt. Þar með blæs upp árlega stórgrýti í túninu. Engjar eru öngvar. Útihagar nær öngvir sumar nje vetur utan fjaran.”

Knarrarnes

Krosshólar.

Á milli Knarrarnessbæjanna var hlaðinn garður á landamerkjum. Hann sést enn að mestu leiti. Í örnefnalýsingur segir frá huldufólksbústað á mörkunum: “Milli Túna Litla-Knarrarness og Stóra-Knarrarness var merkjagarður. Hann lá um þrjá hóla sem nefndust Krosshólar og var á þeim mikil huldufólkstrú. Krosshóll syðsti, Mið-Krosshóll og Krosshóll nyrsti.” Þarna hafði átt að vera álfakirkja, líkt og svo víða í stökum hraunhólum í Vatnsleysustrandarhreppi.
Fjóla sagðist jafnan hafa heyrt þessa hóla nefna Hulduhóla. Sú trú hafi verið með heimilisfólki að at byggi huldufólk þótt hún hafi aldrei séð slíkt fólk þar á ferli, “ en það væri ekki að marka“. Ekki sagðist hún hafa heyrt „Krosshólanöfnin“ nefnd fyrr.
Tveir brunnar eiga að hafa verið við Stóra Knarrarnes skv. örnefnalýsingum – Gamli Brunnur og Nýi Brunnur: “Þá voru Brunnarnir, Gamli Brunnur og Nýi Brunnur.”
Fjóla sagði að Þuríður Guðmundsdóttir, húsfreyja í Stóra-Knarrarnesi, hafi sýnt henni Gamlabrunn. Þær hafi gengið niður gamla brunnstíginn, sem þá var augljós, og beint að brunninum. Hleðslur hafi á verið fallnar inn í hann. Hún væri hrædd um að brunnurinn væri nú kominn undir sjávarkambinn.

Knarrarnes

Stóri-Knarrarnesbrunnur. Nú kominn undir kampinn.

Þegar litið var eftir brunninum (2006) mátti sjá að hann var horfinn undir sjávarkambinn, enda hafði Fjóla ða orði að kamburinn hafi gengið þar verulega inn á umliðnum árum. Brunngötunni var fylgt sunnan við gömlu tóftirnar af Stóra Knarrarnesi. Hleðslur er norðan hennar. Þar sem brunngatan endar var brunnurinn, en þar er kamburinn nú. Hnit var tekið af staðnum þar sem brunnurinn var, skv. loftmyndinni.
Nýi Brunnur sést hins vegar vel enn skammt norðan Vesturbæjar. Steypt hefur verið ofan á lokið og er timburbretti ofan á því.
Aðspurð um önnur merkilegheit á svæðinu sagði hún að ágætt dæmi um vitleysuna þarna um kring vera nýreist sumarhús á holti austan við Knarrarnes. Leyfi hafi verið gefið fyrir hjólhýsi, en nú væri komið þar kofi auk trjáa. Yfirvöldum í Vogum hafi verið tilkynnt um að þar hefði fundist grunnur, sennilega undan fornri kirkju. „Þvílíkt og annað eins“. Þarna á holtinu hafi verið gamall skúr, sem nú væri löng horfinn, og væri um að ræða mótun eftir hann.

Knarrarnes

Knarrarnes. Minna-Knarrarnes nær.

Það verður nú að segjast eins og er að þær framkvæmdir, sem átt haf sér stað á holtinu, særa augu gamalla sjáenda er enn geta skynjað samhengi lands og búsetu á annars fornfrægri strönd.
Fjóla vildi einnig vekja athygli á gömlu mannvirki austar með ströndinni, sem væri svonefndur Halagarður. Þetta væri hlaðinn garður utan um matjurtagarð, sem hreppurinn hafi látið hlaða í atvinnubótavinnu skömmu eftir aldarmótin 1900. Hann stæði enn óhreyfður. Hleðslurnar sjást vel, enn þann dag í dag.
Í örnefnalýsingum er getið um Árnastekk. „Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót vestri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimildir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð …,”
Austurbærinn Sesselja Guðmundsdóttir lýsir Árnastekk í bók sinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (1995), bls. 31: „Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót vestri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimidlir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð, en fleiri segja Árnastekkur og verður það nafn látið gilda hér.“ Hér er um að ræða svipaða lýsingu og af Árnarétt eða Arnarétt ofan við Garð.
Um Knarrarnes minna (sem nú virðist stærra, ef tekið er miða af húsastærð), segir m.a. í Jarðabókinni 1703: „Jarðadýrleiki er óviss, konungseign.“ Þann 9. september 1447 segir í fyrrgreindu bréfi um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey: „Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö (30 hdr) og Breiðagerði fyrir (10 hdr)… Árið 1703 hafa “túnin spillst af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.”
Breiðagerðis er jafnan getið sem eigarbýlis, en fjallað verður um þá jörð nánar í annarri FERLIRslýsingu (ásamt Auðnum og Höfða). Það er m.a. getið um brunn: “Breiðagerðisbrunnur var sunnan bæjar.” Enn sést móta fyrir honum sunnan gömlu tóftanna.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Í örnefnalýsingum er getið um Litlastekk. Þar segir: “Þar var í Heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður.” Í annarri örnefnalýsingu segir: “Litlistekkur er beint upp af bæ og suður af Auðnaborg …” “Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.”
Sesselja Guðmundsdóttir lýsir Litlastekk í bók sinni. Þar segir (bls. 35): „Fyrir ofan og austan Borg er stekkur sem gæti heitið Litlistekkur en það örnefni segja heimildir að sé í Breiðagerðislandi.“
Frábært veður – mófuglasöngur, kyrrð og angurværð á miðsumarskvöldi.Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Fjóla Jóhannsdóttir.

Knarrarnesholt

Knarrarnesholt.