Færslur

Hnúkar

Á landakortum koma oft fram misvísandi upplýsingar. Þar eru t.d. staðsettur Kvennagönguhóll í Selvogi er Hnúkar heita. Hinn réttnefndi Kvennagönguhóll er sunnar og neðan við Hnúkana. FERLIR gekk á dögunum niður að hólnum. Segir sagan að þangað hafi konur, gamalt fólk og lasburða úr Selvogi gengið til að líta krossinn helga í Kaldaðarnesi augum. Hafði hann slíkan lækningamátt að hver sem rak hann augum gat læknast af meini því sem viðkomandi hrjáði. Þótt Kvennagönguhólar virðist vera eins og hverjir aðrir slíkir í landslaginu er hér um mjög merkilegan stað að ræða í sögu landsins.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – kort.

Þegar kaþólskan vék fyrir lútherskunni varð krossinn þrándur í götu kirkjuvaldins. Segir sagan að Gissur biskup Einarsson hafi látið taka niður krossinn í kirkjunni í Kaldaðarnesi og sett hann á afvikinn stað. Á þessum krossi hafi hvílt mikil helgi og fjöldi fólks streymt í Kaldaðarnes á stórhátíðum til þess að gera þar bæn sína að krossinum. Þangað hafa og iðurlega verið farnar heitgöngur, þegar á bjátaði, og krossinum verið gefið stórfé.
Gissur biskup sendi prestum sínum áminningarbréf í vetur nokkru eftir áramótin og skipaði svo fyrir, að það skyldi lesið í öllum kirkjum biskupsdæmisins á krossmessu, helgum dómum til fordæmingar.
Bréfið sagðist hann skrifa sökum þess, að forn trú, er þann nefndi blindleika og hjátrú, haldist við í biskupsdæminu, og fólk láti ekki af því að leita líknar og huggunnar “hjá svo auðvirðulegum hlutum sem hjá einum og öðrum líkneskjum, sérlega hjá þeirri róðukrossmynd, sem hér er í Kaldaðanesi, með áheitum, fórnfæringum og heitgöngum, þvert á móti guðs boðorðum og vorrar trúar artikúlum.”

Kaldaðarnes

Kaldaðarnes – kirkjuhlið.

Þessu til áréttingar reið biskup síðan í Kaldaðarnes og fjarlægði krossinn. Hefur miklum óhug slegið á alþýðu manna, sem trúir sem fyrr staðfastlega á krossinn, við þessar tiltektir biskups.
Einhvern tímann á árinu 1560 eða 1561 var krossinum helga í Kaldaðarnesi tortímt. Gísli Skálholtsbiskup lét flytja hann í Skálholt og setti mann í að höggva hann sundur og brenna síðan brot og spæni. Fólkið bar harm sinn í hljóði. Var það blandið ugg og kvíða, því að mörgum bauð í grun, að land og þjóð myndi gjalda þess, er svo illa og ómannlega var farið með þann grip, sem mest helgi hefur verið á í öllum kirkjum landsins.

Heimild:
-Öldin okkar 1546-1547.

Kvennagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Hnúkar

Gengið var frá þjóðveginum um Selvog, gegnt Hnúkunum, áleiðis niður á Kvennagönguhól, eða-hóla. Á leiðinni var rifjuð upp þjóðsagan um hólinn sem og notkunargildi hans fyrrum.

Kvannagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Kvennagönguhóll og Orustuhóll eru á miðri Selvogsheiði í Árnessýslu. Saman eru þeir nefndir Kvennagönguhólar. Þá eru til Kvennagönguhóll í Viðey við Reykjavík og Kvennagönguhólar í landi Minna-Mosfells í Grímsnesi í Árnessýslu. Auk þess er Kvennagönguskarð á Vogastapa en það er skarð fast vestan við Reiðskarð. Loks var haldið í Djúpudalahraun, gengið um Djúpudali og Djúpudalaborgin barin augum.Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að hólarnir á Selvogsheiði hafi verið tengdir sögum um konur sem þangað fóru og “ekki treystust að fara krossför alla leið til Kaldaðarness”. Seinni tíma þjóðsögur telja að konurnar hafi verið að huga að mönnum sínum sem voru á sjó.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Í heimild frá 1821 segir að “Kvenna-Gaungu-Hólar á Selvogs-Heidi í Árness Sýsslu þángad géngu í Papiskri Óld, aldradar og veikar Kvennpersónur úr Selvogi, til ad festa sión á Krossmarki þvi, sem upp var Fest á Kaldadar-Ness-Kyrkiu, og þókti sér batna ef séd féngu; Hólarner eru 2, skaparans, enn ei Manna verk.”

Um nafnið Kvennagönguhóll er ýmsar sagnir, sem Gísli Sigurðsson tilfærir í sinni skrá: 1. Í kaþólskri trú var kross einn mikill í landi Kaldaðarness. Konur í Selvogi gengu þá oft á hól þennan, horfðu til krossins og gerðu bænir sína. 2. Mikið útræði var í Selvogi. Þar gerði oft þau veður, að ekki var lendandi. Var þá hleypt austur í Þorlákshöfn. Tækist lendingin vel, var veifa dregin á stöng.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Fóru konur úr Selvognum á Kvennagönguhól að sjá, hvort veifa væri á lofti og menn þeirra lentir heilu og höldnu. 3. Í fyrndinni bjó tröllkona í hólnum. Hún reri nökkva sínum úr Keflavík undir bjargi. Aflann bar hún heim og gerði að honum á Kvennagönguhólaflöt. Ekki hefur annað heyrzt, en hún hafi verið Selvogsingum góður nágranni.”
Hvað sem sögum og sögnum líður er hið ágætasta útsýni af hólnum yfir Selvoginn og austur með ströndinni.
Haldið var niður í Djúpudalahraun. Í örnefnaslýsingu fyrir Þorkelsgerði er tiltekið að “austan við Strandhæð eru mikla lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða -sel.” Ofan við Djúpudali er myndarleg og nokkuð heilleg fjárborg, Djúpudalaborgin. Hún var skoðuð í þessari ferð og ástand hennar metið.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra_nes.htm

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.