Tag Archive for: Lambafellshraun

Ólafsskarðsvegur

Spáð var mikilli vætu, en FERLIR hafði náð að semja um þokkalegt veður á svæðinu. Einn FERLIRsfélagi, sem var að skoða leiðir nálægt Ólafsskarðsvegi nýlega, hafði rekist á fjögur op, sem skoða þurfti niður í. Undirniðrið var áður ókannað.

Lambafell

Í skjóli í Lambafellshrauni.

Gengið var ásamt félögum úr HERFÍ frá mælimastrinu við Þrengslaveginn um Lambafellshraun (Leitarhraun) til að skoða þetta betur.
Sæmilegur hellir reyndist vera undir einu opanna, 25-30 metra langur, en lágur (mest 1.20 m), þangað til komið var að þröngu gati (12 cm). Þar fyrir innan virtist rásin víkka, en ekki var hægt að komast þangað inn að þessu sinni. Í öðrum reyndist vera 15-20 metra þröng rás.

Gengið var áleiðis að syðri Eldborginni. Við hraunjaðar „Kristnitökuhraunsins“ (Svínahrauns) var áberandi varða á hraunhól. Sú varða virtist tengjast röð varða frá henni til suðausturs, niður hraunið í átt að Löngubrekkum (þær sem Hraunsel stendur við austan Raufarhólshellis).

Ólafsskarðsvegur

Útsýni að Hengli af Ólafsskarðsvegi.

Svo er sjá, ef marka má vörðurnar, að um geti verið að ræða gamla leið frá austanverðu Ölfusi upp á Ólafsskarðsleið og áfram til Reykjavíkur eða/og um Heiðarveg, sunnan Bláfjalla og niður á Selvogsleið við Grindarskörð.

Rifjuð var upp sagan af Ólafi, bryta Skálholtsbiskups, er sinnaðist við ráðskonuna. Lagði hún á hann slíkt að hann truflaðist við, hljóp sem leið lá frá Skálholti áleiðis til Reykjavíkur, tapaði lyklum af Skálholtssetrinu við Lyklafell og hljóp síðan til baka um svonefndan Ólafsskarðsveg um Ólafsskarð ofan Jósepsdals, niður með Geitafelli, að Ölfusá, yfir hana og áfram austurúr þangað til hann sprakk á endanum (mjög stytt).

Ólafsskarðsvegur

Ólafsskarðsvegur.

Ólafsskarðsvegur er varðaður (og reyndar stikaður að hluta). FERLIR skoðaði á sínum tíma Hlíðarendasel, en gatan liggur yfir það þriðjung frá Geitafelli að Vörðufelli í suðri (þrjár tóftir og stekkur).

Gengið var á Lambafellsháls og síðan niður brattar hlíðar Lambafells að norðanverðu þar sem komið var niður í Sléttahraun. Austan undir sunnanverðu Lambafelli er gömul varða á hraunhól, að því er virðist ein og stök, en áberandi. Við hana eru grasbalar og lægðir. Gæti verið gamall áningastaður.
Ferðin tók 3 klst og 12 mín. Frábært veður.

Eldborg

Eldborg.

Lambafellshraun

Gengið var um svonefnt Kristnitökuhraun norðan Þrengsla, að Nyrðri- og Syðri Eldborg og síðan niður með suðausturjaðri hraunsins sunnan Lambafells, áfram niður Lambafellshraun um Lambhól, yfir að Stórahvammi undir Stórameitli, suður með vestanverðum Litlameitli, framhjá Hrafnakletti og Votabergi og beygt til norðausturs milli Litlameitils og Innbruna, upp að Eldborg undir Meitlum.

Kristnitökuhraun

Árið 2000 voru 1000 ár frá því að Kristnitökuhraunið rann. Um er að ræða mikið mosahraun með löngum og fallegum hrauntröðum. Á þessum tímamótum, með fæturnar á áþreifanlegum ummerkjum sögunnar, voru rifjuð upp merkileg orðaskipti á Alþingi árið 1000 þegar tekist var á um hvort heiðinn siður skyldi víkja fyrir hinum kristna. Þetta hraun, sem þá rann undir Hellisheiði, kom þar við sögu.
Í bók sinni, Frumkristni og upphaf kirkju, segir Hjalti Hugason svo um stórmerki á þingtíma: “Í frásögn sinni af kristnitökunni heldur Ari fróði sig alfarið við störf manna á alþingi þetta sumar. Ýmsir þættir kristnitökusögunnar koma því ekki fyrir í þessari elstu útgáfu hennar. Þar á meðal er sagnastefið um eldsumbrot í Ölfusi.

Eldborgir

Eldborgir í Svínahrauni.

Í núverandi mynd kemur það fyrst fram í Kristni sögu frá 13. öld. Þar segir að þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi hafi svo mikill ótti gripið andstæðinga þeirra að þeir hafi ekki árætt að andmæla þeim. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli. Má ætla að sú ógn, sem þannig var upp komin, hafi þó aðeins verið forsmekkur þess sem koma skyldi, en sagan heldur áfram. “Þá kom maður hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann hlaupa ábæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: “Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði: “Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á.” Þetta atvik er eitt af þeim stórmerkjum, sem fylgdu kristnitökunni að sögn ýmissa miðaldarita.”

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Kristnitökuhraunið á vestanverðri Hellisheiðinni rann einmitt um þetta leyti. Svínahraunsbruni norður af Þrengslum mun vera umrætt hraun. Með mælingum hefur verið staðfest að hraunið rann fyrir um 1000. Ekkert annað hraun á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Gefið er til kynna að bæ Þórodds goða á Þóroddsstöðum eða Hjalla hafi verið í hættu. Enda þótt meginhluti hraunsins dreifðist til norðausturs frá eldstöðinni náði angi hans suður í Þrengslin. Hefur þá með góðum vilja mátt segja að hann stefndi í Ölfus og á bæ goðans. Það hraun, Þurárhraun, rann hins vegar úr eldstöðinni ofan við Hveradalabrekkur og rann í mjóum farvegi fram með Skálafelli að austanverðu og niður af hlíðinni um skarð austan við Þóroddsstaði.

Eldborg

Eldborgir og hraunin – greinilega um tvö gostímabil með stuttu millibili að ræða.

Gosið árið 1000 varð á vestara sprungusvæðinu, sem svo er nefnt, og liggur nokkurn veginn samhliðpa Bláfjöllum að austanverðu. Þar varð stórgos fyrir 4.600 árum í Leitinni, gíg sem er alveg upp við fjallshlíðina og hefur með tímanum fyllst af framburði úr hlíðinni. Leitarhraun rann bæði suður á bóginn, líklega allt til Ölfusárósa, einnig yfir stór flæmi til norðausturs og kvísl úr því rann undan hallanum til vetsurs, nokkurn veginn nákvæmlega þar sem Suðurlandsvegurinn liggur, og allt niður í Elliðaárvog.
Sprungusvæðið austan við Bláfjöll hafði að líkindum ekki látið á sér bæra í 3.600 ár þegar upp kom jarðeldur árið 1000 í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Vestan og norðvestan við Lambafell urðu til tvær eldstöðvar, Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Sú nyrðri sést tilsýndar af veginum í Svínahrauni. Austur frá Nyrðri-Eldborg er á alllöngum kafla mikilfengleg hrauntröð.

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Kristnitökuhraunið, eða Svínahraunsbruni, sem nú er talið víst að sé úr þessum eldstöðvum, dreifðist undan hallanum norðaustur með Lambafelli og er gífurlega úfið og illt yfirferðar á köflum, vaxið þykkum grámosa, sem tekur á sig gulan lit þegar hann vöknar.
Til suðurs rann hraunið sáralítið nema kvísl sem rann fyrir hornið á Lambafelli, út í Þrengslin, yfir eldra hraun úr Hellisheiðareldstöðinni ofan Hveradala, og hefur þá lokað alfaraleið yfir heiðina um Þrengslin. En mest dreifðist hraunrennslið yfir Leitarhraunið til norðausturs.

Það hraun, Eldborgarhraun, sem rann áleiðis að Hjalla er miklu mun eldra en kristni á Íslandi. Það átti upptök sín í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg, sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum.

Hins vegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu. Reyndar eru gíganir undir Meitlunum tveir; Nyrði- og Syðri-Eldborg. Ofan af gígbarmi Eldborgar sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorkálshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áðurnefnd eldstöð ofan Hveradala.
Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi er átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofan á Þurárhrauni og Eldborgarhrauni, Þess vegan vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitökuhraunið.
Kristian Kålund (1872-’74), Þorvaldur Thorodssen (1882), Guðmundur Kjartansson (1943), Trausti Einarsson (1951) og Þorleifur Einarsson (1960) töldu allir að hraunin úr Eldborgum í Hveradalabrekkum og Meitlum væru hið svonefnda Kristnitökuhraun.

Skálafell

Skálafell – kort af svæðinu.

Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna,sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristinitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson, jarðfræðingur, birti grein í Náttúrfræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus, og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðsins á nefndum tímamótum, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg ár áður en land byggðist.
Jón Jónsson skrifaði grein í Náttúrfræðinginn 1979 og er frásögn hennar “Kristnitökuhraunið”. Þar segir Jón frá því að landnáms-öskulagið hafi fundist í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristni sögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Kenning Jóns fékk mikilvægan stuðning í grein Krýsuvíkurelda eftri Sigmund Einarsson, jarðfræðing, árið 1991. Í þeirri grein, sem birtist í tímaritinu Jökli, eru færð rök fyrir því að Eldborgir í Svínahraunsbruna séu hluti af eldstöðvakerfi Breinnisteinsfjalla og að þar hafi staðið yfir goshrina á síðari hluta 10. aldar.
Fróðleiksferð. Fábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mínútur.

Heimild m.a.:
-Lesbók MBL – 1. júlí 2000 – Gísli Sigurðsson.

Svínahraun

Hraunskúltúr í Svínahrauni.