Tag Archive for: Litlistekkur

Fornistekkur

Gengið var um Kúadal, yfir að Þórustaðaborg, niður að Knarrarnesi og síðan að Kálfatjörn. Í leiðinni var litið á letursteina við heimkeyrsluna að Stóra-Knarrarnesi og í brú á gömlu götunni vestan Kálfatjarnarkirkju.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Stuttu ofan og sunnan við Arnarbæli á Vatnsleysuströnd er klapparholt og þar í djúpri gróinni kvos er fallegur stekkur, sem líklega heitir Ásláksstaðastekkur. Fjárgirðingin liggur austan stekksins, en kvosin sjálf heitir Kúadalur. Skammt vestan við Arnarbæli er stekkur í lágri grasbrekku, sem snýr mót norðvestri. Sá heitir Fornistekkur.
Tekin var stefnan í austurátt á Rauðstekk og síðan yfir að Litlastekk. Báðir eru þeir grónir upp, en enn sést móta vel fyrir þeim í heiðinni. Bein lína er úr þeim í Þórustaðaborgina. Hún kúrir á milli gróinna hraunhola ofan við Þórustaði í Kálfatjarnarheiði.

Vogaheiði

Sel í Vogaheiði

Gróðurinn í heiðinni er tiltölulega einhæfur og er grámosinn ríkjandi með góðu gróðurblettum innan um. Heiðina prýða margar lyngtegundir, s.s. krækiberjalyng, sortulyng, beitilyng og blóðberg. Bláberjalyng vex svo til eingöngu við og í nýrri hraununum, Afstapahrauni og Skógfellahrauni, svo og í Hvassahraunslandi. Aðalbláberjalyng finnst á stöku stað uppi til fjalla. Einihríslur sjást á nokkrum stöðum í heiðinni, en sjaldan bera þær aldin. Þó gerðist það sumarið 2004, enda óvenju hlýviðrasamt. Burkni vex víða í gjám og getur orðið risavaxinn og þar er burnirótin aldrei langt undan. Blómplönturnar, sem vaxa í heiðinni eru helstar þessar; geldingahnappur, holtasóley, lambagras, holurt, músareyra og melablóm. Grasgeirar eða svokallaðar lágar, eru víða við hóla og eins eru grasrindar í skjóli undir gjárveggjum.

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju.

Frá borginni var gengið beint að heimkeyrslunni að Knarrarnesi. Þar við hliðið að Stóra-Knarrarnesi er letursteinn. Á hann er klappað ljóð, sem innifelur bæði höfundarnafn og ártal. Gengið var eftir gömlu götunni að Kálfatjarnarkirkju. Í steinbrú áður en komið er að túngarðinum vestan túnsins (nú golfvallarins) er hlaðin steinbrú. Í henni er ferhyrndur skósteinn með ártalinu A°1790 klappað í. Þaðan er stutt yfir að kirkjunni. Skósteinar munu hafa verið til nálægt kirkjum. Kirkjugestir munu hafa skipt þar um skótau, farið úr farskónum, geymt þá þar, og klætt sig í spariskóna í tilefni athafnarinnar. Slík var virðingin borin fyrir guðsorðinu í þá daga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.