Færslur

Kaldranasel

Ætlunin var að brjótast gegn verði og vindum, yfir flóð í Seltúnslæk og sandbleytur Nýjalands um Rifið inn í Litla-Nýjabæjarhvamm. Þar er skv. gamalli örnefnalýsingu tóftir sels, sem taldar eru vera frá bænum Kaldrana, elsta bænum í Krýsuvík. Hvammaháls er vestar og svo Hvammar. Ætlunin var að skoða tóftirnar, sem legið hafa í þagnargildi um aldir.

Seltóft

Svæðið sunnan Kleifarvatns var nefnt Nýjaland. “Að austan takmarkast það af Rifinu, lágu sandrifi, sem þó fór ekki í kaf er flæddi. Við syðri hluta Rifsins var Refanes. Suður og upp frá Nýjalandi voru svo Hvammarnir, Stórihvammur með Laugina öðru nafni Hvammalaug og Hvammagil. Hér í hvamminum hafa skátar frá Hafnarfirði byggt sér Skátaskála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Selgil kemur ofan úr Selásum eða Selhæðum og Selgilslækur nefnist hann. Frá Stórahvammi liggur Hvammholt niður á Rifið. Eftir Rifinu liggur akvegur með vatninu, neðan Hvamma út á svo nefndan Geithöfða suður af honum og inn með vatninu.” Framangreint er úr örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík, skráð af Gísla Sigurðssyni.
TóftÞegar til átti að koma var brostin á bongóblíða á svæðinu, logn og hiti. Byrjað var á því að skoða Litla-Nýjabæjarhvamm. Neðst í hvamminum eru “hnakkageymslur” félagsmanna hestamannafélagsins Sörla. Seltóftin átti að vera upp með hlíð þar sem lækur kemur niður úr gilinu ofan Hvammsins.  Búið er að raska þarna töluverðu og erfitt að sjá hvað hefur verið hvað. Gilið er fallegt upp að líta. Það var rakið upp til enda og síðan beygt til norðurs yfir Hvammaháls. Þegar komið var niður í Hvammana gat verið að finna tóftir á a.m.k. tveimur stöðum. Nyrðri tóftin var áhugaverðari. Hóllinn, sem hana geymir, er mjög þýfður, en sker sig úr annars grösugu umhverfinu. Hann er grænni, en mosi byrjaður að taka völdin.
Kaldrani er sagður elsti bær í Krýsuvík. Leifar hans sjást undir hól suðvestan við Kleifarvatn. “Meðal manna lifir enn sú sögn, að heitið Kaldrani sé af býli, er þarna hafi verið” segir Þorsteinn Bjarnason í örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík. Ari Gíslason segir í sinni örnefnalýsingu að “inn við Kleifarvatn er svokallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarði úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhól.”

Gata

Tóftin þarna, er þess vegna gæti verið seltóftin sem Gísli minnist á í sinni örnefnalýsingu. Syðri tóftin gæti tengst hinni því stutt er á milli þeirra. Ofan þeirra er gil og lækur, líkt og kemur fram í fyrrnefndri lýsingu.
Tóftin, ef tóft er, gæti verið ævagömul, enda næstum orðin jarðlæg. Með góðum vilja má þó greina þar rými, sem legið hafa samhliða. Hóllinn er um 4 m breiður og um 8 m langur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík skráð af Gísla Sigurðssyni.
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík skráð af Þorsteini Bjarnasyni.
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík skráð af Ara Gíslasyni.

Bráðið hraun