Í Andvara árið 1936 er birt “Lýsing Ölveshrepps 1703” eftir Hálfdán Jónsson undir heitinu “Descriptio Ölveshrepps anno 1703“:
“Aultvus eður Ölveshreppur hefur sitt nafn dregið af Álfi, fyrsta landnámamanni þess héraðs. Hreppur þessi liggur í Sunnlendingafjórðungi og Árnessýslu, fyrir vestan Ölvesá, nálægasta sveit að austanverðu við þann fjallgarð, er aðgreinir Árnessýslu og Kjalarnesþing. Þingstaður héraðsins er að Bakkarholti. Þangað sækja Grímsness og Selvogs innbyggjarar, þá þriggja hreppaþing haldast.”
Ölfus.
Í “Fornleifaskráningu vegna skipulags í Ölfusi” frá 2009, er getið um Bakkárkot. Einnig er getið um minjar tengdar þingstaðnum, s.s Gálgaklett, Þinglaut og Hestarétt:
“Bakkárholt eða Bakkarholt eins og það var stundum ritað, var eitt af höfuðbólunum í Ölfusi. Jörðin er landstór og árið 1840 var þar sagður reisulegur bær.
Bakkárholt.
Bakkárholt var lengi þingstaður þriggja hreppa; Ölfuss-, Selvogs- og Grímsneshrepps. Segja Sunnlenskar byggðir að þing hafi þar verið haldið til ársins 1885, en samkvæmt örnefnaskrá var þingstaður þar til ársins 1881 en þá var skólahús byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaðurinn fluttur þangað. Þing er ekki nefnt á jörðinni í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þar sem jörðinni er lýst árið 1708. Jörðin var við alfaraveg sem lá frá Kotferju ferjustað, en farið var framhjá Kirkjuferju, Bakkarholti, Gljúfraholti, Krossi og á Torfeyri við Varmá. En eins og segir í Örnefnaskrá: ,,Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og ,,brýr“ yfir mýrasund í nágrenni.“ Á jörðinni eru nokkrar minjar sem minna á þingið.
Bakkárholt – hestarétt.
Um nafn jarðarinnar segir í örnefnaskrá: ,,Nafnið er mjög eðlilegt ,,náttúrunafn“. Áin fellur þar á milli gróinna bakka og hefur að líkindum heitið Bakká. Holtið, sem bærinn stendur á, er við hana kennt, en áin síðar kennd við holtið, Bakkárholtsá.
Hestarétt: Sér enn fyrir hleðslum milli Norðurtúns og Aukatúns. Þar hafa þinggestir og þingmenn geymt geymt hestana sína eða rekið inn til að beizla þá.
Gálgaklettar: Klettur hefur klofnað frá bergi holtsins og sigið frá, svo að skora er á milli. Yfir þá skoru hefur gálgatréð verið sett, er hengja þurfti. Heimildarmenn báru Þórð á Tannastöðum fyrir. Klettarnir eru norðaustur af Hestaréttinni. [Síðasta aftakan í Bakkárholti fór fram uppúr 1700].
Þinglaut: Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengri austur-vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. ,,Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“ Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar.”
Bakkárholt – Gálgaklettar.
Í “Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi; Áfangaskýrslu II” frá árinu 2017 segir m.a. um þingstaðinn í Bakkárholti:
“Þinglaut – tóft – þingstaður; 63°57.741N 21°08.403V. Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppaþing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H.J. 1703). Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og “brýr” yfir mýrasund í nágrenni. Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá. […] Þinglaut. Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengir austur – vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. “Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.” Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar,” segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.” Þinglaut er 110 m norðan við bæ 001 og tæpum 80 m suðaustan við hestarétt, uppi á háholtinu. Þetta tún var kallað Norðurtún.
Bakkárholt – Þinglaut (Þingstaður).
Í Þinglaut er tóft sem talin er vera lögrétta að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Raflína er 50 m vestan við tóftina.
Slétt, ræktað tún. Það er slegið sem og Þinglautin framan af. Hún hefur ekki verið slegin í einhver ár núna. Tóftin sést einna best sem óslétt svæði í túninu.
Tóftin er 19,5 x 15 m að stærð og snýr austur-vestur. Þinglautin er „inni“ í tóftinni. Tóftin er einföld og allir veggir signir og útflattir. Það er einna helst lautin sem sýnir umfagið og leguna best. Veggirnir eru 0,1 – 0,3 m á hæð, hæstir að vestan. Þeir eru algrónir enda búið að slétta hér yfir. Tóftin var slegin á dráttarvélum án teljandi vandræða. Nú er einungis austurhlutinn sleginn enda lægstur. Ekkert op sést á yfirborði inni í tóftina. Lautin er slétt að innan og veggirnir aflíðandi þar niður. Þeir eru mun hærri að innan en utan. Suðvesturhluti tóftarinnar er umfangsmeiri en hinir, mögulega eru þar ummerki um fleiri byggingarstig eða túnasléttun var meiri til norðurs. Ekki sér til palla eða annars inni í lautinni. Hún er mögulega niðurgrafin, ytri veggir sjást lítið sem ekkert.”
Í örnefnalýsingu Ögmundar Jóhannsonar fyrir Bakkárholt segir m.a.:
“Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppa þing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H. J. 1703). Þar má enn sjá Þinglaut, Hestarétt og Gálgaklett. Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni.
Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá.”
Bakkárholt – rétt.
Í framangreindri “Lýsingu Ölveshrepps frá 1703” segir auk þess um Ölfus:
“Annar hreppsins endi er áfastur við Selvog og sundurgreinist á austanverðri Selvogsheiði og allt á sjávarbergið, þar Þrívörður heita, er að skiljast Þorlákshafnar og Ness í Selvogi lönd.
Þorlákshöfn hefur sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslega vígslu. Þar heitir og enn nú að framan verðu við bæinn Þorlákvör, Þorlákssker, og Þorlákshóll þar túnið er hæst. Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá Kyndilmessu og í fjórián vikur þar eftir (hvar um Alþingissamþykkt hljóðar, dateruð 1700) yfir fjörutíu skip, stór og smá. Mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti. En Árnessýslu innbyggjarar eru eignarmenn flestallra annara þar til sjós gangandi. Utan vertíðar er í þessari veiðistöðu mjög lítill fiskiafli, en á sumum árum alls enginn. Skipastöður með frí fyrir eitt skip hafa þessar jarðir í Þorlákshöfn: Breiðibólstaður fyrir selstöðu, Hjalli fyrir hrossabeit, Arnarbæli fyrir engi.
Ölfus umhverfis Ölfusá.
Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun.
Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.
Vestan Varmár liggur almennings vegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba áðurnefnda, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn hlaðnar til leiðarvísis.
Búasteinn.
Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvern stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans tilvísar. Sama saga nefnir Hellisskarð Öxnaskarð, og mun þá hafa sittnafn öðlazi af nautarekstrum Ölves innbyggara vestur yfir heiðina. — Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesinnbyggjarar hafa uppi haldið vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innvistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli. Fyrir sunnan Húsmúlann, er liggur í útsuður undan Hengilsfjallinu, en fyrir norðan Hellisskarð, liggja Sleggjubeinsdalir. Þar er náttstaður vesturleitarmanna úr Ölvesi, þá afréttinn á haustin leita.
Sæluhúsið undir Húsmúla.
Í vestur og útnorður frá sælhúsi og með Húsmúlanum liggja miklir grasvellir, nefndir Norðurvellir, og strekkja sig út allt suður undir Svínahraun, nær því undir Bolavelli, en endast þó þar Uxabrekkur heita.
Engidalur – kort.
Inn með Hengilsfjallinu liggur dalur og fyrir norðan Húsmúlann, er Engidalur kallast. Úr honum rennur lítil á vestur eftir Norðurvöllunum, fyrir norðan Bolavelli en austan Lyklafell, og fellur síðan í Fóelluvötn. Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag Oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar, við Engidalsá, standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið á milli þeirra Þjófahlaup — er þó ei sannferðugt, hvar fyrir so kallast. Í austur frá Engidal, upp á Henglinum, stendur þúfa, er enn nú nefnist Strendurþúfa, þangað eiga Strendurmenn í Selvogi með frí lambarekstra árlega.
Í Hengli.
Úr Hengladölum renna margir smálækir, þar til í einn saman koma, og so fram eftir dölunum vestur undir Hellisheiðarhraunið.
Réttin við Orrustuhól.
Fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.
Inghóll á Ingólfsfjalli.
Þessu næst er að geta Ingólfsfells. Það liggur til norðurs og suðurs í hreppnum, ei alllangt frá því vatnsfalli, er Sog nefnist og fyrir austan fjallið rennur.
Ingólfsfjall – AMC-kort.
Þetta fjall hefur hamra og eggjar allt um kring, háfar og miklar að sínum þremur köntum, að vestan, sunnan og austan, en að norðanverðu er það með stórskörðum og giljum. Það er mjög graslítið, svo upp á því, fyrir ofan hamrana, sem neðan. Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámamanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosavaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu, nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvorn hann lét þá mæla. — Örnefni þessi eru á Ingólfsfelli svo kölluð: Kagi, Kagagil, Leirdalur, Dagmálagil, Hólstaðagil, Tannastaðadalir, Alviðrueggjar, Djúpidalur etc.
Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.
Þessi eru haldin sýslumót milli Árnessýslu og Kjalarnesþings, fyrst er Vilborgarkelda, er liggur á Mosfellsheiði, fyrir vestan Heiðarbæ. Þaðan ræður Laufdælingastígur í vestur liggjandi eftir heiðinni allt í nyrðri Lyklafellsenda. Síðan í þann einstaka stein, er stendur við Hellisheiðarveginn á melnum fyrir sunnan Lyklafell, er kallast Sýslusteinn. Þaðan í það stóra bjarg, er liggur við veginn í Ólafsskarði. Síðan sjónhending í Hvítskeggshvamm, fyrir sunnan Geitahlíð, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.”
Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1936, Lýsing Ölveshrepps 1703, Hálfdán Jónsson, bls. 57-78.
-https://timarit.is/page/4319796?iabr=on#page/n59/mode/2up/search/hengill
-Fornleifaskráning vegna skipulags í Ölfusi, Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Edda Linn Rise, október 2009.
https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_1682.pdf
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Orri Vésteinsson og Stefán Ólafsson, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.
-https://www.researchgate.net/profile/Ragnheidur-Gylfadottir/publication/329254548_Adalskraning_fornleifa_i_Olfusi_II/links/5bff1576a6fdcc1b8d49f55e/Adalskraning-fornleifa-i-Oelfusi-II.pdf
Í Hengli.