Litla-Kaffistofan neðan Draugahlíðar í Svínahrauni hefur löngum verið áningastaður ferðamanna. Hér verður drepið á ýmist er varpað getur ljósi á skammvæna sögu og tilgang þessa ágætis. Helgarpósturinn árið 1985 segir m.a. frá kaffistofunni undir fyrirsögninni „Byrjaði nýtt líf í hrauninu„:
„Í Svínahrauni ofan við Sandskeið stendur yfirlœtislítið hús, margsinnis kaghýtt og barið í vetrarstormum og frosthörkum og jafnoft steikt í sumarsól eða baðað í steypiregni árstíðanna. Litla kaffistofan lœtur ekki mikið yfir sér. Hún hefur ekki gert sér tíðförult í sjónvarpsauglýsingarnar eða blöðin og margir þeir sem bruna í bílum sínum austur eða suður yfir Heiði gefa sér ekki tíma til að staðnœmast og líta inn. Samt er það einmitt í Litlu-Kaffistofunni sem menn geta fengið kaffi, kleinur og flatbrauð upp á gamlan og góðan máta — og látið líða úr sér ferðaþreytu ellegar notið um stund návígis við þá hrikalegu náttúru sem blasir við til allra átta.
Litla kaffistofan í Svínahrauni er um aldarfjórðungs gömul. Lengstum hefur hún verið þjónustustofnun fyrir sumarferðamenn, það hefur verið kynnt undir kaffinu og byrjað að steikja kleinur um svipað leyti og krían lendir á fósturjörðinni. En um skeið hafa nýir eigendur starfrækt áningarstaðinn árið um kring — þarna í Svínahrauninu miðju býr nú lítil fjölskylda og heldur opnu frá því í rauða bítið fram á síðkvöld, afgreiðir bensín og olíur til langferðamanna, býður uppá heitan sopa og gamaldags, íslenskt meðlæti. Litla-Kaffistofan er enginn grillbar uppá amerísku — kannski eina veitingastofan við Hringveginn sem býður tíðinni byrginn og heldur sínu striki.
Annríkið útrýmir einmanakenndinni
Kristbjörg Kristinsdóttir á og starfrækir Litlu-Kaffistofuna. Hún tók við rekstrinum af fyrri eigendum í september 1983, hreiðraði um sig í herbergjunum á bak við eldhúsið og veitingasalinn og bauð svo vegfarendur velkomna. Kristbjörg var í senn að byrja nýtt og óvenjulegt líf, fráskilin kona, fjögurra barna móðir austan af Seyðisfirði, komin í miðja hraunbreiðuna utan við höfuðborgina til þess að duga eða drepast.
„Fyrsta veturinn var ég hér ein með litlu stelpuna mína, hana Ásdísi. Það var vissulega harður, erfiður vetur. Ásdís var átta ára og fór með rútunni í skólann í Hveragerði á hverjum morgni, kom svo heim á kvöldin. Nei — ég fann ekki fyrir einmanakennd. Ætli annríkið hafi ekki komið í veg fyrir hana. Litla-Kaffistofan hefur jafnan verið mikið sótt af bílstjórum langferða- eða flutningabíla. Þeir vilja gjarna líta hér við, fá kaffi og flatköku með hangikjöti — og stundum hef ég eitthvað heitt handa þeim. Ég á orðið marga vini úr hópi bílstjóranna. Við sitjum stundum hér og skröfum. Það hlýtur að vera einmanalegt starf að aka stórum bíl um langan veg, stundum hafa þeir greinilega þörf fyrir að tala…“.
Í Tímanum árið 1990 er umfjöllun Agnars Óskarssonar; „Kleinukot leitar eftir ríkisstyrk sem athvarf fyrir hrakta ferðamenn„:
„Það fór aldrei svo að umræðuefni Þjóðarsálarinnar á Rás 2 snerist ekki um salerni, en svo gerðist einmitt nú í vikunni. Ástæða þess var sú að hneyksluðum ferðalangi, sem leggur leið sína yfir Hellisheiði á hverjum degi, þótti ansi hart að þurfa að eiga viðskipti við Litlu-kaffistofuna, eða Kleinukot eins og kaffistofan er oft kölluð, til að fá að nota salernið. Ástæða þessarar óskar eigenda Litlu-Kaffistofunnar er sú að þeir þurfa að flytja vatnið á staðinn frá Reykjavík, og það ekki minna en sjö til átta tonn á viku þegar mest er.
Að sögn Kristján Kristinssonar, eiganda Litlu kaffistofunnar, kostar það hann 1,50 að flytja hvern lítra vatns að kaffistofunni.
Tíminn aflaði sér upplýsinga um hversu mikið vatn færi í eina „niðurhalningu“ á hefðbundnu salemi og reyndust það vera níu til ellefu lítrar í hvert skipti sem sturtað var niður. Kostar því hver klósettferð eiganda Litlu-Kaffistofunnar í það minnsta 15 krónur, ef miðað er við tíu lítra vatnskassa. Síðan má bæta við kostnaði vegna pappírsnotkunar og vatnsrennslis í handlauginni, því vert er að gera ráð fyrir að fólk þvoi sér enn um hendur að lokinni salemisferð.
Hann sagði misjafnt hversu mikil vatnsnotkunin væri, en hún er heldur meiri yfir sumartímann. Kristján tók upp á því nú um áramót að setja upp orðsendingu þess efnis að salernin væru eingöngu ætluð viðskiptavinum. Aðspurður hvers vegna, sagði hann að það hafi verið farið að ganga fram af honum hvernig straumur var á salernin og kostnaðurinn því samfara. Þá var umgangurinn hreint ótrúlegur oft á tíðum, en nú eftir að hann hefur salernin fyrir viðskiptavini, þá hefur umgengnin breyst mikið til batnaðar.. „Þetta er orðin spurningin um það þegar fólk kemur hingað inn, fer á salernið og út aftur, hvers vegna á ég að vera að borga kostnað fyrir fólkið, eða réttara sagt hvers vegna á ég að vera að borga fólki fyrir að gera þarfir sínar,“ sagði Kristján.
Hvernig varð þér við þegar umræðan fór fram í Þjóðarsálinni? „Hún varð mér að mörgu leyti mikill léttir. Fólk gagnrýnir oft án þess að vita hlutina. Menn hafa komið og beðið um vatn á bílana. Þegar maður segir að það þurfi að borga fyrir það, þar sem ég þarf að flytja það úr bænum, þá reka menn oft upp stór augu og jafhvel rífa kjaft,“ sagði Kristján.
En viti menn, Tíminn hafði ekki staldrað við á Litlu-Kaffistofunni nema í um 15 mínútur, einn morguninn nú í vikunni, er inn vatt sér ungur maður, er fest hafði bílinn sinn í einu fyrirstöðunni sem var á bílastæðinu við kaffistofuna og óskaði hann eftir smáaðstoð. Við því var orðið eins og góðum þegnum sæmir og bílnum ýtt úr „skaflinum“. Síðan var gengið inn og spjallinu haldið áfram við Kristján. Ekki var liðin nema mínúta, er sami maður kom inn á nýjan leik, gekk rakleiðis að salerninu, vatt sér inn og lokaði. Kom hann út skömmu síðar og hélt á braut. Það leyndi sér ekki undrunin hjá Kristjáni og Tímamönnum, enda þakkaði maðurinn ekki einu sinni fyrir sig.
Almenningur gerir sér ef til vill ekki grein fyrir gildi þess að hafa áningarstaði sem Litla-Kaffistofan er við fjölförnustu þjóðvegi landsins. Þess er skemmst að minnast að fyrir skömmu þurfti fjöldi fólks að dveljast yfir nótt í Staðarskála í Hrútafirði, þar sem vegir í nágrenninu voru með öllu ófærir og Litla-Kaffistofan í Svínahrauni og eigendur hennar hafa oft komið ferðalöngum sem leið hafa átt um Hellisheiði til hjálpar. Kristján Kristinsson sagði að flestir væru sammála um að áningastaðir, eins og Litla-Kaffistofan er, hefðu mikið gildi. „Þegar það er brjálað veður og bílinn festist þá labbar maður ekki 20 kílómetra til byggða,“ sagði Kristján. Hann sagði það oftsinnis hafa komið fyrir að fólk væri veðurteppt hjá honum í lengri eða skemmri tíma. „Það er raunar sérkennilegt að segja frá því, ekki lengra frá höfuðborginni, að það er þó nokkuð algengt að fólk komi hingað til að hringja á aðstoð eða til að fá hér aðstoð,“ sagði Kristján. Hann hefur nú sótt um ríkisstyrk, vegna þess öryggis sem Kleinukot veitir ferðalöngum sem leggja á Hellisheiði yfir vetrartímann. Kristján sagðist hins vegar ekkert hafa heyrt af gangi þeirra mála og tíminn yrði að leiða í ljós hvað út úr því kæmi. Um styrkinn er sótt til deildar innan Vegagerðar ríkisins. Ef þú fengir slíkan styrk væri ekki þá sú kvöð á þér að vera alltaf tiltækur?
„Jú, jú. Ég er alltaf á staðnum og ef fólk lendir í hrakningum, þá bankar það upp á hvort sem er á nóttu eða degi,“ sagði Kristján.
Virðir fólk það við þig að þú hafir þessa þjónustu, hvort sem er að nóttu eða degi?
„Það er misjafnt. Ég hef verið ræstur upp af því að fólk hefur verið orðið bensínlaust. Eg gat nú ekki annað en glott einu sinni, þá bað maður mig um bensín fyrir hundrað krónur til að komast í bæinn. Það er þá orðið heldur lítið sem maður hefur fyrir það að vakna upp,“ sagði Kristján.
Hefurðu hugleitt að leggja vatnsleiðslu hingað eða bora eftir vatni?
„Það yrði svo rosalega löng lögn og dýrt. Möguleiki væri að fá að nýta borholur í Hveradölum, en lagnirnar þyrfti að einangra og leggja alla þessa leið. Upphæðirnar eru orðnar ævinrýralega háar. Eg hef líka verið að spá í að bora hér fyrir utan. Hraunhellan er um 40 metra þykk, en spurningin er hvar er vatnið. Það liggur á einhvers staðar undir hellunni, en menn vita ekkert hvar hún er,“ sagði Kristján.
Vatnið er ekki eina vandamálið sem Kristján þarf að glíma við. Hann þarf einnig að sjá um að losa sig við allt rusl sem til fellur, bæði frá honum og þeim sem leið eiga framhjá. Hann sagðist margsinnis hafa óskað eftir að þetta yrði gert, en aldrei hafi verið orðið við því. „Það er mjög vinsælt af ferðafólki að koma hér við og tæma bílana af rusli, áður en farið er í bæinn,“ sagði Kristján. Litla-Kaffistofan tilheyrir Ölfusinu. Finnst þér að sveitarfélagið eða ríkið ætti að koma til móts við þig?
„Mér þætti það ekkert óeðlilegt. Það eru staðir styrktir víða um land, sem ekki einu sinni eru opnir yfir allan vetrartímann. Mér þætti það ekkert óeðlilegt enda er þetta líklega með fjölförnustu fjallvegum á Íslandi,“ sagði Kristján.
Kristján sagði að fólk væri oft ótrúlega skammsýnt í vondum veðrum. Sagði hann frá dæmi þessa efnis sem átti sér stað í vetur þegar björgunarsveitir voru kallaðar út og rútur stoppaðar af fyrir utan kaffistofuna. Ökumenn fólksbílanna gerðu hins vegar sitt til að reyna að komast áfram, þrátt fyrir fortölur bæði björgunarsveitarmanna og bílstjóra rútubílanna.
Fjöldi fólks notar svæðið í kringum Litlu kaffistofuna sem áningar- og útivistarsvæði, enda kjörið gönguskíðaland þar í nágrenninu. Gegnt kaffistofunni eru einnig haldnar vélsleða- og torfærukeppnir. Kristján sagði um leið og hann horfði út um gluggann og brosti, að fyrsta torfærukeppnin yrði líklega í kringum 13. maí.
Aðspurður sagðist Kristján ekki vera viss um hversu lengi hann hygðist vera með kaffistofuna. „Það er mun betra að vera hér, en í bænum,“ sagði Kristján.
Hvað er svona gott við þetta? „Það er góður andi hér. Draugahlíðin rétt hjá,“ sagði Kristján.
Aðspurður hvort hann hafi orðið var við draugana sagði hann svo ekki vera. „Það eru margir hér á sveimi, en það er allt gott.
Kaffistofan væri líklega búin að fuðra upp oftar en hún hefur gert ef þeir væru ekki á sveimi hér í nágrenninu,“ sagði Kristján.“
Í Blaðinu árið 2006 segir frá „Vinsælasta áfangastaðnum við hringveginn„:
„Litla kaffistofan býður upp á heimalagað bakkelsi og miðlar upplýsingum til vöruflutningabílstjóra. Til okkar koma bílstjórar sem eru að leggja upp í langferð eða eru að klára langar ferðir,“ segir Stefán Þormar, staðarhaldari á Litlu kaffistofunni.
„Litla-Kaffistofan er elsti áningarstaðurinn við hringveginn og hjá okkur koma bílstjórar og bera saman bækur sínar. Yfir vetrarmánuðina er rætt um veðrið og færð á vegum þannig að það má segja að Litla-Kaffistofan gegni hlutverki upplýsingamiðstöðvar um veður en hjá okkur er aldrei lokað vegna veðurs. Svo er auðvitað spjallað um pólitíkina, landsmálin og í raun allt milli himins og jarðar.“
Stefán rekur Litlu kaffistofuna ásamt fjölskyldu sinni og skipta þau löngum opnunartíma á milli sín.
„Við opnum kaffistofuna klukkan sex á morgnana og þá þarf að vera búið að gera allt klárt,“ segir Stefán og bætir við að heimabakað brauð sé á boðstólum alla daga.
„Síðan erum við stundum með pönnukökur og annað bakkelsi sem alltaf er vel þegið. Þess má einnig geta að þeir sem taka bensín á Litlu-Kaffistofunni fá frítt kaffi.“
Stefán er búinn að reka Litlu-Kaffistofuna í fjórtán ár og segir flesta vöruflutningabílstjóra hafa verið karlmenn á þeim tíma. „Þetta er þó að breytast og nú koma stundum blómarósir sem vinna við akstur flutningabíla. Við Litlu-Kaffistofuna stoppa flutningabílstjórar, vörubílstjórar, bílstjórar af malbikunarbílum og mjólkurbílum svo það má segja að það komi öll flóran til okkar. Það kemur líka fyrir að sjúkraflutningamenn reki inn nefið í lok vinnudags en þá vonar maður að engin alvarleg slys hafi orðið.“
Mikil umferðaraukning Stefán reiknar með að umferðaraukning hafi orðið um 20-30% á hringveginum á síðustu fimm til sex árum. „Fólk er meira á ferðinni núna og það kemur fyrir að sumarbústaðaeigendur líti við til að heyra nýjustu kjaftasögurnar.“
Hvað gera vörubílstjórar á langkeyrslum?
„Mér heyrist á tali þeirra að síminn sé vinsæll enda handhægt að tala í síma eftir að handfrjáls búnaður leit dagsins ljós. Þeir hlusta líka mikið á útvarp. Á Litlu-Kaffistofuna koma öll dagblöð og ekki óalgegnt að vöruflutningabílstjórar grípi þau með sér til að lesa á næsta áningarstað og til að vera viðræðuhæfir um það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Yfirleitt eru menn einirí bílunum en ungir menn taka kærustuna stundum með sér.“
Stefán segir það góða tilbreytingu fyrir vöruflutningabílstjóra að setjast inn í kaffi og spjall eftir að hafa verið einir í bílum allan daginn.
„Vöruflutningabílstjórar eiga sinn hvíldartíma eins og aðrir og finnst gott að sýna sig og sjá aðra í matar- og kaffitímum.“
Litla kaffistofan hefur tvívegis verið kosin vinsælasti áningarstaðurinn við hringveginn og segir Stefán mikilvægast að hafa viðskiptavinina ánægða. „Það er líka gaman frá því að segja að vörubílstjórar sem hafa hætt störfum sökum aldurs halda áfram að koma til okkar svo það má segja að við höldum viðskiptavinum okkar þar til þeir fara yfir móðuna miklu,“ segir Stefán og hlær.“
Í Dagblaðinu Vísi árið 2007 segir; „Vill tryggja framtíð Litlu-Kaffistofunnar„:
„Stefán Þormar segir tvöföldun Suðurlandsvegar mikið ánægjuefni: Vill tryggja framtíð Litlu kaffistofunnar.
Þetta er vissulega mikið gleðiefni að því gefnu að við fáum akrein inn til okkar. Ef við fáum það ekki verðum við eins og Palli sem var einn í heiminum,“ segir Stefán Þormar Guðmundsson, sem rekur Litlu-Kaffistofuna á Suðurlandsvegi.
Í síðustu viku tilkynnti Kristján L. Möller samgönguráðherra að ákveðið hefði verið að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar. Þetta sagði hann á fundi með fulltrúum frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Enn eru þó nokkrir lausir endar varðandi tvöföldunina, eins og hvort framkvæmdin verður einkaframkvæmd eða borguð að fullu af ríkinu. Auk þess á eftir að koma fram hversu langur tími er áætlaður í tvöföldunina og hvort hún verður gerð í áföngum.
Stefán segir að Litla-Kaffistofan hafi sannað ágæti sitt á undanförnum árum. „Það er einnig mikið öryggi fólgið í því að hafa verslunina á Suðurlandsveginum þar sem umferð eykst sífellt. Við vonum að þeir gangi frá því þannig að það verði svoleiðis áfram. Ég hef í raun enga trú á öðru en að þeir geri það,“ segir Stefán en Litla-Kaffistofan hefur verið starfrækt frá árinu 1960 og hefur Stefán haldið utan um reksturinn í fimmtán ár.“
Olís er eigandi Litlu kaffistofunnar
Stefán segir að margir leiti á náðir Litlu-Kaffistofunnar á veturna þegar vond veður geisa á Hellisheiðinni.
Hann segir að skjótt skipist veður í lofti á heiðinni og þegar verstu veðrin gangi yfir geti menn lagt bílum sínum á svæðinu við Litlu-Kaffistofuna. Því sé mikilvægt að halda fráreininni að henni opinni. „Þetta er sá hlutur sem lýtur að okkur en tvöföldunin sjálf er mikið ánægjuefni og í raun löngu kominn tími á hana.“
Á vefsíðunni sudurlandsvegur.is sem stofnuð var í kjölfar hörmulegs slyss sem varð þann 2. desember í fyrra, segir að 52 hafi týnt lífi í umferðarslysum á veginum frá árinu 1972. Auk þess hafi hundruð manna hlotið varanlega örorku.“
Í Morgunblaðinu árið 2016 segir; „Kaffispjall í éljagangi„:
„Nýtt í Litlu-kaffistofunni – Mikilvægur viðkomustaður í Svínahrauninu – Skemmtileg samskipti við alls konar fólk.
„Mér finnst við hafa reynt á fyrsta ófærðardegi vetrarins nú á mánudaginn þegar loka þurfti leiðinni milli Rauðavatns og Kamba í rúmlega klukkustund, að þessi staður skiptir máli. Þeir sem þó voru á ferðinni stoppuðu gjarnan hér og biðu af sér svart élið. Svo birti til og þá gat fólkið haldið áfram eftir að hafa setið hér í kaffi og spjalli,“ segir Svanur Gunnarsson, staðarhaldari í Litlu-Kaffistofunni í Svínahrauni. Það var 1. nóvember sem Svanur og kona hans, Katrín Hjálmarsdóttir, tóku við rekstri þessa fjölsótta veitingastaðar; vegasjoppu sem skiptir miklu máli í vitund margra.
Kjötsúpa og heimabakað
Það var kaffiilmur í loftinu og nýtt heimabakað brauð með laxi og eggjum í kælinum þegar Morgunblaðið leit við í Litlu-Kaffistofunni og heilsaði upp á vertana nýju sem búa í Þorlákshöfn. „Þetta kemur vel út, við erum ekki nema 20 mínútur að heiman og hingað,“ segir Svanur.
Þau Svanur og Katrín koma á staðinn um klukkan sex á morgnana og og opna fyrir gestum og gangandi hálftíma síðar. „Það var frábært að fá þetta tækifæri og að vera valinn úr þeim stóra hópi sem sótti um að taka staðinn á leigu af Olís,“ segir Katrín. „Við rákum á sínum tíma sjoppur bæði á Selfossi og Stokkseyri en Litla-Kaffistofan er allt öðruvísi dæmi. Hér kemur fólk til þess að fá sér hressingu og teygja aðeins úr sér. Flutningabílstjórarnir stoppa hér oft, snjóruðningskarlarnir koma í kaffi eldsnemma á morgnana og kjötsúpu í hádeginu og fólk að austan sem sækir vinnu til Reykjavíkur eða öfugt tekur hér kaffibollann – og jafnvel ábót í pappamáli. Og það sem gefur þessu öllu gildi eru samskiptin við alls konar fólk; fjölbreyttan hóp.“
Traffíkin í gusum
Sem mikilvægur viðkomustaður er Litla-Kaffistofan opin 362 daga á ári; aðeins er lokað á jóladag og annan í jólum og nýársdag. Afgreiðslutíminn er líka langur – það er frá því í rauðabítið og fram undir kvöldmat – en lengra fram á kvöldið til dæmis ef eitthvað er að færð. Viðvera vertanna er því mikil og frídagarnir ekki margir.
„Auðvitað er þetta okkar val. Við vissum vel að þessu hlutverki fylgdi mikil vinna og það nánast alla daga. Annars kemur traffíkin svolítið í gusum. Það er talsverður gestagangur snemma á mognana og í hádeginu – en hitt er lausatraffík. Síðdegis dettur þetta svo niður. Hér erum við með heimilismat í hádeginu en eftir áramót ætlum við að bjóða upp á rétti af matseðli og athuga með lengri opnunartíma. Fyrir nýtt fólk tekur alltaf svolítinn tíma að ávinna sér fastakúnna en við erum afar bjartsýn á framhaldið hér,“ segir Katrín að síðustu.“
Í Dagblaðinu Vísi árið 2008 segir; „Litla Kaffistofan fyrir tvöföldun„:
„Litla-Kaffistofan stendur í vegi fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar sökum þess að hún er nánast á miðri akrein sem bætt verður við. Því þarf að öllum líkindum að færa hana töluverða vegalengd. Stefán Þormar Guðmundsson, eigandi Litlu-Kaffistofunnar hefur lagt fram eigin hugmynd sem felst í því að hún verði hreinlega á milli akreina og haldist í upprunalegri mynd.
„Kaffistofan hefur verið öryggisatriði alla sína lífstíð. Þegar veður eru válynd hefur hún sannað hlutverk sitt, segir Stefán.“
Á visir.is árið 2020 segir: „Hættir rekstri Litlu kaffistofunnar en vonar að fótboltasafnið verði áfram„.
„Stefán Þormar Guðmundsson lætur brátt af störfum en hann hefur rekið einn þekktasta áningarstað landsins í 24 ár. Stefán Þormar, sem rekið hefur Litlu kaffistofuna á Suðurlandsvegi í nærri aldarfjórðung, lætur brátt af störfum. Auglýst er eftir rekstraraðila á kaffistofunni í Fréttablaði dagsins í dag.
„Ég verð sjötugur á þessu ári og þá fer maður að verða vígmóður,“ segir Stefán. „Ég er búinn að vera þarna síðan 1992, svo það er dágóður tími. Maður verður að fara að leggja árar í bát.“
Litla kaffistofan er, líkt og segir í auglýsingunni í Fréttablaðinu, einn þekktasti áningarstaðurinn við þjóðveg eitt og hefur verið rekin frá því í júní 1960. Stefán kveðst ánægður með reksturinn undanfarin ár og segir að staðurinn eigi gott gengi framundan ef rétt er haldið á spilunum. Stefán Þormar hefur staðið vaktina á Litlu kaffistofunni frá árinu 1992.
„Þetta hefur ótrúlega drjúgt, það er auðvitað fyrst og fremst viðskiptavinunum að þakka sem stoppa hér,“ segir hann. „Ég held að það sé ekkert karlagrobb í okkur að segja að þetta er orðin vel þekkt kaffistofa. Góður áningastaður og hefur oft verið björgunarskýli, þó að björgunarsveitirnar séu búnar að taka það af okkur núna.“
Allir sem litið hafa við á Litlu kaffistofunni undanfarin ár kannast við stórskemmtilega knattspyrnumyndasafnið sem Stefán hefur komið þar upp. Blaðamaður getur hreinlega ekki annað en spurt Stefán, hvað verður um það þegar hann hættir?
„Já, það er gott að þú komst inn á þetta,“ segir Stefán. „Það eru mínar mestu áhyggjur.“
Guðjón Guðmundsson íþróttafréttamaður heimsótti Litlu kaffistofuna árið 2014 og fékk að skoða safnið.
Stefán hefur klippt knattspyrnumyndir úr dagblöðum frá því að hann var tíu ára en síðan hefur bæst vel í safnið úr öllum áttum. Hann er á þeirri skoðun að safnið eigi að fá að vera áfram uppi á vegg.
„Ég get nú ekki farið með þetta í gröfina með mér. Ég bara trúi ekki öðru en að hér komi aðilar sem sýni því skilning að þetta á að vera hér uppi á vegg, þó ég ætli ekki að hafa neina skoðun á því. Þetta á ekki að fara inn á KSÍ eða skrifstofur einhversstaðar þar sem fáir sjá því þetta er alveg ótrúlegt aðdráttarafl sem við höfum notið góðs af. Þannig ég vona að það líði ekki undir lok.“
Heimildir:
-Helgarpósturinn, 26. tbl. 27.06.1985, Byrjaði nýtt líf í hrauninu, bls. 10-11.
-Tíminn, 81. tbl. 27.04.1990, Kleinukot leitar eftir ríkisstyrk sem athvarf fyrir hrakta ferðamenn – Agnar Óskarsson, bls. 8-9.
-Blaðið 08.02.2006, Vinsælasti áfangastaðurinn við hringveginn, bls. 19.
-Dagblaðið Vísir, 131. tbl. 27.08. 2007, Vill tryggja framtíð Litlu-Kaffistofunnar, bls. 3.
-Morgunblaðið, 300. tbl. 23.12.2016, Kaffispjall í éljagangi, bls. 10.
-Dagblaðið Vísir, 89. tbl. 20.05.2008, Litla Kaffistoafn fyrir tvöföldun, bls. 7.
-https://www.visir.is/g/202079977d