Í ritinu „Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess“, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs.
Ritun Landnámu
Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; „Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.
Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.“
Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.
Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á íslandi. Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða „eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur“ (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.
Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.
Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.
Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
„Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð“ (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.
Ingólfur landnámsmaður
Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið. Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar. Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, „er langt mundi fram“, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), „er var margspök og óljúgfróð“. Þessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).
Landnámið
Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.
Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.
Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum. þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla. Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast. landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.
Landnámsliðið: Frændur og venslamenn
Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.
Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann „bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum“ (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.
Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna. Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.
Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarls, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hann bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.
Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans „átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár“ og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi „vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi“ (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.
Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.
Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.
Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.
Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.
Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.
Jaðarsvæði
Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.
Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ókkur í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.
Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og „kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós“ (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós. Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu „inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun“ (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll „í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað“ (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur „allt í Álfós“ (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson „nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi“ (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson „nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.“ Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.
Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur „nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum“ (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, „þá er landið var víða byggt með sjó.“ Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og „nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli“ (Mb. 24-25). Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.
Framkvæmd landnámsins
Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
Hér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.
Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.