Færslur

Húshólmi

Nú nýverið lauk Landgræðsla ríkisins verkefni sem miðar að því að loka slóðum í fjallendi Grindavíkur, Hrauns og Ísólfsskála. Settar voru lokanir við allar helstu leiðir þar sem torfærutæki hafa verið að fara inn á viðkvæm svæði og valdið þar skaða á gróðri. Fyrst og fremst eru þessar lokanir í Reykjanesfólkvangi sem er að mestu í landi Grindavíkur, en einnig í landi Ísólfsskála og Hrauns. Í vettvangsferð kom í ljós að fólk hefur að mestu virt þessar lokanir og virðist hafa skilning á málinu. Með þessu verkefni vill Landgræðslan tryggja að gróðurverndar átak sem þegar er hafið og mun halda áfram á næstu árum skili árangri. Vonandi verður í framhaldi hægt að hafa þessar leiðir opnar yfir sumartímann og komi til lokunar haust vetur og vor. Lykklar eru á hliðum á hverri lokun og hafa hagsmunaðilar þegar fengið lykkla. Með þessum aðgerðum ætti störf löggæslu á svæðinu að verða mun auðveldara í framtíðinni sem og starf landvarðar í fólkvanginum.
Þess má geta að Landgræðslan hefur unnið með FERLIR að uppgræðslu í Húshólma með góðum árangri. Sáð var í hólmann s.l. sumar og aftur í sumar (2006). Svo virðist sem tekist hafi að hefta gróðureyðinguna og auka þannig líkur á varðveislu hinna ómetnalegu minja, sem þar er að finna.

Heimild:
-www.grindavik.is

Húshólmi

Húshólmi

Haldið var í Húshólma síðdegis í þeim tilgangi að dreifa fræi og áburði svo hefta mætti frekari gróðureyðingu á svæðinu.

Húshólmi

Húshólmi.

Húshólmi hefur látið mikið á sjá á skömmum tíma. Sem dæmi má nefna að hinn forni eystri vörslugarður, sem var undir gróðurþekju fyrir þremur árum, hefur náð að blása upp að mestu svo sjá má í bert grjótið í honum á löngum kafla. Annar gróður hefur hins vegar verið að ná sér á strik á þeim gróðurlænum, sem eftir eru, einkum blómplöntur og lyng. Með því að sá fljótsprottnu grasi ásamt túnvigli bindst fokjarðvegurinn undir rofabörðum, á melum og myndar skjól fyrir náttúrulegar plöntur í hólmanum. Þær yfirtaka nýgræðinginn smám saman þegar grasið sölnar og hverfur að nokkrum árum liðnum.
Lærdómsríkt er að sjá hversu vel hefur gróið í hunda- og fótsporum í börðum. Þar hefur fræið greinilega fengið skjól og raka og því dafnað vel. Vel mætti því hugsa sér að Landgræðslan tæki hunda í sína þjónustu og léti þá spígspora um svæði, sem verið er að sá í til að auka árangur. Einnig mætti útbúa “tappagrindur” og fara með þær yfir lausbundnari svæði áður en sáð væri.

Húshólmi

Húshólmi – uppgræðsla.

Ætlunin er að sá fræi og dreifa áburði í Húshólma í tvö sumur, en láta síðan náttúruna annast sjálfsána yfirtökuna með tímanum.
Verkið er unnið undir handleiðslu Landgræðslu ríkisins, sem útvegaði fræ og áburð og fékk Landhelgisgæsluna til að flytja efnið inn í hólmann s.l. vor. Sáð var í efri hlutann fyrri hluta sumars. Nú hefur myndast þar græn slikja á fyrrum gróðureyðingasvæðum. Punturinn myndar skjól og undirbýr jarðveginn, sem fyrr sagði, til að taka við náttúrlegum plöntum úr hólmanum, s.s. brönugrasi, hrútaberjum, bláberjalyngi, blágrési, geldingarhnapp og jafnvel hvönn, sem hefur náð þar rótum. Grindvíkingar hafa verið einstaklega iðnir við sáninguna.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Hér var um að ræða síðari ferð FERLIRs í Húshólma til sáningar. Áframhald verður á henni næsta sumar, en þá er ætlunin að loka þeim jarðvegseyðingarsvæðum, sem eftir verða og dreifa þeim áburði, sem eftir verður.
Þessar tvær FERLIRsferðir í hólmann gera honum vonandi gott – til lengri tíma litið. Í raun hafa þátttakendur afkastað ótrúlega miklu á skömmum tíma.
Landgræðsla ríkisins miðar aldur sinn við setningu laga um “skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands” frá árinu 1907. Þá var Sandgræðsla Íslands stofnuð en árið 1965 var nafninu breytt í Landgræðsla ríkisins. Hún er ein elsta stofnun sinnar tegundar í heiminum og er reynsla Íslendinga í baráttu við landeyðingu því mikil.
Í upphafi beindist starfið einkum að því að stöðva sand sem ógnaði mörgum byggðarlögum. Mikill árangur hefur náðst á þessum 95 árum og tekist hefur að hefta skæðasta foksandinn og klæða mikið land gróðri á ný. Enn á sér þó stað hraðfara eyðing gróðurs og jarðvegs á Íslandi.

Húshólmi

Í Húshólma.

Helstu markmið landgræðslustarfsins eru: “Að stöðva hraðfara jarðvegsrof og gróðureyðingu og fyrirbyggja frekari eyðingu og landspjöll, að endurheimta gróður og jarðveg í samræmi við gróðurskilyrði og landnýtingarþörf og að öll landnýting verði sjálfbær, það er að nýting rýri ekki landkosti.”
Vakin er athygli á þeim yfirlýstu markmiðum stofnunarinnar að “fyrirbyggja, koma í veg fyrir eyðingu og landsspjöll”. Reyndar gengur stofnunin þvert á þessi markmið sín þar sem Arnarfelllið er annars vegar og fyrirhuguð kvikmyndataka við fellið, en þar er markmiðið að eyða gróðri og vinna landsspjöll. Á sama hátt gengu aðrar stofnanir, sem umsögn gáfu um verkefnið, gegn markmiðum sínum. En það er nú önnur saga.
Frábært veður og ágæt samvinna. Ferðin tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-www.landgr.is

Húshólmi.