Færslur

Leynihver

Haldið var í Hrútargjárdyngjuhraun í leit að Leynihver. Þótt hverinn komi upp úr u.þ.b. 5400 ára gömlu hrauninu hefur nýrra hraun, ca. 2200 ára, runnið yfir það og fyllt með þunnu lagi upp í lægðir og gjár. Upp úr því hrauni gægist augað, sem myndað hefur Leynihver, stakan gufuhver.
KöldunámurVindur blés ljúflega undan sól í suðri svo gengið var af stað heldur norðar en ætlunin var að leita, enda eins gott því hverinn fannst á lyktinni. Erfitt væri að finna hann ella. Hverinn kúrir undir háum apalhraunvegg. Lítil varða er ofan við hveraaugað. Á nokkrum stöðum má sjá gufu streyma upp um lítil op og sumsstaðar má sjá gulan brennisteininn.
Í Landfræðissögu Íslands, bindi II, bls. 84-94, fjallar Þorvaldur Thoroddsen um Gísla Magnússon sýslumann Rangvellinga frá 1659. Gísli var einnig nefndur Vísi-Gísli sökum kunnáttu sinnar. Hann var hinn fyrsti lærði náttúrufræðingur á Íslandi og fór vítt um landið til þess að rannsaka steina og málma. Árið 1647 fékk Gísli á alþingi einkaleyfi til brennisteinsnáms. Á bls. 87-88 í bókinni segir „ Í bréfi dagsettu á Bessastöðum 4. sept. 1619 (það ár getur reyndar ekki staðiðst þar sem Gísli var ekki fæddur fyrr enn 1621, ártalið hlýtur að vera einhverntíma í kringum 1650) ritar Gísli Magnússon Birni syni sínum, er þá var við nám í Kaupmannahöfn, á þessa leið: „Þann brennistein, sem hér er að fá, hefi ég látið upptaka í sumar, sem er fáeinar lestir, svo sem fyrir lítið skip barlestarkorn; ég hefi látið leita í öllum Suðurfjöllum, ég hefi látið leita hjá Keilir og Móhálsum og var þar ei nema á 12 hesta að fá, item hefi ég látið leita á Reykjum í þeim öllum fjöllum, einnig í Henglafjöllum …“

Leynihver

Miðað við lýsinguna hefur Gísli væntanlega sótt brennistein í Hverinn eina neðan við Sogin, undir Núpshlíðarhálsi. Þá gæti hann einnig hafa skoðað Köldunámur í Sveifluhálsi sem og Leynihver í hrauninu þar skammt vestar. Sá hver er á fárra vitorði, en myndar enn brennisteinsútfellingar því jarðhiti er þar meiri en í hinum hverunum tveimur.
Í umsögn Náttúrufræðistofu vegna rannsóknarleyfis fyrir Hitaveitu Suðurnesja í Krýsuvík 2006 er m.a. minnst á Leynihver, sbr.: “Í skýrslu ÍSOR eru nefnd þrjú borsvæði á Krýsuvíkurrein. Austurengjahver, Köldunámur og Hveradalir en einnig er merktur 15 km2 reitur “… ef einhvers staðar innan hans skyldi finnast vinnsluhæfur jarðhiti. Á þessum reit er mestallur jarðhiti í Krýsuvík….” Ekki er ljóst af hverju þessi reitur er tekinn fram, en innan hans eru Austurengjahver og Hveradalir. Ef ætlunin er að hafa “frjálsar hendur” með boranir innan þessa reits verður það að teljast fullkomlega óeðlilegt. Krýsuvík er mjög fjölsóttur ferðamannastaður og svæðið nýtt til útivistar. Ennfremur eru þarna staðir sem eru verndaðir skv. náttúruverndarlögum og nokkrir eru á náttúruminjaskrá.”

Gná yfir Leynihver

Skýrslan er í raun dæmigerð fyrir umsagnaraðila varðandi fyrirhugaðar jarðhitarannsóknir í Krýsuvík. Allt svæðið er lagt undir og væntanlega á litlu sem engu að þyrma þegar upp verður staðið.
Í MBL í september 2007 segir t.d. um fyrirhugaðar rannsóknarboranir: “Hitaveita Suðurnesja hefur átt fund með Skipulagsstofnun þar sem kynnt voru alls sex svæði á Reykjanesskaga þar sem HS fyrirhugar borun rannsóknarholna. Svæðin eru við Trölladyngju, Köldunámur, Austurengjahver, Hveradali í Krísuvík, Sandfell og Eldvörp.” Öll þekkja jú umgengni HS í Sogunum. Og fyrrnefnd umsögn um virkjunarkostina ætti enn að auka áhyggju fólks af því sem koma skal – ef virkjunarsinnar fá einhverju ráðið.
Í skýrslu um jarðhitakosti, Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, hér á landi segir Kristján Sæmundasson m.a. um Leynihver: “Í Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver), en í hlíðinni [Köldunámur] köld jarðhitaskella. Gipsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.”
Köldunámur virðast kólnaðar við fyrstu sýn, en þegar komið er upp í námusvæðið er augljóst að undir niðri kúrir hiti, enda má bæði heyra og finna hann á lyktinni – þrátt fyrir gnauðið í Gná.
Frábært veður gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Kristján Sæmundsson.

Í Leynihver