Færslur

Keilir

Oddur V. Gíslason skrifaði grein er birtist í Sjómannablaðinu Víkingi um “Leiðir og lendingar við Faxaflóa” árið 1949. Hér fjallar hann um leiðina að Suður-Vogum:

Anhellir-221

“Árið 1890 kom út dálítill bæklingur eftir hinn kunna sægarp, séra Odd V. Gíslason á Stað í Grindavík. Bæklingur þessi var leiðarvísir fyrir sunnlenzka sjómenn, og hafði meðal annars að geyma allnákvæma lýsingu á flestum helztu lendingastöðum opinna báta við Faxaflóa. Þar sem ætla má, að ýmsir, einkum sjómenn við Faxaflóa, hafi gaman af að lesa lýsingar þessar eftir nák’unnugan mann, er sá hluti kversins endurprentaður hér á eftir. Það mun fullvíst, að kverið er nú í fárra manna höndum og næsta torgætt orðið.
Þegar leggja skal til lands, verður að gæta að skeri því, er Geldingur heitir (sem flýtur yfir nema um bláfjöru) og liggur út af hinu svonefnda Þóruskeri. Miðin á Gelding eru Keilir um bæinn Stóru-Voga (sem er eina steinhúsið í Vogum nú sem stendur) og Ánhellir (sem er austan við Brekkuskarði í Vogastapa) á að bera vestan til við Hólmahúsin (sem eru undir Stapanum). Til þess að vera að öllu frí við sker þetta, er bezt að halda aðal-þilskipaleið. Þá á hæsti hnúkurinn á suðurendanum á Fagradalsfjalli að bera í Fálkaþúfu (sem er austurendinn á Vogastapa, fyrir austan Reiðskarð, þar sem vegurinn liggur upp á hann). Þessari stefnu á að halda inn þangað til Keilir ber sunnan til við Krúnutótt (þ. e. syðsti bær í Vogum, af byggðum bæjum), úr því má halda beint á Keili, en hvorki norðar né sunnar. — Þessari stefnu má svo halda — sé um opin skip að ræða — þangað til Fálkaþúfa ber í Tangahúsið (Kristjánstangahús, það er eyðihús, fyrir sunnan Vogana). Þá er komið á móts við sker, sem er að norðanverðu við leiðina og nefnt er Stóru-Voga-tangi. (Miðið á honum er Keilir beint um Krúnutótt og Fálkaþúfa um Tangahúsið. — Úr því má halda í austur-landnorður inn í lendingu í Stóru-Vogum.”

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 11. árg. 1949, 1.-2. tbl. bls. 45-46.

Verstöðvar

Verstöðvar á Suðvesturlandi.