Færslur

Leynir

Leynidalir eru í hraunklofa ofan við Þórðarvík mitt á milli Hvaleyrar og Straums. Ofan við víkina er Hellnahraun en við hana vestanverða er (var) Bruninn (Kapelluhraun). Upp með honum lágu landamerki Hvaleyrar, Þorbjarnarstaða og Lambhaga í Hraunum – upp í gegnum Leynidali. Neðanvert í þeim er Hellnahraun, en í þeim ofanverðum er lágbruninn. Línan liggur (lá) upp með Brunahorninu Neðra um þessa dali, í beina stefnu á Grænhól. Þar á millum má enn sjá gamlar merkjavörður. Sú neðsta, Stóravarða, er fast austan við Reykjanesbrautina.

Skjól

Þegar upp á Grænhól var komið lá línan áfram inn á Brunann og í hann austanverðan í Brunatorfum, allt að Efstahöfða á mörkum Straums og Garða.
Handan við Brunahornið-Neðra, ofan og utan þess og Grísaness, voru Grófirnar í landi Hvaleyrar. Þær eru í Hellnahrauninu. Í þeim voru nokkur skjól og sjást a.m.k. tvö þeirra enn. Grófunum verður gerð betur skil hér á eftir.
Í Leynidali lá Leynisstígur yfir Brunann frá Þorbjarnarstöðum ofan við Gerði. Birki óx í dölunum. Fé sótti þangað yfir svo hlaðin voru þar smalaskjól, eitt á klettastandi og annað í hraunsprungu. Til langs tíma mátti sjá hlaðið skjólið á standinum, en fyrir stuttu hefur einhver verktakinn (væntanlega með leyfi hlutaðeigandi yfirvalda) gert sér að leik að brjóta klettastandinn niður sem og skjólið, án sýnlegs tilgangs. Eftir standa í Leynidölum leifar stígsins, markavörðurnar og annað smalaskjólið. Sennilega fær það að vera óskemmt um tíma því erfiðara er að koma auga á það en hitt sem á standinum var.
LandamerkjavarðaÍ örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri segir m.a.: “Þórðarvík, er þar við brunann. Hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun, sem heitir Hvaleyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir, er ganga þaðan inn í hraunið, og heita þeir Leynidalir. Þeir eru innan til við hæsta brunann. Austur af þeim, rétt innan við lága brunann, er hóll, sem nefndur er Grænhóll.”
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: “Norðurtakmörk ofannefndrar jarðar er, samkvæmt máldaga Hvaleyrarkirkju frá 15. öld, norðurbrún Nýjahrauns milli fjalls og fjöru. Af þessari landareign á hver jörð sitt umgirta tún, en utantúns á Þorbjarnarstaðir 3/4 en Stóri-Lambhagi 1/4.“ (Bréfið dags. í Hafnarfirði 1890.)
“Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól.”
VarðaOg þá yfir að Grófunum – handan (norðaustan) við Leynidali. Þær eru einnig geil upp í úfnara hraun (Hellnahraunið yngra) líkt og Leynidalir eru í Brunanum, bara ofar. Niður á Grófirnar kemur Hrauntungustígur. Varða er við stíginn þar sem hann kemur niður af nýrra hrauninu. Önnur varða var áður skammt ofar, á brunabrúninni, en henni var velt um koll þegar núverandi rafmagnslína var lögð. Raskið, sem henni fylgdi, fjarlægði Hrauntungustíg á kafla, en hann kemur aftur í ljós handan við Krýsuvíkurveginn. Þar er steinn á háum steini við stíginn.
Þar sem Hrauntungustígurinn kemur niður til norðurs, niður í Grófirnar, eru skammt utar tvö skjól, Grófarhellir að austan og fjárskjól að vestan. Fyrirhleðslur eru við bæði skjólin. Í því vestara má sjá hvar sléttar hraunhellur standa enn fyrir fyrrverandi þaki. Skjólið er um 12 metra langt, en grunnt og lágt.
VarðaGrófarhellir er hins vegar hið ágætasta skjól enda hafa börn notað það til leikja. Skjólið nýtist vel fyrir austanáttinni (rigningaráttinni). Á veggjum má einnig sjá sléttar hellur fyrir þak. Þegar inn fyrir opið er komið er ágæt rými til beggja handa.
Í örnefnalýsingu fyrir Ás segir m.a.: “Bliksteinsháls og Bliksteinsstígur eru einnig nöfn, sem hér eru viðhöfð. [Landamerkja]Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri er hann nefndur Grófarhellir, en þar mun hafa verið átt við annað skjól í sjálfum Grófunum stutt frá Hrauntungustígnum.
FjárskjólÍ Dalnum liggur Hrauntungustígurinn upp á Hamranes og áfram inn að Stórhöfða þar sem hann beygir til suðurs inn á hraunin, áleiðist upp á Undirhlíðaveg ofan við Hrútagjá.
Þaðan [frá Ási í vestur] liggur aftur á móti Skarðsstígurinn upp í svonefnt Skarð á Ásfjallsöxl vestari. Skarðsvarðan var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða og Hádegisskarð skarðið. Hér um rann féð til beitar suður á Grófirnar, Bláberjahrygg og Vatnshlíðina. Hellishraun, svo var hraunið í Hellisdal einnig nefnt.”
Í fornleifaskráningum, gömlum og nýjum, hefur Leynidölum og Grófunum jafnan verið ruglað saman sem og minjunum, sem í þeim eru. Skárra er þó að vita af vitleysunni s.s. í Grófunum, en vanskráningunni í Leynidölum því þar hafa aðilar komist upp með að ganga að vild á fornleifar sem þar eru (voru). Reyndar hafa fornleifarnar í Grófunum ekki heldur farið varhluta af þeim, sbr. Grísanesskjólið sem og annað “ómerkilegra” fjárskjól, sem var þarna skammt norðvestar. Það fór undir athafnasvæði Sorpu fyrir nokkrum misserum síðan.
GrófarhellirEins og sjá má er enn að finna leifar af gamla bændasamfélaginu inni á milli hraunbrúnanna í næsta nágrenni við þéttbýlið, en segjast verður eins og að ráðamenn virðast bera óvenjulitla virðingu fyrir slíkum leifum þegar á hólminn er komið. Hversu léttvæg sem sérhver fornleif kann að vera er hún jafnan hluti af heildar búskaparsögu svæðis – og ber að varðveita sem slíka.
Annars væri það áhugavert viðfangsefni fyrir einhvern fornleifafræðinema við Háskólann að gera rannsókn og skrifa ritgerð um áreiðanleika fornleifaskráninga. Niðurstaðan myndi án efa þykja áhugaverð.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ás, Hvaleyri, Lambhaga, Straum og Þorbjarnarstaði.

Leynir

Leynir – loftmynd.