Færslur

Hagavíkursel

Hagavík var jörð í Grafningi, hjáleiga frá Ölfusvatni 1706 en þó talið “Gamalt býli”, Skálhotlsjörð. getið í Harðarsögu: “Högni hét maðr [augugr] ok bjó í Hagavík, skammt frá Ölfusvatni”. Jarðarinnar er getið í máldaga Ölfuskirkju sem átti 12 hdr í Ölfusvatni og Hagavík um 1180.

Hagavík

Hagavík – örnefni.

Sunnan Hagavíkur er Bæjarfell. Vestan þess er Leirdalshnúkur. Gata lá upp frá bænum á milli fjallanna um svonefnt Leirdalsskarð. Suðvestan þess er Leirdalur. Dalurinn er gróinn og hefur verið girtur af á einhverjum tíma. Undir girðinguna umleikis hefur verið hrófað upp garði úr mold og gróðri.
Gatan liggur áfram niður að Lómatjörn. Norðaustan hennar eru góðar grasflatir og vestan þeirra, undir hraunbrún Hagavíkurhrauns, er stekkur. Ekki mótar fyrir öðrum mannvirkjum. Þarna hefur að öllum líkindum verið heimasel frá Hagavík um tíma, enda selsstígurinn einungis u.þ.b. 1 1/2 km.

Hagavík

Hagavíkursel – stekkur.

Aðstaðan í þessum ónefnda dal vestan Leirdals og austan Lómatjarnarhálsar er ákjósanleg selstaða; skjól fyrir austanáttinni, nægt beitarland og vatn. Þessarar aðstöðu er reyndar getið í örnefnaskrá, en ekki í fornleifaskráningum af svæðinu.

Guðmann Ólafsson, Skálabrekku í Þingvallasveit, skráði í nóvember 1983 örnefni í og við Hagavík. Hann er fæddur 13. nóvember 1909 og ólst upp í Hagavík frá unga aldri, en 1941 fluttist hann að Skálabrekku.

Hagavík

Hagavíkursel – stekkur.

Þar segir m.a.: “Vestan við bæinn er Bæjarhálsinn. Hann liggur frá norðaustri til suðvesturs, vestan Leirdalsskarðs. Utast á hálsinum er Leirdalshnjúkur. Suðvestur af bænum eru gamlar götur, sem liggja á ská upp hálsinn, kallaðar Snið. Um Sniðið var oft farið áður fyrr. Sunnan Lághrauns eru svonefnd Klungur og ná suður að Hagavíkurvöll síðar) og vestan frá Rauðhólsgjá og austur á móts við (sjá Lómatjarnarháls). Þessi hraun, sem ég hef nefnt hér, eru hluti af Hagavíkurhrauni. Það er mikið stærra og nær frá landamörkum Nesjavallalands austur að Þingvallavatni og Bæjarhálsi, og Hrauntöglin liggja til suðurs milli Bæjarháls og Lómatjarnarháls.

Hagavík

Leirdalur (túnið) sunnan Leirhnúksskarðs.

Vestan í Bæjarhálsinum eru tveir hvammar, Heimrihvammur og Syðrihvammur. Syðrihvammur er vestan undir Leirdalshnjúk. Um Heimrihvamm lágu gamlar ferða-mannagötur upp svonefnda Klyfberabrekku, eftir að hafa farið yfir Hrauntöglin ofarlega. Þessar götur lágu síðan yfir Bæjarháls til suðausturs niður á Hagavíkurflatir við svonefndan Kúadal, sem er lítill hvammur eða kriki vestan við Ferðamannagilið undir Skógarbrekkum. Þessi leið hefur sennilega lagzt niður á fyrstu árum tuttugustu aldar.

Hagavík

Bæjarfell norðan Leirdals.

Sunnan Leirdalsskarðs og Leirdalshnjúks er Leirdalur. Norðaustur af Leirdal gengur Leirdalskriki hátt upp í Sandfell og afmarkar Bæjarfellið frá Sandfelli að nokkru leyti ásamt Sandfellskrika, sem er suðaustan í fellinu, Ölfusvatnsmegin.
Vestan Leirdals eru Stekkjarflatir, sem liggja að Hrauntöglum; þar er gamall stekkur. Á móts við þær, vestan Hrauntagla, er kriki í Lómatjarnarhálsi, sem nefnist Leynir, og eiginlega nær Leynirinn langt norður með hálsinum; þarna leyndust oft kindur í smalamennskum.

Lómatjörn

Lómatjörn í ónefndum dal.

Suður af Hrauntöglum er Lómatjörn. Vestur af Leirdal gengur fram hrygg að Lómatjörn, sem er eins og bak á smádýri. Heitir hann Músarhryggur. Sunnan Músarhryggs og Lómatjarnar eru Krikar. Í Krikum er allstórt undirlendi og brattar skógi vaxnar brekkur í kring. Í Krikum eru fjögur gil. Syðst og vestast er Vestra-Krikagil, austar er Mælifellsgil, sem á upptök sín í Mælifelli; þar er Mælifellsflöt, undir fellsöxlinni. Lítið eitt austar er Löngugrófargil, sem kemur ofan úr Löngugróf. Hún er á milli Sandfells og Mælifells og nær alla leið suður í
Ölfusvatns-gljúfur. Eystra-Krikagilið er austan í Krikum; það á upptök Það ber oft með sér aur og grjót niður á undirlendið, í leysingum. Öll þessi gil eru þurr á sumrin.

Hagavík

Selstígurinn sunnan Leirhnúkaskarðs.

Suður af Krikum eru Hvíthlíðarbekkir. Lómatjarnarháls nær frá Hvíthlíðarbekkjum vestan Krika og alla leið norður að Klungrum. Vestan Lómatjarnarháls er víðáttumikið flatlendi, sem heitir Hagavíkurvellir.

Til er skrá um Örnefni í Ölfusvatns- Hagavíkur- og Krókslöndum, rituð eftir Sæmundi Gíslasyni, fyrrum bónda að Ölfusvatni, af Sveini Benediktssyni 23. júlí 1967. Þeir þá staddir að
Ölfusvatni. Sæmundur Gíslason er fæddur að Ölfusvatni 28. marz 1891 og ólst þar upp. Dvaldist hann þar til fardaga 1944, að hann réðst til Þorgeirs Magnússonar að Villi[n]gavatni
og var þar í tvö ár. Þá fluttist Sæmundur til Hafnarfjarðar. Í þessari lýsingu er hvorki getið um Leirdalinn, túnræktunina, stekkinn undir Hraunkrika í Hagavíkurhrauni, né Lómatjörn.

-Heimildir:
-Örnefnaskrá fyrir Hagavík – Guðmundur Ólafsson.
-Fornleifar í Grafningi – Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir.
– Örnefnaskrá Ölfusvatns, Hagavíkur og Króks. Sveinn Benediktsson skráði eftir Sæmundi Gíslasyni 1967.

Hagavík

Leirdalshnúkur. Leirdalshnúkaskarð t.h.