Færslur

Mosfellsdalur

Í vestanverðum Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

“Velkomin í Mosfellsdal.

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – skilti.

Mosfellsdalur er umkringdur fjöllum, í norðri rís Mosfell (276 m.ys.) en að austanverðu eru Grímannsfell eða Grímarsfell (484 m.y.s.), Æsustaðafjall (220 m.y.s.) og Helgafell (217 m.y.s.). Talið er að jökullón hafi fyllt dalinn á ísöld og skýrir það mikið jarðvegsdýpi á dalbotninum. Hann var fyrrum mýrlendur en ræktaður upp smám saman ogvar lagður akvegur eftir miðjum dalnum um 1930 en áður lá leiðin meðfram fjöllunum.

Tvær ár renna um Mosfellsdal, Kaldakvísl að norðanverðu og Suðurá um sunnanverðan dalinn. Þær fallast í faðma hér skammt frá í svonefndum Víðiodda og renna til sjávar í Leiruvogi undir nafninu Kaldakvísl.

Mikill jarðhiti er í suðurhluta Mosfellsdals. Jarðhitinn var á sínum tíma virkjaður og vatninu dælt um Skammadal og áfram til Reykjavíkur.

Í Mosfellsdal eru starfrækt vistheimili. Í Reykjadal er starfrækt heimili fyrir fötluð börn. Í Hlaðgerðarkoti er meðferðarheimili og í norðanverðum dalnum gnæfir Mosfellskirkja á háum hól. [Tjaldanes var heimili þroskaheftra drengja í Mosfellsdal þar til í maí 2004.]

Mosfellsdalur

Í Mosfellsdal.

Landbúnaður var fyrrum blómlegur í dalnum en nú er hefðbundinn búskapur að mestu aflagður, sauðfé er á örfáum bæjum og á Hrísbrú er rekið eina kúabúið í sveitarfélaginu. Í dalnum er einnig að finna gróðrastöðvar, tjaldstæði, hestaleigu, golfvöll og húsdýragarð.

Laxnes

Bærinn Laxnes í Mosfellsdal.

Austast í dalnum er bújörðin Laxnes þar sem Halldór Laxness ólst upp, hann hleypti undir heimdraganum úr Mosfellsdal en orti árið 1930 þegar hann kom til bernskustöðvanna:

Í dalnum frammi undi eg áður fyr,
við ána greri fífillinn minn bestur.
En brott eg fór, og fjöllin urðu kyr.
Eg fer hér nú sem þúsundáragestur.”

[Auk margra annarra áhugaverðra staða, s.s. Hraðastaði, Æsustaði og Helgadal, geymir dalurinn fjölmarga aðra minjastaði, m.a. Hrísbrú og Mosfell þar sem t.d. Egill Skallagrímsson bjó um tíma, auk aðliggjandi staða.]

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – horft frá Laxnesi.

Gljúfrasteinn

Við “Gljúfrastein” í austanverðum Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

Gljúfrasteinn

Halldór Kiljan Laxnes á vinnustofu sinni að Gljúfrasteini.

“Gljúfrasteinn var byggður í Laxneslandi og arkitekt hússins var Ágúst Pálsson. Húsið reis á hálfu ári. Auður Laxnes segir þannig frá í ævisögu sinni, “Á Gljúfratseini”: “Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1945, kom ég mér vel fyrir í sólkskininu á svölum Landspítalans, og vélritaði samning um byggingu Gljúfrasteins, og dagana á eftir var hafist handa. Fyrstu merki þess að framkvæmdir væru hafnar, var sími festur uppá steini hér úti á hól, og breiddur yfir hann segldúkur á kvöldin. Þá var fátt um byggingarefni, og þurfti að hringja í ýmsar áttir og tína það saman héðam og þaðan af landinu.”
Um jólin 1945 fluttu Halldór og Auður að Gljúfrasteini og varð heimili þeirra strax einstaklega hlýlegt og prýtt mörgum fallegum listaverkum. Hér var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness um hálfrar aldar skeið og húsið skipar sérstakan virðingarsess í augum íslensku þjóðarinnar.”

Gljúfrasteinn opnaði sem safn 2004 og er húsinu haldið óbreyttu frá því sem var. Boðið er upp á hljóðleiðsögn um húsið á ýmsum tungumálum.

Gljúfrasteinn

Halldór Kiljan Laxnes og Auður með Nóbelsverðlaunaskjalið 1955.

Halldór Laxness

Í Faxa árið 1982 birtist hugvekja í tilefni af áttræðisafmæli Haldórs Laxness þar sem hann m.a. mærir Grindavík – og það ekki að ástæðulausu.

Grindavík

Grindavík 1939.

Á árunum 1937—1939 gaf Lestrarfélagið í Grindavík út tímarit, sem nefndist Mímir. Markmiðið með útgáfu ritsins var, eins og segir í 1. tölublaði, að reyna að vekja af dvala Lestrarfélagið Mími, er sofið hafði svefni hinna réttlátu um nokkurt skeið. Var ritið selt til ágóða fyrir félagið, á 10 aura eintakið. Ritstjórar voru Einar Kr. Einarsson, skólastjóri, Jochum Eggertsson og
Einar Einarsson í Krosshúsum. Í 4. tölublaði Mímis frá 1937 er viðtal við Halldór Laxness. Viðtalið hefur Einar Einarsson í Krosshúsum að líkindum átt við skáldið og í tilefni þess að
Halldór Laxness er áttræður um þessar mundir. Þótti við hæfi að fá það birt hér í Faxa nú. Fer viðtalið hér á eftir:

“Tíðindamaður blaðsins heimsótti Halldór Kiljan Laxness þar sem hann dvelur nú [í Krosshúsum] yfir páskana, önnum kafinn yfir ritvél sinni. Þrátt fyrir mikið annríki var skáldið svo vingjarnlegt að svara nokkrum spurningum, sem tíðindamaður lagði fyrir hann.
-Kemur framhald af „Ljósi heimsins”?

Halldór Laxness

Halldór Laxness.

-Já, næsta ár mun koma út ný bók, framhaldssaga af niðursetningnum, sem nú er ekki lengur niðursetningur, eins og þér vitið. Hvers vegna nefnduð þér bókina „Ljós heimsins”? Bókin skýrir frá baráttu skáldsins við heimskuna og tregðuna.
-Þér notið alveg sérstakt mál í bók yðar, haldið þér ekki, að það geti aflagað mál hinnar yngri kynslóðar?
-Ég vona að mál bókarinnar sé auðvelt aflestrar og spilli ekki málsmekk neins.

-Á hve mörg mál hafa bækur yðar verið þýddar?
-Dönsku, þýsku, sænsku, ensku og hollensku og verið að vinna að þýðingu á frönsku.

-Mörgum finnst þér vera svartsýnn í bókum yðar?
-Það er alltaf sagt að raunsæishöfundar séu svartsýnir. Lífið er ströng barátta, og sögur mínar eru raunsæar. Þegar lífsskilyrði alþjóðar batna verður skáldskapurinn ósjálfrátt bjartsýnni.
-Haldið þér ekki að útlendingar geti fengið of slæmar hugmyndir um Ísland við að lesa bækur yðar?
-Það held ég ekki, vesaldómur almennings er í flestum löndum meiri en á Íslandi, svo það er ekkert nýtt fyrir útlendinga að heyra um fátækt fólk. Annars er fólkið allsstaðar eins, aðeins ofurlítið breytt á yfirborðinu. Þegar maður er búinn að tala dálitla stund við mann frá t.d. Buenos Aires er maður óðar kominn inn á sama umræðu etni og í samtali við fólk hér í Grindavík.
-Viljið þér segja ofurlítið frá þessu ferðalagi, sem þið fóruð í sumar?
Ég hefi skrifað ofurlítið um það annarstaðar, og ég er líka ónýtur að segja ferðasögur. Það koma náttúrlega fyrir ýms atvik á ferðalagi, en þeim hef ég mest gaman af þegar ég er búinn að skrifa um þau í skálsögum, kannski í ofurlítið breyttri mynd.

Krosshús

Krosshús.

-Sumir hneykslast á ýmsu í bók yðar „Ljós heimsins” t.d. 16. kap.
-Það er með bók eins og jólaköku, jólakökur mega ekki vera eintómar rúsínur, en ef engin rúsína er í þeim, er það heldur engin jólakaka.
-Hvernig líst yður á Grindavík?
-Mér líst afar vel á Grindavík. Þar vinn ég betur en víðast hvar annarstaðar, hér skrifaði ég seinni hlutann af „Fuglinn í fjörunni” og „Napóleon Bónaparte” og gerði uppkast að „Ljós heimsins”. Eftir kynningu minni af öðrum íslenskum sjóþorpum, held ég, að Grindavík sé með bestu plássum landsins. Húsin eru rúmgóð og falleg, mættu kannski standa skipulegar. Sjáið þér börnin þama úti á túninu, öll vel klædd með höfuðföt og sko. Þið ættuð að sjá pláss eins og Ólafsvík og Bíldudal og Eskifjörðog víðar þar sem fólk varla hefur eldsneyti til að kynda undir pottinum með.
Vér þökkum herra Laxness fyrir samtalið, óskum honum gleðilegra páska og kveðjum.”

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.05.1982, Í tilefni áttræðisafmælis Halldórs Laxness, bls. 92.

Grindavík 1958

Grindavík (Járngerðarstaðarhverfi) 1958.