Eftirfarandi brot úr frásögn um „Jamestown“ má sjá á vefsíðu Leós M. Jónssonar í Höfnum:
”Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes [Hvalvík] á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því allur seglbúnaður þess og reiði var horfinn.
Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið unnum borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður. Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir.
Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.
Í annálum er þessa strands getið . Í jólablaði tímaritsins Faxa frá árinu 1967 er merkilegt viðtal við Friðrik Gunnlaugsson (þá 95 ára) þar sem hann segir ítarlega frá björgun farmsins úr Jamestown. Ennfremur er að finna frásögn Ólafs Ketilssonar, fyrrum hreppstjóra Hafnahrepps, af þessu strandi í bókinni Sunnlenskir sagnaþættir (sem Gunnar S. Þorleifsson safnaði) en þar segir Ólafur frá strandinu, björgun farms og afdrifum skipsins.
Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 20 m á breidd (til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90-100 m á lengd). Þetta risaskip átti sér talsverða sögu sem ef til vill skýrir orsök þess að það strandaði mannlaust á Suðurnesjum.
Jamestown var með 3 þilför á sama tíma og flest stærri seglskip voru tveggja þilfara. Það var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879.
Skipið Jamestown var yfirgefið úti á rúmsjó þegar eimskipið Ethiopia bjargaði skipverjum. Það var þá undir stjórn Wm. E. Withmore skipstjóra sem er frá borginni Bath. Hinn 10. nóvember lagði skipið Jamestown af stað undir stjórn Withmore skipstjóra með verðmætan farm sem sigla skyldi með til Liverpool.
Scott skipstjóri á eimskipinu Lake Manitoba skýrði frá því að hann hafi farið um borð í Jamestown frá Boston þar sem það var á reki mannlaust og mikið laskað. Hann segir að 17 feta djúpur sjór hafi verið í skipinu sem var hlaðið timbri. Þrátt fyrir skemmdirnar hafi möstrin verið uppi en mikið skemmd, mest af seglabúnaði hafi verið horfið en lítill hluti lafað útfyrir borðstokkinn. Scott segir að þeir hafi gert ítrekaðar tilraunir til að draga skipið en ekki tekist að festa dráttartaug í það og orðið að hætta við.
Eftir að hafa rekið um á Norður-Atlantshafinu mánuðum saman hefur yfirgefið flakið rekið á land á strönd Íslands“.
Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins.
Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Island hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.“
Svo vill til að sumarið 1881 var staddur hér á landi bandarískur sjóliðsforingi og skipstjóri á bandaríska gufuskipinu Alliance sem þá kom til Reykjavíkur, Georg H. Wadleigh að nafni. Hann skýrði svo frá: ,,Skipið Jamestown frá Boston, hlaðið timbri, rak að landi og strandaði þann 26 júní 1881 norðan við Reykjanestá um 30 mílum frá Reykjavík. Hér með greini ég frá öllu því sem ég hef skráð varðandi strand þessa skips og aðstæður. Hafís hefur verið óvenjumikill þennan vetur og náð lengra til suðurs með ströndinni en venjulega. Greinilegt er að áhöfn Jamestown hefur yfirgefið það nokkru fyrir strandið.“
Wadleigh sjóliðsforingi áætlar stærð skipsins um 1200 tonn í skýrslu sinni. Hann getur þess að rannsókn yfirvalda á staðnum hafi leitt í ljós að afturmastrið hafi verið höggvið af niður við dekk og axarför hafi verið sjáanleg á miðmastrinu og greinileg ummerki um að reynt hafi verið að höggva það sundur. Þá hafi allan stýrisbúnað vantað á skipið. Stærstur hluti reiðans hafi hangið út yfir borðstokkinn og illa farinn. Á bógum hafi nafnið Jamestown verið lesanlegt en undir því aðeins mátt greina ,,Boston“.
Á koparplötu yfir káetu hafi staðið nafnið Jamestown og á einni af þremur þilfarsvindum hafi mátt lesa merkingu. Allar lestarlúgur voru opnar, segir Wadleigh, og allt lauslegt horfið að undanskildu úldnu fleskstykki. Hann segist einnig hafa tekið eftir grasvexti á þilfarinu sem bendi til þess að skipið hafi verið lengi á reki. Timbri sem bjargað hafi verið úr skipinu segir Wadleigh að hafi verið skipt þannig að þriðjungur fór til Þeirra sem unnu að björgun þess en 2/3 hlutar hafi verið boðnir upp á staðnum fyrir um 10 þúsund krónur. Ætla má að einungis um helmingur af farmi skipsins hafi bjargast á land, segir Wadleigh í skýrslu sinni og getur einnig um danskan skipstjóra sem segist hafa farið um borð í Jamestown úti á rúmsjó 21. júní 1881 og þá hafi allt lauslegt ásamt mestu af tréskrauti skipsins verið horfið”.
Sjá meira um strandið HÉR.
Leó M. Jónsson:
Upphaflega birtist þessi grein í heild í tímaritinu Skildi nr. 34. 4tbl. 10. árg. 2001. Skjöldur er gefinn út af Útgáfufélaginu Sleipni í Reykjavík. Ritstjóri: Páll Skúlason.
–http://www.leoemm.com/jamestown.htm