Tag Archive for: Latur

Fífuhvammssel

 Ætlunin var að leita að og skoða gamla fjárborg frá Fífuhvammi, steininn Lat og Fífuhvammssel norðan í Rjúpnahæð.

Engjaborg

Engjaborg.

Engjaborg við Fífuhvammsveg var landamerki jarðanna Kópavogs, Digraness, Fífuhvamms og Arnarness. Nafnið Engjaborg bendir til þess að fjárborg og/eða beitarhús hafi staðið þarna. Hún er hringlaga rúst með um 2-3 m breiðum veggjum. Borgin stendur nú á hól inni í miðju íbúðarhverfi. Vel virðist fara um hana, en líklega vita fáir íbúanna um minjarnar á hólnum eða hafa áhuga á þeim tengslum sem þær hafa óneitanlega við landið og sögu svæðisins.

Þinghóll

Minnismerki um erfðahyllinguna á Þinghól.

Bærinn Kópavogur dregur nafn af voginum sunnan Kársness og samnefndu býli sem stóð norðan Þinghóls þar sem var annar af tveimur þingstöðum í heimalandi Kópavogsbæjar. Ekki er vitað til að þar hafi verið þinghald á þjóðveldisöld en þar fór erfðahyllingin fram 1662. Á gamla þingstaðnum er friðlýst þinghústótt og skammt frá henni er minningarsteinn um erfðahyllinguna, reistur 1962.
Fyrr á öldum var eiginlega ekkert í Kópavogi nema hólar, mýrar, klettar, lækir og lyng. Þá voru þrír bóndabæir, Kópavogur, Digranes og Fífuhvammur.
Fífuhvammur, bújörð, húsið var byggt að hluta fyrir aldamótin 1900 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni. Síðan byggði Bernhöft tannlæknir stofu og forstofu norðan við en Ísak Bjarnason síðan austan og sunnan við. Til hægri voru skúrar, geymslur og peningshús. Húsið var rifið að fullu sumarið 1983. Þorlákur í Hvammkoti gaf jörðinni nýtt heiti því að hann vildi ekki að bærinn hans væri kallaður kot, Fífuhvamm. Hann er fyrsti Kópvogsbúinn sem sat á Alþingi svo vitað sé.

Kópavogur

Fífuhvammur.

Talið er að jörðin hafi heitið Fífuhvammur til forna. Í Fífuhvammslandi er mjög fallegt votlendi. Þar vaxa ýmsar jurtir, t.d. hofsóleyjar, holblaðka, engjarós, hrafnsklukka, vatnsharfagras, fífur, sefbrúður og stjörnusteinbrjótur. Á horni Fífuhvammsvegar og Reykjavíkurvegar fundust tvær grafir. Rétt hjá Fífuhvammi er álfhóll sem hvorki má slá eða raska. Sagt er að bóndi einn í Fífuhvammi hafi slegið hólinn og þá misst 8 kýr það ár.

Latur

Latur.

Fátt skráðra minja er eftir í Fífuhvammslandi enda hefur því nú öllu verið raskað meira og minna. Engjaborgin og landamerkjasteinn með áletrun vestar í hlíðinni (sjá aðra FERLIRslýsingu) eru nú svo til einu ummerkin, sem eftir eru.

Latur er og nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn. Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.

Fífuhvammssel

Fífuhvammssel.

Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Þá var haldið upp að Rjúpnahæð. Þar í norðanverðri hæðinni eru menjar gamals sels. Selið nýtur nú verndar. Um er að ræða tvö hús og bakhús. Lag og gerð húsanna bendir til þess að selinu hafði verið breytt í beitarhús undir það síðasta. Tóftirnar eru fast við girðinguna, sem umlykur loftskeytastöðina og rétt fyrir ofan nýlegan reiðstíg. Ekki er ólíklegt, ef leitað er vel, að leifar eftir stekk og/eða kví kunni að finnast þarna skammt frá. Neðan við tóftirnar er nú verið að gera golfvöll og útivistarsvæði.

Frábært veður – sól og hiti. Ferðin tók 2 klst og 12 mín.

Upplýsingar m.a. fengnar af http://www.ismennt.is/not/ggg/saga.htm og http://www.hjallaskoli.kopavogur.is/throun/fortid/islenska/hvammkot.htm

Latur

Latur – álfasteinn.

Latur

Örnefnið „Latur“ hefur verið útskýrt á ýmsan máta. Til að fá úr tilurð nafnsins skorið spurðist FERLIR fyrir um nafnið á fyrirspurnarvef Örnefnastofnunar (sjá hér tl hliðar), en þangað er hægt að leita fróðleiks og upplýsinga um hvaðeina er lýtur að örnefnum vítt og breytt um landið, svo framarlega að þau hafi verið skráð, þau hafi skírskotun eða um þau fjallað.

Latur

FERLIRsfélagar á Lat.

Spurningin var þessi: „Hafið þið upplýsingar um tilurð örnefnisins „Latur“? Latur er t.d. hár fjallsendi í Ögmundarhrauni, stórt bjarg í fjörunni (var þar) utan við Þorlákshöfn, klettur niður við strönd á Vestfjörðum og e.t.v. víðar?“
Svavar Sigmundsson svaraði að bragði fyrir hönd Örnefnastofnunar á eftirfarandi hátt: „Líklegt er að örnefnið Latur tengist umferð á sjó. Þannig er um Lat við Þorlákshöfn. Þór Vigfússon segir að hann hafi oft verið notaður sem hraðamælir. „Var talað um að róa Lat fyrir Geitafell og slögin talin í hvert eitt sinn, frá því að Geitafell fór að hverfa bak við Lat þar til það sást allt hinum megin“ (Árbók Ferðafélagsins 2003, bls. 91).

Latur

Latur við Þorlákshöfn.

Latur er líka drangur vestur af Faxanefi í Vestmannaeyjum, en sjómönnum hefur þótt hann vera latur við að hverfa fyrir Faxanefið. Klettur á Breiðafirði milli Ólafseyja og lands heitir Latur og talinn draga nafn af því að hann „gengur mjög hægt fyrir Reykjanesið þegar siglt er úr Skarðsstöð fram í Ólafseyjar“ (Árbók Ferðafélagsins 1989, bls. 130; Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (2003), bls. 107). Hólmi í Suðurlöndum á Breiðafirði heitir Latur og liggur undir Skarð á Skarðsströnd. Sker á Djúpavogi í S-Múl. nefnist Latur en ekki er vitað um að það hafi verið haft til viðmiðunar (Árbók Ferðafélagsins 2002, bls. 103; Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar (2000), bls. 544). Þetta gildir þó tæpast um Lat (= Siggahól) sem er strýtumyndaður hóll í Brúnunum upp af Vatnsleysuströnd vegna þess hve langt hann er frá sjó. Hann gæti þess vegna verið kenndur við leti (Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í vatnsleysustrandarhreppi, bls. 69).“

Latur

Latur – Þorlákshöfn.

Sesselja bætti síðan eftirfarandi við: „Varðandi Lats umfjöllunina: Í Vatnsleysustrandarheiði er örnefnið Latur yfir hól ofarlega í heiðinni (nefndur hér neðar) og var mér sagt af gömlum bændum að þar hefðu menn fengið sér lúr af einhverjum ástæðum, e.t.v. gildum? Þeir þurftu jú að bíða eftir einhverju og nýttu því tímann.
Við fyrstu skoðun virtist mér sem að í þessu tilviki (í smölun) hafi menn verið tímanlega á staðnum og því e.t.v. getað veitt sér það að vera latir, fá sér lúr. En við nánari skoðun; öllu frekar hitt að eitthvað hafi verið lengi á leiðinni, þ.e. að koma í ljós, verið hraðamælir , eins og Þór Vigfússon nefnir. Slík biðstaða getur auðvitað vel átt við bæði á landi og á sjó, þ.e. að eitthvað var lengur að koma í ljós en menn væntu eða hugðu. Tel ég það gildari skýringu nú á örnefninu Latur þó svo að við fyrstu sýn tengi maður leti við hegðun mannsins en ekki örnefnanna.“

Latur

Latur – upplýsingaskilti.

FERLIR þakkaði báðum greið svör, og bætti við: „Þessi skýring á örnefninu „Latur“ kemur vel heim og saman við lýsingu Vigfúsar Einarssonar í Sunnlenskar byggðir II, 1981, bls. 94, þar sem hann lýsir aðstæðum vestan við Þjórsárós, nokkru austan við Loftsstaðasundið. Þar segir m.a.: „Þegar mikið brim er og háflóð, vaða ólögin yfir hraunið og brotna við sandinn og valda mikilli “ lá“ svo vont getur verið að halda skipunum. Þurfa skiphaldsmenn að vera stinnir og vel klæddir, klofbundnir. Lendingin er ekki mjög brött og því ekki erfitt að setja skipin. Nokkru fyrir austan Loftsstaðasund hækkar hraunið, og má heita, að það endi í hraunbungu, sem er suður af Loftsstaðabænum; er þar bergstallur við sjó. Á hraunhrygg þessum er stór klettur, sem kallaður er Latur, og urðarbungan Latsgrjót. Auðgert er að miða hann við austurfjöllin.

Latur

Latur.

Þegar róið er til lands undan Loftsstaðasundi í norðanroki, gengur lítið, og fer Latur þá hægt fram austurfjöllin – er latur. Af þessu er nafnið dregið. Oft er það afbakað, hraunbungan kölluð Lagsgrjót og Lagsagrjót…“.
Líklegt má telja að sama skýringin gildi um Lat í Ögmundarhrauni. Hefur hann þá væntanlega verið mið við erfiðan eða „hæggengan“ róður að verstöðinni Selatöngum eða nálægum stað/stöðum. Þó er ekki útilokað að nafnið eigi við um „letilegan“ dvalarstað á langri leið því við Lat liggur gömul gata og neðan hans er gamalt sæluhús í hraunskjóli.

Kópavogur

Latur á Digraneshálsi.

Segja má að skýringin á örnefninu Latur í Vatnsleysustrandarheiði geti einnig staðist sem slík. Annað dæmi um sambærilega skýringu er nafn á stórum steini í sunnanverðum Digraneshálsi í Kópavogi þar sem gatan liggur nú um Hlíðarhjalla. Um hann segir að þar „Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.“

Og þá liggja fyrir nærtækar skýringar á örnefninu Latur.

-http://www.ornefni.is/
-http://www.ismennt.is/not/ggg/latur.htm

Latur

Latur í Kópavogi.

Óbrennishólmi

Gengið var inn í Ögmundarhraun frá Lat áleiðis í Óbrennishólma. Gata liggur niður með vestanverðum Lat og beygir til austurs sunnan hans. Stígnum var fylgt yfir úfið hraun, en þegar því sleppti lá gata til hægri niður í hraunið.

Sængukonuhellir

Sængukouhellir vestan Óbrennishólma.

Eftir að hafa fylgt henni spölkorn var komið að skúta með fallegri dyralaga hleðslu. Um er að ræða rúmgóðan skúta, sem lengi var notaður sem sæluhús á ferðalögum fólks að og frá Grindavík á leið þess með ströndinni. Loftop er á skútanum og hleðslur umhverfis það. Hurðarhellan er enn til hliðar við dyrnar. Skútinn hefur í heimildum verið nefndur „Sængukonuhellir“.

Óbrennishólmi

Fjárborgin, eða virkið, í Óbrennishólma.

Gengið var áfram austur stíginn að Óbrennishólma. Hann skiptist sumstaðar í tvennt, en ráð er að fylgja ávallt efri stígnum – nær hraunkantinum – því hann er greiðfærari. Annars er stígurinn auðgenginn. Þar sem stígurinn liggur alveg við hraunkantinn má sjá, ef vel er gáð, stíg liggja inn á kantinn. Best er að fylgja honum og er þá komið á gróið svæði eftir að hafa farið yfir stutt hraunhaft. Í stað þess að fylgja hraunkantinum þarna til austurs var gengið upp á tiltölulega slétt mosahraun í norðaustur. Framundan sést úfnara hraun, en upp með því að vestanverðu liggur góð gata upp úr hólmanum til norðurs, í átt að Latsfjalli. Þessari götu var fylgt spölkorn upp fyrir úfna hraunið, en þar kemur stígur inn á götuna úr suðaustri. Gatan heldur áfram upp hraunið, en ákveðið var að fylgja stígnum áleiðis niður í hólmann. Stígurinn er breiður á kafla og greinilega mikið farinn. Hann kemur ofan í hólmann vestan og ofan við hæsta hólinn þar sem stóra fjárborgin (virkið) trjónir upp á. Í stað þess að fara þarna inn í hólmann var gengið til austurs ofan við gróna svæðið í hólmanum.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Komið var að görðunum utan í hraunkantinum úr vestri, en þeir eru í grónum rana norðaustan í hólmanum. Hraunið, sem rann um 1151, hefur runnið þarna að hlöðnum görðum og sjást þeir vel í kantinum. Þessir garðar, að vestanverðu í lænunni, hafa legið í boga upp hæð, en auk þeirra má sjá annan garð liggja niður með lænunni að austanverðu. Hraunkantinum var fylgt áfram til austurs og var þá gengið yfir hraunhaft og inn í gróið svæði ofan þess. Þar sem gengið var inn á svæði sást móta fyrir garði. Á austanverðu svæðinu eru leifar fjárborgar eða topphlaðins húss. FERLIRsfélagar hafa komið þarna tvisvar áður, en ekki fyrr rekið augun í borg þessa.
Veður var frábært – sól og blíða. Gangan tók 1 ½ klst.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir.

Kópavogskirkja
Í Kópavogi eru nokkrir staðir, sem hafa skírskotun til sagna og munnmæla. Þeim hefur flestum verið hlíft við raski. Má þar nefna stekk nálægt Fífuhvammsvegi og sel í Rjúpnahæð. Jafnframt eru í bænum nokkrir staðir s.s. Álfhóll, Víghólar, Borgarholt, Latur og Þinghóll þar sem fyrrum er talinn hafa verið þingstaður. Kórsnesið eða Kársnesið, þar sem ormurinn langi bjó í helli, er þó horfið undir landfyllingu – og þar með gull hans.
Mikilvægt er að gæta þess vel að spilla ekki sagnatengdum stöðum, hvorki með jarðraski né skógrækt, eins og svo allt of mörg sorgleg dæmi eru um. Ástæðulaust er þó að sýta súrt, en gleðjast yfir því sem til er og nýta það til fróðleiks og ánægju.

Álfhóll

Álfhóll

Álfhóll í Kópavogi.

Álfhóllinn er líklega kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Hann stendur sunnanvert við Álfhólsveg skammt þar frá sem Digranesskóli er nú. Hóllinn, sem er nokkuð aflíðandi, mun vera um það bil þriggja metra hár ef mælt er frá götu.
Álfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Hann er að miklu leyti hulinn grasi og mosagróðri, sérstaklega að norðan og austan. Í Álfhólnum er nokkurt stórgrýti sem líkist litlum klettastöllum og liggja þessir smáklettar að mestu um sunnanverðan og vestanverðan hólinn.

Kópavogur

Álfhóll.

Lengi hefur verið talað um að álfar hafi tekið sér búsetu í Álfhólnum og margir segjast hafa séð þá með vissu. Ekki er ljóst hve gamlar þær sögusagnir eru; engar heimildir eru til um atburði fyrr en nokkuð er liðið á þessa öld.
Seint á fjórða áratug þessarar aldar var hafist handa við að leggja Álfhólsveginn. Byrjað var á honum við Hafnarfjarðarveg og ætlunin var að halda áfram í austurátt þar til komið væri að Álfabrekku sem skyldi tengja Álfhólsveginn við Nýbýlaveg. Vegurinn átti að liggja þar um sem Álfhóllinn er en hann yrði jafnaður við jörðu eftir því sem framkvæmdum miðaði. Vel gekk að leggja veginn austur eftir Digranesinu að Álfhólnum.

Kópavogur

Álfhóll.

Þegar kom að því að sprengja hólinn gerðust atburðir sem leiddu til þess að ekkert varð af sprengingu. Vildi svo til að fjármagn það, sem veitt hafði verið til lagningar Álfhólsvegarins, var á þrotum. Féllu þá framkvæmdir niður við ólokið verk og Álfhóllinn stóð óhaggaður.
Árið 1947 var á ný hafist handa og átti að leggja veginn áfram í gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum komu upp vandamál sem áttu sér ókunnar og dularfullar orsakið að margra áliti. Vinnuvélar biluðu og ýmis verkfæri skemmdust eða hurfu jafnvel. Varð það úr að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann eins og ætlunin hafi verið. Sagt er að þá hafi framkvæmdir gengið eins og venja var til og hafi álfarnir ekki gert vart við sig að sinni.
Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.

Borgarholt

Kópavogur

Kópavogskirkja á Borgarholti.

Holtið þar í kring, sem Kópavogskirkja stendur nú, hefur verið nefnt Borgarholt. Þar hefur álfabyggð verið talin hvað blómlegust í Kópavogi.
Þegar Borgarholtsbraut var lögð á sínum tíma þurfti að sprengja nokkuð í Borgarholtinu á þeim slóðum sem álfar bjuggu. Um það leyti er fréttist að fyrirhugað væri að leggja veg um Borgarholtið mun maður að nafni Sveinn hafa gengið út á holtið og aðvarað álfana.
Segir sagan að íbúar Borgarholtsins hafi tjáð honum að þeir myndu ekki hindra framkvæmdir heldur flytja sig um set. Kom það á daginn að greiðlega gekk að leggja Borgarholtsbrautina og urðu þar engin óhöpp eða undarlegir atburðir.
Nokkrar heimildir eru um álfabyggðina í Borgarholti og segjast skyggnir menn hafa séð þar bústaði og byggingar álfanna. Hefur húsum álfanna verið lýst nokkuð nákvæmlega og eru til teikningar af þeim eftir lýsingu hinna skyggnu. Þá hefur það borið við að börn frá leikskóla þar í grenndinni hafi séð álfa í holtinu og jafnvel tekið þá tali.

Latur

Latur

„Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé
álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Latur er nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Annars er Latur hinn ágætasti drykkjarsteinn.

Þinghóll

Þinghóll

Þinghóll.

Þinghóll er hóllinn sem stendur við Kópavogsbotn hjá gamla þingstaðnum í Kópavogi. Helsta sögnin af Þinghólnum er tengd nafni hans. Það hefur verið trú manna að á hólnum hafi álfar haldið sitt eigið þing á svipuðum tíma og mannfólkið. Eiga álfarnir að hafa komið þar saman og þingað en ekki fóru aftökur þar fram enda þekkist það ekki á meðal álfa.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Þinghól.

Á fyrri hluta aldarinnar bjó sérkennileg kona á Skjólbraut í vestanverðum Kópavogi. Var hún komin nokkuð á efri ár en heilsuhraust þó og skörp í hugsun. Ekki var hún þekkt fyrir annað en að vera góðhjörtuð og hjálpleg á allan hátt en mörgum þótti hún dularfull enda vissu menn að hún var skyggn. Sagði hún stundum sögur af sérkennilegum atburðum og var fullviss um tilvist huldufólks.
Það var á flestra vitorði að gamla konan hefði séð álfa og huldufólk. Eitt þótti öðru merkilegra en það var að um sama leyti hvern einasta dag sá hún huldukonu á gangi. Var huldukonan í svörtu pilsi og með gráa hyrnu á höfði. Ætíð gekk hún sömu leið sem lá frá Þinghól og upp að Borgarholtinu í austri þar sem Kópavogskirkja stendur nú. Hvarf hún gömlu konunni þar sjónum.
Ekki hefur heyrst af öðru fólki sem sá þessa dularfullu konu á gangi og ekki eru allir á sama máli um hver hún var. Telja sumir að hún tengist dysjum sem eiga að vera víða í grenndinni. Þeir eru þó fleiri sem segja að þarna hafi verið huldukona á ferð og hafi hún annaðhvort búið í Þinghólnum sjálfum eða í Borgarholtinu.

Einbúi

Einbúi

Einbúi.

Einbúi er hóll sem rís austan í Digraneshálsi í austasta hluta Kópavogsbæjar fast við Reykjanesbraut. Við hólinn eru stakir steinar en þar hjá munu áður hafa legið landamerki.
Hólnum tengist sú saga að þar hafi búið álfur eða huldumaður. Ekki skal hér fullyrt um hvort hann búi þar enn. Þegar framkvæmdir stóðu yfir við byggingu iðnaðarhúss sem þar átti að rísa skammt frá er sagt að íbúi hólsins hafi látið á sér kræla. Hafi hann séð til þess að vélar biluðu með þeim hætti að ómögulegt var að beita þeim á hólinn.
Sagan segir að þegar lóðaúthlutun stóð sem hæst í Kópavogi var húsbyggjanda fengin lóð við hól í austurbæ Kópavogs sem kallaður var Einbúi. Fékk hann lóðina með því skilyrði að hann kæmi ekki nærrri hólnum er hann færi að grafa fyrir húsinu. Þótti húsbyggjanda sjálfsagt að verða við þeirri bón.
Einhvern tíma á föstudegi var komið að því að grafa fyrir grunni og fékk húsbyggjandinn jarðýtu á staðinn til að sinna því verki. Gekk verkið vel og var langt komið þegar vinnu var hætt um kvöldið. Næsta dag var haldið áfram þar sem frá var horfið en þegar nokkuð var lliðið á daginn þurfti lóðareigandinn að bregða sér frá. Varð það að samkomulagi að ýtustjórinn lyki verkinu en húsbyggjandinn tók honum vara fyrir því að fara of nærri hólnum.

Einbúi

Einbúi.

Ekki hafði ýtustjórinn verið lengi að er honum varð það á að bakka utan í hólinn. Stöðvaðist jarðýtan þar við hólinn og bilaði vél hennar svo að ekki var hægt að koma henni í gang. Kallaði stjórnandi ýtunnar til viðgerðarmenn sem komu þar á staðinn. Eftir að hafa skoðað vélina voru viðgerðarmennirnir sammála um að bilunin væri mikil og alvarleg. Var því kallað á dráttarvagn og ýtan færð á verkstæði til viðgerðar.
Þegar húsbyggjandinn hafði lokið verkum sínum í bænum og kom á staðinn sá hann enga jarðýtu og greinilegt var að ekkert hafði þokast við bygginguna síðan hann fór. Segir ýtustjórinn honum hvernig komið er og verður húsbyggjandinn óánægður með gang mála. Fara þeir saman á verkstæðið. Þegar þangað kom sneri húsbyggjandinn sér að ýtustjóranum og bað hann að setjast í ýtuna og kanna hvort hún færi ekki í gang. Þrátt fyrir vantrú sína verður ýtustjórinn við óskinni og ræsir vélina. Við það hrekkur hún í gang eins og ekkert hafi í skorist. Urðu menn þá mjög undrandi en þó mest viðgerðarmennirnir sem höfðu skoðað ýtuna.
Er nú aftur farið með ýtuna út að Einbúa þar sem framkvæmdum er haldið áfram. Reyndist hún þá í góðu lagi. Fór lóðareigandinn aldrei frá verkinu eftir það og urðu upp frá því engin vandræði. Þóttust menn vissir um að íbúi hólsins hefði hér átt hlut að máli og séð til þess að Einbúinn fengi að standa óhreyfður.

Víghólar

Víghólar

Víghólar.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.

Kórsnesormurinn

Kársnes

Kársnes.

Skammt undan ysta odda Kársness er sker sem vel má greina þegar fjarar. Sögur eru til sem segja frá miklum ormi er bjó í skerinu. Lá hann þar á gulli og beit í sporðinn á sér. Mun skerið hafa verið nokkru stærra og meira en nú er og hafi þá frekar talist hólmi. Hólmi þessi var heimili ormsins en þar hélt hann til í hellisskúta einum sem kallaður var kór. Þar lá hann ófrýnilegur mjög og gætti fjársjóðs síns.
Sagt er að nesið allt hafi verið kennt við kór þennan. Hafi það því ekki alltaf verið nefnt Kársnes heldur kallað Kórsnes. Þá var oftar en ekki talað um kórinn í nesinu.
Nú er Kórsnesið/Kársnesið horfið undir landfyllingu – og sennilega hvílir ormurinn undir henni.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/
-http://www.kopavogur.is/

Þinghóll

Þinghóll – minjar.

Latur

Í Tímanum 1996 er grein um „Frumbyggja í Kópavogi og yngri kynslóðir sem eiga sér þjóðsögur líkt og aðrir“. Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir segja frá:

Latur

„Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé
álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi
tuttugustu aldar.

„Rótarýklúbburinn í Kópavogi hefur gefið út bókina „Þjóðsögur og sagnir úr Kópavogi„, sem Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir söfnuðu af elju meöal eldri Kópavogsbúa. Einnig fengu þær að láni spólur frá Stofnun Árna Magnússonar með viðtölum Hallfreðar Arnar Eiríkssonar við eldri Kópavogsbúa, sem tekin voru upp árið 1967. Bókin er unnin upp úr lokaritgerb Önnu og Ingu úr Kennaraháskóla Íslands og eru sögurnar býsna
fjölbreyttar. Þar má finna sögur af hinum fræga Jóa á hjólinu, draugum, karlinum sem býr orðið einn í Álfhólnum, Jóni í Digranesi, Kársnesorminum og huldufólki, svo eitthvað sé nefnt. Hér á síðunni birtist ein huldufólkssagan. Hún segir frá huldukonunni á peysufötunum sem safnararnir höfðu eftir Kristni Hallssyni.

Huldukonan á peysufötunum

Latur

Latur.

Á fyrri hluta þessarar aldar var byggð ekki mikil í Kópavogi. Mátti þó sjá bústaði, sem fólk hafði reist sér til sumardvalar, og einnig var farið að bera á því að bústaðir þessir væru nýttir sem íbúðarhúsnæði árið um kring. Í Digraneslandi stóðu nokkrir þessara bústaða neðst í sunnanverðri Digraneshlíð þar sem Digraneslækur rennur.
Þá bjó í Reykjavík ungur drengur ásamt fjölskyldu sinni og hét Kristinn Hallsson. Drengurinn þótti söngvinn með eindæmum og síðar varð hann landsfrægur söngvari. Foreldrar Kristins áttu sumarbústað niðri við Digraneslækinn og dvöldu þar jafnan sumarlangt með börnum sínum.
Áslaug Ágústsdóttir hét móðursystir Kristins, hávaxin kona og grönn. Hafði hún þann sið að heimsækja fjöskylduna og kom þá ætíð fótgangandi eftir Fossvogsdalnum og yfir Digraneshálsinn sem leið lá að sumarbústaðnum. Brá hún aldrei af þeirri leið.
Dag nokkurn um miðsumar var von á Áslaugu til Kópavogs. Börnin voru þá úti við leiki. Láta þau fljótlega af þeirri iðju og halda af stað til móts við Áslaugu. Fara þau hægt yfir og tína upp í sig ber á leiðinni upp hæðina. Uppi á hæðinni var mikill steinn, sem eldri menn sögðu vera álagastein. Mun þetta hafa verið steinninn Latur, sá sami og Jón bóndi í Digranesi var vanur að sitja á þegar hann var kenndur og syngja, sem frægt var á hans tíma. Var steinninn á gönguleið Áslaugar.

Latur

Latur.

Barnahópurinn var nú staddur skammt frá honum og var Kristinn Hallsson í broddi fylkingar eins og venjulega. Sjá börnin öll hvar kona ein birtist skammt undan steininum. Var hún í peysufötum líkum þeim sem Áslaug klæddist jafnan. Há var hún og grannvaxin líkt og Áslaug og taldi Kristinn að móðursystir sín væri þar á ferð, enda ekki von á öðrum mannaferðum. Þegar ekki er lengra en tíu fet á milli konunnar og barnanna, sér Kristinn að þetta er ekki Áslaug eins og þau áttu von á.

Latur

Latur í Kópavogi.

Þá fyrst er sem konan verði þess vör að börnin veiti henni athygli. Nemur hún snögglega staðar, setur upp undrunarsvip og síðan hræðslusvip. Snýr hún snögglega á braut og tekur til fótanna upp hlíðina og hverfur sjónum skammt frá steininum. Fylgja börnin konunni eftir uns þau koma upp á hálsinn þar sem útsýni er allgott yfir Fossvoginn. Ekki var þar sálu að sjá svo langt sem augað eygði. Fátt var um felustaði og var engu líkara en að jörðin hefði gleypt konuna. Leituðu þau þá allt í kringum steininn, en án árangurs.
Gengu nú börnin heim á leið og sögðu fólki frá atburðinum og konunni í peysufötunum. Flestir urðu undrandi yfir þessum tíðindum, en margir hinna eldri létu sér fátt um finnast. Sögðu þeir að þarna á Digraneshálsinum hefði verið á ferð huldukona. Mun henni hafa brugðið er hún varð þess vör að börnin sáu hana. Í það sinnið hefur hún gleymt að setja upp huliðshjálminn, eins óg kallað var.“

Heimild:
-Tíminn, 131. tbl. 13.07.1996, Frumbyggjar í Kópavogi og yngri kynslóðir eiga sér þjóðsögur líkt og aðrir, Anna hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir, bls. 6.

Digranes

Digranes – gamla bæjarstæðið t.h.