Færslur

Landnámsmenn

Ísland byrjaði að byggjast frá Noregi á 9. öld. Samkvæmt hefðbundinni söguskoðun og þeim skriflegu heimildum, sem til eru, nam Ingólfur Arnarson fyrstur manna land á Íslandi. Hann setti bæ sinn niður í Reykjavík um 870 og staðfesta fornleifarannsóknir við Aðalstræti og Suðurgötu þá tímasetningu.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Sagan segir að Ingólfur hafi valið sér Reykjavík til búsetu eftir tilvísun guðanna vegna þess að öndvegissúlur hans rak þar á land. Líklegra er þó að Reykjavík hafi verið valin vegna ótvíræðra landkosta. Þar má nefna milda veðráttu, gott skipalægi, nægt undirlendi, rekafjörur, mýrar til rauðablásturs og mótekju, heitt vatn í jörðu, gjöful fiskimið, eggver og selalátur í eyjum, ágætt beitiland, akureyjar og laxveiði í ám. Landnámsmennirnir þurftu ekki síst að treysta á veiðiskap sér til lífsviðurværis og er staðurinn sem Ingólfur kaus sér heppilegur frá því sjónarmiði.

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Lítið er vitað um fjölskyldu Ingólfs og hagi hennar annað en að kona hans hét Hallveig Fróðadóttir, sonur þeirra Þorsteinn og þrælar Vífill og Karli. Þau reistu sér skála við núverandi Aðalstræti en landið, sem Ingólfur helgaði sér, var afar víðáttumikið, náði frá Brynjudalsá í Hvalfirði að Ölfusá í Árnessýslu. Afkomendur Ingólfs og Hallveigar í karllegg báru virðingarheitið allsherjargoðar vegna stöðu sinnar sem afkomendur fyrsta landnámsmannsins. Þeir beittu sér fyrir stofnun Kjalarnesþings og áttu verulegan þátt í stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930. Þorkell máni, sonarsonur þeirra, var lögsögumaður og sonur hans, Þormóður, var allsherjargoði er Íslendingar tóku kristni árið 1000.

Ingólfur Arnarsson

Ingólfur Arnarsson – stytta Einars Jónssonar.

Ingólfur hefur með hinu stóra landnámi sínu hugsað sér að ráða því hverjir settust að undir veldisstól hans á Suðvesturlandi. Eftir hans daga saxaðist smám saman á landnám hans. Í nágrenninu risu stórbýli sem skyggðu jafnvel á sjálfa Reykjavík, hugsanlega vegna erfða meðal afkomenda Ingólfs. Þar má nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn. Eftir árið 1000 er Reykjavíkur sjaldan getið í heimildum og ætt Ingólfs hverfur af sögusviðinu.
Sagan segir að Hrómundur Gripsson hafi átt tvo syni, Björnólf og Hróald. Sonur Björnólfs var Örn faðir Ingólfs og Helgu, en sonur Hróalds var Hróðmar faðir Leifs (Hjörleifs).
Þeir fóstbræður Ingólfur og Leifur fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum, þeim Hásteini og Hersteini og Hólmsteini. Með þeim fóru öll skipti vel, þar til í veislu um veturinn strengdi Hólmsteinn þess heit, að hann skyldi eiga Helgu Arnardóttur eða öngva konu ella. Um þessa heitstrenging fannst mönnum fátt, og varð fátt um með þeim Hólmsteini og Leifi, er þeir skildu þar að boðinu.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Um vorið eftir bjuggust þeir fóstbræður að fara í hernað og ætluðu til móts við syni Atla jarls, en er þeir fundust lögðu þeir Hólmsteinn og bræður hanns þegar til orustu við þá Leif og Ingólf. Í þeirri orustu féll Hólmsteinn, en Hersteinn flýði en gerði för að þeim aftur um næsta vetur þar sem hann féll enda höfðu þeir haft njósn af för hans. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.
En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs.
Eftir það varði Ingólfur fé þeirra til Íslandsferðar, en Leifur fór í hernað í vesturvíking. Hann herjaði á Írland og síðan var hann kallaður Hjörleifur.

Aðalstræti

Aðalstræti – brunnur.

En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.
Þeir bjuggu nú skip sín til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra.
Þetta sumar sem þeir Hjörleifur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi. Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.
Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða.
Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi tíðindin.

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

Þá fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan, mælti hann: “Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða, og sé eg svo hverjum verða, ef eigi vill blóta.”
Ingólfur gekk upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu hafa flúið þangað því að báturinn var horfinn. Fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Ingólfur drap þá alla. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.
Þeir Ingólfur fóru aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.
Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.

Reykjavík

Reykjavík 1789.

Ingólfur fór um vorið og tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu komið á land og bjó þá í Reykjarvík. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.
Þá mælti Karli: “Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.”
Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla sonur þeirra var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður en alþingi var sett.
Samkvæmt heimildum Örnefnastofnunar er engin vík eða vogur í höfuðstaðnum sem ber nafnið Reykjavík. Upphaflega nafnið var Reykjarvík með r eins og sjá má í frásögn Íslendingabókar af því þegar Ingólfur Arnarson tók sér bólfestu á þeim stað sem seinna varð höfuðstaður Íslands. Þar segir „ … hann byggði suðr í Reykjarvík“. Örnefnið Reykjarvík hefur væntanlega átt við víkina milli Laugarness og núverandi Granda (eða Örfiriseyjar).

Reykjavík

Reykjavík 1835 – Joseph Gaimard.

Vel þekkt er sú saga að Reykjavík hafi fengið nafn sitt af reyknum sem Ingólfur Arnarson sá stíga upp úr laugunum þegar hann fyrst kom á staðinn. Í bókinni Saga Reykjavíkur segir Klemens Jónsson (1944) að á landnámsöld megi gera ráð fyrir að laugarnar hafi verið heitari en nú og því borið meira á reyknum. Einnig nefnir Klemens þá gömlu sögn að í norðvestanverðri Örfirisey hafir fyrrum verið laug sem sjór sé nú genginn yfir. Sé það rétt, hafi á sínum tíma verið hverareykir bæði austan og vestan víkurinnar og því eðlilegt að kenna hana við reykina.

Landnámssýning

Landnámsýningin í Aðalstræti.

Orðmyndin Reykjarvík virðist hafa horfið fljótlega því að í eldri heimildum er landnámsjörðin yfirleitt nefnd Vík á Seltjarnarnesi. Með tímanum festist þó nafnið Reykjavík í sessi og eftir að þéttbýli tók að myndast er alltaf talað um Reykjavík.

Í miðaldaritum er frá því sagt að Ingólfur Arnarsson hafi fyrstur numið land á Íslandi og búið í Reykjavík. Heimildirnar, Íslendingabók frá fyrri hluta 12. aldar og Landnámabók sem er yngri, geta þess aðeins að bær Ingólfs hafi verið í Reykjavík en ekkert kemur fram um hvar nákvæmlega bær hans hafi staðið.

Landnámssýning

Landnámssýningin í Aðalstræti.

Í Landnámabók er sagt frá því að öndvegissúlur Ingólfs hafi rekið á land við Arnarhól og hefur þess verið getið til að fyrsti bústaðurinn hafi verið þar. Á Arnarhóli var á seinni öldum bær með sama nafni og getur þetta því vel staðist. Hinn möguleikinn sem helst hefur verið nefndur er að bær Ingólfs hafi verið við suðurenda Aðalstrætis, á tjarnarbakkanum, en Tjörnin náði þá mun lengra til norðurs en hún gerir nú. Á þeim slóðum stóð Reykjavíkurbærinn á seinni öldum og þar hafa fundist fornminjar sem staðfesta byggð á seinni hluta 9. aldar. Landámabók getur þess einnig að öndvegissúlurnar sjáist “enn” í eldhúsi í Reykjavík. Þetta hefur verið ritað á 13. öld og virðist þá hafa staðið hús í Reykjavík sem menn töldu ævafornt.
Fornleifagröftur í Aðalstræti gefa til kynna að þar hafi verið skáli í fornöld.

-http://www.anok.is/saga_reykjavikur/rvk/874-1200
-http://www.islandia.is/systah/ing%c3%b3lfur_arnarson.htm
-http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2252
-http://www.instarch.is

Landnámssýning

Landnámssýningin í Aðalstræti – skáli.

Landnámssýning

Fornminjar í Aðalstræti
Þann 12. maí 2006 var Landnámssýningin 871±2 opnuð í kjallara Hótels Reykjavíkur í Aðalstræti 16 í Reykjavík. Frá því að fyrst var hugað að slíkri sýningu til þess tíma hafði mikið vatn runnið úr Tjörninni til sjávar.

Orri Vésteinsson, fornleifafræðingur, var m.a. í verkefnastjórn borgarráðs Reykjavíkur er annaðist undirbúning að sýningu fornminjanna við Aðalstræti. Árið 2005 kynnti hann nemendum sínum við Háskóla Íslands þær hugmyndir, sem þá voru um fyrirhugaða sýningu:

Aðalstræti 14 og 16
Í máli hans kom fram að fornleifar í Kvosinni hefðu fyrst fundist á svæðinu þegar fyrir árið 1950. Áður var vitað að slíkar minjar kynnu að leynast á þar, m.a. vegna texta Landnámu um búsetu Ingólfs Arnarssonar og síðari tíma texta um að „öndvegissúlur hafi sést í eldhúsi í Reykjavíkurbænum” fram á 19. öld. Örnefnin Ingólfsnaust og Ingólfsbrekka bentu m.a. til staðsetningar bæjar Ingólfs, elsta bæjar Reykjavíkur. Þegar grafið var fyrir Tjarnargötu 4 (Happrætti Háskóla Íslands) á fimmta áratug 20. aldar, komu í ljós miklar fornminjar, dýrabein o.fl., en fáir voru upprifnir af því sem þá bar fyrir augu. Þá var líkt og nú gerist á stundum. Matthías Þórðarson, þjóðminjavörður, skoðaði svæðið, en ekki var gerð gagnmerk rannsókn á leifunum, sem þá fundust, enda enginn sérstakur áhugi þá á að varðveita minjar tengdar Ingólfi heitnum, hvað þá að varðveita þær til sýningarhalds. Sennilega hefur mest af gamla bænum verið mokað burtu umrætt sinni – því miður.
Áskorun kom fram frá embættismönnum borgarinnar árið 1959 um að friða svæði á horni Túngötu og Aðalstræti – “því þar væri að finna leifar af bæ Ingólfs, hins fyrsta landnámsmanns”. Helgi Hjörvar gaf m.a. út bók með greinum þar sem fram kom að hann vildi staðsetja Alþingi Íslendinga á fyrrgreindum stað, “enda vel við hæfi”.
Fornleifarannsóknir fóru fram á svæðinu 1962. Við C14 greiningar komu í ljós mjög gamlar minjar. Uppgröftur Else Nordahl í Aðalstræti 14 og 18 og jafnframt Suðurgötu 3 og 5 fóru fram á árunum 1971-75. Hún var mjög varfærin í túlkun niðurstaðna sinna og þær skyldu því lítið eftir sig. Málið í heild hlaut litla athygli og engir minnisvarðar voru reistir á vettvangi, þrátt fyrir tilefni til þess. Ummerki fundust um landnámsbyggð.
Uppgraftasvæðið í Kvosinni
Uppgreftir í Aðalstræti 12 og 8 og Suðurgötu 7 gáfu einnig til kynna ummerki eftir landnámsbyggð á svæðinu. Ummerkin voru reyndar  um landnámsbyggð, allt frá elstu tíð, s.s. leifar af skálum, en fáir gripir komu fram. Skálarnir voru litlir, 12-14 m langir og eldri byggingar höfðu greinilega raskað þeim eldri.
Útbreiðsla minjanna má greina með lagni. Elstu minjar eru þar sem nú er Herkastalinn og hús Happdrættis Háskóla Íslands. Meginsvæðið nær þó lengar til norðurs að Ingólfstorgi og jafnframt lengra til suðurs. Lýsingar Matthíasar eru slíkar að líkur benda til þess að þarna hafi elstu minjarnar verið. Herkastalinn er grunnt grafinn svo ekki er með öllu útilokað að þar undir kunni að leynast minjar er gætu gefið bæjarstæðið til kynna. Hér er þó ekki komin endanleg mynd á svæðið því enn eru reitir á svæðinu, sem enn hafa ekki verið grafin upp, bæði lóðir og götur.
Alls staðar þar sem grafið hefur verið hafa fundist einhverjar minjar frá fyrstu tíð. Hið merkilega er að eftir rannsóknina á 8. áratugnum var mokað yfir rústirnar og hvergi sjást ummerki eftir uppgötvanir þær, sem þá voru gerðar.
Endurbygging Aðalstrætis 16 og uppbygging á reitnum Aðalstræti 14-18 hafa nú að mestu farið fram. Áður voru gerðar fornleifarannsóknir á útmánuðum 2001. Í ljós komu minjar frá Innréttingatíma og síðar, auk skála frá 10. öld. Skálinn var nánast heill og dæmigerður fyrir sinn tíma. Það gerði hann hentugan til sýningarhalds. En var hann “Ingólfsbær”?

Undirbúningur að sýningu forminjanna
Borgarstjórn ákvað að varðveita skálann. Rökin voru afgerandi, en ekki einhlít. Hönnun fyrirhugaðs hótels var því breytt og gert ráð fyrir að hægt væri að sýna þessar minjar. Sumir vildu þó ganga lengra og byggja sérstaka sýningaraðstöðu þeim til handa. Það þótti hins vegar of dýr framkvæmd. Því varð þessi málamiðlun niðurstaðan. Borgarsjóður ber kostnað af sýningarrýminu, en hann mátti áætla um 500 milljónir króna.

Rústin í Aðalstræti 16
Rústin var hulin eftir uppgröftin og framhalds-rannsókn síðan gerð 2003. Sýningarundirbúningurinn hófst 2004, en sýningin er í raun tækifæri til að upplýsa hvernig fornleifar líta út.
Forvarsla skálans varð erfitt viðfangsefni því ekki hafði verið tekist á við slíkt viðfangsefni hér á landi fyrr. Áætlað var að þurrka tófina, en hún myglaði. Í ljós kom að vatnslind er undir henni miðri. Efnið er í rauninni mold, sem verður að ryki við þornun. Niðurstaðan var að baða hana í sílikoni. Það hefur ekki verið gert áður svo hér er um tilraun að ræða. Óvíst er hver árangurinn kann að verða. Forvarslan nær í fyrstu til ytri gerðar tóftarinnar, en síðar verður hugað að miðju hennar.
Sérsýning var áætluð í fyrirhöguðu hóteli um landnám í Reykjavík. Skálinn átti að verða aðalsýningargripurinn með áherslu á fornleifarnar fremur en söguskýringu. Skýr aðgreining verður milli hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Um er að ræða málamiðlanir. En fyrir hvern er sýningin? Erlenda eða innlenda ferðamenn?, skólabörn? eða alla?
En hvað um Hallveigu og Ingólf? Í Íslendingabók Ara fróða frá því um 1130 segir að Ingólfur, maður norrænn, hafi fyrstur sest að í Reykjavík um 870. Yngri heimildir segja að afkomendur Ingólfs og Hallveigar konu hans hafi búið hér mann fram af manni. Þorkell máni, sonarsonur Ingólfs og Hallveigar gæti samkvæmt því hafa búið í skálanum, sem hér var reistur um 930. Niðurstöður fornleifarannsóknarinnar varpa engu ljósi á sannleiksgildi hinna rituðu heimilda. Mörgum þykir hins vegar athyglisvert að fornleifafundurinn hér stangast ekki á við frásögn Ara fróða af landnámi Ingólfs í Reykjavík. En hafa ber í huga, að þótt elstu mannvistarleifarnar á þessum stað geti ekki verið yngri en frá því um 870 þá gætu þær vel verið nokkrum áratugum eldri.
Yfirskrift sýningarinnar í kjallara hótelsins var ákveðin; Reykjavík 871±2 – Landnámssýning / The settlement exhibition. En af hverju að sýna þessar fornleifar? Og það á þessum stað? Og með þessum tilkostnaði? Aðalrökin voru þau að þetta væri í rauninni “helgur” staður í augum Reykvíkinga?
Í kennslustund árið 2006 kynnti Orri undirbúing sýningarinnar fyrir nemendum í fornleifafræði við Háskóla Íslands vorið 2006;
“Nú er að koma mynd á fyrirhugaða sýningu. Hún verður fremur lítil. Það mun taka  um 10-15 mínútur að ganga í gegnum hana, en möguleiki er á lengri viðdvöl. Fyrst, á leið niður, verður kynnt landnám á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Svolítill texti var ætlaður um Ingólf Arnarsson til þessa dags. Móttaka, sölubúð og tölvuver með ítarupplýsingum áttu að taka á móti gestum í kjallara. Segja átti frá ritheimildum á veggjum, auk “panaorama” myndum er sýna eiga umhverfið við landnám. Vandamálið er hversu lágt er til lofts. Það verður stærsti ókostur sýningarinnar. Við enda tóftarinnar verður lítil upphækkun, en þar verður möguleika að horfa yfir “sviðið”. Klefi verður þar sem hægt er að horfa í skjá og skoða endurgerð af rústinni. Hægt verður að fara í gegnum hana og skoða sig um. Margmiðlunarborð með líkan af rústinni leiðir gestina í gegnum hana. Skýringar og textar segja til um einstaka hluta hennar. Þarna gæti fólks staldrað við í allt að klukkustund. Fimmtán textar verða á veggjum. Síðasti textinn fjallar um framangreindan texta um Hallveigu og Ingólf.”

Umfjöllun á fyrri stigum
Nokkur umfjöllun varð um þessa fyrirhugaða sýningu. Þráinn Bertelsson, dálkahöfundur, sagði m.a. í Fréttablaðinu 29. 08. 2001 eftirfarandi: „Ekkert land í veröldinni er svo ríkt af fornminjum að þar geti að líta bústað fyrsta nafngreinda fólksins sem tók sér bólfestu í landinu. Bæjarrústir Ingólfs og Hallveigar eru fornleifafundur sem er einstæður ekki bara á Íslandi heldur í veröldinni. … Ingólfsbær er þjóðargersemi og þjóðargersemar á að varðveita með öðrum og myndarlegri hætti heldur en í hótelkjallara, jafnvel þótt með því sé hægt að harka inn fáeinar krónur. Þarna á að rísa safn einstakt í Evrópu og minna á landnám Íslands, landkönnun í vesturátt, íslenska þjóðveldið og þróun víkingasamfélagsins til okkar daga. Þjóð sem misbýður sögu sinni með því að vísa fyrstu landnámsfjölskyldunni til dvalar í hótelkjallara verður aumkunarverð í augum alls heimsins.”
Um svipað leyti fór fram umleitan og skoðanakönnun á nýtingu fornleifanna við Aðalstræti. Spurt var: Á að byggja yfir landnámsbæinn í Aðalstræti? Já sögðu 33%, nei sögðu 67%.  Skoðanakönnun þessi var birt á www.visir.is og í Fréttablaðinu 12.11.2001.
Gunnar Smári Egilsson, dálkahöfundur, skrifaði eftirfarandi um sýninguna í DV þann 15.01. 2002: „Það hefur heldur enginn efast um að landnámsskáli hafi verið í Aðalstræti. Þær rústir sem menn hafa nú grafið upp bæta þar engu við – það er líklegra að þær skyggi á hugmyndir okkar af bænum en auðgi þær. Og þótt við drögum túrista að rústunum mun það ekki auðga líf þeirra – eða skilning þeirra á sjálfum sér eða okkur. Það er því óþarfi að byggja viðhafnarskála kringum heimsókn túristanna að rústunum. Eðlilegast er að moka yfir grjótið og halda lífinu áfram.”
Fram kom hjá Orra að varðveisla skálans væri véfengjanleg sem og túlkun fornleifafræðinga. Skörð hafa myndast í veggi tóftarinnar, hún varð hvít að lit, kostnaður varð mikill, lágt er til lofts og erfitt verður fyrir gesti að skynja tóftina. Til hvers er þá sýningin? Forvarsla yrði bæði kostnaðarsöm og hæpin þar sem umbreyting á eðli efnisins (torf í plast) er að ræða. Önnur áferð og litbrigði gefa varla rétta sýn á minjarnar sem slíkar. Og hvað er þá upprunalegt? Staðurinn, formið, steinefnin? Nóg ætti að verða eftir til að hægt sé að halda því fram að tóftin sé upprunaleg. En hvers vegna ekki að hlaða veggina upp á nýtt og jafnvel skipta um þá reglulega? Hversvegna ekki að lækka rústina svo hægt verði að sjá yfir hana? Hér er einungis fárra álitamála er komu til greina getið. Ljóst er að fornleifar frá landnámsöld í Kvosinni eru helgistaðir íslensks þjóðernis. Helgin er aðdráttarafl. Fjármagn skortir heldur ekki. Áhugi ferðamanna mun vissulega verða fyrir hendi – a.m.k. sumra.
Hvert er þá hlutverk fornleifafræðinga í þessu öllu saman? Hver er ábyrgð þeirra? Fornleifafræðingar hljóta að spyrja sig; hvað er hægt að tala um og hvað ekki? Sýningin opnar a.m.k. á aðrar túlkanir og aðra sýn á landnámið en tíðkast hefur. Hugsanlega gæti hún breytt ríkjandi skoðunum. Fleira kemur og til greina. Hið sérstæða, og þó, er að enginn höfundur er að fyrirhugaðri sýningu í kjallara hótelsins.
Leiktjaldahönnuður sér um útlit og verkefnastjóri stýrir hópi vísindamanna um álitamál og textagerð. Enginn ber heildarábyrgð á sýningunni sem slíkri. Ritstjóri er yfir sýningarbók og bæklingi (textum) og umskrifari fer yfir og gengur frá textum. Ljóst er að vandað verður til útlits og allra formlegheita. Forðast þarf alla meinbugi því þeir munu verða öðrum eftirminnilegri en kostirnir og megináherslur.
Segja má að í gegnum tíðina, m.a. vegna meðvitunar- og eftirtektarleysis, hafi Reykvíkingar gloprað niður tækifærinu til að uppgötva að nýju hinn raunverulega forna landnámsskála Ingólfs Arnarssonar. Gaman yrði að sjá hvernig til tekst.

Sagan
Á vefsíðu Fornleifastofnunar Íslands, sem Orri Vésteinsson veitir m.a. forstöðu, er í stuttu máli sögulegt yfirlit um svæðið:
„Í miðaldaritum er frá því sagt að Ingólfur Arnarsson hafi fyrstur numið land á Íslandi og búið í Reykjavík. Heimildirnar, Íslendingabók frá fyrri hluta 12. aldar og Landnámabók sem er yngri, geta þess aðeins að bær Ingólfs hafi verið í Reykjavík en ekkert kemur fram um hvar nákvæmlega bær hans hafi staðið. Í Landnámabók er sagt frá því að öndvegissúlur Ingólfs hafi rekið á land við Arnarhól og hefur þess verið getið til að fyrsti bústaðurinn hafi verið þar. Á Arnarhóli var á seinni öldum samnefndur bær og getur þetta því vel staðist. Hinn möguleikinn sem helst hefur verið nefndur er að bær Ingólfs hafi verið við suðurenda Aðalstrætis, á tjarnarbakkanum, en Tjörnin náði þá mun lengra til norðurs en hún gerir nú. Á þeim slóðum stóð Reykajvíkur-bærinn á seinni öldum og þar hafa fundist fornminjar sem staðfesta byggð á seinni hluta 9. aldar. Landnámabók getur þess einnig að öndvegissúlurnar sjáist „enn” í eldhúsi í Reykjavík”. Þetta hefur verið ritað á 13. öld og virðist þá hafa staðið hús í Reykjavík sem menn töldu ævafornt.
Getið er um kirkju í Reykjavík í kirknatali Páls biskups frá því um 1200 en að öðru leyti kemur Reykjavík ekkert við sögu á miðöldum. Bærinn var þá hvorki stórbýli né höfðingjasetur að því er best verður séð. Þar bjuggu á seinni hluta miðalda velmegandi sjálfseignarbændur en árið 1616 eignaðist konungur jörðina og voru bændur þar eftir það leiguliðar.
Konungur seldi jörðina hinu nýja fyrirtæki Skúla Magnússonar, Innréttingunum, árið 1752. Innréttingunum var ætlað að stuðla að umbótum og framförum í iðnaði, landbúnaði og fiskveiðum um allt landið. Þegar var hafist handa og byggðar ullarverksmiðjur í túni Reykjavíkurbæjarins og markar það upphaf Reykjavíkur sem þorps.
Reykjavík hlaut kaupstaðarréttindi 1786 og var þá þegar orðin helsti verslunarstaður landsins. Aðal verksmiðjuhús Innréttinganna var “H” laga bygging sem stóð þar sem nú eru lóðirnar Aðalstræti 14-16. Í húsinu var voðvefnaðarstofa en einnig íbúðir starfsmanna Innrétting-anna. Þetta hús var byggt úr torfi og grjóti en hafði gafla úr timbri. Það brann aðfaranótt 26. mars 1764. Byggingar Innréttinganna virðast hafa verið endurbyggðar strax eftir brunann og á lóðunum Aðalstræti 14-16 var byggt hús með svipaða lögun og forveri þess. Það var hinsvegar trégrindarhús með grágrýti í grindinni, klætt að utan með borðum.

Uppdráttur af Aðalstræti og nágrenni 1787
Árið 1796 var húsið keypt af landsstjórninni og gert að land-fógetabústað. Þrír land-fógetar bjuggu þar til 1828. Eftir það gaf stjórnin Reykjavíkur- og Seltjarnarneshrepp-um húsið og átti þar að starfrækja fátækrahús en í stað þess var þar rekinn fyrsti barnaskóli í Reykjavík frá 1833 til 1848. Á fyrri hluta 19. aldar var húsinu gerbreytt nokkrum sinnum og virðist hafa verið endurbyggt að meira eða minna leyti. Á seinni hluta 19. aldar var húsið aftur notað til íbúðar og tók þá enn breytingum. 1895 var húsið endurbyggt að mestu leyti frá grunni og bætt við það hæð. Fimm árum síðar var þriðju hæðinni bætt við og 1901 var reist viðbygging að norðan og húsið lengt til vesturs. Þar með fékk húsið það útlit sem það hélt allt til þess að það var tekið í sundur veturinn 2001. Ætlunin var að endurreisa húsið í þeiri mynd sem það hafði árið 1900.”

Hæstiréttur í Aðalstræti?
Nokkur aðsókn var í lóðina á horni Aðalstrætis og Túngötu, þar sem Aðalstræti 16 hefur staðið. M.a. var skoðað árið 1992 hvort til greina kæmi að Hæstiréttur Íslands byggði yfir starfsemi sína á þeim stað.
Þann 9. október 1991 skipaði dómsmálaráðherra, Þorsteinn Pálsson, nefnd til þess að gera tillögur um framtíðarlausn á húsnæðismálum Hæstaréttar Íslands. Var nefndinni sérstaklega ætlað að huga að því, hvort Safnahúsið við Hverfisgötu í Reykjavík, í heild eða að hluta, gæti hentað sem dómhús fyrir Hæstarétt, þegar núverandi notkun þess lyki. Einnig skyldi þó taka aðra kosti til athugunar, m.a. byggingu nýs húss, er rúmað gæti starfsemi Hæstaréttar. Lóðin Aðalstræti 16, gegnt „Víkurgarði”, gamla Víkurkirkju-garðinum, kom þá til greina sem einn valmöguleiki. Borgaryfirvöld höfnuðu þessum möguleika, þar sem gert var ráð fyrir varðveislu lóðarinnar.”

Aðalstræti 16 fór á flakk…
Á vefsíðu verkfræðistofunnar Línuhönnunar er þann 8. mars árið 2001 sagt frá því er gamla húsið Aðalstræti 16 “fór á flakk”.
„1. mars 2001 var efri hluta hússins lyft af fyrstu hæðinni og komið fyrir til bráðabirgða á lóð sunnan við húsið. Línuhönnun annaðist ráðgjöf og hönnun lausna vegna tilfærslunnar fyrir Innréttingarnar hf. Undir húsið var komið fyrir stálbitum, þremur langs undir húsið og tveim þvert sem lyft var í. Áður var húsið styrkt til að þola flutninginn. Við verkið voru notaðir tveir öflugir kranar. Verkið gekk í alla staði mjög vel. Um þessar mundir er unnið að fornleifarannsóknum við Aðalstræti og því var nauðsynlegt að færa húsið. Á lóðinni eru taldar vera leifar frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar. Þegar fornleifarannsóknum er lokið verður byggður nýr sökkull og fyrsta hæðin reyst aftur og efri hlutinn settur aftur á sinn stað. Gerðar verða gagngerar endurbætur á húsinu öllu en framvegis mun það verða hluti af hótelbyggingu á horni Aðalstrætis og Túngötu.”

Auglýsing um breytingu á deiliskipulagsáætlunum
Ljóst er að endanleg ráðstöfun lóðarinnar að Aðalstræti 16 hefur haft nokkurn aðdraganda. Árið 2003 var lögð til breyting á deiliskipulagi í grjótaþorpi, þ.m. fyrir Aðalstræti 16.
“Í samræmi við skipulags- og byggingarlög, samþykkti borgarráð Reykjavíkur þann 3. júní 2003, breytingu á deiliskipulagi fyrir Aðalstræti 16.
Uppdrættir hafa hlotið þá meðferð sem skipulags- og byggingarlög mæla fyrir um. Breytingin öðlast þegar gildi. Reykjavík, 13. júní 2003.”
Undir framangreint ritar skipulagsfulltrúi Reykjavíkur.

Skiptar skoðanir
Það er nú svo að ekki eru allir séu alltaf sammála um allt sem gert er. Á vefsíðu Björns Bjarnasonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, er að finna umfjöllun hans um Landnámssýninguna:
„Þá vil ég fara nokkrum orðum um 17. lið þessarar fundargerðar borgarráðs. Þar gagnrýndum við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hvernig staðið var að gerð samnings við Innréttingar ehf. um uppbyggingu á lóðunum nr. 14-18 við Aðalstræti frá 31. janúar 2003.
Vissulega á rétt á sér, að ritað sé undir samninga við þriðja aðila með fyrirvara um samþykki borgarráðs, eins og gert var í þessu tilviki. Í þessu tilviki hafði borgarráði í löngu máli og með dýrum skýrslum eftir ótrúlega flókið og mikið samráð við heilan her sérfræðinga verið kynnt niðurstaða um varðveislu fornminja á þessum stað, sem byggðist meðal annars á því, að ráðist yrði í mikinn uppgröft í Víkurkirkjugarði.
Síðan gerist það, án þess að eitt aukatekið orð sé sagt um það við borgarráð, að horfið er frá þessum áformum og skrifað undir samning, sem byggist á gjörbreyttum forsendum, þótt enn sé því haldið opnu, að ráðist sé í uppgröft í Víkurkirkjugarði.
Spyrja verður, hvað olli því, að sú leið var farin, að skrifa undir þennan samning án þess að kynna borgarráði fyrst hinar nýju forsendur. Hvað knúði á um að gera samninginn í þessu óðagoti? Þar sem ég veit ekki, hver er hinn pólitíski talsmaður R-listans í þessu máli eða öðrum, dettur mér helst í hug að beina þessari spurningu til formanns menningarmálanefndar. Fjárveitingar vegna fornminjanna við Aðalstræti renna í gegnum nefndina hans, ef ég man rétt. Hafa hinar breyttu forsendur verið kynntar menningarmálanefnd?
Í borgarráði var sérstaklega spurt um örlög hússins að Aðalstræti 16. Húsið er að stofni til frá tíma innréttinganna og eru hlutir í því allt frá árinu 1764 og má því með réttu kalla það eitt elsta hús Reykjavíkur. Í borgarráði var leitast við að fá skýr svör við því, hver yrðu örlög þessa húss og var þá sagt, að neðsta hæð þess mundi hverfa en efri hlutinn yrði notaður.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir, borgarminjavörður og forstöðumaður Árbæjarsafns, segir hins vegar  í Morgunblaðinu í gær, að stefnt sé að því að byggja neðstu hæðina aftur í samræmi við það hvernig hún leit út og síðan lyfta húsinu upp á hana. Telur hún það alveg viðunandi lausn og aðferð sem standist fullkomlega út frá varðveislusjónarmiði og því sem tíðkist við endurbyggingar og endurnýjun gamalla húsa.
Af orðum borgarminjavarðar verður ekki ráðið, hvort ætlunin sé að nýta í fyrstu hæð hússins grind útveggja og stafgólf, sem heilleg eru frá 1764. Er mikilvægt að átta sig á því, ef fylgja á reglum um húsafriðun.
Saga Aðalstrætis er afar merkileg og einstök í miðri höfuðborg.  Við Reykvíkingar erum þar með afar mikilvægan, sögulegan efnivið í höndunum, sem sannarlega getur aukið aðdráttarafl miðborgarinnar og almennan skilning  á gildi hennar.
Þegar litið er annars vegar til minjanna frá landnámstíð á þessum reit við Aðalstræti og húsið, sem á rætur aftur til 1764, vaknar sú spurning, hvort rétt sé með þessar sögulegu minjar farið með því að reisa ofan á þeim og umhverfis eftirlíkingu af öðrum húsum eins og af Fjalakettinum og Uppsölum. Er það ekki  í raun fölsk virðing fyrir sögunni og minjunum við Aðalstrætið, okkar elstu götu, sem gengið hefur verið um allt frá landnámi?
Nú hefur verið skrifað undir samning um að reist skuli með fjárhagslegri aðild Reykjavíkurborgar stór ný hús í dulargervi undir þeim formerkjum,  að þetta sé gert í virðingarskyni við hina merku sögu Aðalstrætis þar sem varðveittar eru minjar um landnám og  elstu þéttbýlismyndun. Aðalstræti 16 mun einfaldlega  hverfa inn í ný hús í gömlum stíl.”

Menningarminjar og Aðalstrætishúsið
Á vefsíðu Línuhönnunar þann 6. febrúar 2004 er sagt frá endurkomu gamla hússins að Aðalstræti 16 á sinn stað. Það hafði ekki farið langt…
„Nýbúið er að koma gamla húsinu við Aðalstræti 16 fyrir á þeim stað þar sem það verður til frambúðar. Vandséð var orðið hvort húsinu yrði bjargað frá eyðileggingu. Minjavernd hf. kom að verkinu fyrir nokkrum árum og leitaði leiða til að koma húsinu aftur í notkun. Stofnað var félag um verkið undir nafninu Innréttingarnar ehf. sem nú er í eigu Stoða ehf. Frá árinu 2001 hafa staðið yfir framkvæmdir á lóðinni, m.a. umfangsmikill fornleifauppgröftur þar sem einhverjar merkustu fornleifar innan borgarmarkanna komu í ljós. Hluti hússins var tekinn niður en annar fluttur og stóð sá hluti þar til snemma í febrúar á bílastæði við Túngötu. Eftir að sett var upp veggjagrind jarðhæðar (með hluta úr upphaflegu húsum Innréttinga Skúla Magnússonar), var heillega hluta hússins lyft upp á veggi jarðhæðarinnar þannig að nú er húsið aftur orðnar þrjár hæðir. Enn er þó mikil vinna eftir við að koma byggingunni í nothæft ástand sem hluta af nýju hóteli á horni Aðalstrætis og Túngötu. Línuhönnun hf., einkum Hjalti Sigmundsson, hefur komið að undirbúningi verksins frá og með áætlanagerðinni en síðar sá fyrirtækið um flókna burðarþolshönnun gamla hússins. Viðir þörfnuðust mikilla styrkinga og hanna varð nýtt burðarvirki í hluta þess. Arkitektar eru Arkitektar Skólavörðustíg 28 en verkkaupi (að hönnun Lh) er ÍAV og sjá þeir um byggingu hótelsins. Eigandi er Innréttingarnar ehf.”

Hótel við Aðalstræti
Þann 25 október árið 2004 er fjallað á vefsíðu VA-arkitekta um fyrirhugaða hótelbyggingu á lóðinni Aðalstræti 16.
“VA arkitektar hafa undanfarið unnið að hönnun hótels við Aðalstræti í samvinnu við Teiknistofuna Skólavörðustíg 28 sf. Aðalbygging hótelsins verður hið gamla hús Aðalstræti 16, en elsti hluti þess var byggður 1764. Það hús verður nú endurbyggt sem hótel og beggja megin þess fyrir aftan það verða reistar nýbyggingar sem taka að hluta til form sitt af húsum sem áður stóðu á lóðinni eða annars staðar í Aðalstræti á gullaldarskeiði þeirrar aðalgötu Reykjavíkur upp úr 1900. Undir hótelinu verður sýningarsalur sem Reykjavíkurborg mun reisa í kringum rúst af víkingaaldarskála sem fannst 2001, er undirbúiningur að byggingu hótelsins var að hefjast. Skálarústin verður varðveitt þar og jafnframt verður sett upp vönduð sýning um landnám og fyrstu mannvist í Reykjavík. Við uppgröftinn fundust m.a. elstu mannvistarleifar á Íslandi, torfhnausar sem hafa verið aldursgreindir til ársins 871. Hótelið verður opnað í april 2005.”
Á mbl.is þann 1. apríl 2005 er sagt frá því að „Hótel Reykjavík Centrum, sem stendur við Aðalstræti 16 í Reykjavík, var opnað við hátíðlegra athöfn í kvöld. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaþingmaður og fyrrum borgarstjóri, sem óskaði eftir því fyrir tíu árum að borgarlögmaður kannaði hugsanlegt samstarf við Minjavernd um uppbyggingu og verndun hússins á lóðinni, sagði eftir að hún skoðaði hótelið í gær, að þar færi saman glæsilegt útlit og vandaður frágangur og að uppbyggingin í Aðalstræti væri dæmi um það hvernig hægt væri að tengja saman gamalt og nýtt í miðborginni.”

Eigendur Aðalstrætis 16
Eigendur að Aðalstræti 16 eru Fasteignafélagið Stoðir hf. Í Kringlunni 4-12,  Reykjavík. Félagið var stofnað 3. maí 1999. Í maí árið 2002 var svo fasteignafélagið Þyrping hf. sameinað félaginu. Þyrping hf. var stærri aðilinn við sameininguna og hafði verið í rekstri frá árinu 1991.  Með sameiningunni varð til stærsta fasteignafélag á Íslandi með margar af bestu verslunar- og þjónustufasteignum á sinni hendi, s.s. Kringluna og Nordica Hótel. Jónas Þór Þorvaldsson er forstjóri félagsins.

Framkvæmdir
Í janúarblaði Byggiðn, Menntafélags byggingariðnaðarins, árið 2004 er allnokkur umfjöllun um framkvæmdirnar við Aðalstræti.
„Það fer ekki fram hjá neinum sem fer um miðbæinn að stórfelldar byggingaframkvæmdir eru á horni Túngötu og Aðalstrætis. Nokkur ár eru síðan hafist var handa um endurskipulagningu þessa svæðis. Að mörgu þurfti að hyggja þar sem meðal annars var vitað að þarna voru fornar rústir í jörðu. Sumir gengu svo langt að segja að fyrsti landnámsmaðurinn, Ingólfur Arnarson, hafi haft búsetu á þessum stað. Svo að áður en nokkuð var aðhafst þurftu fornleifafræðingar og vinnuflokkur á vegum borgarminjavarðar að athafna sig á svæðinu. Þá stóð á lóðinni Aðalstræti 16 bygging, sem hafði verið friðuð og var hún flutt yfir götuna til að rýma fyrir fornleifagreftrinum. Teiknistofan Skólavörðustíg 28 sf. fékk það verkefni að hanna byggingarnar og gera jafnframt deiliskipulag uppbyggingar verslunar.”
Reykjavíkurborg hafði upphaflega snúið sér til Minjaverndar með fyrirspurn um hvort hægt væri að gera við húsið sem þar stóð og endurbyggja það og með hvaða hætti það gæti orðið. Þessi vinna hófst 1994 og var síðan unnið í nokkurn tíma að hugmyndum um nýtingu lóðarinnar auk þess sem leitað var að fjárhagslegum grundvelli. Stefán Örn er arkitekt á Teiknistofunni Skólavörðustíg 28 sf. Hann hefur unnið að verkinu frá upphafi. Byggiðn fékk hann til að lýsa hugmyndum og vinnsluferlinu: ,,Við komum fyrst að þessu verkefni þegar Minjavernd óskaði eftir því að við skoðuðum möguleika á uppbyggingu á lóðunum við Aðalstræti 16. Það var einn liður í að skoða möguleika á uppbyggingu við Aðalstrætið, frá Túngötu að Vesturgötu. Í fyrstu voru hugmyndir uppi um að reisa verslunarhúsnæði við Aðalstræti 16. Þær hugmyndir viku síðan fyrir hótelbyggingu.
Þar sem vitað var að á lóðinni voru merkar fornminjar þurfti fyrst að grafa og sjá hvað kæmi í ljós áður en nýframkvæmdir gætu hafist. Húsið sem fyrir var á lóðinni og er friðað var þá flutt yfir Túngötuna eins og veg-farendur hafa tekið eftir.
Vandamálið með gamla húsið er kannski ekki fyrst og fremst að koma því fyrir og endurgera það heldur að það uppfylli skilyrði sem nútímahúsnæði um leið og varðveitt er það sem varðveisluvert er en hús þetta á sér mikla sögu. Svo er það rústin sem á að verða sýnileg og aðgengileg. Þegar fornleifafræðingar voru búnir að grafa og komast að því að þarna var um mjög merka og vel varðveitta skálarúst að ræða frá 10. öld þurfti að huga að varðveislu hennar og sýningu.
Stefán segir að lokum að verkið í heild hafi verið skemmtilegt og flókið: ,,Þarna tvinnast saman sýningarskáli um forna skálarúst, gamla húsið sem er friðað og nýbygging sem tengir þetta saman. Allt þarf þetta að fá að njóta sín eins vel og kostur er.”
Rústin er ein nokkurra skálarústa sem fundist hafa við fornleifagröft í miðbæ Reykjavíkur. Þær eru flestar rúmum metra undir þeirri Reykjavík sem við göngum um nú. Við erum sem sagt búin að hlaða undir okkur á annan metra síðan byggð hófst hér. Þarna verður að vera jafnvægi á milli rústarinnar og skálans sem hún verður í og götunnar og gólfsins í hótelbyggingunni. Þetta þarf allt að leysa svo vel fari.”
Við nýbyggingar í elstu byggð Reykjavíkur var strax farið að huga að fornminjum þar sem undir lagi af mold geta leynst upplýsingar um forfeður okkar, byggingarstíl þeirra og margt annað sem akkur er í þegar saga landsins er skráð. Áður en farið var að reisa sökkla fyrir nýbyggingu fá því fornleifafræðingar að athafna sig og oftar en ekki hafa komið upp á yfirborðið mikilvægar upplýsingar í þróunarsögu Reykjavíkur.
Yfirumsjón með uppgreftri hafði borgarminjavörður, Guðný Gerður Gunnarsdóttir. Hún var fengin í stutt spjall um það sem þar fannst og hvað verði um þær minjar sem fundust: ,,Við komum að þessu strax þegar ákveðið var að byggja á lóðunum við Aðalstræti. Það er vitað að elsta byggð í Reykjavík er á þessu svæði. Þarna hafði á áttunda áratugnum verið grafið áður. Það var var því nokkuð ljóst að þarna voru fornminjar.”
Á fornleifagreftrinum var byrjað fyrri hluta árs 2001. Undir Innréttinga-húsunum, sem brunn árið 1760, voru rústir minni skála. Við áttum von á að finna hluta af honum en við vissum ekkert af skálanum þar fyrir norðan sem var mikið stærri og er syðri skálinn síðar byggður við stóra skálann. Þetta var mjög merkilegur fundur og það sem kannski var merkilegast er að skálinn er tiltölulega heillegur. Það er hægt að sjá lag hans greinilega og leifar af útveggjum. Það er eins og húsið hafi verið tekið niður og við teljum að búið hafi verið stutt í því. Þarna má samt sjá eldstæði og inngang. Í haust var síðan grafið áfram í austur og undir Aðalstrætið, þá kom þar í ljós mannvirki sem hefur verið eins konar anddyri við innganginn á austurhliðinni.”
Guðný Gerður segir að tekin hafi verið ákvörðun um að varðveita skálann og í kjölfarið var gerð breyting á fyrirhuguðu húsi: ,Byggður verður sýningarskáli þar sem rústin verður til sýnis og mun rústin að öllum líkindum tengjast sýningu um sögu Reykjavíkur. Þetta er sá hluti Aðalstrætis 16 sem hluta árs 2001. Guðný Gerður segir að í ljós hafi komið eftir að grafið var niður fyrir Innréttingahúsin, sem að hluta til brunnu upp úr 1760, skáli sem reyndist vel varðveittur: ,,Við þurftum að fara nokkuð langt niður fyrir minjar um Innréttingahúsin og á botninn ef svo má segja til að finna skálann sem var vel varðveittur og er það því að þakka að ekki hefur verið byggt á þessari lóð frá því þessi skáli var reistur og þar til hús Innréttinganna voru byggð.
Skálinn sem við komum niður á er stór landnámsskáli, tæplega tuttugu metrar að lengd og átta metrar þar sem hann er breiðastur. Skálinn hefur verið aldursgreindur og það er ljóst að hann er frá tíundu öld.
Fyrir norðan skálann í jaðrinum á lóðinni, alveg út undir Bröttugötu, hafa svo komið í ljós leifar af einhverju mannvirki sem er eldra. Þar er að finna landnámsöskulag.”
Reykjavíkurborg kostar, það er að segja sýningarskálann og innganginn sem verður aðskilinn frá hótelinu. Við erum að vinna í þessu nú og er meðal annars hugmynd um að hafa glugga í gangstéttinni þar sem sjá má í rústirnar.”
Guðný Gerður telur að rústirnar í Aðalstræti 16 séu með merkari rústum sem fundist hafa í Reykjavík: ,,Bæði er að þær eru mjög gamlar eða frá þeim tíma sem við köllum landnámsöld og einnig er merkilegt að finna svona gamlar rústir sem eru heillegar. Víða er búið að spilla þetta gömlum minjum með því að byggt hefur verið ofan á þær oftar en einu sinni. Þetta á ekki við um Aðalstræti 16.”
Þegar á heildina er litið þá tókst gröfturinn í Aðalstræti mjög vel. Við vorum ekki að grafa við bestu aðstæður, heldur að vetri til, en þetta gekk allt samkvæmt áætlun og gott samstarf hefur verið við alla sem koma að þessu verki.”

Að mörgu að hyggja
Enn var að mörgum formlegheitum að hyggja áður en endanleg leyfi lágu fyrir og frágangi lokið. Á 384. fundi byggingafulltrúa Reykjavíkur 2006 var tekið fyrir umleitan að samþykki fyrir breytingum.
„Sótt er um samþykki fyrir breytingum á gólfi sýningarskála, fyrir skábrautum og handlistum, breyttri lyftu og breytingum á innra skipulagi aðstöðu við Landnámsskálann í kjallara hússins á lóð nr. 16 við Aðalstræti.
Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa og áskilið var samþykki heilbrigðiseftirlits.”
Á 382. fundi s.á. hafði verið sótt um samþykki fyrir breytingum á gólfi sýningarskálans fyrir skábrautum og handlistum, breyttri lyftu og breytingum á innra skipulagi aðstöðu við Landnámsskálann í kjallara hússins.
Og á 392. fundi byggingafulltrúans var enn sótt um samþykki fyrir handlistum og breyttum skábrautum við Landnámsskálann í kjallara hússins. Það var samþykkt. Áskilin var lokaúttekt byggingarfulltrúa og samþykki heilbrigðiseftirlits.

ÍAV afhenda nýtt hótel
Á vefsíðu Íslenskra aðalverktaka þann 1. apríl 2005 er sagt frá afhendingu Hótel Reykjavík Centrum á horni Aðalstrætis og Túngötu.
“Hótelið er 3.700 fermetrar að stærð á þremur til fjórum hæðum með samtals 89 íbúðum.  Hótelið er að hluta enduruppgerð á sögufrægum húsum; Uppsölum, Aðalstræti 16 og Fjalakettinum.  Í kjallara hótelsins er í byggingu 1.100 fermetra sýningarskáli með elstu mannsvistarleifum í landinu.  Áætlað er að opna sýningarskálann vorið 2006. Starfsmenn ÍAV hófu byggingu hótelsins í janúar 2004.”

Íslenska söguþingið 2006 – Landnámsbærinn í Aðalstræti
Þann 24. apríl 2006 var Íslenska söguþingið haldið. Á því var m.a. fjallað um „Landnámsbæinn í Aðalstræti”.[13] Ráðstefnugestum stóð til boða að fara í skoðunarferð um sýninguna undir tryggri leiðsögn safnvarða sem leiddu þá í allan sannleika um Landnámsbæinn. Hér að neðan fylgir texti frá Minjasafninu um sýninguna.
„Miðpunktur sýningarinnar í Aðalstæti er skálarúst frá 10. öld, sem fannst þegar grafið var fyrir nýju húsi á horni Aðalstrætis og Túngötu. Búið var í skálanum frá því um 930 til 1000. Norðan við skálann fannst veggjarbútur sem er ennþá eldri, eða frá því um eða fyrir 871 og eru það elstu mannvistarleifar sem fundist hafa á Íslandi.
Hvernig var Reykjavík fyrir 1100 árum?
Á sýningunni er reynt að gefa hugmynd um umhverfi Reykjavíkurbæjarins eins og það var við landnám. Skálarústin er varðveitt á sínum upphaflega stað og er miðpunktur sýningarinnar. Einnig eru sýndir munir sem fundust í rústinni og munir sem fundust við fornleifauppgröft í Suðurgötu, Tjarnargötu og í Viðey, en á þessum stöðum hafa einnig fundist ýmsar minjar frá landnámstíma. Tilgátumyndir af landslagi og gróðurfari á 10. öld eru á veggjum umhverfis rústina.

Lífið á landnámsöld
Margmiðlunartækni er notuð til að útskýra byggingarlag húsa á þessum tíma. Einnig er hægt að skyggnast inn í skálann með hjálp tölvutækni og ímynda sér hvernig lífi heimilisfólksins var háttað. Sérstök áhersla er lögð á að útskýra hvernig forn-leifafræðingar lesa úr hinum margvíslegum ummerkjum sem fundust í rústinni.
Ýmsum spurningum er varpað fram á sýningunni og leitað svara við þeim: Hvers vegna settist fólk hér að? Hvernig var umhverfið? Á hverju lifði fólk? Hverjir bjuggu í skálanum?
Við sumum spurninganna fæst svar en öðrum ekki og sýningargesturinn verður að virkja eigið ímyndunarafl. Ítarefni um það sem fjallað er um í sýningunni er að finna í veglegri sýningarskrá og í tölvuveri í anddyri.

Landnám árið 874?
Veggjarbúturinn sem fannst í Aðalstræti sannar að hingað hefur verið komið fólk árið 871 og jafnvel fyrr. Öskulag, sem liggur ofan á veggnum, hefur verið aldursgreint til ársins 871 og eru skekkjumörkin aðeins tvö ár til eða frá. Það hefur því verið búið að hlaða vegginn um 871 og hugsanlega nokkrum árum eða jafnvel áratugum fyrr.
Er skáli Ingólfs og Hallveigar loksins fundinn?
Árið 2001, þegar rústin fannst í Aðalstræti, var mikið rætt um það hvort þetta gæti verið skálinn sem Ingólfur Arnarson reisti og bjó í ásamt Hallveigu konu sinni og öðru skylduliði, en til þess er skálinn of ungur. Ef við gefum okkur að Ingólfur hafi verið rúmlega tvítugur þegar hann kom til Íslands þá hefði hann verið kom-inn langt yfir sjötugt þegar þessi skáli var reistur. Hins vegar er hugsanlegt að dóttursonur hans, Þorkell máni, og hans fólk hafi búið í skálanum, en þar gæti eins hafa búið einhver allt önnur fjölskylda og verður víst aldrei skorið úr um það. Hér er hægt að gefa ímyndunaraflinu lausan taum. Víst er um það að rústin er bæði gömul og merkileg, en hver veit nema enn eigi eftir að finnast eldri rústir í Kvosinni?”

Opnun Landnámssýningarinnar Reykjavík 871+/-2
Í tilefni af fyrirhugaðri opnun Landnámssýningarinnar 12. maí 2006 sendi Minjasafn Reykjavíkur í tengslum við Listahátíð Reykjavíkur frá sér eftirfarandi upplýsingar:
„REYKJAVÍK 871+/-2 Landnámssýningin er ný sýning í miðbæ Reykjavíkur.
Á árunum 2001 – 2003 fór fram fornleifauppgröftur á lóðunum syðst við Aðalstræti og kom þar meðal annars í ljós skálarúst frá 10. öld og veggjarbrot sem er ennþá eldra, eða frá því fyrir 871+/- 2, og af því er nafn sýningarinnar dregið.
Veggjarbrotið er elsta mannvirki sem fundist hefur í Reykjavík og talið vera frá þeim tíma er menn settust hér fyrst að. Ofan á veggjarbrotinu liggur ösku-lag úr eldgosi sem varð á Torfajökulssvæðinu um 871 og sem tekist hefur að aldursgreina svo nákvæmlega með greiningu á borkjörnum úr Grænlandsjökli.
Það er því ljóst að búið var að reisa vegginn áður en þetta öskulag féll, en hversu löngu áður það var er ekki hægt að segja til um.
Rústin og veggjarbrotið eru varðveitt í nýjum sýningarsal á horni Aðalstrætis og Túngötu. Þar verða einnig sýndir ýmsir munir sem fundust við uppgröft á þessu svæði.
Með aðferðum fornleifafræðinnar má lesa úr minjunum miklar upplýsingar um allar aðstæður í Reykjavík fyrstu aldirnar.
Þessu verða gerð skil með nýstárlegri margmiðlunartækni þar sem gestir geta aflað sér fróðleiks og þekkingar sem byggir á nýjustu rannsóknum fræðimanna.
Sýningin verður opin daglega frá 10-17.”
Landnámssýningin var síðan formlega opnuð föstudaginn 12. maí 2006. Í kvöldfréttum Útvarpsins þann 11. maí var lesin eftirfarandi frétt:[15] „Landnámssýningin Reykjavík  871+/-2 verður opnuð í Aðalstræti í Reykjavík um helgina. Í stórum sporöskjulaga sal gefur að líta minjar frá landnámsöld og elstu minjar sem fundist hafa í Reykjavík.
Í sýningarveggina er felld ljósmynd af útsýni til allra átta frá Reykjavík eins og talið er að það hafi verið þegar landið byggðist. Snertiskjáir, margmiðlunarborð, mismunandi hljóðheimar og jafnvel viðeigandi lykt færa gesti aftur á landnámsöld. Sýningin er mótuð umhverfis stóran skála sem byrjað var að grafa upp í ársbyrjun 2001.”

Fréttatilkynning vegna sýningarinnar
Í fréttatilkynningu Minjasafns Reykjavíkur í tilefni sýningarinnar kom m.a. eftirfarandi fram:
„Sumarið 2000 gerði Reykjavíkurborg samning við Minjavernd um byggingu hótels á lóðunum Aðalstræti 14, 16 og 18. Gamla húsið Aðalstræti 16 skyldi endurbætt og umhverfis það byggð ný hús. Á árunum 1971 til 1975 hafði farið fram fornleifauppgröftur á lóðunum Aðalstræti 14 og 18 og þá komu í ljós minjar um byggð frá landnámsöld. Það var því vitað að á þessum stað var hægt að búast við frekari minjum og að áður en hægt væri að hefja uppbyggingu á lóðunum þyrfti að fara fram fornleifarannsókn. Skemmst er frá að segja að borgarstjórn Reykjavíkur ákvað að rannsóknin skyldi gerð og fól borgarminjaverði umsjón með verkefninu. Fornleifastofnun Íslands var falið að annast fornleifauppgröftinn sem hófst í janúar 2001. Á útmánuðum var grafið niður úr jarðlögum og kom þá smám saman í ljós að undir þeim leyndist rúst af skála og norðan við hann brot af torfvegg. Við nánari rannsókn sást að skálinn hafði lag húsa sem þekkt eru frá þeim tíma sem hér á landi er nefndur landnámsöld, og er miðbik víkingaaldar á hinu norræna menningarsvæði. Veggjarbrotin voru ekki síður merkileg. Upp að þeim lá svokallað landnámsöskulag og bendir það til þess að veggurinn hafi verið reistur áður en askan féll. Landnámsöskulagið er talið vera úr eldgosi sem átti sér stað um það bil við upphaf landnáms Íslands.
Þegar í ljós kom að rúst skálans var einkar vel varðveitt, útveggir nokkuð heillegir svo og stórt eldstæði í miðjum skálanum, var sett fram sú hugmynd að varðveita skálann. Fundur skálans vakti á ný umræður um upphaf byggðar í Reykjavík, um Ingólf og Hallveigu og bæjarstæði fyrstu landnáms-manna og sýndist sitt hverjum.
Frumhugmyndir um sýningu og hús fyrir hana voru dregnar upp og ræddar og það varð að lokum úr að borgarstjórn Reykjavíkur ákvað að rústin skyldi varðveitt, byggður umhverfis hana sýningarskáli þar sem gerð yrði sýning um landnám í Reykjavík. Borgarstjóri skipaði vinnuhóp árið 2001 til að vinna að hugmyndum um varðveislu og sýningu á fornminjunum. Vinnuhópurinn kallaði til rýnihópa og sex hönnuði og skilaði, á grundvelli vinnu með þeim, tillögum sínum til borgarráðs í júní 2002. Haustið 2003 hófust byggingarframkvæmdir og samtímis var unnið að því að móta frekar sýningarhugmynd-irnar. Sýningin Reykjavík 871±2 er afrakstur vinnu sem staðið hefur undanfarin sex ár og byggir á kenningum fræðimanna um það sem fornleifar í miðbæ Reykjavíkur geta sagt okkur um líf og störf þeirra sem fyrst settust hér að.
Reykjavíkurborg hefur áður staðið að fornleifarannsóknum í miðbæ Reykjavíkur. Á árunum 1971 til 1975 fór fram uppgröftur við Aðalstræti og Suðurgötu, sem efnt var til í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Smám saman hefur fengist allgóð mynd af upphafi byggðar í Kvosinni.
Löngum hafa menn velt fyrir sér frásögninni um landnámsmanninn Ingólf Arnarson og hvernig hann valdi sér Reykjavík til búsetu. Sögurnar um landnáms-mennina sem finna má í Landnámu og Íslendinga-bók hafa verið mönnum hugleiknar og lengi var markmiðið með leitinni að bæjarstæði Ingólfs að sannreyna þær sagnir. Með fundi fornleifanna við Aðalstræti hefur það verið staðfest að rituðum heimildum og vitnisburði fornleifa ber nokkuð saman um það að norrænir menn námu hér land á þeim tíma sem sögurnar segja til um. Ennfremur að byggð á fyrstu öldum búsetu í Reykjavík var á því svæði sem menn hafa gert sér hugmyndir um, syðst á eiðinu milli sjávar og Tjarnarinnar, sem síðar hefur verið kallað Kvosin. En fornleifarnar eru þögular um nöfn íbúanna.
Reykjavík 871±2 – Landnámssýningin er afrakstur vinnu ótalmargra. Þeirra sem grófu minjarnar upp, byggðu húsið, komu með hugmyndir um sýninguna og útfærðu þær. Víða hefur verið leita ráða og þegar hugmyndin um að varðveita minjarnar kom fram var kannað hvort mögulegt væri að varðveita rústina innanhúss og í því skyni leitað til erlendra sérfræðinga á sviði forvörslu. Heimsókn framkvæmdastjóra og stjórnarmanns icomos – International Council of Monuments and Sites, til Reykjavíkur gaf tækifæri til umræðu um gildi minjanna og möguleika á varðveislu þeirra. Söfn og sýningar sem varðveita minjar „in situ“ eða „á sínum upphaflega stað“ eru víða og það sem gefur þeim sérstakt gildi er að fornleifarnar eru þar sem þær hafa alltaf verið. Þær eru áþreifanlegur vitnisburður um að „þetta er staðurinn“, í þessu tilviki staðurinn þar sem búseta í Reykjavík hófst.
Verkefnið hefur krafist samstarfs og samvinnu vísinda og fræðimanna: fornleifafræðinga, forvarða, náttúrufræðinga og sagnfræðinga, safnmanna, arkitekta, hönnuða, verkfræðinga, tæknimanna, iðnaðarmanna, stjórnmála og embættismanna. Það hefur verið ögrandi viðfangsefni en allir hafa gengið að verkefninu með því hugarfari að leysa flókin úrlausnarefni sem oft og tíðum hefur ekki verið tekist á við áður. Öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn er nú þakkað, einnig samstarfssöfnum, Nordjyllands Historiske Museum og Þjóðminjasafni Íslands sem hafa lagt lið við forvörslu rústar og gripa svo og Fornleifavernd ríkisins fyrir ráðgjöf. Með sýningunni Reykjavík 871±2 er teflt saman fornum minjum og nútíma tækni sem notuð er til að gera þær aðgengilegar og skýra samhengi þeirrar sögu sem gerst hefur í Reykjavík frá þeim tíma sem liðinn er síðan menn tóku sér þar búsetu.

Um sýninguna
Hönnun sýningarinnar er að nokkru byggð upp á notkun nýjustu tækni til að segja áhugaverða sögu. Reynt er að vekja upp andrúmsloft fortíðar með hreyfimyndum og hljóði.
“Sýningin Reykjavík 871±2 fjallar um mannvistarleifar frá upphafi byggðar í Reykjavík og rannsóknir fræðimanna á þeim. Hér fannst mjög heilleg rúst af víkingaaldarskála auk veggjarbrota sem eru meðal elstu mannvistarleifa á Íslandi. Þetta eru í sjálfu sér mjög merkilegar fornleifar, en það sem gerir fund þeirra svo sérstakan og olli því að ákveðið var að varðveita þær og sýna er að þær skuli vera hér á þeim stað sem sagt er í rituðum heimildum að fyrsti landnámsmaðurinn hafi tekið sér bólfestu. Þessar heimildir, Íslend-ingabók og Landnámabók, eru skrifaðar á 12. öld alllöngu eftir að atburðirnir sem þær greina frá áttu sér stað og fræðimenn eru flestir á einu máli um að Íslendingabók sé betur treystandi sem heimild um landnámið.
Fornleifar frá landnámsöld í Reykjavík eru meðal annars spennandi vegna þess að þær varpa ljósi á það fólk sem þá bjó hér, lífsskilyrði þess og samfélag en rannsóknir á þeim geta hins vegar aldrei lagt neitt afgerandi af mörkum til þess að leiða til lykta umræðuna um heimildagildi Íslendingabókar eða Landnámu, en segja má að sú umræða sé hluti af helgimyndinni og gegni því táknrænu hlutverki.”

Heiti sýningarinnar
„Sýningunni hefur verið valið nafnið Reykjavík 871±2 en landnámsöskulagið féll árið 871 og talið er að tímasetningunni geti skeikað um tvö ár af eða á. Askan barst með austan-vindum frá eldstöðvum á Torfajökulssvæðinu í um 400 km fjarlægð og lagðist yfir landið forn-leifafræðingum nú-tímans til mikils hægðarauka. Þessi mikla nákvæmni í tímasetningu byggir á borkjarnarannsóknum úr Grænlandsjökli en landnámsöskulagið gegnir lykilhlutverki þegar tímasetja á minjar frá upphafi byggðar í Reykjavík og með nafngiftinni er lögð áhersla á vísindalega nálgun við gerð sýningarinnar.”

Mótun sýningarinnar

„Margvíslegar aðstæður settu sýningargerðinni skorður frá upphafi. Ljóst var að hætta væri á því að sýningarsalur í kjallara hótelsins yrði ekki sem heppilegastur og því var lögð áhersla á að gera hann áhugaverðan og leiða athygli sýningargesta frá því sem minnti á venjulegan kjallara. Utan um rústina var því reistur dimmblár, sporöskjulaga sýningarveggur sem ýmist hallar lítillega útávið eða innávið. Í hann er felld ljósmynd af útsýni til allra átta frá Reykjavík eins og talið er að það hafi verið um þær mundir sem landið byggðist og í vegginn er einnig mörkuð ljósrák í hæð jarðvegsyfirborðsins eins og það var þegar öskulagið féll.
Skálinn var upphaflega reistur á malarkambi milli sjávar og Tjarnarinnar. Aðstæður leiddu til þess að grafa þurfti gólf sýningar-salarins niður fyrir yfirborð marlarkambsins sem landnámsskálinn stóð á og leitast var við að gera malarkambinn engu að síður sýnilegan, bæði með því að hluti gólfsins er gerður úr sjávarmöl og einnig með því að hafa gólfið með ávölum mishæðum.

Sýningarsvæðið
Komið var á fót vinnuhópi fræðimanna til að fjalla um innihald sýningarinnar. Umræður hans leiddu til þeirrar grundvallarstefnu að sýningin skyldi fjalla um menningar-minjarnar og rannsóknir þeirra en goðsögninni um landnám yrðu gerð skil í stuttu máli áður en sýningargestir yrðu leiddir inn í hina eiginlegu sýningu og í lengra máli í tölvuveri sem gestum byðist að skoða. Sem skýrast skyldi greint milli sagnfræðilegra heimilda og rannsóknarinnar.
Sýningargripirnir eru auðvitað aðalatriðið en túlkanir og skýringar fast fram vera með gagnvirkum margmiðlunarbúnaði í bland við margvíslega og hefðbundnari sýningartækni. Eðli málsins samkvæmt er sýning fyrst og fremst fólgin í sjónrænni upplifun en heyrnar og lyktarskyn geta aukið dýpt hennar og fjölbreytni og því voru sérfræðingar á þessum sviðum mannlegrar skynjunar fengnir til aðstoðar.”

Helstu atriði sýningarinnar
“Rústirnar eru aðalefni sýningarinnar og ýmsum aðferðum er beitt til þess að skýra þær og túlka. Áhugaverðustu gripir sem fundust við rannsóknina eru sýndir í glerskápum sem felldir eru inn í spor-öskjuvegginn neðan við útsýnismyndina. Þar hefur þeim verið valinn staður hverjum um sig eftir tengslum þeirra við náttúruna og ýmsum ráðum er beitt til að skýra þessi tengsl og gera þau sýnileg.
Skálarústin sjálf er eins og fornleifafræðingarnir skildu við hana að lokinni rannsókn. Sýningargestum er ætlað að ganga rangsælis umhverfis hana og á leiðinni getur að líta skýringar á ýmsum atriðum hennar. Mikilvægustu atriðin eru auðkennd með ljósgeislum sem kvikna þegar ýtt er á hnapp.
Að mestu leyti er skálarústin annars skýrð með tveimur nýstárlegum  margmiðlunartækjum. Annars vegar í svokölluðum tilgátuglugga og hins vegar á margmiðlunarborði.”

Tilgátuglugginn
„Þegar sýningargestur hefur gengið framhjá rústinni og skoðað hana er hann leiddur út um dyr á sporöskjuveggnum. Þar getur hann litið til baka og horft aftur inn í sýningarsalinn í gegnum glugga á veggnum. Framan við gluggann er stjórntæki sem nota má til þess að kalla fram þrívíða tilgátumynd af því hvernig skálinn var á sínum tíma og jafnframt er byggingartækni hans skýrð. Frá tilgátuglugganum liggur leiðin aftur inn í sýningarsalinn.”

Samanburðarskjáir
„Þar taka við tveir snertiskjáir. Á þeim fyrri er fjallað um skyldleika ýmissa menningar-þátta þjóða við NorðurAtlantshaf.
Bornir eru saman byggingarhættir, vikið er að skyldleika tungumála og þróun þeirra, fjallað um skyld-leika húsdýra á norræna menningar-svæðinu, gerð grein fyrir samanburðar-rannsókn á örnefnum á sama svæði og einnig er greint frá rann-sóknum á erfða-fræðilegum skyldleika þjóðanna.
Á seinni skjánum er hægt að skoða útrás norrænna víkinga suður, vestur og austur á bóginn. Hvernig þeir námu ný lönd og hvernig landnám Færeyja, Íslands og Grænlands var liður í sókn þeirra á æ fjarlægari slóðir. Maðurinn var að leggja undir sig síðustu óbyggðu lönd hnattarins.”

Margmiðlunarborðið
„Á margmiðlunarborðinu er stórt líkan af rústinni og borðið er þrungið af fjölbreyttum upplýsingum um rannsóknarniðurstöður og rannsóknaraðferðir fornleifafræðinga og hvað eina sem lýtur að upphaflegri gerð hússins, lífi og starfi sem í því var. Innri skipan hússins er skýrð og lýst hvaða athafnir fóru fram á hverjum stað í húsinu.
Sýningargestir geta kallað eftir upp-lýsingum með því að snerta lykilorð sem birtast á margmiðl-unarborðinu og birt-ast þá fyrirhafnar-laust upplýsingar ýmist í formi texta, mynda eða hreyfi-mynda. Allmargir sýningargestir geta skemmt sér við þetta samtímis og þeim er vísað frá einum stað til annars við borðið eftir því að hverju áhugi þeirra beinist.”

Elsta mannvirkið
„Norðan við skálarústina eru tvö veggjarbrot úr torfi, leifar af vegg sem augljóslega var hlaðinn skömmu fyrir árið 871. Þetta er eitt elsta mannvirki sem fundist hefur á Íslandi til þessa. Samkvæmt Íslendingabók og Landnámabók settust menn að í Reykjavík um árið 870 og þessi rannsókn hefur leitt í ljós að árið 871±2 stóð hér mannvirki og fólk hafði sest hér að. Gerð er grein fyrir því hvernig tímasetja má leifar veggjarins með svo mikilli nákvæmni með svokallaðri gjóskulagafræði.”

Tölvuver fyrir fróðleiksþyrsta
„Þeim sem vilja fræðast frekar um fornleifarnar eða einhverja þætti sem tengjast efni sýningarinnar gefst kostur á því að koma við í tölvuveri á leið sinni út af sýningunni. Þar verður boðið upp á margvíslegt ítarefni. Þar verður að finna skýrslur og greinar um fornleifarann-sóknir í Reykjavík sem sýningin byggir á og einnig fróðleik um aðrar rannsóknir frá sama tímaskeiði sem forvitnilegar kunna að vera til samanburðar. Tölvuverið verður jafnframt gert aðgengilegt á veraldarvefnum og stefnt er að því að auka við innihald þess eftir því sem stundir líða.”

Forvarslan
„Rústir úr torfi hafa til þessa ekki verið forvarðar og hafðar til sýnis innanhúss svo vitað sé. Ýmiss konar rannsóknir og tilraunir þurfti til þess að finna heppilegustu aðferðina og hafa danskir forverðir stjórnað því verki. Forvarslan er meðal annars fólgin í því að bæta bindiefni í torfleifarnar til þess að koma í veg fyrir að þær molni. Bindiefnið (tetraethylsilikat) steingervir moldina. Áður en það er gert þurfti að þurrka rústina rækilega og í upphaflegum áætlunum var búist við að það tæki um það bil fjóra mánuði eftir að húsið væri fullbyggt.
Rústin þornaði hins vegar miklu hægar en ráð var fyrir gert og öllum að óvörum kom í ljós að undir rústinni leyndist vatnsuppspretta. Afleiðing þessa er meðal annars sú, að við opnun sýningarinnar hefur aðeins sá hluti rústarinnar verið forvarinn að fullu sem orðinn var nógu þurr. Ráðgert er að forvörslunni verði að fullu lokið innan árs frá opnun sýningarinnar.”

Verkefnastjórnin
„Verkefnisstjórn um menningarminjar í Aðalstræti sem skipuð var af borgarráði 22. júní 2004 hafði umsjón með sýningargerðinni en hana skipa Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður, Gísli Marteinn Baldursson og Felix Bergsson.
Með verkefnisstjórninni störfuðu þessir embættismenn: Anna Margrét Guðjónsdóttir þróunarfulltrúi, Ámundi Brynjólfsson skrifstofustjóri Mannvirkjaskrifstofu Framkvæmdasviðs, Guðný Gerður Gunnarsdóttir borgarminjavörður, Svanhildur Konráðsdóttir sviðsstjóri Menningar og ferðamálasviðs. Verkefnisstjóri við gerð sýningarinnar var Hjörleifur Stefánsson arkitekt. Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir er sýningarhönnuður.
Hönnun og forritun margmiðlunar annaðist Art+Com Gbm í Berlín. Gagarín annaðist hönnun og framleiðslu margmiðlunarefnis, ásamt hluta af forritun.
Umsjón með fræðilegu innihaldi sýningarinnar höfðu Orri Vésteinsson, fornleifafræðingur, Helgi Þorláksson sagnfræðingur og Árni Einarsson líffræðingur. Atli Hilmarsson sá um grafíska hönnun sýningar og sýningarskrár.
Ritstjóri sýningarskrár og sýningartexta er Bryndís Sverrisdóttir þjóðfræðingur. Ljósmyndun útsýnismyndar og sýningargripa annaðist Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari. Myndvinnslu útsýnismyndar sá Sigurður Valur Sigurðsson myndlistarmaður um. Art+Com Gbm og Exton ehf. sáu um uppsetningu margmiðlunarbúnaðar. Prentun útsýnismyndar og uppsetningu annaðist Merking ehf. Lýsing var í höndum Páls Ragnarssonar ljósameistara.
Gunnar Bjarnason sá um módelsmíði. Per Thorling Hadsund og Jannie Amsgaard Ebsen stjórnuðu forvörslu rústarinnar í nafni Nordjyllands Historiske Museum. Fornleifastofnun Íslands annaðist forvörsluna að öðru leyti undir stjórn Garðars Guðmundssonar fornleifafræðings. Anna Yates þýddi sýningarskrá og texta á ensku.
Sýningin byggir á rannsóknum Fornleifastofnunar Íslands árin 20002003, sem Orri Vésteinsson, Mjöll Snæsdóttir og Howell Roberts stjórnuðu. Jafnframt á rannsóknum á lóðunum Aðalstræti 14 og 18 og Suðurgötu 35 á árunum 1971–1975 undir stjórn Else Nordahl og síðari rannsóknum á vegum Minjasafns Reykjavíkur.
Fjölmargir fræðimenn komu með einhverjum hætti að gerð sýningarinnar og veittu margvíslega aðstoð og upplýsingar, m.a. fornleifafræðingarnir Mjöll Snæsdóttir og Howell Roberts, Grétar Markússon arkitekt, Agnar Helgason erfðafræðingur, Þórhallur Eyþórsson málvísindamaður, Edit Bugge þjóðháttafræðingur, Sissel Tolaas ilmfræðingur, Andri Snær Magnason rithöfundur. Munir á sýningunni eru úr söfnum Minjasafns Reykjavíkur og Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Þjóðminjasafn Íslands sá um forvörslu sýningargripa. Verkefnisstjórar við mótun sýningarverslunar og söluvarnings voru grafísku hönnuðirnir Hildigunnur Gunnarsdóttir og Snæfríð Þorsteins. Arkitektar hússins eru Argos ehf og VA arkitektar ehf. Tæknilegir ráðgjafar eru verkfræðistofurnar VST ehf, RTS ehf og Ráðgarður ehf.
Ábyrgð á sýningunni og höfundar Sýningin er á vegum Reykjavíkurborgar og heyrir undir Minjasafn Reykjavíkur.”

Nánar um margmiðlunartæknina
Á vefsvæði Minjasafns Reykjavíkur er fjallað nánar um margmiðlunartækni þá sem notuð er við sýninguna. Það voru fyrirtækin Art+com og Gagarin sem sáu um tæknilegar útfærslur hennar, en þær hafa þótt sérstaklega eftirtektaverðar.
Hlutverk Gagarín var að hanna, forrita og framleiða innihald margmiðlunarefnis í sýningunni.
Með sýningunni er varpað ljósi á landnám Íslendinga með nýstárlegum hætti. Dimmblár sporöskjulaga sýningarveggur er umhverfis rústina. Á veggjum er ljósmynd af útsýni til allra átta frá Reykjavík eins og talið er að það hafi verið þegar land byggðist. Í vegginn er einnig mörkuð ljósrák í hæð jarðvegsyfirborðsins eins og það var þegar öskulagið féll.
„Gagarín framleiddi margvíslegt efni sem birtist á ýmsum stöðum innan sýningarinnar.  Þar má nefna “lifandi” myndefni sem sýnir líf fólks á landnámsöld s.s. fólk við veiðar, heyskap, sjómennsku og fleira (panorama mynd).
Módel af bænum var gert í þrívídd og geta gestir rannsakað hvernig bærinn byggist upp, stig af stigi (tilgátuglugginn).
Þessar myndir og fleira myndefni var síðan notað í margmiðlunarborð sýningarinnar sem er stórt líkan af rústinni þar sem gestir geta kallað fram upplýsingar um rannsóknar-aðferðir fornleifafræðinga, sem og upplýsingar um hvað eina sem lýtur að upphaflegri gerð hússins og lífi og starfi íbúanna.  Art+Com sá um hugbúnaðargerð fyrrnefndra þátta.
Á tveimur samanburðarskjáum sem Gagarín hannaði og forritaði er fjallað um skyldleika ýmissa menningarþátta þjóða við Norður-Atlantshaf og þar er hægt að skoða útrás norrænna víkinga og hvernig þeir námu ný lönd.
Í margmiðlunarsetri er síðan hægt að setjast niður og fræðast enn frekar um fornleifarnar og efni sem tengist sýningunni. Stefnt er að því að gera það efni aðgengilegt á veraldarvefnum og auka við innihald þess, en efnið er sett upp í margmiðlunarkerfi sem Gagarín hannaði og forritaði.”

Ávarp borgarstjóra
Borgarstjórinn í Reykjavík, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, hélt ræðu við opnun sýningarinnar. Í máli hennar kom  m.a. eftirfarandi fram:
„Það er trúlega fátítt að í höfuðborg ríkis geti menn bent á tiltekinn blett í miðborginni og sagt: Hérna byrjaði það. Og það er náttúrulega fáheyrt að á þessum upphafspunkti séu minjar um fyrstu byggðina.
Það er sú auðlegð sem við búum að í þessari borg – að við höfum hér í fjölsóttasta hluta borgarinnar – hér í Kvosinni – stöðugt fyrir augunum sögu okkar og arfleifð.

“Kvosin” í árdaga
Þessi saga er stutt. Löngu áður en Ingólfur og Hallgerður sendu þræla sína og vinnufólk að berja geirfugl og sel í skerjunum, fara á reka eða í lax, tína söl eða bera hauga á tún, voru risnar heilu borgirnar um víða veröld. Borgir sem voru miðstöðvar handverks, verslunar, stjórnsýslu, samgangna og trúaiðkunar. Borgir sem voru undirstaða samkenndar íbúa, enda talsvert í að hugmyndir um þjóðríki fæddust.
Hér gerðist ekkert slíkt um aldaraðir… En hér við Aðalstrætið höfum við ekki bara minjar elstu mannabústaðanna heldur líka áminningu um upphaf þess að Reykjavík varð höfuðborg. Fógetahúsið, sem nú er að fá sitt upprunalega útlit hér við gömlu sjávargötu Reykjavíkurbóndans, rifjar upp fyrir okkur framtak Skúla fógeta með Innréttingunum.
Götur tala. Þær segja okkur sögu og fáar götur segja eins mikla og merkilega sögu og Aðalstrætið í Reykjavík. Það fylgir því mikil því mikil ábyrgð þegar ein kynslóð – okkar kynslóð í þessu tilviki – ræðst í það að grafa upp fornar minjar og skapa þeim umgjörð.
Sú saga sem Landnámsskálinn og Aðalstrætið allt segja okkur spannar alla Íslandssöguna – allt frá landnáminu í Reykjavík á níundu öld til vorra tíma.
Það er ákaflega verðmætt og í raun ómetanlegt að búa að upphafinu þegar steðjað er á svo miklum hraða inn í framtíðina. Þess vegna er þessi snilldarlega samansetta Landnámssýning hér við Aðalstrætið okkur svo mikilvæg. Hingað munu komandi kynslóðir leggja leið sína og hugsa alveg eins og við í dag – hérna byrjaði það allt.
Ég vil þakka Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni verkefnis-stjórnarinnar fyrir frábæra vinnu og ítreka þakkir hennar til allra sem að þessu vandasama og metnaðarfulla verkefni hafa komið og lýsi Landnámssýninguna 871±2 opna.”

Kostnaður
Kostnaður við undirbúning og gerð Landnámssýningarinnar sjálfrar reyndist vera um 160 milljónir, sem var ekki langt frá upphaflegri áætlun. Um er að ræða dýrustu sýningu sinnar tegundar sem sett hefur verið upp hér á landi. Til samanburðar má geta þess að sýningin “Handritin” í Þjóðmenningarhúsinu kostaði 15 milljónir króna, en þar þurfti ekki að byggja sérstaklega utan um fornleifarnar. Verðmæti þeirra eru þó veruleg, líkt og minjarnar í kjallaranum á Aðalstræti 16, því rannsóknir og uppgröftur kostuðu sitt. Án þess hefði þó sýningin aldrei orðið til.

Auglýsingar
Landnámssýningin hefur bæði fengið ágæta umfjöllun í fjölmiðlum og verið auglýst í blöðum og bæklingum. Oft er það svo um sýningar sem þessa að þær eru auglýstar fyrst í stað, en síðan dregur úr þeim þætti, enda dýr kostnaðarliður. Landnámssýningarinnar er getið í dreifiritum fyrir ferðamenn, auglýsingar eru lesnar í útvarpi og orðspor hennar hefur farið víða.

Aðgangseyrir
Fullorðnir greiða 600 kr. fyrir aðgang að Landnámssýningunni, aldraðir 300 kr. og öryrkjar 300 kr. Börn og ungmenni til 18 ára greiða 300 kr. Börn 12 ára og yngri í fylgd með fullorðnum fá ókeypis aðgang og hópar, 10 manns eða fleiri, greiða 450 kr. á mann ef greitt er fyrir allan hópinn sameiginlega.
Lítil minjagripa- og gjafavöruverslun er í anddyri sýningarinnar. Þar eru til sölu ýmsir nýstárlegir minjagripir og önnur sérhönnuð gjafavara. Safnverslunin er opin á opnunartíma sýningarinnar.

Leiðsögn
Boðið er upp á reglulega leiðsögn um sýninguna á íslensku, ensku og norsku. Einnig er hægt að sérpanta leiðsagnir fyrir hópa, á  íslensku kl. 14:00  á sunnudögum og kl. 12:15 á fimmtudögum, of á ensku kl. 14:00 á mánudögum og kl. 14 á laugardögum. Auk þess á norsku kl. 14:00 á þriðjudögum. Hægt er að sérpanta leiðsagnir fyrir hópa. Vinsamlegast hafið samband í síma 411 6370 / 664 7370 eða pantið leiðsögn með því að senda tölvupóst á: landnam@reykjavik.is.

Heimsókn á sýninguna – upplifun
Í tengslum við verkefni þetta í námskeiðinu Miðlunarleiðir, lögðu hópsmeðlimir leið sína á Landnámssýninguna til að skoða þessa merkilegu sýningu. Allir höfðu oft gengið um Aðalstrætið og framhjá þeim stað þar sem “glerkassinn” stendur upp úr stéttinni og gerir manni kleift að gægjast niður í fornminjarnar. Þessi glerkassi var því fyrsta upplifunin af sýningunni og þess vegna voru viðkomandi búnir að gera sér smá hugmynd um hana áður en farið var í þessa fyrstu alvöru heimsókn. Með því að gægjast þarna niður í götuna, virtist allt svo miklu minna og íburðarminna en raunin er þegar inn er komið.
Hér fylgir lýsing eins í hópnum um upplifun hans af sýningunni: „Ég var því full eftirvæntingar þegar ég loks dreif mig inn í húsið og niður í kjallarann þar sem sýningin er staðsett. Þegar ég kom niður og hafði gert grein fyrir mér í afgreiðslunni, var ég boðin velkomin af vinalegu afgreiðslu-fólki og bent á hvar ég ætti að byrja o.s.frv. Þarna kom mér strax á óvart hversu stórt sýning-arsvæðið var og hversu mikið var í sýninguna lagt. Sumum finnst sýn-ingarsvæðið e.t.v of lítið en mér fannst það stórt á miðað við það sem ég hafði ímyndað mér. Maður gengur inn í salinn sem er dimmur og drungalegur og það gerir að verkum að maður upplifir sig eins og inni í hálfgerðum helli. Rétt er að taka það fram að engir aðrir gestir voru á sýningunni á sama tíma, þannig að ég hafði allt út af fyrir mig og gat skoðað í rólegheitum.
Ég varð strax rosalega hrifin af því hvernig margmiðlunin er notuð á sýningunni. Það að getað gengið um og fylgst með lífi landnámsmanna á skjánum/veggnum (svokallaðri panorama-mynd) er hreint út sagt ótrúlegt og það flottasta sem ég hef séð gert með slíkri tækni. Birtan á skjánum, hljóðin og hvernig myndirnar birtast og hverfa, er allt saman með í að gera myndirnar ljóslifandi. Maður upplifir sig eins og maður standi og horfi yfir Reykjavík, nema hvað að maður er komin aftur í tímann, aftur til Landnámstímans.
Þarna sést fólk við ýmsar hversdagslegar athafnir eins og t.d. veiðar og heyskap og maður reynir að gera sér í hugarlund hvernig lífið í Reykjavík hafi verið á Landnámstímanum. Þetta fannst mér standa upp úr á sýningunni og gefa stærstu upplifunina. Á veggnum, sem er sporöskjulaga, er svo  er mörkuð ljósrák í hæð jarðvegsyfirborðsins eins og það var þegar öskulagið féll. Allt er þetta mjög svo tæknilegt og flott. Einnig má geta þess að eitt þrepið í hringstiganum á leið niður í kjallarann er ljósara en önnur. Landnámsöskulagið mun hafa verið í þeirri hæð, sem þrepið ljósa er nú.
Miðpunktur sýningar-innar er svo skálarúst frá tíundu öld sem fannst þegar grafið var fyrir nýju húsi á horni Aðalstrætis og Túngötu. Þarna geta gestir virt fyrir sér skálarústirnar á sínum upphaflega stað og reynt að setja sig í spor forfeðrana með því komast, næstum því, inn í húsakynni þeirra. Inni í miðri skálarústinni er svo langeldur sem logar, með hjálp tækninnar, og þannig fær maður á tilfinninguna að einhver búi í skálanum, því þar sem er ljós/eldur þar er einhver heima, ekki satt? Öll hljóðin og lyktin inni á sýningunni íta líka undir hámarksupplifun og gerir allt raunverulegra.
Á heimasíðu Minjasafns Reykjavíkur stendur að ýmsum spurningum sé varpað upp á sýningunni eins og t.d. ,,Hvers vegna settist fólk að hérna” og ,,Á hverju lifði fólk”? Lögð er áhersla á það að sumum spurningum sé svarað en öðrum sé ætlað að virkja ímyndunarafl sýningargesta. Þetta er gott að hafa í huga sem sýningargestur.
Vegna myrkursins sem er á sýningunni er ekki laust við að það skapist svolítið draugaleg stemning og allt í lagi með það, bara skemmtilegra. En varðandi myrkrið er spurning hvort ekki þyrfti að vera aðeins bjartara til að fólk sjái betur þegar það er að lesa texta. Hvítir stafir eru t.d. á bláum og svörtum fleti og það lýsir auðvitað textann upp. Ég átti reyndar ekki í  erfiðleikum með að lesa textann, en gæti trúað að t.d. eldra fólk sem sér ílla gæti átt í erfiðleikum með það.
Margmiðlunartækni er svo notuð til að útskýra fyrir gestum byggingarlag húsa á níundu öld og líf heimilisfólks, og það er mjög fróðlegt að skoða það. Það er líka eitthvað ólýsanlega skemmtilegt við það að fá að “fikta” sem sýningargestur, og það er því miður alltof sjaldan sem maður upplifir það, en á þessari sýningu fær maður algjöra útrás. Hringlaga skífan, þar sem hægt er að nota fingur til að færa myndirnar á skjánum er t.d. mjög skemmtileg og gaman að fá að stjórna hraðanum sjálfur.
Ýmsir munir sem fundust í skálarústinni og eins munir sem fundust við fornleifauppgröft í Suðurgötu, Tjarnargötu og í Viðey, eru líka sýndir á sýningunni og þeim gert góð skil.
Eitt af því sem er mjög skemmtilegt og fróðlegt að skoða, eru tveir samanburðarskjáir þar sem hægt er að skoða skyldleika ýmissa menningarþátta þjóða við Norður-Atlantshaf og þar er líka hægt að skoða útrás norrænna víkinga og hvernig þeir námu ný lönd.
Í heildina litið er sýningin mjög vönduð og flott, yfirbragð hennar er stílhreint og fágað, og vegna myrkursins og litavals (svartur og blár í aðalhlutverki), kannski örlítið kuldalegt. Stafir eru hvítir og ágætlega læsilegir, textarnir eru hæfilega langir, vandaðir og fræðandi.
En samt sem áður finnst manni maður virkilega velkominn, ekki síst vegna þess hversu mikill þátttakandi maður fær að vera. Þökk sé tækninni. Einnig gefur panoramamyndin frá sér mikla birtu og lýsir svolítið upp myrkrið.
Fyrir framan sýningarsalinn er að finna litla safnbúð sem er skemmtilegt að grúska í og e.t.v fjárfesta í einhverju skemmtilegu til að taka með heim. Þar stendur upp úr afsteypan af Geirfuglinum, og ég íhugaði að taka einn slíkan með mér heim.
Tvö salerni eru fyrir gesti sýningarinnar, fatahengi og lyfta, sem mér finnst vera ágætis aðstaða. Auðvitað gæti skapast öngþveiti ef mjög stórir hópar kæmu í heimsókn, en það er auðvitað ekki um stórt safn að ræða. Sérstaklega fróðleiksfúsir gestir geta svo að sýningu lokinni sest niður í litlu tölvuveri, þar sem hægt er að nálgast ítarefni um það sem er að finna á sýningunni.

Þetta er virkilega áhugaverð sýning sem á erindi til allra og ég held að allir hafi gaman af svona tæknilegri sýningu, ekki síst unga kynslóðin. Ég er heldur ekki í vafa um að maður eigi eftir að fara stoltur með erlenda gesti á sýninguna.”

Leiðsögumenn á Landnámssýningunni
Nær 70 leiðsögumenn í Leiðsögumannafélagi Íslands heimsóttu Landnámsýninguna þann 23. maí 2006. Flestir voru að sjá landnáms-sýninguna í fyrsta sinn og þótti mikið til hennar koma. Eftirfarandi umsögn fylgdi:
„Mjög vel hefur verið staðið að uppsetningu sýningarinnar á allan hátt, bæði varðveislu minjanna til framtíðar sem og framsetningu upplýsinga. Þetta safn er vissulega forvitnilegur valkostur fyrir erlenda ferðamenn.”

Kennsla, upplýsingar og miðlun

Á vef Minjasafns Reykjavíkur undir liðnum safnfræðsla stendur er vakin athygli á sýningunni fyrir nemendur hinna ýmsu námsstiga:

Grunnskóli
Minjasafn Reykjavíkur býður nemendum 5. og 6. bekkjar grunnskóla að heimsækja sýninguna í vetur.  Sýningin er skoðuð undir leiðsögn safnkennara. Að því loknu er bekknum skipt í fjóra hópa sem vinna stutt verkefni. Gera má ráð fyrir að heimsóknin taki um eina klukkustund. Tekið er á móti nemendum frá kl. 8 mánudaga til fimmtu-daga frá og með 1. september.

Framhaldsskóli
Framhaldsskólanemendum er boðið að heimsækja sýninguna og nýta sér hana til fræðslu og heimildaröflunar. Nemendahópum býðst að koma í heimsókn i fylgd með kennara og undir leiðsögn safnkennara. Í framhaldi af því bjóðum við nemendum að koma aftur á sýninguna í smærri hópum, og afla sér með aðstoð safnkennara heimilda í verkefni tengd heimilda í ritgerðir ef óskað er.

Háskóli
Nemendum háskóla og sérskóla býðst einnig að skoða sýninguna með leiðsögn.
Til að gera nánari skil umfjöllun um skólaverkefni ákvað grunnskólakennari í hópavinnunni um Landnámssýninguna að nýta sér aðstöðuna og fara með nemendur á sýninguna. Í byrjun voru tölvuskrif sem gengu á milli til að panta tíma sem hentaði og að lokum var ákveðið að nemendur mættu 31. okt. Um tvo 6. bekki var að ræða og var fyrri bekkurinn frá kl. 9:30 – 10:30  en seinni bekkurinn frá kl 10:30 – 11:30. Um 19 nemendur í hvorum bekk. Til að komast á sýninguna var farið með strætisvagni frá Foldaskóla niður í Lækjargötu og gengið þaðan að Landnámssýningunni  með viðkomu á Austurvelli og í gamla kirkjugarðinum í Aðalstræti, þar sem nemendur fengu leiðsögn hjá kennara sínum um það sem fyrir augu bar á leiðinni. Þegar inn var komið tók Sigurborg Hilmarsdóttir, safnkennari á móti hópnum fyrir framan aðal sýningarsalinn. Hún byrjaði á því að tala um sýninguna og fyrirkomulag safnfræðslunnar. Því næst fór hún með hópinn um sýningarsalinn og stoppaði á ákveðnum svæðum þar sem hún fræddi þau um landnámið og sýndi þeim hvernig margmiðlunin virkaði. Eftir það bað hún kennara að skipta nemendum í fjóra hópa: A,B,C og D hóp. Hver hópur fékk verkefni til að leysa(sjá hjálagt verkefnablað). Verkefnið var eins hjá öllum en þau byrjuðu á mismunandi stöðum að leysa verkefnin þ.e. Hópur A byrjaði á svæði 1 suðurenda. Hópur B fór á svæði 2 vesturvegg. Hópur C fór á svæði 3 norðurenda. Hópur D fór á svæði 4 borð vestan megin. Verkefnin byggjast á að svara 5 krossaspurningum af hverju svæði og eru gefnir þrír möguleikar til að krossa við í hverri spurningu. Sýnishorn úr verkefnum: Svæði 1. 1. Landnámsmenn í Reykjavík veiddu sér fugl til matar sem nú er útdauður.  Hann hét: svartfugl, geirfugl, sjófugl? Svæði 2. 3. Gripurinn á myndinn er: glerperla,  spilapeningur, leikfang? Með því að skoða fyrrnefnd svæði vel  fundu nemendur svör við krossaspurningum. Í lok verkefnis eru reitir sem nemendur fylla út með fyrsta staf í hverju réttu svari og þá  kemur út lausnarorð: 1 gripir, 2 segja, 3 gestum, 4 sögu. Gripir segja gestum sögu. Sigurborg var þeim inna handar ef  þau þurftu aðstoð til að leysa verkefnin. Kennari ásamt stuðningsaðila fylgdust með auk þess sem kennari fékk leyfi til að taka myndir.

Könnun
Tíminn leið hratt og rétt um það leyti sem fyrstu hóparnir skiluðu verkefnum var næsti 6. bekkur mættur á svæðið. Tíminn var því naumur en þetta slapp fyrir horn. Kennari bekkjarins tók síðan við verkefnum og fór yfir og kom í ljós að 3 hópar náðu að ljúka alveg verkefnum en einn hópurinn átti eftir að leysa lausnarorðin. Í lokin þökkuðu nemendur og kennari  Sigurborgu fyrir fræðsluna og haldið var á stað upp í skóla. Þegar þangað var komið bað kennari nemendur að skrifa um sýninguna. Það tók ekki langan tíma og birtast hér fyrir neðan helstu niðurstöður úr sýningargagnrýni (sjá hjálagt eyðiblað, sem kennari útbjó og nemendur fylltu út). 35 nemendur úr báðum bekkjum skrifuðu um sýninguna. Fyrir neðan hverja spurningu koma orðin sem þau notuðu til að svara spurningum og tölustafur sem segir til um fjölda þeirra sem notuðu þau orð eða sambærileg orð.

1. Um hvað fjallar Landnámssýningin?

-landnámið 16

-gamlar rústir 14

-lífið fyrir 1000 árum 10

-húsbyggingar  10

-landnámsmenn 8

-Ingólf Arnarson 6

-Þorkel Mána 4

-landnámshluti 4

-hvernig umhverfið breyttist 3

-Hallgerði 2

-seli 1

2. Hvernig fannst þér sýningin?

-flott, skemmtileg, góð, fín, ágæt, hrífandi, skemmti m ér vel, geðveik, 34

– fróðleg, fróðlegasta sýning sem ég hef séð  8

-ekki skemmtileg, leiðinleg, sumt leiðinlegt, hundleiðinleg, mætti vera betri 7

-gaman að skoða myndböndin og fleira 4

-gaman að skoða og gera verkefnin 3

-leiðinlegt að standa, stundum alveg að dotta 2

-leiðsögukonan lýsti vel 1

-vel sett upp 1

-við vissum meirihlutan af öllu þarna 1

3. Hvað var gott við sýninguna?

-tæknilegu atriðin, ljósin, gjóskulínur, gluggar með hreyfimyndum, borðið með         skjávarpanum, myndböndin 16

-fróðleg, miklar upplýsingar, skýr sýning, lærðum ógeðslega mikið, mikið að sjá 16

-allt 2

-leiðsögumaður góður 3

-forn vopn, margar leifar, eldgamlar leifar af húsi 4

-verkefnin, krossaspurningar 3

-ekkert mikið 3

4. Hvað mætti betur fara?

-ekkert 10

-mætti vera stærri og lengri 8

-veit ekki 4

-völundarhúsið, sem var ekki í lagi 3

-aðeins meira ljós, svo maður sjái meira 2

-leiðsögumaður var stundum fyrir því sem hún var að sýna 2

-mætti vera meira um fólkið 2

-mjög mikið, allt á staðnum 2

-ætti vera á fleiri tungumálum 2

-kannski hægt að gera söguna meira spennandi 1

-troðningur 1

-meiri tækni 1

-eitthvað að borða 1

-hafa stóla 1

Svör nemenda lýsa að mestu leyti ánægju með sýninguna, þeim fannst hún vera fróðleg og tæknilegu atriðin vöktu mikla athygli. Nemendur höfðu í 5. bekk farið í námsefnið um Landnámið, en í því er fjallað um margt af því sem fram kom á sýningunni. En með því að sjá hlutina með eigin augum fræðast þau ennþá meira og það gerir það eflaust að verkum að þau muna hlutina betur þegar fram í sækir. Kennara og stuðningsaðila fannst eins og börnunum sýningin mjög góð. Móttakan, fræðslan og verkefnin allt var til fyrirmyndar. Kennari tók margar myndir og setti inn á heimasíðu Foldaskóla. Sigurborg, safnkennari hafði samband og fékk leyfi til að setja myndirnar inn á heimasíðu Minjasafns Reykjavíkur.
Í samtali við Sigurborgu kom fram að tíminn fyrir verkefnin er stundum of stuttur ef miðað er við að nemendur séu ekki lengur en 1 klst á sýningunni og tekur kennari undir það sérstaklega ef um nemendur í yngri bekkjum, þ.e. 5 bekk er að ræða og sömu verkefni í boði.
Að mati kennara mætti hafa meiri tíma frammi í lok sýningar og skoða betur hlutina sem eru til sölu og tengjast landnáminu. Nemendur í 6 bekk Foldaskóla eru í nýsköpun, þar sem þeir meðal annars framleiða hluti sem þeir síðan selja á markaði. Því hefði verið gagnlegt fyrir þá að skoða betur sölubásinn á sýningunni og fá hugmyndir um hvernig hægt er að framleiða hluti sem tengjast efninu þ.e. landnáminu í þessu tilviki. En ýmsir minjagripir voru til sölu m.a. geirfugl í vaxi, bolir með myndum, hnefatafl, langeldarkerti, ullarskjóða, lyklakippur o.m.fl. sem minnti á landnámið.
Sigurborg nefndi að safnfræðsla væri jafnframt í boði fyrir nemendur á unglingastigi og í framhaldsskóla en þá er meira um það að nemendur koma með kennara og vinna ákveðin verkefni tengd sögukennslu.
Safnkennslan á Landnámssýningunni höfðar vel til nemenda í 5. og 6. bekk og tengist námsefni grunnskólans eins og áður hefur komið fram.
Safnfræðslan glæðir sýninguna lífi og við nemendur í HÍ sem unnum að verkefninu fundum hvað það skipti miklu máli að fá góða leiðsögn og kennslu  t.d. í hvernig átti að nota skjáborðið. Jafn-framt var fróðlegt að heyra safnfkennarann segja frá tilurð sýningarinnar, flóknum tækniatriðum og öllum kostnaði o.fl.. Safnkennarinn  talaði um að það væri mjög gefandi starf að vinna við Landnámsýninguna, þar sem flestir gestirnir hrósa sýningunni, sem og við gerðum. Safnkennarinn nefndi að eitt af því sem gerði upplifun gesta svo góða væri að þeim finnst að þeir hafi komist yfir að sjá alla sýninguna. Sýningin er því hæfilega stór að mati flestra gesta.

Verðlaun og viðurkenningar
Minjasafn Reykjavíkur hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2006, m.a.  Landnámssýninguna, sem er sú eina sinnar tegundar á Íslandi.
Verðlaunin veita Félag íslenskra safna og safnamanna og Íslandsdeild alþjóðaráðs safna. Guðný Gerður Gunnarsdóttir, borgarminjavörður, tók við verðlaununum.
„Guðný Gerður segir að það hafi verið flókið að setja upp Landnámssýninguna í Austurstræti; finna þurfti nýja aðferð til að forverja jarðveginn og rústina. Hinar sýningarnar eru ekki eins óvenjulegar og Landnámssýningin.
Í mbl.is þann 24. nóvember 2006 er sagt frá því að Hótel reykjavík Centrum hafi fengið viðurkenningu Þróunarfélags miðborgarinnar 2005 fyrir framlag til þróunar og uppbyggingar í miðborg Reykjavíkur.
Þróunarfélag miðborgarinnar veitir árlega viðurkenningu þeim, sem hafa með framúrskarandi hætti stuðlað að þróun og uppbyggingu í miðborg Reykjavíkur. Þessi viðurkenning er nú veitt í fjórtánda sinn, en fyrst var það gert árið 1992.
Í umfjöllun um verðlaunin segir að uppbyggingin við Aðalstræti hafi tekist einstaklega vel en mesta stórvirkið við götuna sé þó bygging hótelsins í Aðalstræti 16. Hótel Reykjavík Centrum sé í hjarta borgarinnar og byggt á gömlum grunni í bókstaflegri merkingu því elsti hluti hússins við Aðalstræti 16 var byggður árið 1764. Beggja vegna hússins og fyrir aftan það eru nýbyggingar, sem gerðar eru í stíl sögufrægra húsa sem áður stóðu við Aðalstræti, Fjalakattarins og Uppsala. Hótelið er í öllum þremur byggingunum og tengibyggingu og útlit hótelsins er sótt til Reykjavíkur upp úr aldamótunum 1900.
Við byggingu hótelsins komu í ljós rústir skála frá landnámsöld og á næsta ári verður opnuð glæsileg sýningaraðstaða undir hótelinu. Þar er skálarústin varðveitt og hægt verður að virða hana fyrir sér og skoða sýningu sem tengist henni. Við uppgröftinn fundust m.a. elstu mannvistarleifar á Íslandi frá því um 870.
Við tilnefningu ferðamannaverslunnar ársins er leitast við að verðlauna verslun sem hefur náð góðum árangri í sölu- og markaðsstarfi til erlendra ferðamanna, sýnt frumkvæði og frumleika, veitir góða þjónustu og hefur á að skipa afgreiðslufólki sem býr yfir þjónustulund, góðri tungumálakunnáttu og þekkingu á söluvörunum. Auk þess er lagt mat á útlit verslunarinnar, lýsingu, merkingar og aðkomu.”

Lokaorð
Mjög hefur verið vandað til landnámssýningarinnar Reykjavík 871±2 í kjallara hótelsins að Aðalstræti 16.
Á fasta sýningunni Reykjavík 871+/-2 Landnámssýningunni hefur tekist við afar flóknar og umdeildar aðstæður að gera vel heppnaða sýningu og skapa nálægð við sögu sem er mjög fjarlæg í tíma. Í ítarefni um sýninguna er að finna langan lista aðila er unnu að undirbúningi og gerð sýningarinnar. Miklu fé var varið til sýningargerðarinnar og til hennar keypt þjónusta íslenskra og erlendra sérfræðinga, tæknimanna og stofnana bæði hérlendis og erlendis auk starfsfólks Árbæjarsafns. Kjarni sýningar-efnis eru fornleifarannsóknir í miðbæ Reykjavíkur sem Fornleifastofnun Íslands annaðist í umboði Árbæjarsafns auk niðurstaðna fornleifarannsókna sem fram fóru á 8. áratug 20. aldar.
Með nútíma sýningatækni t.d. á veggjum sýningasalar er sýningargestum gefin hugmynd um umhverfi Reykjavíkurbæjarins eins og það var við landnám og er margmiðlunartæknin notuð með smekklegum hætti til að útskýra húsagerð og híbýli landnámsmanna. Á sýningunni tóna afar vel saman nútíma sýningatækni og fornleifarnar þ.e. skálarústin sjálf og ýmsir munir frá landnámstíma.
Margmiðlunin virðist flókin og lítt aðgengileg þegar margir gestir eru um hitunina, en í heild má segja að sýningin standi vel undir væntingum – og rúmlega það.
Upplifun nemenda 6. bekkjar á Landnámssýningunni var yfirleitt mjög góð. Undirrituð eru og sammála um að sýningin á hinum fornu rústum í kjallara Aðalstrætis hafi heppnast með ágætum, enda mikið í lagt. Áhorfandinn fær strax tilfinningu fyrir því að hann sé kominn aftur til þess tíma er skálinn var í notkun, skömmu eftir landnám hér á landi. Langveggjamyndin á drjúgan þátt í því, auk myndskeiðanna, sem inn í hana eru felld. Hún hjálpar og gestum að tengja staðinn við nútímann, auk þess sem útskýrðar eru breytingar á landsháttum frá þeim tíma er landnámið átti sér þarna stað.
Rústin spilar aðalhlutverkið. Hún, ásamt hnitmiðuðum aðgengilegum upplýsingum, gefur áhorfandanum mynd af stærð og lögun húsa í árdaga.
Sú ákvörðun að sýningin skyldi fjalla um menningarminjarnar og rannsóknir þeirra, en síður goðsögnina um landnámið, skilar sér vel, bæði í sjón og skynjun.
Spurningunm um það “hvers vegna fólk settist hér að, hvernig  umhverfið var, á hverju fólk lifði og hverjir bjuggu í skálanum” er einungis svarað að hluta. Við sumum spurninganna má nálgast svörin á sýningunni en öðrum ekki. Sýningargesturinn verður þó sem fyrr, í flestum tilvikum, að virkja eigið ímyndunarafl. Fornleifar eru jafnan þögular um nöfn og hugsanir íbúanna.

Heimildir m.a.:
-Sýningarskrá – 2006
-Bæklingar frá sýningunni.
-Orri Vésteinsson, kennsla í fornleifafræði við HÍ 2005 og 2006.
-http://ferlir.is/?s=frodleikur&naid=2934
-http://www.ruv.is/heim/frettir/stort/frett/store64/item71583/
-http://www.instarch.is/rannsoknir/uppgroftur/adalstraeti/saga_elstu_byggdar/
-http://www.kona.bok.hi.is/Slodir/Kvosin.htm
-http://www.haestirettur.is/control/index?pid=361
-http://brunnur.stjr.is/servlet/stjrtid/B/2003/427.html
-http://www.vaarkitektar.is/is/frettir/?ew_news_onlyarea=&ew_news_onlyposition-=2&cat_id=35293&ew_2_a_id=185559
-http://www.lh.is/frettir/frett.php?id=19
-http://www.lh.is/frettir/frett.php?id=212
-http://www.stodir.is/template34.asp?pageid=1262
-http://www.mfb.is/byggidn/byggidn/MFB.pdf
-http://www.iav.is/DesktopDefault.aspx/tabid-104/214_read-1848/
-http://www.reykjavikhotels.is/centrum/islenska/um_hotelid/
-http://www.reykjavikhotels.is/centrum/islenska/um_hotelid/
-http://www.listahatid.is/default.asp?page_id=5497&event_id=2983
-http://www.ruv.is/heim/frettir/stort/frett/store64/item71583/
-http://arbaejarsafn.is/871_Press_ISL02.pdf
-http://gamli.rvk.is/vefur/owa/edutils.parse_page?nafn=BN033323
-http://gamli.rvk.is/vefur/owa/edutils.parse_page?nafn=BN033800
-http://www.steinunnvaldis.is/?i=12&f=10&o=143
-http://www.arbaejarsafn.is/reykjavik871/leidsogn.html
-http://www.gagarin.is/index.php/id/126
-http://www.touristguide.is/index.php?option=content&task=view&id=122&Itemid=
-http://www.arbaejarsafn.is/reykjavik871/fyrir_skola.html
-http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item89461/
-http://www.icom.is/HTML/Safnaverd-2006.htm
-http//www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1170341
[1] -http://www.instarch.is/rannsoknir/uppgroftur/adalstraeti/saga_elstu_byggdar/
[2] http://www.haestirettur.is/control/index?pid=361
[3] http://www.lh.is/frettir/frett.php?id=19
[4] http://brunnur.stjr.is/servlet/stjrtid/B/2003/427.html
[5] http://www.bjorn.is/greinar/2003/02/06/nr/920
[6] http://www.lh.is/frettir/frett.php?id=212
[7]http://www.vaarkitektar.is/is/frettir/?ew_news_onlyarea=&ew_news_onlyposition=2&cat_id=35293&ew_2_a_id=185559
[8] http://www.stodir.is/template34.asp?pageid=1262
[9] http://www.mfb.is/byggidn/byggidn/MFB.pdf
[10] http://gamli.rvk.is/vefur/owa/edutils.parse_page?nafn=BN033323
[11] http://gamli.rvk.is/vefur/owa/edutils.parse_page?nafn=BN033800
[12] http://www.iav.is/DesktopDefault.aspx/tabid-104/214_read-1848/
[13]http://www.kistan.is/soguthing/default.asp?Sid_Id=23521&tId=2&Tre_Rod=003|&fre-_id=31774&meira=1
[14] http://www.listahatid.is/default.asp?page_id=5497&event_id=2983
[15] http://www.ruv.is/heim/frettir/stort/frett/store64/item71583/
[16] http://arbaejarsafn.is/871_Press_ISL02.pdf
[17] http://www.gagarin.is/index.php/id/126
[18] http://www.steinunnvaldis.is/?i=12&f=10&o=143
[19] http://www.arbaejarsafn.is/reykjavik871/leidsogn.html
[20] http://www.touristguide.is/index.php?option=content&task=view&id=122&Itemid=
[21] http://www.arbaejarsafn.is/reykjavik871/fyrir_skola.html
[22] http//www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1170341
[23] http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item89461/
[24] http://www.icom.is/HTML/Safnaverd-2006.htm