Færslur

Ísólfsskáli

Gengið var um Ísólfsskála, verminjarnar á og við Nótarhól ofan við Gvendarvör austan Rangagjögurs neðan Skálabótar, og haldið með ströndinni um Tranta, Hattvík og Kvennagöngubása út í Hraunsnes. Þaðan var gengið um Veiðibjöllunef og Mölvík í Katlahraun uns staðnæmst var við fjárskjólið þar uppi í hrauninu.

Hraunsnes

Hraunsnes – jarðmyndun.

Hraunið ofan við Hraunsnes, austan Ísólfsskála, nefnist Skollahraun, en hraunið ofan við Mölvík nefnist Leggjarbrjótshraun. Austar er Katlahraun. Samheiti á hraunum þessum er Ögmundarhraun (sbr. landakort), en eins og af nöfnunum sem og útliti má sjá er Ögmundarhraun fleiri en eitt hraun.
Á leiðinni var m.a. ætlunin að huga að fallegum brimkatli við ströndina, gati, sem sjórinn hafði brotið sig upp um allnokkuð ofan við ströndina og kíkja í sprungu, sem opnaðist nýlega í Katlahrauni. Ketillinn og gatið sáust vel í nýlegu yfirlitsflugi FERLIRs.
Umhverfið er eitt, en veðrið annað. Athyglin og skynjunin tengja hvorutveggja saman í heildir. Að þessu sinni hafði verið samið um ásýnilega sjávarágjöf, hvítfryssandi háöldur og skynjanlegt samstuð sjávar og strandar (átök Gyms og móður Jarðar) – svona að til auka enn á áhrif umhverfis og veðurs.

Mölvík

Í Mölvík.

Göngunni er hér lýst upp í vindinn, rangsælis við leiðina, sem gengin var – upphafið var því við fjárskjólið í Katlahrauni og endirinn við Ísólfsskála – til þess að auðveldara væri að sjá það sem fyrir augu bar á leiðinni. Svæði þetta er ótrúleg náttúrusmíð – ekki síst þegar veðrið fær að leika lausum hala.
Tillaga frá Náttúrfræðistofnun Íslands árið 2002 og síðar Umhverfisstofnun frá árinu 2004 hefur legið fyrir um að koma svæðinu á náttúruminjaskrá. Í umsögn stofnananna um svæðið segir m.a. að þar séu “fallegar og óvenjulegar hraunmyndanir og einstakar mannvistarleifar, svo greinilega yfirbugaðar af eldvirkni landsins. Á svæðinu eru jarðmyndanir, vatnafar, plöntur, dýr, vistkerfi, vistgerðir, búsvæði, landslag, víðerni, menningar- og söguminjar og fágætar náttúruminjar. Sumar þeirra eru í hættu. Katlahraun, sem er vestan Ögmundarhrauns, hefur runnið í sjó fram. Katlahraun er talsvert eldra en hið eiginlega Ögmundarhraun. Sama má segja bæði um Leggjarbrjótshraun og Skollahraun. Þarna eru mikil hraunflæmi, sérkennilegar hrauntjarnir og hellar. Áhrifaríkt er að koma að fyrrum byggð Í Húshólma í Ögmundarhrauni og sjá þar húsatóttir, sem hraunið rann yfir (1151). Á Selatöngum eru hlaðnar rústir eftir útræði fyrri alda. Þar eru friðlýstar fornminjar, líkt og gildir um minjarnar í Húshólma.”

Hraunsnes

Hraunmyndun í Hraunsnesi.

Í Náttúruverndaráætlun Umhverfisstofnunar 2004-2008 er gert ráð fyrir að svæðið verði sett á náttúruminjaskrá. Í umsögn um umhverfismats um Suðurstrandaveg er þó látið sem svæðið sé allt á náttúrminjaskrá. Hvað sem því líður er hér í heild um bæði áhugavert og verðmætt svæði að ræða, einkum út frá framangreindum efnisþáttum.
Forstjóri Umhverfisstofnunar hefur sagt að eitt af mikilvægari verkefnum stofnunarinnar frá því að hún hóf starfsemi sína hinn 1. janúar 2003 sé m.a. að reka smiðshöggið á tillögu um náttúruverndaráætlun sem unnið hafði verið að um nokkra hríð í samræmi við lög nr. 44/1999, um náttúruvernd. Þar segir að
“maðurinn hefur nýtt sér auðlindir náttúrunnar frá örófi alda. Hann hefur reynt að móta náttúruna í viðleitni sinni til að brauðfæða sig og afkomendur sína. Athafnasaga mannsins er ekki samfelld sigurganga heldur endurspeglar hún, líkt og önnur saga mannsins, þróun þar sem mörg mistök hafa átt sér stað, þar sem menn hafa lent í blindgötu með framkvæmdir sínar, þær verið endurskoðaðar og nýjar leiðir reyndar þar til betri árangur náðist. Í upphafi var viðleitnin vanmáttug, en smám saman varð manninum meira ágengt við að móta náttúruna að sínu höfði. Margir telja að iðnbyltingin á miðri 19. öld marki upphaf þeirra gríðarlegu breytinga sem síðan hafa átt sér stað. En á síðustu öld varð nánast stökkbreyting þar sem saman fór gífurlega hröð fólksfjölgun og tæknibylting sem á sér enga hliðstæðu í sögu mannsins.

Hraunsnes

Í Hraunsnesi.

Í byrjun 21. aldar ræður maðurinn yfir verkfærum og þekkingu sem geta breytt og mótað náttúruna á örskömmum tíma með ófyrirsjáanlegum afleiðingum ef varúðar er ekki gætt, enda er tæknin orðin slík að auðvelt er að valda óbætanlegum skaða með vanhugsuðum aðgerðum. Það er eðlilegt þegar fólk sér þær breytingar sem hafa orðið á umhverfinu að margir vilji staldra við og spyrja um ávinning af þessum breytingum og hverju sé fórnað. Nýting náttúruauðlinda er undirstaða efnahagslegrar velferðar flestallra þjóða heims. Hins vegar eru það einnig eftirsóknarverð lífsgæði að mega njóta fjölbreyttrar náttúru.  Nýting náttúrugæða jarðar hefur margar hliðar. Síðarnefndu sjónarmiðunum hefur vaxið mjög ásmegin eftir því sem tækninni hefur fleygt fram, efni fólks hafa orðið meiri, og meiru hefur verið raskað. Það er hlutskipti þeirra sem sinna náttúruvernd að horfa til framtíðar og til þeirrar ábyrgðar sem við sem nú lifum berum á þeim heimi sem við skilum til komandi kynslóða. Óhjákvæmilega stangast hagsmunir annarrar nýtingar, fjárhagslegir eða félagslegir, stundum á við hagsmuni náttúruverndar. Þess vegna verða náttúruverndarmál oft átakamál. Það er ákaflega mikilvægt að rök, t.d. fyrir friðun lands, séu sett skilmerkilega fram og að þau séu aðgengileg almenningi jafnt og stjórnvöldum.” Staðreyndin er því miður sú að of margt fólk hugsar lítið sem ekkert um umhverfi sitt og allt of margir hugsa yfirleitt ekki um nokkurn skapan hlut – nema kannski svolítið um þá sjálfa.

Mölvík

Í Mölvík.

Skoðuð voru hlaðin byrgi og garðar ofan við Gvendarvör. Um er að ræða svipaðar og hinar friðlýstu minjar og á Selatöngum, en þó minni í sniðum. Mannvirkin lýsa vel sögu fiskverkunarinnar, sem lýst er nákvæmlega í umfjöllun um skreið undir Fróðleikur hér á vefsíðunni (ath. megnið af fyrri vefsíðuskrifum er hulin um sinn).
Sker utan við ströndina skammt suðaustar nefnast Trantar og austan þeirra er Hattvíkin. Þar skammt austar eru Kvennagöngubásar, hin þokkalegasta lending. Þá tekur Hraunsnesið við, en það er smækkuð mynd af Dimmuborgum og Katlinum (Borgunum) í Katlahrauni. Þunnfljótandi hraun (Skollahraun) hefur runnið þar í “sjóketil”. Við það hafa myndast formfagrir hellulaga stöplar sem og hinar ótrúlegustu hraunmyndanir. Storknuð hraunhellan hefur síðan fallið niður og stöplarnir staðið eftir. Gerður hefur verið slóði út í nesið og hafa einhverjir verið að dunda sér við að fjarlægja hellurnar utan af stöplunum, sem er hin mesta eyðilegging á þessu fallega náttúrufyrirbæri, og nota í garða sína þar sem allt samhengi við þær skortir. Litbrigði og myndanir í klettum eru einstök í Hraunsnesi.

Mölvík

Mölvík – hellisgat.

Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði fyrir skömmu í samtali að áður hafi jafnan verið róið úr Gvendarvör og gert að á Nótarhól. Austan við hólinn eru rústir verkhúss. Trantar þar utan við væru í raun hrjúft hraun, sem stendur upp úr sjónum. Nafnið benti til þess að það hafi hrannast upp, tranað eða trantað sér upp og myndað strýtur. Austar væru Rangargjögur og Hattvík. Rangagjögur væri í raun stórmerkilegt. Best væri að skoða það á fjöru til að þá sjá megi það vel. Gjögrið er á milli Tranta og Hattvíkur. Bát rak þar inn í vitlausu veðri fyrir u.þ.b. 20 árum síðan, er Ísólfur bjó enn á Skála, og lenti inni í skorunni. Þar er bæði þröngt og hyldjúpt. Áhöfnin, einn maður, komst gangandi heim að bæ og bankaði upp á. Bátnum varð hins vegar ekki bjargað. Kista er kistulaga klettur vestarlega og miðsvæðis uppi í hrauninu. Frá Nótarhól sést vel yfir að Festarfjalli, Lambafelli, nær og Lambastapa neðan þess, niður við sjó. Ofan við Skála er Bjalli (Hjálmarsbjalli) og Lyngfellið ofan hans.
Heimastibás heitir þröngur klettabás skammt austar og Kvennagöngubásar eru þar austan við. Veiðibjöllunef, stundum nefnt Vondanef, var mið af sjó austan úr Hælsvík. Þá átti Veiðibjöllunef að bera í Langageira í Fiskidaldsfalli. Þessa lýsingu hafði Jón fengið frá Manga á Hrauni, en Jón gaf m.a. út rit um miðin utan við Grindavík á sínum tíma, en þau skrif voru bæði byggð á reynslu hans sjálfs og þeirra manna, sem þá voru þegar gengnir.

Mölvík

Mölvík.

Mölvíkin virðist ekkert sérstök, en fyrir fiskimennina var hún það svo sannarlega. Mölvíkurleirinn (slétt hraunið ofan við víkina) var afmarkaður af Skála-Mælifelli að vestan og með skoru upp í Lönguhlíð að austan. Utar, á sléttum botni, voru togmiðin, en góðan og mikinn fisk var að hafa á hrauninu í Mölvíkinni, einkum á veturna. Á sumrin var veitt alveg upp við fjöru (Þorskmið). Þar sem Geitarhlíð kemur í skarðið á Katlahrauni og hrauk í hrauninu ber í vestari Görnina á Núpshlíðar (lægð er liggur upp í grasi búna hliðina – undir Görninni er fjárból) er hraundrangur undir. Þar eru um 7 faðmar niður. Fiskurinn sest að við hraundranginn, sem er um hálfur annar metri á hæð, undir sjólínu. Fiskurinn sést og tók líka vel ef verið var að. Straumurinn leikur um dranginn og þar lá fiskurinn í vari (líkt og fé í hlíð).
Jón sagði að vörðurnar uppi í Skollahrauni, skammt frá þjóðveginum undir Slögu, austan við Löngukvos, nefndust Bárðarvarða, eftir gömlum einsetumanni á Skála er hélt þar til um vetur, og Bergsvarða (faðir Hinriks og Guðbergs). Í umsögn um Suðurstrandarveginn eru þær sagðar “gamlar vörður við forna þjóðleið”. Þær þjónuðu hins vegar ekki öðrum tilgangi en þeim að stytta byggjendunum stundir á og meðan var.

Selatangar

Gatvarða á rekagötunni við Selatanga.

Gengið var inn í Leggjarbrjótshraun með Mölvíkinni. Um er er að ræða fallegt útsýni út með ströndinni. Þegar komið var inn í Katlahraun var gengið niður í Borgirnar (Ketilinn) og þær bornar saman við myndun stöplana í Hraunsnesi. Um er að ræða nátengd fyrirbæri.
Haldið var norður um hraunið að hlöðnu fjárskjóli fólksins á Vigdísarvöllum. Féð þaðan vildi leita niður í fjörur Selatanga og var þá hlaðið fyrir skúta þarna í hrauninu því til skjóls. Helgi Einarsson, sem var með í för, sagði að skjólið hafi einnig verið notað eftir að forfeður hans frá Vigdísarvöllum flutti búferlum niður að Ísólfsskála. Helgi er mjög kunnugur örnefnum á svæðinu, auk þess sem hann hefur bæði gengið mikið um það og ástundað miðin út undan því.
Brimketillinn fannst ekki í særokinu, en gatið tilnefnda fannst skammt vestan við fallegan gatklett í Mölvíkinni. Rúmlega 20 metra langur sjávarhellir gengur inn undir ströndina, étið malbergið og hefur síðan brotið sér leið upp um grágrýtishelluna þegar sjórinn hefur ætt þar inn og þrýstingurinn verið orðinn of mikill. Þá var kíkt í sprunguna í Katlahrauni, en hún myndaðist í jarðskjálfta fyrir u.þ.b. tveimur árum. Hún hefur verið að stækka smám saman og er þegar orðin alldjúp. Hellir gæti leynst undir niðri. Ekki er ólíklegt að sjórinn leyti finni sér leið um síðar meir. Skoðaður var skúti í Katlahrauni skammt norðan við Rekagötuna, en svo virðist sem hlaðið hafi verið að hluta til fyrir opið. Skútinn rúmar vel nokkra menn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Ísólfsskáli

Brimketill við Kvennagöngubása.

Ísólfsskáli

 Gengið var frá Ísólfsskála inn á Skollahraun, litið á hlaðnar refagildrur á tveimur stöðum í hrauninu sem og byrgi refaskyttu og ströndinni síðan fylgt um Tranta og Hattvík inn í Kvennagöngubása þar sem kvenfólk baðaði sig fyrrum. Þar átti að vera “brimketill”, sem fáir hafa augum litið. Hið formfagra Hraunsnes var skammt utar. Ætlunin var að skoða það sem og Veiðibjöllunefið (Vondanef), samhangandi, vestan Mölvíkur.

Refagildra í Skollahrauni

Í örnefnalýsingu af Ísólfsskála (einni af fjórum) segir Guðmundur Guðmundsson, bóndi þar, m.a. frá þessu landssvæði að austanverðu: “Mölvík er vík þessi er með möl í botni. Þá tekur við berg með sjó, sem heitir ekki sérstakt, það er 1-2 mannhæðir, en svo ganga inn í það vik, básar og víkur. Þar vestar er svo Vondanef, og vestur og fram af því er Veiðibjöllunef. Þar hækkar hraunið og breytir um svip. Austar er það lágt og nokkuð sandborið. Þar vestar er bás, sem heitir Heimastibás. Hraun er þar vestur með, þar til kemur nafnlaus bás, svo er Rangagjögur. Austur og upp af honum er hóll, sem heitir Hattur. Enn vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er vík, sem heitir Hattvík. Vestan við Hattvík tekur við skerjagarður, sem brýtur á um flóð, og heitir hann Trantar. Þar vestur af er sker, sem heitir Gvendarsker. Milli Tranta og Gvendarskers er mjó vör, sem breikkar þegar inn kemur, og heitir hún Gvendarvör. Upp af Gvendarvör er hóll, sem heitir Nótarhóll.”
Brimketill í KvennagöngubásÍsólfur Guðmundsson, sonur hans, upplýsti nánar um einstök örnefndi, s.s.: “
Veiðibjöllunef: Þegar mikið var um loðnu í Mölvík, sat veiðibjallan mikið á nefinu. Rangagjögur er dálítíð fyrir austan Ísólfsskála. Þetta er sprunga, sem liggur frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs, liggur í kross. Þetta er stór og mikil gjá, sem sjórinn gengur í. Hattur er klettur uppí á hraunínu, og er gras á honum. Trantar eru austan við Gvendarvör. Hraun hefur runnið fram í sjó, en klettadrangar standa upp úr.”
Loftur Jónsson skráði sömu örnefni skv. eftirfarandi: “Austan Tranta er Hattvík, smámalarvík. Rangagjögur er lón inn í landið og fellur sjórinn um rifna klöpp. Þar austur af er klettur upp á kampinum með grastó í toppinn sem heitir Hattur. Þar austur af er smábás sem heitir Skálabás. Þar austur af er hraunnef í sjó fram og austur af því eru Kvennagöngubásar. Heimastibás er vestasti básinn. Hraunsnes skagar í sjó fram þar fyrir austan. Þar er talið hálfnuð leið frá Ísólfsskála að Selatöngum en þessi leið er talin um það bil klukkustundar gangur. Veiðibjöllunef, öðru nafni Vondanef , er þar fyrir austan og er það í vesturmörkum á Mölvík.”
Hraundrangur í HraunsnesiÍsólfur Guðmundsson svaraði svo spurningu um Kvennagöngubásana með eftirfarandi hætti. “Er nokkuð vitað um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar? Sv.: Þar var kvenfólk sagt baða sig.”
Um vestanvert svæðið segir m.a. í  örnefnalýsingum um Nótarhól; “Á Nótarhól var byrgi. Fram af Nótarhól var annar hóll með sama nafni. En hann er nú horfinn í sjó.” Jafnframt; “Nótarhóll er hóll upp af Gvendarvör, vestan við hraunið. Nótarhóll dregur nafn af því að dregið var fyrir sel í Gvendarvör og nótin síðan geymd á hólnum.
Norðvestur af Nótarhól er smágerði sem kallað er Hestagerði. Í fjörinni austur af Nótarhól eru tveir svartir klettar sem heita Svörtuklettar. Niður undan túninu er legan og ströndin kölluð Bót.”
Staðreyndin er hins vegar sú að innan við Nótarhól eru einar mestu verminjar á Reykjanesskaganum.

Ísólfsskáli

Nótarhóll – fiskbyrgi og þurrkgarðar.

Sem fyrr segir voru refagildrurnar í vestanverðu Skollahrauni fyrst barðar augum. Sú syðri er öllu heillegri. Fallhellan er þar enn og skammt suðvestar er byrgi refaskyttu. Mikið var um spor eftir refi í þunnföllnum snjónum. Sporin voru nánast öll frá því kvöldið áður svo líklegt má telja að þar hafi nokkrir refir verið á ferð í leit að æti. Í holu skammt ofan við ströndina hafði dauð æðarkolla verið dregin og verkhafi þegar búinn að éta af henni hausinn og öll bitastæðustu innyfli.
Hattur er áberandi kennileiti í sunnanverðu hrauninu, “skammt ofan strandar”. Neðan undir honum er Hattvíkin. Skammt ofan hennar er mosavaxinn hraunhóll. í honum norðanverðum er hlaðið hús, sem nú eru leifar þess. Líklega er hér um að ræða hluta af Nótarhólsminjunum, sem síðar verður vikið að.
Utar bar merkileg sjávarásýnd auga. Þegar létt alda barst að landi lyfti hún sér skyndlega á tilteknum stað utan við Fiskbyrgi við Nótarhólströndina, líkt og hún vildi rísa hátt úr sæ, en tókst það aldrei alveg. Líklega eru þarna drangar í sjónum er lyfta öldunni með þessum áhrifaríka hætti. Jón Guðmundsson frá Skála, lýsti einmitt svæðinu sem slíku í viðtali við FERLIR fyrir nokkrum árum. Sagði hann fiskinn laðast að dröngum þessum og þar hefði lóðningar jafnan bæði verið bestar og vísastar.
Ströndinni var fylgt til austurs með það að markmiði að leita brimketilsins við Kvennagöngubása. Fljótlega kom “Rásin” í ljós og utar á básunum mátti berja brimketilinn auga. Um er að ræða merkilegt náttúrufyrirbæri. Hann er mun stærri en nafni hans á vestar á Reykjanesskaganum, en bæði dýpri og tilkomumeiri. Í góðu veðri, eftir nokkra sólskinsdaga, hefur þar verið hinn ákjósanlegasti baðstaður. Dýpið er mest um 2 metrar og botninn bæði sléttur og þægilegur. Óvíða er betra útsýni yfir Ægisásýndina í allri sinni dýrð.
Haldið var yfir að Hraunsnesi, þeim einstaka stað frá náttúrunnar hendi. Á tiltölulega litlu svæði í hrauninu hafa Nótarhóllmyndast sérstæðar hraunstrýtur, líkt og í Katlahrauni vestan við Selatanga. Hraun hefur runnið þarna í sjó og náð að mynda þak á hraunelfuna, sem síðan hefur fallið niður, en skilið strýturnar eftir sem augnayndi.
Gengið var yfir að Veiðibjöllunefi með útsýni yfir Mölvíkina. Handan hennar mátti sjá heim að Selatöngum. Eftir að hafa dást að hinu tilkomumikla útsýni austur með ströndinni var hún fetuð sléttfeld til vesturs. Komið var m.a. að sjávarhelli og einstakri ásýnd á Hraunsnesdrangana inn til landsins. Gengið var á millum þeirra og slóði síðan rakinn framhjá Hatti og yfir að Nótarhól.
Austan og norðaustan við Nótarhól er eitt margflóknasta “hraungarðakerfi” er um getur hér á landi. Garðarnir voru að sjálfsögðu notaðir sem þurrkgarðar á tímum fiskhersluvinnslunnar. Skálholt hafði þarna útræði um tíma, líkt og á Selatöngum og á Þórkötlustaðanesi (Strýthólahrauni), en eftir að það lagðist af á 18. öld tóku heimamenn við mannvirkjunum og nýttu þau fram til loka 19. aldar.
Komið var við í Bótinni, sem Jón Guðmundsson nefndi gjarnan Börubót. Ástæðan var sú að ef ekki var hægt að lenda í Gvendarvör skammt austar, var lent í Bótinni. Þá þurfti að bera fiskinn á börum yfir að Nótarhól og gera að honum þar. Gvendarvör er sunnan af og á millum Nótarhóls og Bótarinnar.
Í óveðrinu s.l. vetur hefur Bótin gengið a.m.k. 10 metra inn á kampinn og sent grjót langt inn á túnsléttur Skálans. Það mun því verða eitt af verkefnum eigendanna n.k. vor að “túnhreinsa” líkt og gert hefur verið á sjárvarjörðum Grindvíkinga um aldir.
Fr
ábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Bótin neðan við Ísólfsskála
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ísólfsskála – GG, LJ og ÍG

Ísólfsskáli

Nokkrir svonefndir “brimkatlar” eru við strandir Reykjanesskagans, misstórir þó. Þeir eru flestir undir bjargbrúnum, s.s. Herdísarvíkurbergi, Krýsuvíkurbergi og Staðarbergi. Einnig eru dæmi er um slíka katla neðan hraunstranda, s.s. neðan Skollahrauns, en sá er hinn stærsti á Skaganum.

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Brimketillinn í sjávarklettunum vestast í Staðarbergi utan við Grindavík er sennilega sá margumtalaðisti. Hann, líkt og aðrir bræður hans, hefur myndast í stöðugum öldugangi þegar brimið lemur bergið. Basaltbergið er misfast fyrir, ýmist sem hraunmulningur, berghella eða þéttar hraunrásir. Þar sem sjórinn mætir þeim síðastnefndu á hann erfiðara um vik að vinna á þéttu berginu. Við það myndast framangreindir tímabundnir “katlar”, ekki ólíkt og skessukatlar í móbergi. Í báðum tilvikum leika steinar lykilhlutverkin í samvinnu við vindinn í tilviki skessukatlanna og sjóinn í tilfelli brimkatlanna.

Brimketill

Brimketill. Hart bergið umhverfis.

Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þannig brýtur hafið upp hraunhelluna smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota þegar aldan skellur með ofurkrafti á sjávarkletta og laust grjót og þeytir hvorutveggja upp í loft. Þar sem lausara hraunhrap er fyrir myndast sjávarhellar. Þegar þung aldan steypist inn í rásirnar myndast mikill þrýstingur með þeim afleiðingum að “þakið” innst gefur sig. Þegar það gerist myndast nokkurs konar “strandgeysir” þar sem aldan nær að spýjast upp innan á ströndinni með tilheyrandi strókamyndun.

Brimketill

Brimketill vestast á Staðarbergi. Hér má sjá takmarkað gagn af brúnni. Annar, minni ketill sést hægra megin við enda brúarinnar, sem virðist ná athygli ferðamanna umfram “Ketilinn” sjálfan.

Hraunið umhverfis framangreindan Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240.

Brimketill

Brimketillinn vestan við brúarpallinn.

Um Brimketilinn austan Grindavíkur er til þjóðsaga. Laugin sú arna mun áður hafa heitið Oddnýjarlaug. Þjóðsaga segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu.

Ísólfsskáli

Kvennagöngubásar – brimketill.

Nú hefur metnaðarfull göngubrú verið handeruð í átt að Brimkatli, en smíðin sú virðist misheppnuð. Í fyrsta lagi fæst ekki nægileg yfirsýn yfir Brimketilinn frá enda brúarinnar. Brúarendinn hefði þurt að ná lengra út til austurs. Í öðru lagi er annar minni brimketill vestan við miðja brúnna. Fjölmargir ferðamenn, sem heimsækja staðinn telja að þar sé hinn eiginlegi “Brimketill” því þeir ná aldrei sjónhendingu að þeim eina og sanna.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Austan Ísólfsskála er tilkomumesti brimketillinn á Reykjaneskaganum. Hann er á svonefndum “Kvennagöngubásum”. Básar eru nefndir svo austan við Rangargjögur; Skálabásar, Kirkjubásar og Kvennagöngubásar allt þangað til komið er að Hraunsnesi. Þar austan við er Mölvík.

Þegar Ísólfur Guðmundsson á Ísólfsskála var spurður árið 1983 um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar svaraði hann: “Þar var kvenfólk sagt baða sig”. Að öllum líkindum hefur Ísólfur haft í huga þekktu þjóðsöguna um Oddnýjarlaugina vestar á ströndinni.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Hið réttara er að Básunum austan við Ísólfsskála var skipt upp á milli bæjarins og kirkjustaða, sem fyrrum voru að hluta til eigendur jarðarinnar. Þannig átti Kálfatjörn um tíma rekaítök í Skálalandi, í svonefndum Kirkjubásum, líkt og Garðakirkja átti rekaítök í Kirkjubásum í Krýsuvíkurlandi austan Bersenda. Rekinn skipti hlutaðeigandi miklu máli í þá daga, líkt og kveðið er á um Jónsbók og fleiri gildandi lögbókum. Kvaðir voru á jarðeigendum af kirkjujarðanna hálfu að sinna reka sínum til jafns við þá. Þannig þurfti bóndinn á Ísólfsskála að þjóna presti Kálfatjarnarsóknar og fylgast með rekanum. Kvenfólkinu á Skála var ekki ætlað það hlutverk að ganga rekann lengra en að Kvennagöngubásum, enda þótt Skálabóndi ætti allan reka frá þeim að Dágon á Seltaöngum, en þangað var öðrum ekki ætlað gangandi en karlmönnum.

Brimketillinn í Kvennagöngubásum er hinn tilkomumesti og þangað hafa meðlimir Sjósundsfélaga farið til að njóta hinna tilkomumiklu náttúrulegru aðstæðna.

Hraunið umhverfis Kvennagöngubása er talið hafa runnið 1151.

Ó.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill. Festarfjall, Fiskidalsfjall og Húsafell fjær.