Ætlunin er að fylgja Lakastíg innan við Stóradal, inn með Lakahnúkum og inn á Hellur utan við Lakadal. Í stað þess að fylgja stígnum um Lágaskarð og niður í Sanddal verður beygt inn í Lakadal undir Stóra-Sandfelli. Í dalnum ku einhverju sinni hafa verið brak úr óþekktri flugvél. Tilgangurinn er m.a. að skoða hvort brak kunni enn að vera í dalnum.
Þá verður gengið um Lakakrók á leiðinni til baka.
Ætlunin var sem sagt að gera aðra leit að hugsanlegu flugvélaflaki í Lakadal undir Stóra-Sandfelli, innan við Laka undir Hellisheiði.
Í greinargerð um hugsanlega efnistökustaði á Hellisheiði sem tekin var saman fyrir Orkuveitu Reykjavíkur vegna fyrirhugaðra jarðvarmavirkjana við Hverahlíð og Ölkelduháls segir m.a. um þetta svæði: „Innan athafnasvæðis fyrirhugaðrar Hverahlíðavirkjunar er eftirfarandi jarðmyndanir að finna: Hraun frá nútíma, þ.e. Hellisheiðarhraun, grágrýti og skálaga móberg í Skálafellsdyngju og bólstraberg í Lakahnúkum (Kristján Sæmundsson, 1995). Hellisheiðarhraunin þekja langstærstan hluta af athafnasvæðinu. Bólstraberg er einungis að finna á yfirborði á litlum hluta í SV hluta athafnasvæðisins. Um er að ræða svokallaða Laka og Lakahnúka.
Lakar eru þyrping af bólstrabergshólum og hæðum sem raða sér nokkurn vegin á NNASSV línu í framhaldi af Reykjafelli, gegnt Skíðaskálanum, á sunnanverðri heiðinni. Hólarnir ná suður undir Stóra-Meitil. Hólarnir eru mosavaxnir að stórum hluta, nema í bröttustu hlíðunum þar sem eru gróðursnauðar skriður. Milli hólanna eru grónar lautir. Ef þungamiðja framkvæmda við Hverahlíðarvirkjun verður á vestanverðri heiðinni, vestan við afmarkað athafnasvæði, eru Lakar líklega álitlegasti kosturinn fyrir efnistöku. Vel ætti að vera hægt að finna efnistökunni stað þar sem hún yrði lítt áberandi og er þá miðað við útsýn að staðnum frá fjarsvæði, veginum yfir Hellisheiði. Við norðurenda hólanna er gamalt efnisnám þar sem fram hefur farið yfirborðsvinnsla á hrauni.
Hér er bent á einn hugsanlegan efnistökustað þar sem líklegt er að vinna megi bólstraberg í gæðafyllingar. Það er einn af austustu hólunum í Lökum. Bent er á þennan stað því þar er líklegt að náma geti verið vel falin í umhverfi. Hóllin rís um 10 m yfir umhverfi sitt. Með því að láta efnistöku fara fram í hólnum vestanverðum og láta norður og austurhlíðar standa ósnertar ætti efnistakan að geta verið nokkuð vel falin. Gossprunga frá nútíma liggur um hólinn austanverðan og melur, fínefni, er á yfirborði. Þessir þættir gera það að verkum að austasti hluti hólsins er lítt eftirsóknarverður og mikið magn fínefna á yfirborði gæti rýrt gildi þessa tiltekna hóls sem efnistökusvæði.
Lakahnúkar eru umfangsmikil bólstrabergsmyndun við suðurbrún Hellisheiðar. Líkt og Lakar eru þetta bólstrabergshólar og hryggir. Hnúkarnir ná frá Skálafelli í austri og teygja sig í áttina að Lökum. Hellisheiðarhraun hafa runnið eftir myndun bólstrabergsins og hraunstraumar þeirra skilja Lakahnúka frá Lökum. Lakahnúkar eru mun umfangsmeiri heldur en Lakar. Til greina kæmi t.d. að vinna efni úr suðurhlíðum nyrstu hólanna. Austan við stærstu hólana er lægri hóll/hryggur sem er að hluta til innan athafnasvæðisins, til greina kæmi að vinna efni úr honum að hluta til eða öllu leiti. Úr hlíðum bólstrabergshryggjar er líklega hægt að vinna bólstraberg í gæðafyllingar og gnægð efnis til staðar. Það ætti að vera hægt að haga efnistöku á þessum stað þannig að hún verði lítt áberandi.
Stærstur hluti Skálfells er dyngjuhraun, myndað í eldgosi á síðjökultíma. Að norðanverðu hefur hraunbráðin runnið út í vatn og það er því freistandi að álykta að í rótum Skálafellsins að norðanverðu gæti bólstraberg verið að finna, þó það sjáist hvergi í yfirborði með óyggjandi hætti. Efnistaka í Lakakróki væri líka kjörinn staður.“
Svona er nú þankagangurinn á þeim bænum!
Lakastígur (Lákastígur)
Lágaskarðsvegar er getið í Sýslulýsingu árið 1840 (Lýsing Arnarbælisþinga 1937:90) og 1842 (Lýsing Garðaprestakalls 1937:212). Lákastígs er ekki getið í þessum heimildum.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar um þræla Ingólfs Arnarssonar, Sviða og Vífil segir m.a.: “Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn.”
Í örnefnalýsingum er fjallað um Lágaskarðsveg. Þar segir m.a. að “Lágaskarð liggur hjá Stakahnúk [en hann er áberandi þegar komið er í skarðið austan við Stóra-Meitil]. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.
Lágaskarðsvegur hefst við Breiðabólstað. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð og upp á Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er lýst. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.”
Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur, en það nafn er væntanlega komið frá Lakahnúkum austan við stíginn. Austar og sunnar, undir Norðurhálsum, eru Lakakrókur og Lakadalir.
Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936: „Þessi leið liggur að mestu leyti samhliða Þrengslaleiðinni, en um það bil þremur km austar. Og Meitlarnir mynda takmörkin á milli þeirra. Leiðin liggur frá Skíðaskálanum, og stefnir suður yfir lága öldu, um 50 m upp á við af veginum í byrjun. Þegar upp á hana er komið, sér greinilega móta fyrir Lágaskarði.
Vestan undir [Lákahnúkum] er víðast hvar graslendi, sem ásamt haganum undir Lönguhlíð, austar á leiðinni, hefir orðið til þess að gera leið þessa vinsælli en Þrengslaleiðina. Lágaskarðsleiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði, allt fram að því að akvegur var gerður yfir heiðina og sjálfsögðust lið allra austanmanna, er um Eyrarbakka komu og fóru yfir Ölfusá í Óseyrarnesi og um Hafnarskeið. Vestan undir Stóra-Sandfelli er hádepill Lágaskarðsleiðar, 303 m.
Skammt austar liggur leiðin niður brekku eina talsvert bratta en ei langa, og þegar kemur á brekkubrúnina, sér vegafarandinn hvar Eldborgarhraunið breiðist út vestur með Meitilstöglunum og allt vestur að Sandfelli. Með heiðarbrúninni er greiðfær og götumtroðinn grasmói, og heiðin fyrir ofan hann – að suðurbungu Skálafells, heitir Langahlíð.
Norðaustur af Krossfjöllum skiptast leiðir, en gamla aðalleiðin lá suðaustur með Lönguhlíð, niður hjá Kömbum og Kerlingadrögum, vestanvert við brún Hjallafjalls og annaðhvort austur með fjallsbrúninni, að Hjalla eða suðvestur undir hraunið, að hrauni, sem var fyrrum alkunnur viðkomustaður þeirra, sem Lágaskarð fóru.” Hálfdan Jónsson getur Lágaskarðsleiðar í lýsingu Ölfushrepps frá 1703: „Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverjir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða.“
Í Þjóðólfi 14. september árið 1906 er fjallað um fyrirhugaða járnbrautalagningu milli Reykjavíkur og Ölfuss. Þar segir m.a. um járnbrautarleiðina austur í sýslur að verkfræðingurinn Þorvaldur Krabbe hafi nú athugað leiðina. “Skýrði hann oss frá, að hann hefði fyrst athugað leiðina héðan austur í Ölfus. Er þar um þrjár leiðir að tala: um Ólafsskarð, Lágaskarð og um Hellisheiði niður hjá Reykjaholti og Reykjum, en um þá leið væri naumast að tala. Um Ólafsskarð mætti leggja braut, og væri þá farið fram hjá Vífilfelli, en Lágaskarðsleiðin niður að Hrauni væri greiðust, en á þeirri leið væri um hraun að fara á mjög löngum kafla, og hann vildi ekki leggja til, að járnbrautir væru lagðar yfir hraun. Undirstaðan eða hleðslan undir brautina héldist þar afarilla, sigi niður og skekktist allavega, og það gæti orðið stórhættulegt, því að járnbrautarteinarnir mega ekki haggast hið minnsta, annars er við því búið, að lestin hlaupi út af sporinu.”
Brakið, sem leitað var að, fannst ekki að þessu sinni, enda þakti snjór jörð.
Frábært veður þennan fyrsta sumardag (2009). Gangan tók 3 klst og 3 mín.