Í annarri frásögn hér á vefsíðunni má lesa um svonefnda Lágafellsleið, þ.e. forna leið milli Grindavíkur og Ósa um Lágafell og áfram yfir að verslunarstöðunum við Þórshöfn og Básenda. Í þeirri ferð tókst að rekja götuna frá Lágafelli niður í Ósabotna. Litlar vörður voru víða við þann kafla leiðarinnar. Núna var suðurhlutinn rakinn, frá Lágafelli að Árnastíg í norðvestanverðum Eldvörpum.
“Á 14. öld varð skreið aðalútflutningsvara landsmanna og fiskveiðar munu hafa eflst mjög. Þar var Grindavík engin undantekning. Framan af var skreiðarverslunin í höndum norskra kaupmanna og miðstöð hennar var í Bergen. Þegar kom fram á 15. öld urðu Englendingar sífellt umsvifameiri á fiskimiðunum hér við land og í helstu verstöðvum. Í kjölfar þeirra fylgdu þýskir Hansakaupmenn sem brátt náðu yfirhöndinni í skreiðarversluninni af Norðmönnum. Hörð samkeppni ríkti milli Englendinga og annarra kaupmanna um íslensku skreiðina, og sló oft í brýnu með þeim.
Þegar kemur fram á 16. öld bundust valdsmenn innanlands og Hansakaupmenn samtökum um að reka Englendinga burt héðan. Þess má geta að umboðsstjórn konungs var um þetta leyti oftast í höndum þýskra manna. Englendingar höfðu aðalbækistöðvar sínar í Hafnarfirði, en voru hraktir þaðan 1518. Eftir það varð Grindavík þeirra aðalhöfn, en ekki sátu þeir lengi á friðarstóli þar. Englendingar stunduðu hér miklar fiskveiðar úr landi, og höfðu því fjölda innlendra manna í sinni þjónustu – eða allt þar til þeir voru hraktir af landi brott 1539.
Englendingar höfðu aðalbækistöðvar sínar í Hafnarfirði, en voru hraktir þaðan 1518. Eftir það varð Grindavík þeirra aðalhöfn, en ekki sátu þeir lengi á friðarstóli þar. Englendingar stunduðu hér miklar fiskveiðar úr landi, og höfðu því fjölda innlendra manna í sinni þjónustu – eða allt þar til þeir voru hraktir af landi brott 1539.
Árið 1640 hættu kaupmenn að sigla á Grindavík og tóku upp kaupskap á Básendum ís taðinn. Hefur þetta sjálfsagt verið vegna þess að ekki var óalgengt aðs kipum hlekktist á í höfninni og eitt sinn, skömmu eftir tilkomu einokunarinnar mun skip hafa farist þar. Grindvíkingar kvörtuðu sáran undan missi verlsunarinnar, enda var það þeim til mikil óhagræðis að þurfa að flytja afurðir og verslunarvörur sínar til og frá Básendum. Þá varð þetta til að fæla frá utanhéraðsmenn sem gerðu út á vertíðina. Þar var svo eftir að Brynjólfur Sveinsson biskup beitti sér í málinu að Grindavíkurhöfn var tekin upp aftur 1664.
Staðarvör.
Var höfnin nú flutt í Staðarhverfi. Hélst verslun þar allt til 1745 að hún var aftur felld niður, og þurftu Grindvíkingar síðan að flytja vörur sínar á Básenda enn á ný. Var því nú borið við að höfnin væri að fyllast af sandi svo skipin tækju niðri. Til að bæta mönnum upp óþægindin var Grindvíkingum heitið flutningsgjaldi fyrir vörur sem þeir legðu inn hjá Básendakaupmanni.
Þrátt fyrir það voru þeir óánægðir með þetta ástand og stóð oft í stappi út af flutningsgjaldinu. Eftir 1745 var engin föst verslun í Grindavík í einaoghálfaöld. Sagt er að kaupmannshúsin færu í sjóinn í miklu flóði 1799. Þá brotnuðu einnig verslunarhúsin á Básendum í þessu sama flóði og féll verslun niður þar. Grindavík var ætíð með minnstu verslunarhöfnum á einokunartímanum. Hún var þó eftirsótt vegna fisksins sem þaðan kom. Jón Aðils segir í bók sinni um einokunarverslunina að Grindavík og Básendar saman hefðu verið leigð fyrir 743 ríkisdali á ári 1684, en leigan hækkað í 1150 ríkisdali 1689. Hafnirnar voru þá boðnar hæstbjóðendum. Kaupsvæði verslunarinnar náði aðeins um hreppinn, Grindavík og Krýsuvík, en öðru hvoru var verslun sótt þangað úr Höfnum, Selvogi og Ölfusi, meðan slíkt leyfðist á einokunartímanum.”
Í örnefnalýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar frá Merkinesi um Hafnahrepp má lesa eftirfarandi: “Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Kaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður.”
Líklega á Vilhjálmur Hinrik við þessa götu þegar hann nefnir alfaraleiðina. Um er að ræða auðvelda reiðleið, tiltölulega slétta að Lágafelli. Ásinn, sem þar þarf að fara yfir, er aflíðandi, gróinn og mjög greiðfær. Norðan í hlíðinni sést gatan mjög vel.
Sem fyrr sagði var ætlunin að skoða þetta víðfeðmi betur fljótlega m.t.t. framangreinds. Lítið sést til gömlu leiðarinnar suðaustan undir Lágafelli (þ.e. milli Lágafells og Sandfells, en þegar komið er inn á Eldvarpahraunin þar sem þau eru sléttust um mið Eldvörpin, sést gatan glögglega þar sem hún er mörkuð í hraunhelluna, allt þar til hún sameinast Árnastíg við háa og myndarlega vörðu. Á meðfylgjandi korti (því neðra) er umrædd leið grænlituð.
Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur), Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði; fæddur 12/8 1899, Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu; flytur að Merkinesi í Höfnum 1934.
-Ægir, 78. árg. 1985, 6. tbl. bls. 301-308.
Varða við Lágafellsleið.