Færslur

Þvottalaugar
Þvottalaugarnar í Laugardal eru rétt hjá Valbjarnarvelli. Þær hafa verið gerðar upp og standa nú sem áþreifanlegur minnisvarði um húsmæður í Reykjavík er þvoðu þvotta sína þar um aldir.

Þvottalaugar

Þvottalaugar – Friðrik VIII við laugarnar.

Í MBL þann 3. júní, 1995 er fjallað um endurgerð þvottalauganna í Laugardal og opnun þeirra við hátíðlega athöfn. Sýningin fjallar um sögu þvottalauganna í máli og myndum á sýningargrind á grunni þvottahúss frá árinu 1901.
“Almenningsþvottahúsið” í Laugarnesinu gegndi mikilvægu hlutverki í heimilishaldi Reykvíkinga um árabil. Þvottakonur fóru lengst af gangandi rúmlega þriggja kílómetra leið frá miðbæ Reykjavíkur í þvottalaugarnar. Ekki voru byrðarnar heldur léttar, bali, fötur, þvottaklappur, þvottabretti, sápa, kaffikanna, bolli og matarbakki til viðbótar við sjálfan þvottinn og hafa fullfrískar konur eflaust verið orðnar heldur veglúnar þegar komið var á áfangastað. Eftir 10 til 15 tíma erfiðsvinnu tók svo við önnur þrekraun. Gangan heim með blautan þvottinn.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar í Laugardal.

Þvottarnir kostuðu ófáar konur lífið. Þrjár konur létust af brunasárum eftir að þær féllu í þvottahverinn í laugunum á árunum 1894 til 1901. Eftir að barnshafandi kona hrasaði í laugina árið 1901 fóru bæjaryfirvöld að huga að öryggi þvottakvennanna. Hlaðnar voru upp laugar og festar á þær bogagrindur til að koma í veg fyrir að fólk félli í hverina árið 1902.
Rætur Hitaveitu Reykjavíkur liggja í laugunum. Eftir að borað var eftir heitu vatni við þvottalaugarnar á árunum 1928 til 1942 var lagt heitt vatn í um 70 hús í Reykjavík. Elsta dælustöð Hitaveitu Reykjavíkur stendur enn við laugarnar. Laugaveitan var undanfari þess að ráðist var í hinar miklu hitaveituframkvæmdir í upphafi fimmta áratugarins.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar – Heiße Quellen 1925.

Þegar Reykvíkingar fá sér sundsprett í Laugardalslauginni þá leiða þeir sjaldnast hugann að öllum þeim körlum og konum sem á fyrri öldum lauguðu sig á þessu svæði. Flestum er tamt að halda að Íslendingar hafi ekki verið duglegir að ganga til lauga fyrr á tímum en ýmislegt bendir þó til að þar sé hallað réttu máli. Þorsteinn Einarsson fyrrum íþróttafulltrúi ríkisins hefur safnað heimildum um baðmenningu Íslendinga, einkum hefur hann skoðað það sem til er skráð um Laugardalinn í Reykjavík. Þar var fyrr á tímum baðlaug sem Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta um í Ferðabók sinni sem út kom 1772. Þar segir: “Laugarnes nefnist bær og kirkjustaður milli Reykjavíkur og Viðeyjar, og dregur það nafn af laug þar í nágrenninu. Hverinn, sem heita vetnið rennur frá niður í baðlaugina er all vatnsmikill og sjóðandi heitur.”

Laugardalur

Laugardalur – þvottalaugarnar.

Nokkru síðar í frásögninni lýsa þeir félagar umræddri baðlaug. “Baðlaugin er allstór og djúp. Heiti lækurinn frá hvernum fellur í hana, en einnig kalt vatn, sem temprar mjög hitann í lauginni.” Fleiri staðir komu til greina fyrir þá sem vildu lauga sig í Reykjavík fyrir rúmum tvö hundruð árum. “Fyrir neðan baðlaugina eru tveir eða þrír staðir, sem hentugir eru að baða sig í, og eru þeir notaðir til þess, þegar vatnið í aðallauginni er of heitt á sumrin eða hún offyllist af fólki, því að margir koma að Laugarnesi frá nágrannabæjunum til þess að taka sér bað í lauginni. En einkum er laugin þó sótt af farmönnum úr Hólminum og starfsfólki Innréttinganna í Reykjavík á laugardags- og sunnudagskvöldum.”
Samkvæmt þessum upplýsingum hefur fólk í Reykjavík og nágrenni verið uppfullt af áhuga á að baða sig.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar.

Hinir heitu hverir í Laugardalnum sendu öldum saman frá sér háa gufustróka, jafnframt því sem íbúar svæðisins nýttu sér heita vatnið ýmist til að þvo af sér eða þvo sjálfum sér. Uno von Troil sem síðar varð biskup í Uppsölum ferðaðist til Íslands árið 1772. Í bók um ferðalag þetta hélt von Troil því fram að íslenskir elskhugar færu gjarnan í heitt laugarbað með festarmeyjum sínum. Sveinn Pálsson landlæknir tekur þessi ummæli hins tilvonandi biskups óstinnt upp í Ferðabók sinni. Hann fullyrðir að ekkert lauslæti fari fram í baðferðunum – baðferðirnar væru ekki annað en saklausar smáskemmtanir. Sveinn lýsti nákvæmlega aðstæðum í Laugardal. Hann segir að skammt fyrir sunnan bæinn sé allstór mýri. Norðvestur af mýrinni segir hann að liggi allhár sandbakki sem sjórinn brýtur á (þar á hann við Kirkjusand).

Þvottalaugar

Gömlu þvottalaugarnar – stytta Ásgríms Jónssonar af “Þvottakonunni”.

Uppi í mýrinni nálægt 1.000 skrefum frá sjó er köld uppspretta sem Sveinn kveður hafa grafist í gegnum móinn, þar til botninn hækki skyndilega og dropasteinsklöpp gægist upp úr vatninu. Á þessum klapparhól stendur nú stytta Ásmundar Sveinssonar; Þvottakonan. Um 86 skrefum fyrir neðan er hver og 34 skrefum þar fyrir neðan komu upp litlar sjóðandi uppsprettur úr sléttri klöpp. Síðan breikkaði farvegurinn og þar skapaðist dálítil tjörn sem notuð var til að þvo í af almenningi, þar skammt frá var Laugarhóll. Svo þar fyrir neðan tók vatnið að kólna og miðja vegu milli Laugarhólsins og sjávar var vatnið mátulega heitt til að baða sig í því, “enda taka allir, sem að lauginni koma, sér bað á þeim stað,” segir Sveinn Pálsson.

Þvottlaugar

Í þvottalaugunum í Laugardal.

Í baðlaugunum fornu háttaði oftast þannig til að kaldur lækur rann inn í hina heitu laug og var þá gjarna hægt að stöðva kalda rennslið með hellublaði þegar þörf þótti á. Þannig stjórnuðu menn hitastiginu í baðlauginni.
Í heimildum þeim sem Þorsteinn Einarsson hefur dregið saman um sundkennslu á Íslandi á þessari öld og þeirri nítjándu er fyrst getið um Jón Þorláksson Kærnested sem snemma á síðustu öld kenndi 30 piltum sund í “baðstað” þeim sem Sveinn Pálsson kallar svo í Laugalæknum. Björn L. Blöndal lærði sund og bauðst svo til að kenna sund ef leyfi fengist hjá ábúanda Lauganess til þess að lagfæra sundstæði í Laugardalnum. Björn Jónsson síðar ráðherra var aðstoðarmaður Björns við sundkennsluna.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar 1971.

Sundfélag Reykjavíkur var stofnað 1884 og tveimur árum seinna hafði tekist að reisa laugarhús á fjórum steinstólpum út í miðju sundstæðinu. Björn Blöndal drukknaði í mars árið 1887 en Birni Jónssyni tókst að fá Húnvetninginn Þorstein B. Magnússon til að kenna sund um tíma. Árið 1894 tókst Birni Jónssyni að fá Pál nokkurn Erlingsson til að kenna sund. Hann kenndi sund lengi þótt seinlega gengi að laga aðstæðurnar til sundkennslunnar í Laugardalnum. Árið 1903 tók Reykjavíkurbær við starfrækslu Laugarneslauga og kölluðust þær eftir það Sundlaugar Reykjavíkur. Árið
Þorsteinn fór sjálfur með móður sinni með þvott inn í þvottalaugar. “Þarna fóru konurnar á mánudögum með poka á bakinu, þvottabretti framan á sér, kaffikönnu hangandi við hliðina á sér og tvo eða fleiri krakka hangandi í pilsunum með þvottinn sinn inn í Laugardal. Þarna sem sagt þvoði fólkið þvottinn sinn, þvoði á sér skrokkinn og lærði að synda. Þessi staður er mikill sögu- og menningarstaður og á skilið að honum sé sómi sýndur sem slíkur.”

Þvottalaugar

Gömlu þvottalaugarnar.

Í heimildasafn og endurminningar um þvottalaugarnar í Laugardal segir Hulda H. Pétursdóttir m.a.: “Fyrir okkur sem munum ekki annað en sjálfvirkar og murrandi þvottavélarnar er þessi bók um púl og strit og ótrúlega sögu ótal kvenna sem þurftu að bera þvott sinn á bakinu langa vegu við aðstæður sem virðast tilheyra löngu liðinni fortíð ­ svo órafjarri að engu tali tekur. Þessar konur þurftu svo að strita við að þvo heilan dag og rogast með þvottinn blautan og þungan heim.” Hér er sögð saga þess þegar heita vatnið fannst í Laugardal og varð brátt hið mesta þing.

Þvottalaugar

Gölu þvottalaugarnar.

Vinnukonurnar voru sendar með þvottinn þangað og var ekki miskunn hjá Magnúsi. Reykvíkingar og nærsveitungar gátu þar með haft hreint á rúmum og gengið í sæmilega skikkanlegum flíkum. Það er vissulega skrítið og allt að því ruglað fyrir okkur að hugsa til þess að þvottalaugarnar skuli ekki hafa lagst af fyrr en fyrir örfáum áratugum. Bókin segir sögu sem er horfin og sögu kvenna sem koma ekki aftur.
Hulda byggir frásögnina á almennum heimildum og leitar einnig fanga í minningaskrínum margra sem á þeim tíma leituðu í Laugarnar. Frásögnin er allavega: sumar minnast Lauganna með gleði á sinn hátt. Þrátt fyrir púl voru Laugarnar greinilega sérstæður og eftirminnilegur samkomustaður kvennanna sem gátu inni á milli leyft sér að skrafa og spjalla og börn þess tíma rifja upp minningar þegar þau komust fyrst í kynni við það sem Laugarnar voru. Enn aðrar konur eru beiskar og þreyttar að hugsa til þessa tíma. Samt er ljómi yfir.

Heimildir:
-MBL – 3. júní, 1995 .
-GULLKISTA ÞVOTTAKVENNA – Útg. Árbæjarsafn ­ Hið ísl. bókmenntafélag 1997. 94 bls.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar um 2000.