Færslur

Krýsuvíkurheiði

Við vegamót Ísólfsskálavegar og Selölduvegar slógust nokkrir áhugasamir Grindvíkingar í hópinn.

Eyri

Eyri.

Gengið var niður að Selöldu. Við slóðann mótar fyrir undirstöðum bragga. Ólafur Kr. Guðmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, var þar á ferð á hestum með föður sínum og bróður árið 1942. Komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvíkurkirkju, sem benti þeim á fimm Ameríkana er höfðust við í bragga ofan við Selöldu. Höfðu þeir þann starfa að fylgjast með skipaferðum með ströndinni.

Selalda

Steinbrú ofan Fitja.

Staðnæmst var við gamla steinbrú yfir Vestari-læk, við tóttir bæjarins Fitja og við fallega hlaðið fjárhús undir Strákum. Þá var gengið niður að Hælsvík og rifjuð upp sagan af komu Tyrkjanna upp Ræningjastíg. Í framhaldi af því var gengið í slóð Tyrkjanna upp að Krýsuvíkurseli þar sem þeir áttu að hafa ráðist að selsstúlkum. Smali var þess var og hljóp upp að Krýsuvíkurbæjunum, með Tyrkina á hælunum. Séra Eiríkur á Vogsósum var þá við messu í kirkjunni. Hann lagði þegar á Tyrkina að þeir myndu snúast gegn sjálfum sér, sem og þeir gerðu. Eru þeir dysjaður í Ræningjadys á Ræningjahól, sem er við Suðurkot. Litið var á tvær fjárborgir og tóttir bæjarsins Eyri áður en komi var í selið. Selstóttirnar, sem eru þar skammt austar, eru greinilega mjög gamlar.

Selalda

Fitjar.

Eftir skoðunina undir Selöldu var haldið að Trygghólum, sem eru þarna nokkru austar. Frá þeim er víðsýnt um Krýsuvíkurheiðina. Sést þaðan vel yfir Grindavíkurlandið austan Hafnarfjarðarlandsins ofan við Hælsvík. Sást meira að segja alla leið til hellamanna vera að snuðra í kringum Litlu-Eldborg í fjarska. Samviskan hefur nagað Grindvíkinga eftir langa áþján landsins og hafa þeir verið að reyna að græða upp landið að hluta fyrir Hafnfirðingana. Ef einhver töggur væri í Grindvíkingum myndu þeir ná þessum hluta Krýsuvíkurlandsins til sín aftur með hurðum og gluggum, enda Hafnfirðingar lítt hafa kunnað að meta þetta landssvæði hingað til. En þetta var nú smá útidúr.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Frá Trygghólum var gengið í átt að Arnarfelli og komið við í Arnarfellsréttinni, heillegri hlaðinni fjárrétt í lægð nokkru sunnan við fellið. Þetta var nú smá útidúr.
Vegna þess hversu veðrið var gott var ákveðið að kíkja á Ögmundardys við Ögmundarstíg og Smíðahellinn í Katlahrauni áður en göngunni lyki. Í leiðinni var Lestargatan vestari (Skeiðargatan) gengin, litið á hlaðnar refagildrur og Sögunarkórinn.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Þegar FERLIR-357 gekk slóðann áleiðis niður að Selöldu sást móta fyrir undirstöðum bragga skammt vestan hans. Svör lágu ekki á lausu um tilvist byggingar á þessum stað.

Krýsuvíkurheiði

Leifar braggans á Krýsuvíkurheiði.

Ólafur Kr. Guðmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, var þarna á ferð á hestum með föður sínum og bróður árið 1942. Komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvíkurkirkju, sem benti þeim á fimm Ameríkana er höfðust við í bragga ofan við Selöldu. Höfðu þeir þann starfa að fylgjast með skipaferðum með ströndinni.
Þeir feðgar, sem voru á ferðalagi um Skagann, höfðu komið við hjá vini þeirra Guðmundi í Nesi í Grindavík og fengið hjá honum tvær landaflöskur. Daginn eftir fóru þeir til Hlínar í Herdísarvík. Á leiðinni heim komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvík, sem benti þeim á útlendingana í heiðinni.
KrýsuvíkurkirkjaAmeríkönunum var gefin önnur landaflaskan við komuna. Í staðinn fylltu þeir hnakktöskur aðkomumanna með appelsínum, en slíkt höfðu þeir ekki séð fyrr. Eftir að hafa drukkið úr flöskunni varð tilefni til að gefa þeim hina flöskuna einnig. Var þá tekið til við að steikja beikon, en það mun hafa verið fyrsta sinni er það bar á góma aðkomumanna. Varð ferðin einstaklega minnistæð þeim bræðrum.
Enn sést móta fyrir hleðslum utan um fyrrum bragga sem og ryðgaðar járnlektur á heiðinni þar sem hana ber hæst ofan við Selöldu, fast vestan við slóðina. Þaðan er ágætt útsýni yfir hafið svo langt sem augað eygir, allt til Eldeyjar í vestri. Vestari hluti Selöldunnar skyggir þó á að hluta. Þarna er einnig mjög gott útsýni til austurs og vesturs um Krýsuvíkurheiðina sem og upp til bæja og fjalla.
Magnús ÓlafssonMagnús Ólafsson hafði nauðugur verið sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895. Ætlunin var að senda Magnús í verbúiðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík.  Enn Magnúsi var ekki um sjóin gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík, betur fór en áhorfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík á Nýjabæ. Enn má sjá nokkur mannvirki í Krýsuvíkurheiði, sem tengjast veru Magnúsar í Krýsuvík.
Magnús var síðasti ábúandinn í Krýsuvík.
Stóri Nýibær hafði lagst síðastur í eyði í Krýsuvík árið 1938, en eftir það varð þó ekki alveg mannlaust þarna. Einn maður, fyrrnefnur, varð eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram uns yfir lauk.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn og kirkjan.

Jónsbúð

Gengið var frá Arnarfelli í Krýsuvík til austurs yfir Krýsuvíkurheiði. Farið var yfir gróið þýfi, stigið yfir Eystrilæk og ekki staðnæmst fyrir en við stóra tóft efst á heiðinni; Jónsvörðuhús eða Jónsbúð, eins og hún er stundum nefnd. Þá var haldið yfir að öðru húsi skammt sunnar, þar sem heiðin tekur að halla undan áleiðis niður að Krýsuvíkurbjargi. Það hús er hlaðið og er nokkuð heillegt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Ætlunin var m.a. að skoða svæðið austan Arnarfells, en eins og kunnugt er staðnæmdust skreiðarlestirnar á leiðinni austur frá Grindavík við Arnarvatn suðaustan við fellið. Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var fjárhús eða sauðakofi. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.

Skammt suðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt hlaðið skjól og auk þess og vandlega hlaðið hús þar skammt sunnar.

Krýsuvíkurheiði

Tóft í Krýsuvíkurheiði.

Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Þó er ekki óraunhæft að ætla að þar hafi Magnús, eða einhver annar á undan honum, haft afdrep. Líklegast er að þarna hafi verið afdrep manna. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti líka hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær um 1930.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði. En þó er ekki svo langt síðan að svæðið varð mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp, heldur þraukaði þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður var nefndur Magnús Ólafsson.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

“Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið”, sagði hann eitt sinn í viðtali við Árna Óla, “en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var ég ánægður.”
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.
Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sá ekki á Magnúsi að hann hafði gugnað neitt við einveruna. Þó fór svo að lokum að einnig Magnús varð að yfirgefa sveitina. Síðan hefur sauðkindin ráðið þar ríkjum eða allt fram til þess. Nú er svo komið að einnig hún verður að víkja af svæðinu og verða færð í sérstakt beitahólf á og vestan við Núpshlíðarháls.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Krýsuvíkurheiði

Hús í Krýsuvíkurheiði.