Ofan við Þingvallaskóga er getið um tvö býli; Litla-Hrauntún og Hrafnabjörg. Litlar sögur fara af býlum þessum er þó er hið síðarnefnda talið miklu mun eldra eða allt frá fyrstu tíð. Ætlunin var að leita að og skoða hið gamla bæjarstæði Litla-Hrauntúns og fornbýlistóftir Hrafnabjarga undir samnefndu fjalli norðaustan Þingvalla. Tóftunum var síðast lýst skömmu eftir aldamótin 1900. Hafa sumir talið að þar hafi hinir sagnakenndu Grímastaðir verið. Aðrir að þær hafi verið undir Grímarsgili mun vestar. Prestastígur liggur yfir hraunið, flestum gleymdur.
Búið var að miða bæjarstæðin út frá gömlum kortum. Svæðið gaf von um ægifagurt útsýn; Ármannsfell, Skjaldbreið og Hrafnabjörg.
Heimildir segja: „Í hraunjaðrinum við Hrafnabjörg er þó á einum stað brunnur af náttúrunni, þ.e. hraunhola með vatni, sem sjaldan þrýtur. Og hjá henni er forn bæjarrúst. Önnur forn bæjarrúst er í hrauninu langt suðvestur frá Kluftum. Þar heitir Litla-Hrauntún. Eigi sér þar vatnsból og eigi er þar heldur túnstæði. Það kæmi nú heim við hinn fyrtalda stað í Harðarsögu (k. 5) að Grímsstaðir, þar sem Grímur litli bjó, hafi verið á öðrum hvorum þessum stað, og þá helzt á bænum við Hrafnabjörg. Og á því máli er Sigurður Vigfússon í Árb. 1880-1, bls. 43.“
Lagt var af stað frá Ármannsfelli skammt neðan undir Stóragili. Ljóst var strax í upphafi að svæðið er gríðarlega víðfeðmt og erfitt til leitar að mjög fornum óljósum minjum.
FERLIR hafði áður leitað upplýsinga um staðsetningar á stöðum þessum hjá viðkomandi staðaryfirvöldum þjóðgarðsins og fengust greið svör frá Einari Á.E.Sæmundsen: „
Hnitin á Litla Hrauntúni sem ég er með hér er: 20° 59´43,139” W-64° 17´44,196” N. Þetta er merkt inn af eldri manni Pétri Jóhannessyni úr Skógarkoti sem setti á loftmynd um 650 örnefni. Þau voru hnituð inn af loftmyndum hans ofan á okkar hnitsetta grunn. Þegar rýnt er í myndina þá er erfitt að greina nokkuð sem gæti bent til fornra rústa. Það eru eitt annað örnefni sem gæti hjálpað ykkur….. Hesthústóft-tjörn (20°57´59,908” W-64°16´54,939”N). Það bendir til einhverrar mannvistar. Í skránni er Hrafnabjörg „eyðibýli”, en búið að fínkemba aftur kortin lögð yfir loftmyndirnar okkar og ég finn það ekki. Það er einsog það hafi gleymst að setja það inn. Mig grunar að þetta örnefni
Hesthústóft geti leitt ykkur áfram en það er næsta í röðinni í skránni. Hann hefur gert þetta eftir minni og kannski munað þau saman ef þau væru nálægt hvort öðru. Hnitin eru í isnet 1993 lambert… Mér finnst þetta sem þið eruð að gera mjög spennandi og lít stundum við á heimasíðuna ykkar. Þetta er vinna sem nýtist okkur mjög vel í framtíðar fornleifaskráningu.“
Ef tekin voru mið af gömlum kortum út frá þekktum kennileitum átti ekki að vera mjög erfitt að staðsetja bæjaleifarnar. Ekki er um langa vegarlengd að ræða frá Ármannsfelli að Hrafnabjörgum, en hafa ber í huga að hraunin þar á millum eru bæði illviljug og höll undir að hylja það sem er þeirra. Og þegar hnitin voru slegin inn á hin ýmsu opinberu landakort, s.s. 1:100.000 og 1:50.000, fengust hinar mismunandi staðsetningar.
Nefndur Pétur merkti örnefnin eftir glöggum loftmyndum, þ.e. númeraði þau inn á myndirnar, en Einar færði þau síðan inn á loftmyndir af svæðinu. Skv. því átti Litla-Hrauntún að vera spölkorn sunnan við sauðfjárveikigirðingu er umlykur Þingvöll. Þegar gengið var á hnitið kom ýmislegt athyglisvert í ljós. Þegar komið var á vettvang var efitt að sjá að þarna gæti hafa verið bæjarstæði, sem þó hefði þá verið það á mjög ákjósanlegum stað. Tóftir, mjög gamlar, virtust vera sunnan undir lágum aflöngum klapparhól. Efst á honum var fallin varða, mosavaxin. Grjótið var þá augljóst. Undir hólnum virtist vera grasi gróin geil inn að honum. Mótaði fyrir veggjum beggja vegna, þó ekki hleðslum. Stafn hefur verið mót suðri. Gata lá framan við. Til beggja hliða virtust vera leifar minja, gerði til vesturs og hús til austurs. Þar virtust geta hafa verið tvískipt tóft. Gaflar sneru mót suðri. Stór varða var neðar í hrauninu, skammt austan við Hrauntúnsbæinn. Vel sást yfir að Þingvallavatni. Hafa ber í huga að landið hefur breyst mikið á umliðnum öldum. Varða var á klapparhól skammt suðvestar. Milli hans og „bæjarstæðisins“ voru grónir hraunbollar, sem vatn gæti hafa safnast saman í. Skammt austar var opin djúp (botnlaus) gjá, en í hana hefði hugsanlega verið hægt að sækja vatn. Allt um kring voru grasbollar og skjól, hin ákjósanlegasta fjárbeit.
Ferðinni var haldið áfram – áleiðis að Hrafnabjörgum.
Fornminjar á Þingvöllum voru friðlýstar árið 1927, og þá sennilega að gefnum tilefnum. Að því tilefni sagði m.a.: „Friðlýsingar fornminjar: Þingvellir. 1. Þingbúðarústir allar og allar aðrar fornleifar og gömul mannvirki á hinum forna alþingisstað, beggja vegna Öxarár. 2. Rústir allar þar sem verið hafa forðum býlin Grímsstaðir, Bárukot, Múlakot, Litla-Hrauntún, Ölkofrastaðir og enn eitt, norðvestan undir Hrafnabjörgum.“ Þingbúðarrústirnar hafa verið merktar, en engar hinna síðarnefndu. Þar á Þingvallanefndin þakklátt starf fyrir höndum.
Á megingjánni millum bæjanna, hlutdeild misgengis meginlandsflekanna, var brú. Vestan hennar voru þrjú forvitnileg prestaörnefni; Prestastígur. Presthóll og Prestahraun. Þar myndi verða ástæða til að staldra við um stund. Í Hlíðargjá mótaði fyrir gamalli götu er lá framhjá áberandi háum og sprungnum klapparhól. Þar gæti verið um að ræða nefndan Presthól, enda átti hann að verða neðan við gjána á þessum slóðum. Prestahraunið er augljóst. Það er nýrra en Þingvallahraunið, sem hefur komið úr Eldborgunum ofan við Hrafnabjörg. Prestahraunið hefur hins vegar komið ofan úr Þjófadölum og er mun yngra. Það myndar rana þarna millum Ármannsfells og Hrafnabjarga og líklega hefur stígurinn legið að hluta yfir ranann á leið sinni í átt að Mjóufellunum þar sem Goðaskarð skilur þau að.
Komið var inn á Bjargarvelli, grasflöt suðvestan við Hrafnabjörg. Þar virtist móta fyrir tóftum. Haft var hins vegar sem mið eftirfarandi:
Í Árbók HIF árið 1904 fjallar Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi um Grímsstaði í Þingallasveit undir yfirskriftinni „Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904“.
„Svo segir í Harðarsögu, 5. k.: -Grímur keypti þá land suðr af Kluftum, er hann kallaði Grímsstaðiok bjó þar síðan-. en í 19. k. segir svo: -Hann (Indriði) fór Jórukleif ok svá til Grímsstaða ok þaðan Botnsheiði ok svá í Botn-. Ef það eru sömu Grímsstaðir, sem talað er um í báðum þessum stöðum, þá er annarhvor staðurinn ónákvæmlega orðaður.
Kluftir (sandkluftir) er milli Ármannsfells og Mjóufjalla. Suður frá Kluftum er skógi vaxin hraun til Hrafnabjarga. en það hraun er vatnslaust og því eigi byggilegt. Í hraunjaðrinum við Hrafnabjörg er þó á einum stað brunnur af náttúrunni, þ.e. hraunhola með vatni, sem sjaldan þrýtur. Og hjá henni er forn bæjarrúst. Hún er að vísu nokkuð óglögg; þó má sjá, að í henni eru 2 miðgaflar, er skifta henni í 3 herbergi, sem hvert um sig er nál. 3 fðm. langt. Hún liggur nál. frá austri til vesturs og hefir vestasta herbergið dyr á vesturenda, en hin sýnast að hafa dyr á suðausturhliðinni. Breiddin á tóftunum er nál. 3 fðm. Við norðurhliðina vottar fyrir annarri tóft, en einnig hefir dyr á vesturenda. Norðanmegin við þær er lítil tóft með dyr mót norðri. Svo sem 20-30 fðm. norðar er sérstök tóft, talsvert minni. Hún er tvískift, og er það glögt, að miðgaflinn er dyralaus. Hefir austurherbergið dyr á suðausturhlið, en hitt á vesturenda. Lengd hvors um sig er nál. 2 1/2 fðm., breiddin um 2 fðm. Þetta gæti vel verið heimahof. Stekkur gæti hún raunar líka verið, en er þó of lítil til þess á þessum stað; því hér verður að gera ráð fyrir mörgu sauðfé; tún hefir ekki verið og þá ekki heldur kýr.
Önnur forn bæjarrúst er í hrauninu langt suðvestur frá Kluftum. Þar heitir Litla-Hrauntún. Eigi sér þar vatnsból og eigi er þar heldur túnstæði. Það kæmi nú heim við hinn fyrtalda stað í Harðarsögu (k. 5) að Grímsstaðir, þar sem Grímur litli bjó, hafi verið á öðrum hvorum þessum stað, og þá helzt á bænum við Hrafnabjörg. Og á því máli er Sigurður Vigfússon í Árb. 1880-1, bls. 43.
En svo er annað fornbýli, kallað Grímastaðir, milli Brúsastaða og Svartagils. Hjá henni er gil sem heitir Grímagil. Um þetta getur S.V. í sömu Árb., bls. 98, og ætlar þá, að hér hafi Grímsstaðir raunar verið, því það kemur vel heim við síðartalda staðinn í Harðarsögu (k. 19.). Botnsheiði, sem þar er nefnd, hlýtur að vera sú leið, sem nú er kölluð Leggjabrjótur. Þá er á hana er lagt úr Þingvallasveit, liggur mjög svo beint við að fara hjá Grímagili. Rúst Grímastaða er vestanmegin lækjarins (-austanmegin- er víst prentvilla í Árb. 1880-1, bls. 98). Hún er svo niður sokkin, að mestu gætni þarf til að sjá hana, og hún virðist hafa verið mjög lítil. Hún liggur austur og vestur, hefir dyr á suðurhlið og miðgafl vestan við þær með dyrum við útidyrnar. Vestur-herbergið er 3 fðm. langt, hott aðeins 1 1/2 fðm. Breiddin er 2 fðm. Þó má vera að austurherbergið hafi verið lengra, því endinn er óglöggur, og litlu austar sér á hleðslusteina í flagrotu. Þar skamt frá sér aðra, óglöggva tóft, mjög litla. Önnur forn mannvirki sjást þar ekki.
Nú er spurnsmál hvort meira gildir; að þessi rúst er svo nálægt Botnsheiðar- (nú Leggjarbrjóts-) veginum, eða Hrafnabjargarrústin…..“
Hér virðist vera um tvennst konar misskráningu að ræða. Líklega hefur skráningaraðilinn ekki farið að hugsanlegum tóftum Litla-Hrauntúns. Í öðru lagi virtist, við fyrstu skoðun, ekki vera um að ræða tófti á eða við hraunbrúnina tilnefndu. Að vísu má gera sér í hugarlund „tóftir“ undir hraunbrúninni á einum stað, en það hugmyndarflug virðist fjarrænt. Hafa ber þó í huga að margt hefur breyst þarna á einni öld. Norðvestan við Hrafnabjörg eru uppblásnar grassléttur í hrauninu, sem áhuagverðar eru til enn frekari skoðunar. Þá má telja líklegt að bær á þessum slóðum hafi verið mun neðar og suðvestar í hraunbrúninni er ætlað hefur verið. Hafa ber í huga að í Þingvallahrauni, allt upp undir Skjaldbreið, hafa verið sagnir um bæjarleifar frá fornri tíð og að svæðið hafi verið “ í miðri sveit“.
Hrafnabjörg sem slík er merkilegt náttúrufyrirbæri. Ekki er vitað hvort skrifað hafi verið um fjallið, sem ekki er ólíkt Herðubreið; drottningu fjallanna. Hrafnabjörg hafa orðið til við eldgos undir jökli, líklega á síðtíma jökulskeiðsins fyrir u.þ.b. 12.000 árum. Af ummerkjum að dæma virðist fyrst hafa gosið lóðrétt, en eftir því sem leið á gosið hefur hraun náð að renna til hliðanna eftst undir jökulhettunni. Áður en gosinu lauk náði það að bræða efsta lag jökulsins og hraun komst upp á yfirborðið. Eina gosrás út frá meginrásinni má t.d. sjá ofarlega í miðju fjallinu.
Undir vestanverðum Hrafnabjörgum er mikil kyrrð og ró, þrátt fyrir angurværan fuglasögninn. Þrastar-, lóu- og hrossagauks voru hvarvetna á gönguleiðinni. Fýll verpir og í bjargbrúnunum og hrafninn virðist enn halda tryggð við nafngiftina.
Svæðið er langt í frá fullkannað. Gengnir voru 16 km að þessu sinni og eflaust á eftir að ganga þá miklu mun fleiri áður en leyndardómur Hrafnabjargabæjarins verður afhjúpaður.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimild:
-Brynjúlfur Jónsson, Grímsstaðir í Þingvallasveit, Árbók hins íslenska forleifafélags 1905, bls. 44-47.
–Árb. 1880-1881: 22, 98. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.
-Sbr. Árb 1921-1922: 1-107.
-Einar Á.E. Sæmundsen, upplýsingafulltrúi Þingvöllum.