Færslur

Óskot

Ætlunin var að skoða tóftir Óskots norðvestan við Hafravatn, ganga að Langavatni upp á Óskotsheiði, en skoða áður tóftir útihúsa hins gamla bæjar, njóta útsýnisins yfir vatnið af Langavatnsheiði undan Þverbrekkum og halda síðan að Reynisvatni.
Tóftir ÓskotsNýbyggðin hefur teygt sig að vatninu, en milli hennar og þess eru tóftir gamla bæjarins að Reynisvatni. Aflað hafði verið örnefnalýsinga af svæðinu, en þrátt fyrir lögformlega fornleifaskráningu af því vegna framkvæmdanna þá hafa upplýsingar af þeim vængnum verið af skornum skammti.
Í örnefnalýsingu fyrir Óskot, sem Ari Gíslason skráði kemur m.a. eftirfarandi fram: “
Jörð í Mosfellssveit, liggur vestan við Hafravatn. Jörðin liggur sunnan við Úlfarsá. Þar sem áin kemur úr vatninu, heitir Ós, sem bærinn dregur nafn af. Nafnið er gamalt, frá því fyrir svartadauða; svo er mýri inn með vatninu, sem heitir Mómýri, og stórt, ávalt holt milli hennar og bæjarins heitir Holt. Austur af Holtinu er lítill lækur, sem heitir Rás…
Svo er suðvestur af henni Þórðargjóta, smádæld grasi vaxin. Þar varð úti smalamaður frá Miðdal. Þá er þar næst Þórðargjótuhryggur, sem er þar næst, og þá kemur Óskotsheiði; þar upp af er svo Langavatn. Suður af bæ fram í vatnið er nafnlaus tangi. Svo eru Efri-Þverbrekkur, grasflatir, er liggja fram undir frá vatninu suður í heiðina. Þá er smámelbunga, er heitir Fjárhúsmelur, liggur þvert á Þverbrekkurnar; svo eru Gömluhús, þar voru beitarhús áður fyrr í heiðarbrúninni. Vestast í túni er Stóristeinn, huldufólkssteinn.”
StóristeinnHaldið var yfir Hafravatn (76 m.y.s.) frá réttinni norðan við vatnið á ís – og landi náð neðan við Vörðuholt. Við vatnið hefur myndast allnokkur sumarbústaðabyggð með tímanum svo klofa þurfti yfir nokkrar girðingar á leiðinni upp að Óskoti. Tóftir bæjarins, sem hefur verið hlaðinn að hluta, er ofan Holtsins. Skammt vestar er myndarlegt gróið gerði. Norðvestan í því eru tóftir, sennilega frá fjárhúsi. Skammt vestar er fyrrnefndur Stóristeinn. Ekki var með öllu hægt að útiloka að a.m.k. örlítil birta kæmi innanúr honum þennan skammdegisdag – ef sérstaklega var að hugað. Á millum mótar fyrir görðum og tóftum. Erfitt var að greina hvorutveggja við þær aðstæður, sem í boði voru.
Ljóst er að búið hefur verið í Óskoti fram á 20. öld. Ummerki bera þess vitni. Rafmagn hefur verið leitt í húsið, auk þess sem tún hafa verið ræst fram og heyvinnuvélar eru enn á túnum.
Kirkjan á LangavatnsheiðiÞann 5. ágúst 1887 var dæmt í máli sem Guðmundur Einarsson í Miðdal höfðaði gegn umboðsmanni þjóðjarðarinnar Þormóðsdals. Réttarkrafa Guðmundar var sú að allt það land sem áður fylgdi eyðijörðinni Óskoti yrði með merkjadómi dæmt undir eignarjörð hans Miðdal og að Þormóðsdal yrði frádæmt ítak í sömu eyðijörð. Guðmundur byggði kröfu sína á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1704 en þar taldi hann koma fram að Óskot hefði verið hjáleiga Miðdals. Dómurinn gat hins vegar ekki tekið undir þetta sjónarmið og taldi að Jarðabókin bæri ekki með sér að Óskotsland væri hluti af landi Miðdals né að það hefði gengið undir það. Hins vegar mætti sjá á sömu heimild að Óskot væri talin konungseign og hafi verið notað af Reynisvatni. Guðmundur gæti því ekki stutt tilkall sitt til Óskotslands með tilvísan í Jarðabók Árna og Páls né öðrum afleiddum heimildum. Þar sem Guðmundur gat ekki reitt fram aðrar heimildir fyrir því að Óskotsland væri löglega runnið undir Miðdal virtist dómnum næst að ætla, eftir því sem fram var komið í málinu, að Óskotsland væri enn í eigu konungs, þ.e. almenningseign líkt og 1704.
Göngumaður á LangavatnsheiðiSannað þótti með vitnaleiðslum frá 1842, sem lagðar voru fyrir dóminn, að Óskotsland hafði frá ómunatíð verið notað óátalið, afgjaldslaust og eftir þörfum af fjórum jörðum, þ.e. Miðdal, Þormóðsdal, Kálfakoti og Reynisvatni. Ekki hafði neitt komið fram í málinu sem sýndi að breyting hafði orðið þar á síðan 1842. Málinu var því vísað frá.
Haldið var upp með vegi áleiðis að Langavatni um Óskotsheiði. Þar ofar, í Langavatnsheiðinni, eru tveir sumarbústaðir og stendur kirkja, lítil en reisuleg, suðaustan þeirra. Einn FERLIRsfélaga hafði fyrir ferðina sent inn eftirfarandi upplýsingar: “Langar ykkur ekki til að finna kirkju sem enginn þekkir né veit af? Í tilefni gönguferðarinnar á morgun vek ég athygli þína á kirkju sem er á miðri Langavatnsheiðinni. Hún ætti ekki að fara fram hjá ykkur á leiðinni frá Óskoti og að Langavatni. Falleg timburkirkja í íslenskum sveitastíl. Þessi kirkja er reyndar inni á einkalóð og væntanlega reist af einhverjum einkaaðila. Ég hef hvergi séð þessarar kirkju getið né séð hana skráða. Hún er því líklegast reist af einkaaðila eða einhverjum sérsöfnuði. Ég hef einu sinni komið inn í hana á gönguferð um svæðið. Engir kirkjubekkir né altari en fáeinar styttur eða höggmyndir.”
Þarna var að sjá timburkirkju, væntanlega í einkaeigu, ófullgerða að innan. Hún er ekki frábrugðin Krýsuvíkurkirkju að öðru leyti en því að á þessari er lítill turn. Við bústaðinn Reynivelli eru nokkur listaverk úr steinsteypu. Þarna virðist mikið hagleiksfólk hafa unað frísínum stundum, því ýmislegt annað bar og fyrir augu, s.s. vindmyllumastur, fornfálegur traktor, o.fl. o.fl.
Vatnsberi á LangavatnsheiðiÍ lýsingum af gömlum reiðleiðum segir m.a.:
Frá Álafossi er farið í áttina að Suður-Reykjum, en þaðan stutt frá liggja götur út með hlíðinni og að Hafravatni. Fyrir suðvestan Hafravatn skammt þar frá sem Úlfarsá rennur úr vatninu til vesturs er eyðibýlið Óskot og liggja troðningar þar hjá og áfram um Óskotsheiði og suður á Langavatnsheiði og Reynisvatnsheiði. Þá er komið á veg, sem liggur að Reynisvatni. Þess má geta að Úlfarsá verður seinna að Korpu og síðan Blikastaðaá, sem rennur til sjávar hjá Blikastaðakró.
Ekki veit ég til þess að ortur hafi verið óður til Óskotsheiðar líkt og Laxness gerir til Mosfellsheiðar. Í Kvæðakveri útgefið 1949 birtist ljóð eftir hann, sem byrjar svona: “Ó Mosfellsheiði.” Seinna í kvæðinu lofsyngur Halldór sauðkindina og lömbin svöng. Hann minnist líka á fuglakvak og döggvatár. Sú árátta sumra að rakka niður sauðkindina, hefur lengi farið í taugarnar á mér. Það er því nokkur huggun að lesa í kvæði Laxness, að honum finnst sauðkindin “yndisleg? og ?trú og trygg.” Og hann talar um veislu sem hefur varað í þúsund ár. Við sem höfum setið við þetta veisluborð, ættum að sjá sóma okkar í því að tala ekki ílla um aðal gestgjafann.
En aftur að Óskotsleið. Skammt þar hjá sem hún kemur á veginn niður að Reynisvatni liggja ágætar moldargötur um Reynisvatnsheiði að Rauðavatni. Einnig liggja götur um Hólmsheiði. Því miður hef ég aldrei almennilega getað áttað mig á því hvar ein heiðin hættir og sú næsta tekur við. Þarna efra er talsverð bleyta á veturna, en á vorin og yfir sumarið eru þarna vildisgötur. Þetta vita þeir best, sem eru með hesta sína í Fjárborginni, en hún er fyrir austan Almannadal.
Hestur á LangavatnsheiðiÍ Almannadal mættust fjölfarnar leiðir fyrrum m.a. aðalleið skreiðarlesta austan úr sýslum til Suðurnesja, að sækja skreið í skiptum fyrir búvörur. Einnig leið til norðurs hjá Reynisvatni til Gufuness og verstöðvanna við Kollafjörð. Niðurgrafnar moldargötur þarna uppi á heiðunum bera vott um þetta. Þeir sem áhuga hafa á gömlum reiðleiðum ættu að skoða sérstaklega gömlu skreiðarleiðirnar, sem lágu til veiðistöðvanna víðsvegar um land. Þær mörkuðu aðal vegakerfi landsins á sinni tíð.
Hestur á LangavatnsheiðiÞess skal getið að í Trippadal milli Rauðavatns og Fjárborgar á að rísa nýtt hesthúsahverfi Fáksmanna. Þaðan verður væntanlega aðal tengingin við Mosfellssveitina um Óskotsleið. Reiðgötur hjá Grafarholti ættu samt áfram að haldast opnar, þó svo að þær liggi ansi nálægt golfvellinum hjá Korpúlfsstöðum. Golfleikarar er einn háttvísasti þjóðfélagshópur landsins, svo að ekki þurfum við að kvarta undan nábýli við þá. Það heyrir til undantekninga ef golfleikari bíður ekki með að slá kúlu sína sjái hann hestafólk nálgast. Frá þessu væntanlega hesthúsahverfi liggja einnig ágætar reiðgötur um Rauðhóla og hringinn í kringum Elliðavatn.
En aftur að Óskoti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 er þess getið, að Óskot sé forn eyðijörð og enginn viti hversu lengi hún hafi verið í auðn. Talið er að hún hafi verið í konungseign. Ábúendur jarðarinnar Reynisvatn notuðu hana til beitar og torfskurðar. Einhver silungsveiði mun hafa verið þarna.
Við LangavatnSeinna hefst búskapur á Óskoti og er síðasti bóndinn þar Janus Eiríksson. Afi hans í móðurætt, Guðmundur Kláusson. kom sunnan með sjó og keypti þetta kot. Janus er fæddur árið 1922 og er enn lifandi. Faðir hans, Eiríkur Einarsson, dó þegar Janus var aðeins 15 ára gamall. Móðir hans vildi ekki flytja frá Óskoti og það varð því úr að þau bjuggu þarna saman. Þau voru með kýr, kindur og hænsni, en Janus hætti búskap eitthvað í kringum 1970. Hann segir mér að gríðarleg umferð hafi verið hjá Óskoti um Gamla veginn svonefnda, sem lá austur á Þingvöll.
Venjulega er riðinn bílvegurinn að Reynisvatni, en skammt frá honum má sjá móta fyrir gamla Þingvallaveginum, sem liggur í Seljadal og áfram um Vilborgarkeldu á Þingvöll, en Vilborgarkelda er forn áningarstaður austast á Mosfellsheiði.
Úr því að minnst er á leiðina um Seljadal skal þess getið, að ekki langt frá henni og skammt frá Hafravatni stendur bærinn Búrfell. Minnst er á eyðibýli með sama nafni í Jarðabók Árna Magnússonar frá 1703. Bærinn hafði þá verið í eyði í 8 ár og var þetta hjáleiga frá Miðdal. Í Jarðabókinni segir:

Fálkavarða

“Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá er ágangi ferðamanna gæti af hrundið, og þykir því ei aftur byggjandi.” Þessi setning skýrir að nokkru rótgróna tortryggni bænda gagnvart hestafólki. Ferðamönnum fylgdi átroðningur hér áður fyrr. Við hestafólk eigum vissulega rétt á að ferðast um þetta land, en á okkur hvílir sú skylda að hlífa gróðri eins og kostur er þar sem við eigum leið um.
Milli Hafravatns og Langavatns heitir á einum stað Þórðargjóta. Þar varð eitt sinn úti smalamaður frá Miðdal. [Erfitt var að staðsetja gjótu þessa við þær aðstæður er nú voru fyrir hendi; hnédjúpur snjór að jafnaði og enn dýpri í lægðunum.] Hjá Reynisvatni er tekið vel á móti hestafólki og er þar gerði fyrir hesta og selt kaffi. Ég veit að Fákskonur hafa oft riðið þarna upp eftir úr Víðidal á vorin. Ekki skyldu menn verða á þeirra leið þegar þær eru að beisla gandinn.
Um jörðina Reynisvatn segir í Jarðabókinni, að þar sé nægilegur torfskurður til húsagerðar og eldiviðar, en að vatnsból þrjóti í stórharðindum og að skepnum stafi hætta af foruðum. Laxveiðiréttindi á jörðin í Korpu, en veiði er lítil. Kirkjuvegur er langur. Leigan greiddist með smjöri ýmist til Bessastaða eða Viðeyjar.
Tóft norðan ReynisvatnsÍ Sýslu- og sóknalýsingu frá því um miðja 19. öld er þess getið að aðalkirkja sóknarinnar hafi verið á Mosfelli, en einnig var kirkja í Gufunesi. Messað var 3ja hvern helgan dag á veturna en 2 hvern á sumrin. Einnig virðist hafa verið messað 10da hvern helgan dag í Viðey. Engin hætta var á því að þeir á Reynisvatni kæmu of seint til messu. Ef þeir vildu vita hvað klukkan var þurftu þeir ekki annað en að gá til sólar og miða hana við kennileiti í náttúrunni. Austast er Árdegisás, því næst Hádegishæð og vestast Nónás. Aldrei stöðvaði þetta sólarúr. Gussi sá til þess að halda því gangandi.
Síðasti bóndinn á Reynisvatni var Ólafur Jónsson. Hann var múrari og byggði m.a. Hótel Borg. Eitthvað lengur mun hafa verið búið á Reynisvatni en Óskoti.”

Mælipunktur við Fálkavörðu

Haldið var til vesturs eftir Langavatnsheiðinni ofan við Þverbrekkur, með útsýni yfir Langavatn (99 m.y.s.), og stefnan tekin á Reynisvatn með viðkomu hjá Fálkavörðu. Varðan stendur enn heilleg. Upphaflega hefur hún líklega verið hlaðin sem  merkjavarða. Suðaustar er önnur minni og norðan hennar er myndarleg fuglaþúfa. Fálkavarða er reist á sléttri jökulsorfinni klöpp á hæstu hæð. Við hlið hennar hefur verið málaður hringur og á hann járnbandsfest mælistika. Að öllum líkindum er um að ræða hæðarpunkt fyrir hinar nýju framkvæmdir, sem þarna hafa átt sér stað og munu eiga sér stað. Þegar hefur t.d. verið gert ráð fyrir sérstakri byggð undir norðvestanverðum Reynisvatnsási. Reyndar eru gjarnan reynt að selja byggðakjarna þessa undir þeim formerkjum að boðið er upp á búsetu “í nánd við náttúruna”, en hver heilvita maður, sem fylgst hefur með þróun byggðar, veit að boðið verður innan skamms upp á annað sambærilegt hverfi utar [sem einnig verður auglýst með framangreindum fornmerkjum]. Staðreyndin er og hefur verið sú að borgir og bæir vaxa ÚT Á VIÐ. Bæjarkjarni Ingólfs Arnarssonar norðvestan við Tjörnina var fyrrum “í tengslum við náttúruna”. En ekki lengur. Breiðholtshverfið var byggt “í nánd við náttúruna”, en ekki lengur. Vitað er að verktakar ásælast lágheiðarlendur vatnanna austan Reykjavíkur. Ljóst er að byggðin mun þróast til upplandsins því ekki er ætlunin að bjóða upp á staurabyggð í sjónum með fjörunni. Þá mun sérhver nýbyggð verða “í tengslum við náttúruna” – í skamman tíma.
Þegar ný svæði eru tekin undir byggð fer m.a. fram fornleifaskráning v/gamalla minja, örnefna, leiða og annarra merkilegheita á svæðinu. Allt þekkt er samviskusamlega skráð, teiknað, myndað og fært til bókar. Skýrsla um efnið er gefin út – og hent út í horn. Hingað til hefur ekki vottað fyrir svo litlu nema örlítilli hugsun í þá áttina að eflaust væri ástæða til að varðveita a.m.k. hluta þessa eða jafnvel meira sem hluta af heild. Fólk virðist alltaf þurfa að vakna upp við vondan draum – löngu seinna – og þá of seint.
Ætlunin er að ganga heiðina sunnan við Langavatn og umhverfis vatnið við tækifæri. Frá Reynisvatnsásnum er Hlaðinn garðhluti við Reynisvatnhið ágætasta útsýni yfir vatnið. Búsetan var vestan við það, en á leiðinni var gengið fram á tóft á lægri ás norðan við vatnið. Hún var merkt Minjavernd Reykjavíkur. Svo virðist sem Minjaverndin merki sumar tóftir, en horfi fram hjá öðrum, ekki síður merkilegum. Ástæðan gæti verið sú að um stórt svæði er að ræða og tíma getur tekið að finna allar minjar, sem ástæða er til að halda til haga. Má í því sambandi nefna tóftir Keldnasels austan við Langavatn. Þær sjást ágætlega, en eru ómerktar, enda hafa ökumenn stærri bíla dundað sér við að aka yfir þær á ferðum sínum um heiðina.
Nokkrar tóftir eru enn greinlegar við Reynisvatn, s.s. stök tóft, hlaðnir veggir o.fl.
Í framangreindri lýsingu reiðleiða segir auk þess: “Frá Reynisvatni er riðið meðfram vegi framhjá Engi niður að Vesturlandsvegi. Riðið er meðfram Vesturlandsvegi og undir brúna á Korpu. Þaðan er svo farið eftir nýjum reiðgötum yfir vað á Korpu og hjá golfvellinum hjá Korpúlfsstöðum. Aftur er farið yfir Korpu ýmist á brú eða vaði og svo skömmu síðar riðið um árfarveginn á Blikastaðaá stuttan spöl og svo yfir Ferðamannavað á Blikastaðaá og er þá aftur komið á Blikastaði. Á Blikastaðaá voru þrjú Tóft vestan við Reynisvatnnafngreind vöð. Blikastaðavað var á götunni að Korpúlfsstöðum beint á milli bæjanna. Ferðamannavað er þar sem gamli vegurinn liggur niður undir sjó og það neðsta niður við sjó en ofan klettanna. Það heitir Króarvað.”
Líkt og á Reynisvatnsási einkennist umhverfi Reykjavíkur af jökulsorfnum grágrýtisholtum með dældum á milli sem víða mynda stöðuvötn, til dæmis Rauðavatn. Hins vegar er grágrýtið samsett úr mörgum hraunstraumum frá mismunandi tímum, og Reynisvatn er í kvos á mótum hraunstrauma. Útfall hefur verið úr vatninu til norðurs en hlaðið hefur verið í það og vatnsborðið þannig hækkað.
Í örnefnalýsingu fyrir Reynisvatn segir m.a.: “Upplýsingar gaf Anna Ólafsdóttir, er átt hefur heima á Reynisvatni í 52 ár, eða frá því hún var 3ja ára gömul. Bærinn Reynisvatn stendur við samnefnt vatn, sunnan við Úlfarsá. Kúagirðing heitir mýri meðfram Úlfarsá, norðaustanvert við bæinn. Reynisás eða Reynisvatnsás er ás austan við Reynisvatn, og uppi á honum er Fálkavarða. Milli Almannadals og Valla, sem er bær undir vesturenda Kistufells er holt og laut, sem kallað er Gráskjalda.” Þá er vitað að eyðibýlið Höfði á að vera í heiðinni sunnan við Langavatn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örn H. Bjarnason – Gamlar götur-Reynisvatnshringur um Óskot.
-Selvogs- og Ölfusafréttir, dags. 24.9.1889.
-visindavefurinn.is
-Haukur Ólafsson.
-Örnefnalýsingar fyrir Reynisvatn og Óskot – ÖÍ.

Reynisvatn