Færslur

Fjóla Eiðsdóttir

Í Fjarðarfréttum árið 1969 birtist fróðlegt viðtal við Fjólu Eiðsdóttur undir fyrirsögninni “Af sjónarhóli húsmóður – Að standa einn í stríði lífs er sterkra manna dyggð“. Viðtalið er ekki einungis athyglisvert vegna dugnaðar og elju einstæðrar móður við uppeldi sex barna, sem henni tókst að halda að sér þrátt fyrir mótlæti þar sem lítils stuðnings samfélagsins var að vænta, heldur og vegna þess að í því koma fram gildin um veru barnanna bæði í Vinnuskólanum í Krýsuvík og á Barnaheimilinu Glaumbæ í Hraunum á þeim tíma. Um báða staðina er fjallað ítarlega hér á vefsíðunni.

Fjarðarfréttir

Fjarðarfréttir 1969.

“Fjarðarfréttir rabba að þessu sinni við Fjólu Eiðsdóttur, Hún fluttist til Hafnarfjarðar fyrir átta árum. Hún var þá þegar fyrirvinna sex barna á aldrinum eins til sjö ára. Í þessi átta ár hefur hún barizt ein áfram af slíkum dugnaði og myndarskap, að aðdáun hefur vakið hjá öllum, sem til þekkja.
Hvenær fluttist þú til Hafnarfjarðar?
— Það eru nákvæmlega átta ár síðan, á Jónsmessunni 24. júní, ég man það svo vel. Þá fluttist ég hingað með börnin, sem voru þá á aldrinum 1 til 7 ára.
Mestu erfiðleikarnir voru, að maður hafði ekkert húspláss. Ekkert. Ég kalla það ekki húspláss, eitt herbergi og eldhús fyrir sjö manna fjölskyldu. Það var svo erfitt, að það var ekki hægt að búa við það, þó að við værum tilneydd. Þegar ég svo fékk það húsnæði, sem ég er nú í, fyrir tveimur árum, fannst mér öllum erfiðleikum vera lokið.
Áttir þú ekki við veikindi að stríða fyrstu árin þín hér?
Fjóla Eiðsdóttir— Jú, það voru afleiðingar taugaspennu, ég ætlaði að hafa réttinn mín megin, og ég tel veikindin ekki hafa verið mjög alvarleg, enda náði ég mér strax og ég hafði náð rétti mínum. Það gera sér ekki allir grein fyrir því, að það eru til lög, og ég þurfti að berjast harðri baráttu fyrir rétti mínum og barnanna. Ég var alveg gallhörð á því, að það væru til lög og ég skyldi fara eins langt eins og ég kæmist, og það hef ég gert og skammast mín ekkert fyrir það.
Það hefur oft á tíðum verið erfitt hjá þér og þröngt í búi?
— Já ég gat sjaldan hugsað lengra en að eiga til dagsins, hitt þýddi ekkert. Ég var alveg ánægð, ef ég átti einhvern bita til morgundagsins. Ég vissi alltaf að okkur myndi leggjast eitthvað til. Það voru miklu meiri erfiðleikar að eiga ofan í sig að borða, þegar ég var í Grindavík en eftir að ég flutti í Hafnarfjörð. Grindavík var þá annað verðlagssvæði hjá tryggingunum en Hafnarfjörður og það munaði töluvert miklu, hvað ég fékk meira til að lifa af, þegar ég kom hingað. Fjölskyldubætur fékk ég ekki fyrstu árin. Það eru aðeins rúm tvö ár síðan konur, sem eru einar með börnin sín fóru að fá fjölskyldubætur greiddar.
Fjóla Eiðsdóttir
Ég þurfti að liggja á sjúkrahúsi um skeið nokkru eftir að ég kom til Hafnarfjarðar. Það var að vísu erfitt að skiljast við börnin, en ég vissi, að ég varð að gera það til að jafna mig eftir taugaspennuna. Ég vissi líka, að það væru til lög og gott fólk, svo að það færi ekki illa um börnin þann tíma.
Eftir að þú komst í betra húsnæði og náðir fullri heilsu aftur, hefur þú þá unnið úti?
— Já ég vinn í Reykveri frá kl. 7.20 f.h. til 7 á kvöldin. Ég hef unnið þar síðan fyrirtækið var stofnað.
Er þá ekki geysileg vinna eftir, þegar komið er heim að lokinni vinnu?

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

— Jú, það er nú oft mikil vinna eftir. Ég verð að byrja á því að elda matinn og sameina fjölskylduna yfir einni heitri máltíð á dag. Ég verð alltaf að fara á fætur kl. 6.00 og taka til fötin, sem þau eiga að fara í, og segja þeim alveg hvað þau eiga að gera yfir daginn. Það bregst varla, að þau fari eftir því. Þegar þau voru í Glaumbæ og vinnuskólanum í Krýsuvík lærðu þau að brjóta saman fötin sín og ganga frá þeim. Mér finnst það hafa hjálpað okkur geysimikið allt, sem þau lærðu þar, auk þess, sem það var mikill hjálp að geta komið þeim þangað á sumrin. í hádeginu hef ég oft getað lagt mig, því að þau taka sjálf til hádegismatinn og elzti sonurinn, sem nú er kokkur á bát hefur stjórnað eldamennskunni.
Á kvöldin er föst regla, að hver gengur frá sínu. Þau brjóta fötin sín vel saman og laga til í herberginu. Það verður að vera föst regla og góð samvinna á heimilinu. Það eru margir, sem hneykslast á því, að ég skuli vinna úti og halda, að þetta sé ekki hægt. Já, það hneykslast margir. Fólk heldur, að maður vanræki börnin mikið með þessu, en ég vil meina, að þetta sé bæði skóli fyrir mig og krakkana líka. Þau læra mikið af þessu. Fyrst ætluðu þau að fara að klaga öll í einu, eitthvað sem hafði skeð yfir daginn, en nú kemur það aldrei fyrir, að það sé neitt. Ég þarf aldrei að skipta mér af heimanáminu hjá þeim. Þau eru samvizkusöm, sem betur fer og ég held, að ég fengi þau ekki í skólann, ef þau væru ekki búin að læra.
Hvað ræða börnin um framtíðina?

Glaumbær

Glaumbær í Hraunum.

— Þau náttúrulega ræða um framtíðina. Þessi ætlar að verða þetta og hinn hitt, en maður veit aldrei hvað verður. Ég ætlaði t. d. að verða kennari, en það fór allt á annan veg. Föðurbróðir minn kenndi mér í barnaskóla, og ég og dóttir hans vorum alltaf að keppa. Hún hafði það af að verða kennari, en ekki ég. Ég sagði oft, að það gæti verið, að ég kæmist í skóla, þegar ég væri orðin gömul og hef alltaf huggað mig við það, en krakkarnir verða nú að sitja fyrir, svo að ég kemst sjálfsagt aldrei í skóla,
Nú hefur þú barizt áfram ein með þín sex börn í átta ár. Hvaða hugsun er það, sem grípur þig, þegar þú lítur til baka?
— Ég hugsa bara ekkert um það. Ekki neitt. Það er nokkuð, sem ég forðast alveg að fara að hugsa um. Þá getur maður farið að hugsa margt. Ég hugsa fyrir morgundeginum. Ég set mér mark að keppa að, og þegar ég er búin að ná því, set ég mér annað mark, og svo koll af kolli. Ég hef lögin með mér, og ég hef notfært mér það, en um það, sem liðið er, hugsa ég ekki.”

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 3. tbl. 02.06.1969, Af sjónarhóli húsmóður – “Að standa einn í stríði lífs er sterkra manna dyggð”, bls. 9.

Fjóla Eiðsdóttir

Fjóla Eiðsdóttir og börn 1960.

Lambhagarétt

Gengið var frá Vatnsskarði og áleiðis umhverfis Kleifarvatn; um Sveifluháls, Hellutinda, Stapatinda, Miðdegishnúk (Hádegishnúk), gengið niður að Kaldrana, elstu minjum í ofanverðri Krýsuvík að talið er, austur með sunnanverðu vatninu ofan við Hvamma, undir Geithöfða, til norðurs vestan Gullbringu og yfir Hvammahraun með viðkomu í Gullbringuhelli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Þá var gengið með vatninu undir Vatnshlíðinni, sem verður að teljast nokkuð óvenjulegur möguleiki. En skýring er þó á því, eins og flestu öðru. Þá var haldið vestur um Lambhaga, litið á rétt og athvarf smala fyrrum, og síðan gengið áfram eftir eyðinu milli Lambhagatjarnar og Kleifarvatns norðan þess, uns staðnæmst var við hellisskútann undir Hellunni. Fagurt útsýni var yfir Kleifarvatn alla gönguna. Á leiðinni var rifjaður upp ýmiss fróðleikur um vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli, a.m.k. ekki ofanjarðar. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, þannig að veiði (er) var um tíma ágæt. Sumir telja að besti veiðistaðurinn er syðst í vatninu þar sem heitt jarðvatn frá hverasvæðum sytrar út í vatnið, en reyndir veiðimenn vita að besti veiðistaðurinn er undan norðanverðu Hvannahrauni (Hvammahrauni) austan við vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hveravolgrur.

Kleifarvatn er mjög kalt frá náttúrunnar hendi, en volgrur þessar skapa bleikjunni ákjósanleg skilyrði. Eldbrunnið og hrjóstrugt umhverfi vatnsins er bæði sérstakt og fagurt. Í jarskjálftunum 17. og 21. júní 2000 opnuðust sprungur á vatnsbotninum og vatnsborðið lækkaði verulega, en byrjaði að hækka aftur árið 2004.

Krýsuvíkurland sunnan Kleifarvatns tilheyrir landi Hafnarfjarðar, sem í rauninni er forgangssök því í vitund landvætta vorra tilheyrir það umdæmi Grindavíkur. Núverandi ráðstöfun er afleiðing klækja mannanna í valdastöðum þess tíma.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Umhverfisráðuneytið ákvað ekki alls fyrir löngu að veita Náttúrufræðistofu Kópavogs 300.000 kr. styrk vegna fyrirhugaðra lífríkisrannsókna á Kleifarvatni. Ástæðan er sú að Kleifarvatn er afskaplega áhugavert vatn. Það er mjög djúpt og tært, í því er verulegur jarðhiti, það er án afrennslis á yfirborði og í því geta orðið verulegar vatnsborðssveiflur. Þrátt fyrir þetta hafa litlar rannsóknir farið fram á lífríki þess og vistkerfi. Fróðlegt verður að skoða niðursstöðurnar þá og þegar þær liggja fyrir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnsyfirborð 2000-2004 (Vatnamælingar Orkustofnunar).

Vatnið er (var og er þess á milli) þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97 m djúpt. Það hefur lítilsháttar aðrennsli en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Jarðhitinn er einkum syðst í vatninu og einnig út af Innristapa.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sést þar endrum og eins. Á það að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð.

Sveifluháls

FERLIR á Sveifluhálsi 17. júní 2000.

Síðan í jarðskjálftanum mikla (þeir reyndust vera tveir) í júní 200 lækkaði vatnsborð Kleifarvatns um 4 metra. Sprungur í vatnsbotninum opnuðust í Suðurlandsskjálftanum sem svo var nefndur og olli auknum leka úr vatninu. Við lækkaði vatnsborðið og flatarmál Kleifarvatns minnkaði um 20% eða úr 10 km2 í 8 km2, og sandur og leir, sem áður var undir vatnsborðinu, varð nú á þurru. Tanginn norðan í vatninu, undan Lambhagatanga, kom upp úr undirdjúpunum og þurrgegnt varð með vatninu að norðaustanverðu.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

FERLIR var staddur á Sveifluhálsi er jarðskjálftarnir riðu yfir 17. júni 2000 með nokkurra mínútna millibili. Fyrst heyrðist vaxandi hvinur úr suðri og siðan má segja með sanni að Sveifluhálsinn hafi risið undir nafni; hann gekk í bylgjum líkt og um öldugang væri um að ræða. Í kjölfarið fylgdi annar og öflugri jarðskjálfti, beint undir fótum. Þá var eins og lamið væri með sleggju upp undir yfirborðið. Grjót hrundi úr nærliggjandi hlíðum í báðum tilvikum, en þegar einn félaganna horfði niður á skóna sína tók hann eftir að þeir voru hálfgrafnir í sendinn jarðveginn.
Síðastliðið hálft ár hefur vatnshæð Kleifarvatns verið nokkuð stöðugt, en hefur þó sveiflast með veðurfari að venju, hækkað við úrkomu, en lækkað í þurrkatíð.
Ef til vill er Kleifarvatn að ná jafnvægi við grunnvatni en of snemmt er að fyllyrða að ekki lækki meira í Kleifarvatni að sinni. Vatnsborð Kleifarvatns mun smám saman þéttast á ný með leir og öðru seti, og vatnsborððið hækka. Það mun þó taka Kleifarvatn ár eða áratugi að ná þeirri vatnshæð, sem var fyrir Suðurlandskjálftann í júní 2000.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja í sprungustefnu landsins NA-SV. Við vatnsborðshæð 140 m y.s. er meðaldýpi þess 29,1 m, flatarmál Kleifarvatns 10 km2, sem fyrr sagði, og rúmmál þess er 290 Gl. Nú er vatnsborðshæðin 136,3 m y.s., flatarmálið er um 8 km2 og rúmmál þess hefur minnkað niður í um 255 Gl.
Aðrennsli í vatnið á yfirborði er nokkrir smá lækir að sunnanverðu. Auk þess rennur úr hlíðunum í kring í rigningu og er snjó leysir á vorin. Kleifarvatn er að öðru leyti afrennslislaust á yfirborði og gert hefur verið ráð fyrir að vatnsborðið falli saman við grunnvatnsflötinn í umhverfinu og sé háð sömu sveiflum og hann, en rannsaka þarf nánar tengsl þess við grunnvatn í nágrenninu. Kleifarvatn hefur um allnokkurt skeið verið notað sem úrkomumælir á suðvesturlandi. Mælirinn er (var) í litlu húsi vestan við vatnið, undir Hellunni.

Kaldrani

Kleifarvatn.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja. Vatnsbotn Kleifarvatns hefur þéttst í áranna rás með leir og öðru seti. Lekt vatnsbotnsins var því minni en jarðlaganna í kring og því stóð vatnsborðið hærra en grunnvatnið. Þegar sprungur opnast í botni Kleifarvatns þá breytist lekt þ.e. viðnám jarðlaganna og vatnið hripar niður um sprungurnar. Smám saman nær Kleifarvatn á ný jafnvægi við grunnvatnið í kring, sem fyrr segir.
Af nálægum ummerkjum að dæma hefur Kleifarvatn einhverju sinni, jafnvel oftar en einu sinni, risið hærra en þekkist. Þegar grant er skoðað má lesa lækjarfarveg til suðurs frá vatninu. Fremst varð Nýjaland til með tilheyrandi afleiðingum fyrir hinn mikla dyngjugýg norðan Stóra-Lambafells. Farvegurinn hefur legið yfir núverandi Grænavatn og mótað landslagið allt niður á Krýsuvíkurberg.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indjáninn.

Kleifarvatn er án afrennslis á yfirborði. Fyrir jarðskjálftana árið 2000 rann lækur úr vatninu norður í Lambhagatjörn og seig vatnið þaðan í gegnum móbergshryggina og hraunin til sjávar norður í Straumsvík. Sumarið 2000 opnaðist 20-40 cm víð sprunga við norðurenda vatnsins og þar streymir vatnið niður. Tvö hverasvæði hafa síðan komið í ljós suðurenda vatnsins og nú er manngengt í hella í Syðristapa sem áður voru í vatnsborðinu

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í gegnum tíðina hefur Kleifarvatn verið vinsæll köfunarstaður. Í vatninu eru nefnilega góðar aðstæður fyrir þá sem eru að læra eða hafa lokið námskeiði og vilja æfa sig. Vatnið er frekar tært svona 10-15 metrar og skyggnið breytist ekki líkt og það gerir í sjónum. Þess vegna geta kafarar nánast alltaf gengið að aðstæðum vísum. Þó bera að geta þess að í miklum vindum og þá sérstaklega í austanátt getur vatnið átt það til að gára og öldurnar verða þó nokkuð háar í slíkum aðstæðum. Gallinn við vatnið er sá að dýralíf í því er fábreytt. Þarna eru stangveiðar algengar en að sjá fiska undir ydirborðinu er sjaldgæfara. Köfurum finnst það því hálfpartinn skrítið að nokkuð veiðist þarna yfirleitt.
Eflaust er besti köfunarstaðurinn staðsettur við Indjánann en það er auðþekkjanlegur steinstapi sem stendur við Stefánshöfða. Indíáninn fer ekki á milli mála þegar komið er á staðinn því ef hann er grannt skoðaður má sjá andlitsmynd í honum sem svipar til indíána. Piltar á leið í Vinnuskólann í Krýsuvík um og eftir 1960 höfðu jafnan það að venju að reka upp indíánaöskur í rútunni þegar ekið var fram hjá steinstöpli þessum – svona til að minna á að nú væri komið að því að takast á við viðfangsefni sumarsins.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Botn vatnsins er sandbotn og þegar komið er u.þ.b 60 metra frá landi fer þessi botn að breytast í gróðursælan botn allt að brekkunni sem liggur niður á hyldýpi eða um 97 metrana, en hún er aurbrekka sem auðvelt er að þyrla upp.
Fræg skáldsaga ber nafn vatnsins. Kleifarvatn er áttunda skáldsaga Arnaldar Indriðasonar. Bækur hans hafa notið gríðarlegra vinsælda og verið þaulsætnar á mestöluslistum hér heima og erlendis á undanförnum árum og tvö ár í röð hlaut Arnaldur Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina og Grafarþögn. Kleifarvatn gefur bestu bókum hans ekkert eftir. Hún fjallar m.a. um beinagrind, sem fannst í vatninu er lækkaði í því í kjölfar jarðskjálfta.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Um Kleifarvatn gengu þó enn þá fleiri sögur. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni. 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.

Kleifarvatn

Kleifarvatn að kvöldi.

Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Stefánshöfði

Stefánshöfði – minningarskjöldur.

Stefán Stefánsson var kunnastur leiðsögumaður útlendra ferðamanna á landi hér. Hann gerþekkti landið af löngum ferðalögum á hestum hvert einasta sumar. Þó mun Krýsuvík hafa verið honum kærari en flestir aðrir staðir. Við Kleifarvatn hefur skjöldur verið felldur í klett til minningar um hann og höfði, áður Innristapi, verið nefndur eftir honum. Á þeim stað var ösku hans dreift út á vatnið að fyrirlagi hans sjálfs.
Kaldrani er talinn elstur bæja í Krýsuvík. Honum tengist þjóðsagan af Herdísi og Krýsu, sem gerð hefur verið góð skil í annarri leiðarlýsingu um svæðið sunnan og austan undir Stóru-Eldborg. Enn má sjá móta fyrir garðlagi og jafnvel tóftum undir lítilli hæð neðan við einn gíganna, sem þarna eru. Í þeim er friðlýsingarmerki Þjóðminjasafnsins.

Kleifarvatn

Ytristapi, öðru nafni Stefánshöfði.

Stefán Stefánsson sagði í skrifum sínum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.
Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði. Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetraræagi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Hellurhellir

Smiðjuhellir undir Hellunni.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.
Leirhver mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Austurnegjahver, eða Stórihver, eins og hann er stundum nefndur, sést vel frá sunnanverðu Kleifarvatni.
Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, við Seltún. Endur fyrir löngu mun hafa þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurengjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.
Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.”

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Árni Óla fjallar um nýja Krýsuvíkurveginn undir Hellunni. Þar segir hann m.a. að “hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.
Hér á Íslandi er vegagerð svo dýr, að nauðsyn er á að hver vegarspotti komi sem flestum að notum. En með þessu vegi virðist sú stefna þverbortin, því að þessi dýri vegur liggur um óbyggðir einar. Á allri leiðinni frá Hafnarfirði og austur í Selvog – um 50 km. – er engin byggð nema Herdísarvík. Frá Selvogi og inn í Ölfus er svo 20 km. Alls verður þá þessi nýja Suðurlandsbraut rúmir 70 km., eða snöggum mun lengri heldur en leiðin yfir Hellisheiði. En þetta á að verða vetrarvegur þegar Hellisheiði er ófær. Sumir hafa ekki mikla trú á því, að það sé miklum mun snjóléttara þarna suður í fjöllunum heldur en á Hellisheiði, og verður reynslan að skera úr því hvort réttara reynist.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

En hitt er öllum ljóst, að þetta verður dýrasta vegargerð hér á landi, þar sem ekki eru brýr á leiðinni. Í Vatnsskarðinu verður vegurinn að Keifarvatni lang dýrastur og örðugast að leggja hann. En þó voru örðuleikarnir ekkert á móts við það, sem tekur við, þegar farið er að leggja veginn meðfram vatninu að vestan.
Rétt innan við norðurlónið hefur verið reistur veitingaskáli, og það er fyrsta framkvæmdin í sambandi við Krýsuvíkurveginn. Þangað sækir fólk skemmtanir um helgar á sumrin, eða safnast þar saman til að skemmta sér. Þar við vatnsbotninn þrýtur hinn lagða veg.
En þar eru tjöld í brekkunum, og hafast þar við vegavinnumenn þeir, sem vinna að því að halda veginum áfram suður með vatninu. Taka þarna þegar við klettar við vatnið og gangur ekki á öðru en sprengingum. Er klettunum rutt niður í vatnið og hafðir fyrir undirstöðu vegarins. Þetta er erfitt verk og seinlegt, því að það er svo sem ekki að það sé almennilegt grjót þarna.
Vegurinn á fyrst að liggja undir klettunum suður í vikið fyrir norðan Stapann innri. Þarf hann að vera hár yfir vatnsborð það, sem nú er, ef duga skal. Er það að vísu ekki nema 3 km. Leið, en þarna er eitthvert hið argvítugasta vegarstæði, sem hugsast getur.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Innristapi.

Víðast hvar er hliðhalli og verður að höggva veginn niður í móberg og móhellur, annars staðar verður að hlaða hann upp margra mannhæða háan, svo að hann verður tilsýndar þegar búið er að hlaða grjóti utan að honum, líkastur brimbrjóti eða hafnargarði. Móhellan er ekki lambið að leika sér við. Hún virðist í fljótu bragði ósköp auðunnin þar sem hægt er að tálga hana með hníf og mylja hana undir fæti. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar hún blotnar má hún heita óvinnandi. Það er svo sem sama hvaða verkfæri er þá beitt á hana. Það er eins og hún verði ólseig. Og þess vegna stendur móhellan í vegavinnumönnunum, þar sem grágrýti hefði ekki staðið þeim snúning.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Landnám 2002; Litla Grindavík numin.

Það er von að mörgum ofbjóði þessi dýra vegarlagning, Og það er hreint ekki von að mönnum geti skilist það, að samgönguerfiðleikar yfir “fjallir” á vetrum geti réttlætt það, að ráðist er í svo dýrt og tvísýnt fyrirtæki, sem þetta, allra helst þegar góður vetrarvegur er kominn yfir Mosfellsheiði og frá Þingvöllum niður í Grímsnes.”
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Gullbringa er nafn á “fjalli” austan við Kleifarvatn. Aðrir segja að það sé nafnið á hlíðinni að baki henni, enda er hún er jafnan roðagylt af kvöldsólinni þar sem hún gæist yfir og til hliðar við Miðdegishnúk á fögru sumarkvöldi. Gamla þjóðleiðin lá um Hvannahraun (Hvammahraun). Við hana er Gullbringuhellir, gott skjól í vondum veðrum. Í hellinum er flórað bæli.

Kleifarvatn

Vatnshlíðarhorn.

Í Vatnshlíðinni eru sérstakar jarðmyndanir, s.s. hraunfoss, sem “frosið” hefur efst í einu gili hennar svo undrum sætir. Undir Lambhaga er hlaðin rétt og hvíluskúti smalanna er þeir komu með féð af fjalli. Lambhagatjörni er sérstakt jarðfræðifyrirbæri, sem og skútinn undir hellunni. Hann er til kominn, líkt og skútinn bak við Indíánann, vegna ágangs vatnsins. Þeir, sem og aðrir skúta við norðanvert vatnið, eru ágætir vitnisburðir um fyrrum hærri vatnsstöðu þess, en skútarnir eru tilkomnir vegna ágangs vatns á móbergið til lengri tíma.
Skútinn undir Hellunni er brotabergskenndur, en þar mun Þorsteinn frá Hömrum við Húsatóftir haft smiðju um tíma. Smíðaði hann það fyrir vegavinnumenn og aðra það er þeir þurftu. Þá var skútinn um nokkurt skeið afdrep veghefilsstjóra, er unnu að því að bæta Krýsuvíkurveginn, enda ekki vanþörf á oft á tíðum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 05 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is/
-http://www.reykjanes.is/
-http://www.os.is/
-http://www.natkop.is/
-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.
-Úr Sunnudagsblaði Tímans 25. júní 1967 – Stefán Stefánsson.
-Úr Landið mitt er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.
-Dulheimar 97.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – norðurljós.

Litli-Lambhagi

Nokkrir sumarbústaðir voru byggðir í Hraunum við Straumsvík nokkru fyrir miðja 20. öldina. Meðal þeirra sem heilluðust af þessu sérstæða og að margra mati fallega landsvæði voru þrír félagar, bræðurnir Marinó og Kristinn Guðmundssynir sem voru báðir málarameistarar og Björn Jóhannesson doktor í jarðvegsfræði sem hafði mikinn áhuga á hegðun laxfiska. Þeir voru afar heillaðir af Lónakoti og tjörnunum sem þar eru en þar gátu þeir ekki fengið land á leigu eða til kaups. Gengu þeir þá eftir strandlengjunni frá Lónakoti og inn fyrir Straumsvík til Hafnarfjarðar og þaðan út á Álftanes í leit að ákjósanlegum stað til að reisa sumarkofa eins og þeir kölluðu það.

Straumur

Straumur.

Eftir að hafa grandskoðað strandlengjuna voru þeir sammála um að innsti hlutinn við norðaustanverða Straumsvík væri ákjósanlegasti staðurinn. Þar hafði staðið kotbýlið Litli-Lambhagi á tanga sem heitir Stróki og skammt frá honum voru Hólmarnir og Straumsvatnagarðar. Þar voru aflögð útihús og merkilega vel hlaðið eldhús úr hraungrjóti frá því seint á 19. öld. Eftir nokkra eftirgrennslan  fengu þremenningarnir leyfi til að reisa lítið íveruhús innarlega á Stróka. Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni átti þetta land allt, en hann eignaðist jarðirnar Straum og Þorbjarnarstaði ásamt Litla- og Stóra-Lambhaga árið 1919. Rak hann um árabil ágætis bú í Straumi og nytjaði allar jarðirnar til heyskapar og beitar. Bjarni lét byggja Straumshúsið sem enn stendur árið 1927 úr steinsteypu eftir að gamli bærinn brann. Sá sem teiknaði húsið var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, en húsið ber svipmót burstabæjar, en Guðjón hafði áhuga á að skapa nýja íslenska byggingarhefð með skírskotun til fyrri tíma.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Þegar Bjarni ákvað að selja jarðir sínar við Straumsvík rétt eftir seinni heimsstyrjöldina keypti Björn landspilduna umhverfis sumarkofa þeirra félaga, með landamerkjum nokkru austan Stróka. Höfðu þeir stækkað húsið það mikið að hægt var með sanni að tala um sumarhús enda dvöldu þeir oft ásamt vinum og ættingjum á þessum slóðum sumarlangt og lengur ef aðstæður leyfðu. Ástæðan fyrir staðarvalinu var sú að við Stróka fannst þeim ríkja fágæt náttúrufegurð. Spilaði þar inn í  hversu merkilegt náttúrufarið er við hina lygnu og friðsælu Straumsvík þar sem ferskt vatn rennur framundan hrauninu og veldur því að sjórinn er afar tær á þessum slóðum. Grashólmar og sker innst í Straumsvík skipta stöðugt um svipmót þar sem sjórinn á það til að hylja landið á flóði og svo birtist það aftur þegar fellur út og fjarar. Fallaskiptin og mismunandi sjávarstaða eftir því hvernig stendur á flóði og fjöru hafa veruleg áhrif á umhverfi Stróka og valda síbreytilegu náttúruspili. Þarna var líka fjölskrúðugt fuglalíf, stundum sáust selir á sundi eða þeir sóluðu sig á skerjum rétt hjá Stróka alveg óhræddir. Sólarlagið var líka töfrandi og myndaði Snæfellsjökul og Snæfellsfjallgarðurinn handan Faxaflóans einskonar ramma sem sólin settist á bak við. Litbrigði náttúrunnar breyttust árið um kring og stundum var hafið ólgandi og skolaði þara og fiski upp á hólmana en á öðrum tímum var þetta kyrrðarinnar staður þar sem tíminn stóð nánast í stað. Refur átti það til að sjást á vappi í fjörunni og minkar gerðu sér greni framarlega á tanganum þar sem fiskur lónaði stutt frá landi.

Straumsvík

Straumsvík 1965.  Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Landspildan var tekin eignarnámi þegar undirbúningur að álverinu hófst um miðjan sjöunda áratuginn en þá höfðu Björn og félagar stundað tilraunir með laxeldi í Straumsvík um nokkurt skeið. Þessar tilraunir grundvölluðust á einstæðum vatnsbúskap svæðisins. Stuttu eftir að félagarnir byggðu sumarhúsið fóru þeir að mæla og efnagreina ferskt grunnvatnið sem fellur út í Straumsvík undan hrauninu við botn víkurinnar. Reiknuðu þeir út að talsverður hluti Kaldár, sem hverfur ofan í hraunið rúmlega kílómetra neðan upptaka sinna, félli til sjávar rétt vestan við Stróka. Allavega töldu þeir sig geta greint það á fjöru að allstraumhörð ferskvatnskvísl félli í þröngum stokki með fram nyrsta hluta tangans. Þeir mældu hitastig grunnvatnsins sem streymdi undan hrauninu margsinnis og reyndist það vera nákvæmlega 4 gráður á Celsíus árið um kring. Stóðu mælingarnar árum saman og alltaf voru niðurstöðurnar þær sömu. Björn var sannfærður um að vatnið hefði hagstæða efnaeiginleika fyrir laxaklak og sökkti hann vírkörfum í lón við hraunjaðarinn til að sannreyna þetta. Niðurstaðan var sú að laxaklakið skilað góðum árangri en ekki var alveg ljóst hvernig nýta mætti aðstöðuna við Straumsvík til laxaframleiðslu.

Straumsvík

Mannvirki í tjörnunum við Lambhaga.

Þeir prófuðu sig áfram og fljótlega gerðu þeir tilraunapoll í litlu lóni sunnanvert við Stróka nálægt Keflavíkurveginum sem hlaut nafnið Pollurinn. Hann var dýpkaður með jarðýtu en þannig háttaði til að lónið tæmdist ekki þó að fjaraði út vegna þess hversu mikill vatnsstraumurinn var undan hraunjaðrinum. Steyptu þeir félagar einskonar hlið eða dyraumbúnað við mynni Pollsins þar sem hægt var að koma fyrir gildru. Laxar gátu þar með gengið í Pollinn en áttu þaðan ekki undankomu nema þeim væri hreinlega sleppt lausum í sjóinn. Pollurinn var hreinn og moldarlaus til að byrja með, en þegar vegur var lagður að álverinu rétt við hliðina á Pollinum barst talsvert magn af fokefnum í hann. Þar með varð botninn þakinn þykku leðjulagi sem hefði þurft að moka í burtu eða reyna að skola út með útfallinu. Þetta var hins vegar ekki gert þannig að aðstæður í Pollinum breyttust með tíð og tíma.

Félagarnir eyddu mikilli vinnu, tíma og fjármunum í að flytja bleiklax frá Alaska til Íslands 1965 til 1966. Árangurinn varð neikvæður að öðru leyti en því að flutningur á 120.000 aughrognum frá Kódakeyju til Íslands tókst vel. Samvinna við Veiðimálastofnun tókst ekki um framkvæmd þessarar tilraunar, en vorið 1966 sýndu þeir fram á að laxaseiði silfrast við 4 gráðu hita á 6 vikum. Þegar Marinó og Kristinn féllu frá hélt Björn áfram að nýta aðstöðuna á Stróka og stunda þarna tilraunir sínar.

Straumsvík

Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.

Sumarið 1980 var sjógönguseiðum sleppt úr Pollinum eftir 56 daga dvöl í körfu og sneri ein 4,5 punda hrygna aftur í Pollinn sumarið eftir. Gerð var hafbeitartilraun í Pollinum 1981 til 1982 og kom í ljós að eftir 84 daga svelti sjógönguseiða í körfu lifðu næstum því öll sumarið 1982. Sumarið áður var sjógönguseiðum haldið í körfu í Pollinum með sáralítilli fóðrun í 56 daga áður en þeim var sleppt til sjávar. Aðeins eitt af þessum seiðum rataði aftur heim í Pollinn árið eftir. Þá var búið að koma fyrir nokkrum laxaseiðum í körfu í Pollinum, en norðmaðurinn Nordeng varpaði þeirri tilgátu fram að lax gangi ekki í vatn nema þar séu fyrir laxaseiði eða lax. Taldi Björn að hrygnan sem skilaði sér í Pollinn um sumarið hefði sennilega ekki gert það ef þar hefðu ekki verið fyrir laxaseiði.

Lambhagi

Lambhagi um 1970.

Laxeldisfyrirtækið Pólarlax var um árabil með aðstöðu Hafnarfjaðrarmegin við álverið og notaði meðal annars hvalalaug Sædýrasafnsins í eldisstarfinu. Sumarið 1981, sem var sama sumar og hrygnan skilaði sér í Pollinn, sleppti Pólarlax þó nokkrum stórum laxaseiðum úr kví sem var í Straumsvík. Sumarið eftir komu miklar laxagöngur inn í Straumsvík og stökk laxinn í víkinni svo að ekki fór á milli mála að þarna var eitthvað um að vera. Kom það fyrir þegar mest gekk á að hálfgert umferðaröngþveiti skapaðist á Reykjanesbrautinni því vegfarendur snarhemluðu og hlupu út úr bílum sínum til að fylgjast með þessari óvenjulegu sjón. Laxinn var að koma heim eftir vetrardvöl í hafinu og þetta sjónarspil var alveg einstakt.

Vonir manna um að laxinn gengi upp í ferskvatnslónin í Straumsvík gengu ekki eftir þar til Björn lagði til að komið yrði fyrir körfu með laxaseiðum í Pollinum. Þetta virkaði eins og segull og 5. ágúst 1982 höfðu 170 laxar gengið í Pollinn. Endurheimtur sjógönguseiðanna sem sleppt var 1981 og komu sem sjógengnir laxar sumarið eftir voru um 20% til 30% en stórar torfur gengu í ystu lónin í lok veiðitímans án þess að hægt væri að handsama þær. Heimtur reyndust ekki eins vel og reiknað var með en menn voru sannfærðir um að þær gætu gengið betur þar sem laxinn skilaði sér aftur á heimaslóðir þó hann gengi ekki allur inn Pollinn. Niðurstaðan var því sú að heimtur gætu vaxið með árunum ef réttum aðferðum væri beitt. Prófað var að sleppa seiðum næstu árin úr kvíunum utan við hvalalaugina en heimtur voru ekkert sérstakar.

Litli-Lambhagi

Eldhús og tóftir við Litla-Lambhaga.

Næsta skipti sem sjógönguseiðum var slepp úr kvíum í Straumsvík var sumarið 1985. Sami háttur var hafður og fyrr. Seiðum komið fyrir í körfu í Pollinum sumarið 1986 sem hafði þau áhrif að laxar gengu í Pollinn og tilraunin sannaði sig í raun og veru. Eftir þetta gerðist ýmislegt sem varð til þess að fiskeldisfyrirtækið Pólarlax var tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 1989 og lauk skiptunum 20. desember 1991 án þess að nokkuð hefði fengist greitt af lýstum kröfum. Þar með var botninn farinn úr þessum merku tilraunum með laxfiska í Straumsvík. Sumarhúsið á innanverðum Stróka grotnaði smám saman niður þar til það var ekki talið forsvaranlegt að láta það standa og var það rifið og efniviðurinn fjarlægður. Nú er ekkert annað eftir en steinsteyptar gólfplötur og gamla eldhúsið sem hlaðið var fyrir rúmlega einni öld. Þetta hús er nákvæmlega eins í lögun og að allri gerð og samsvarandi hús við Óttarsstaði eystri og vestri, bara örlítið minna umfangs. Löngu var búið að breyta steinhlaðna húsinu í svefnhýsi með tilheyrandi veggklæðningum úr viði og innanstokksmunum. Húsið stendur nú opið fyrir veðrum, vindum og spellvirkjum og bíður þess sem koma skal, en það væri gustukaverk að halda því við og sjá til þess að síðasta heillega steinhlaðna húsið í Hraunum fengi að standa áfram um ókomna tíð.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
http://www.hraunavinir.net/fiskeldi-og-sumardvolvidstraumsvik/#more-950

Lambhagi

Lambhagi fyrrum.

Hraunabæir

Eftirfarandi grein eftir Gísla Sigurðsson um Hraunabæina birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978:
“Hraunamennirnir gapa hvorki né góna lengur, því þeir eru engir til utan einn maður. Skilyrði til nútíma búskapar eru þar naumast fyrir hendi, en unaðslegt er að ganga þar um í góðu veðri.
Suður í Hraunum er mikill unaðsreitur, sem fáir vita Þó um. Þar eru djúpir grasbollar og háir hraunhólar.
Straumur-800Komin er sólin Keili á og kotið Lóna, Hraunamennirnir gapa og góna, Garðhverfinga sjá þeir róna. Þær byggðir, sem við taka á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, voru fyrr meir kallaðar einu nafni „suður með sjó”. Færi einhver aö ná sér í skreið eða annað sjómeti „suður með sjó” þurfti ekki aö skýra þaö nánar. Þessar byggðir voru ekki búsældarlegar; sjórinn var gjöfulli en landið. Fátæktin var einatt förunautur þeirra, sem bjuggu á kotunum suður með sjó, hvort heldur það var allar götur vestur í Leiru, í Höfnum, á Vatnsleysuströnd eða suður í Hraunum.
Nú er byggðin í Hraunum nánast að engu orðin. Eftir standa fáein hús, sem sumpart eru auð og mannlaus og sumpart hefur verið breytt í sumarbústaði. Enda þótt þessi gamla byggð sé í næsta nágrenni við þéttbýli Reykjavíkursvæðisins, munu þó næsta fáir, sem vita um tilvist hennar eða þangað hafa komið. Þeim sem óljósar hugmyndir hafa um Hraunin, skal bent á, að sú byggð hefst þegar komiö er framhjá Álverinu í Straumsvík á leið til Keflavíkur. Sveigt er út á malarveg hjá Straumi, sem dregur trúlega nafn sitt af fallegum lindum með bergvatnsstraumi, og líður undan hrauninu og myndar fallegar tjarnir á leið sinni út í víkina.
Leiðin liggur um hlaðið í Straumi, þar sem stendur þrístafna timburhús í herragarðsstíl og er þó í eyði. Þetta glæsilega íbúðarhús byggði Bjarni Bjarnason, sem síðar varð landskunnur maður sem skólastjóri á Laugarvatni.
Hann var þá kennari og skólastjóri í Hafnarfirði, en hafði fjárbú og ráðsmann í Straumi og var þá kominn í kynni viö Jónas frá Ottarsstadir eystri-800Hriflu. Þaðan og frá Guðjóni Samúelssyni komu áhrifin, sem leiddu til burstabæjarins í Straumi og síðar var þessi stíll endurtekinn í byggingu héraðsskólans á Laugarvatni. Húsið í Straumi var byggt 1927.
Þegar ekið er inn á bílastæði álversins, verða tóftir þar sem hallar niður í fjöruna og standa vel uppi. Þar stóð bærinn Stóri Lambhagi og á hraunhrygg, sem skagar út í Straumsvíkina, stóð Litli Lambhagi. Báðir þessir bæir fóru í eyði fyrir löngu. Annað bæjarstæði, sem ekki sést af veginum, er á vinstri hönd, þegar farið er suðurúr. Þar hétu Þorbjarnarstaðir og standa þar uppi túngarður og traðir ásamt með rústum af bænum. Þar var hætt búskap um 1930. Þurrabúð eða hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum var nær veginum, þar sem nú stendur sumarbústaður undir fallegri brekku. Þar hét í Gerði.
ottarsstadir vestri-800Sé farið um hlaðið í Straumi, liggur malarvegur áfram til norðurs og vesturs yfir hraunhryggi og gjótur, sem því miður hafa of oft orðið athvarf fyrir bílhræ og er til mikilla lýta. Út með víkinni stendur Þýzkabúð ennþá uppi og utar í hvarfi stóð Jónsbúð. Þýzkabúð fór í eyði fyrir 1950 og telur Gísli fræðimaður Sigurðsson í Hafnarfirði, aö nafnið sé dregið af því, að Þjóðverjar hafi verzlað þarna fyrir margt löngu.
Á graskraga, sem verður á hraunjaðrinum vestur með ströndinni, hefur verið einna búsældarlegast í Hraunum og raunar er þar eini grasbletturinn, sem máli skiptir. Þar stóðu bæirnir Eystri og Vestari Óttarsstaðir og bærinn á Vestari Óttarsstöðum stendur enn meö þeim glæsibrag, að ástæða væri til að varðveita hann. Heiðurinn af því eiga systur, sem þar ólust upp og eignuðust síðan jörðina og búa þar á sumrum. Þar er ævintýri líkast aö koma; svo vel er allt varðveitt og bærinn snýr hvítmáluðum bárujárnsþiljum til suðurs.
Hus GudmundarÁ Eystri Óttarsstööum stendur timburhús, sem ekki er haldið við, en Guðmundur bátasmiður, sem þar er upprunninn, hefur byggt sér íbúðarhús lítið eitt austar og skýli yfir bátasmíðina. Þar stendur uppi
í fjörunni flak af timburskipi, sem hefur orðið málurum yrkisefni og fallegt á sinn hátt, enda þótt það hafi lokið hlutverki sínu. Guðmundur bátasmiður hafði á orði við okkur Helga Sæmundsson að dregist hefði úr hömlu að bera eld að því, en við báðum hann lengstra orða að þyrma flakinu. Stundum er mönnum svo mikið í mun að eyða því, sem ónýtt er talið, að þeir gá ekki að því að það geti haft neitt annað gildi. Í nánd við Hafnarfjörð stóðu ekki alls fyrir löngu nokkur falleg flök af timburskipum, sem ævinlega voru augnayndi. Mikið kapp var lagt á að fjarlægja þau með krafti stórvirkra véla og heföi verið nær að beina orkunni gegn mengun frá fiskimjölsverksmiðjunni ellegar smekkleysi Olíufélagsins, sem blasir við meira en flest annað í Hafnarfirði.
Á bæjunum í Hraunum var nálega einvörðungu stundaður fjárbúskapur og stílað uppá beit. Þar er snjólétt, en heyfengur hefur líka verið næsta lítill. Útræði var úr Óttarsstaðavör og Straumsvík.
Sumarbústaðir hafa risið þarna í lautum, en ekki ber mikið á þeim og þurrabúðin Eyðikot frá Óttarsstöðum hefur verið byggð upp og er nú glæsilegur sumarbústaður.
Gudmundur batasmidurVestan við Óttarsstaði þrýtur
graslendi og verður úfið hraun, sem runnið hefur fram í sjó. Er þar spölkorn, sem aldrei hefur byggzt, unz kemur að Lónakoti. Þar stendur íbúðarhúsið uppi að nokkru leyti, en ekki hefur verið búið þar síðan Lónakot fór í eyði eftir 1950. Síðasti bóndi þar var Sæmundur Þórðarson frá Vogsósum en nú á Kornelíus kaupmaður Lónakotið og hefur þar kindur. Beit þótti góð í Lónakoti, en túnið var aðeins örlítill bleðill og lá sífellt undir skemmtum af ágangi sjávar. Ekki voru skilyrði til lendingar viö Lónakot og því ekkert útræöi þaðan. En við Óttarsstaðavör hafa þeir staðið gallvaskir og skinnklæddir við sólarupprás og horft á Garðhverfinga róna eins og segir í vísunni.”

Gísli skrifaði einnig eftirfarandi grein um Hraunabæina í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
NÚTÍMINN fór að mestu leyti hjá garði í Hraununum, en hann sést tilsýndar þaðan. Álverið gnæfir yfir í næsta nágrenni og skammt fyrir sunnan, á Keflavíkurveginum, æðir umferðin viðstöðulaust fram og til baka. Ef til vill er það þversagnarkennt, en nú er hægt að njóta þessa umhverfis einmitt vegna þess að nútímanum þóknaðist að koma ekki við í þessari horfnu byggð. Annars væri búið að setja jarðýtur á alla þessa grjótgarða sem falla svo vel að landinu; það væri búið að moka hólunum ofaní lautirnar, mylja hraunið til að ýta upp vegum og síðan væru athafnaskáldin búin að byggja eitthvað flott úr steinsteypu. En fyrir einhverja guðslukku fóru framfarirnar þarna hjá garði. Og 

Eydikot-800

Hraunamennirnir höfðu ekki bolmagn til þess að bylta umhverfinu. Það mesta sem vélaöldin hefur skilið eftir sig eru nokkur bílhræ.
Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af morgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hraumnu, vatnsból sem  ekki hefur brugðist.
Steinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað.

Þyzkabud-800

En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins. Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri. Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.
Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir bollar. ottarsstadir eystri-801
Jónsbúðarvör er beint niður af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við víkina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið, en Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar lét kanna Jónsbúð með prufuholugreftri og Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjanns nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar. Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu. Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból. Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur venð á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið hálfþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Úr fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá þlessuðum skepnunum.
Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. ottarsstadir eystri-803Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldn gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þesskonar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20. Tvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá Straumi. Annarsvegar er mannhæðarhá tóft úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri. Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin. Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði. Umhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefin og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða.
Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar” sem taka á í Almenningi og „leverast in natura” heim til Bessastaða.
En það er sama sagan og í Lónakoti og áður lonakot-800var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu físka, þá guð gefur fiskinn af sjónum”.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn faiia”, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon. Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin. Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallnu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ.
Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar. Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf ottarsstadir vestri-802þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt.
Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.
Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.
Þyskabud-803Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og líklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.
Á Óttarsstöðum vestri var búið til 1966, en bænum hefur verið vel við haldið. Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru Ragnheiður Hannesdóttir, húsfreyja á Óttarsstöðum vestri, og Guðmundur Sigurðsson, bátasmiður á Óttarsstöðum, síðasti maður sem átti heima í Hraunum.
ottarsstadir eystri-805Síðustu ábúendur á Óttarsstoðum eystri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili.
Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur. Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af
því að halda bænum í góðu horfi.
Vestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndlega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum. En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör.”

Eftirfarandi grein birtist í Vísi árið 1969 um síðasta bóndann við Straumsvík:
ottarsstadir vestri-805Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.
Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.
Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga i Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll. Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúniö eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes. Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-Lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðukot, Óttarsstaði og Lónakot. Það var yzti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum meðan ennþá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið, Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mann afla.
Eydikot-802Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botn inn meðfram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert. Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komizt á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.
Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við. Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnzt og mörgu vanizt.
Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhiálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harð vítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka.

Gudmundur batasmidur-2

En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal”, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum meðfram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land giört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið.
— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima Ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrarog Hvaleyrartjörnum var
fyrrum; -mikil rauðsprettuveiði.
-Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginnfara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.

Stori Lambhagi-800

— Hér er orðin breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráð ið til hlunns í Straumsvíkur- og Lambhagavörum. Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveizlu ætlazt enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.
Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörina, sem lent var og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái” oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel. Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á úteftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þar ferðinni. Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.

ottarsstadir eystri-807

Svo „strengdi Stjáni klóna”, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síðustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.
— í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði. Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið. Á Óttarsstöðum eru
heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni. Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járn
smiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum. Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar á móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn.
Þegar Thorbjarnastaðarrett-800verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.
Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, og kunni ég því vel. Þó hér sé ekki sprottið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið
býr yfir meiri og fjöíbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem
hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna. Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur í Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Ottarsstadavor-800

Ég hef svo sem fengizt við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elzta skipið í íslenzka veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verzlunarsöguna bæði sem
sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913.
Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.
— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Ennþá les ég gleraugnalaust. Ég hef aldrei ekið hratt ónei, og komizt leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, er áður lifðu þar lífi íslenzkra útvegsbænda?”

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. maí 1978, Suður í Hraunum, Gísli Sigurðsson, bls. 8-9 og bls. 13.
-Lesbók Morgunblaðsins 25. mars 2000, Byggð og náttúra í Hraunum – Nútíminn fór hjá garði, Gísli Sigurðsson, bls. 4-6.
-Vísir 19. júní 1969, Bóndinn í Straumsvík, bls. 9-10.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri og eystri.