Tag Archive for: Litlistekkur

Litlistekkur

Gengið var upp frá Breiðagerði með það að markmiði að skoða „Breiðgerðisstekk“ sbr. fornleifaskráningu fyrir Voga, sem og Litlastekk ofar í heiðinni. FERLIRsfélagar hafa um stund dundað sér við að skoða áreiðanleika fyrrum fornleifaskráninga á Vatnsleysuströnd. Ljóst er að margar fornleifar á svæðinu hafa enn ekki verið skráðar og sumar hinna skráðu minja verða að teljast í besta falli hæpnar með hliðsjón af dregnum ályktunum. Mikilvægt er að allar fornleifar séu skráðar og að þær séu rétt skráðar.

Hestaslóðin

Hestalóðin – Almenningsvegur.

Ofan Vatnsleysustrandarvegar var fyrst komið að „Hestaslóðinni“, sem Sesselja nefnir í bók sinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins); „Ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd“.
„Varðan er um 440 m sunnan við bæ, á fremur lágu holti í hraunmóa sem er að hluta gróinn. Varðan er ferköntuð í grunninn, er um 1 m á kant. Hún er um 1,5 m á hæð og sjást 8 umför hleðslu í henni. Hún hefur líklega verið endurhlaðin að hluta. Líklegt er að varðan hafi vísað Almenningsveginn“, segir í fornleifaskráningunni. Sú ályktun virðist, af öllum ummerkjum við nána skoðnun,  vera rétt.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur.

Í „Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ frá árinu 2014 segir um framangreindan stekk: „Ofan Vatnsleysustrandarvegar er tóft, um 530 m sunnan við bæ. Tóftin stendur nokkuð hátt á grónum hól í hraunmóa. Tóftin virðist vera þrískipt og garðlag liggur frá henni til norðurs, líklega aðrekstrargarður. Tóftin er grjóthlaðin en gróin. Hún er um 10×6,5 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Með aðrekstrargarðinum er hún um 10×6,5 m að stærð. Hólf I er norðaustast í tóftinni. Það er um 1×3 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Op er inn í það úr norðvestri.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur – teikning.

Hólf II er samsíða hólfi I og skilur hæsti veggur tóftarinnar þessi tvö hólf að. Það er um 2×2,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Ógreinileg hleðsla er fyrir norðvesturenda þessa hólfs sem heldur áfram til norðurs og verður greinilegri. Óskýrt op er inn í hólf II, í norðurhorni þess. Hólf III er norðvestast í tóftinni. Í veggjum þess er einföld röð stórgrýtis. Það er um 2×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sést skýrt op inn í það. Hólf II hallar lítillega til suðvesturs. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 1 m og sjást 3 umför. Líklegt er að þessi tóft sé af stekk en til þess bendir helst fjarlægð frá bæ og gerð tóftarinnar.“

Breiðagerðisborg

Breiðagerðisborg – smalaskjól.

Á samliggjandi klapparholti eru jarðlægar hleðslur; mjög líklega leifar smalaskjóls. Lögun skjólsins sést þó enn, auk þess að það ber þess merki að hafa verið hlaðið af unglingi (smásteinahleðslan bendir til þess).

Augljóst er að framangreindur stekkur hafi verið hlaðinn upp úr eldri fjárborg. Neðstu lög hennar sjást allt umleikis. Líklega er verið að rugla þarna saman örnefnum þar sem segir í fornleifaskráningu fyrir Stærra-Knarrarnes um Borg; tóftir/stekk: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum.- Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg.

Breiðagerðisborg

Breiðagerðisstekkur/-fjárborg – uppdráttur ÓSÁ.

Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá. „Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum.“
Síðan er fjallað um beitahús og stekkjartóft, en ekki minnst á „borg“. Þessi lýsing á aftur á móti við um minjar í Sauðholtum ofan Minna-Knarrarness, en ekki nefnds stekks ofan Breiðagerðis. Hins vegar er augljóst, sem fyrr sagði, að stekkurinn sá á uppruna sinn í eldri fjárborg á tilteknum stað; „um 530 metrum sunnan við bæ“.

Breiðagerði

Breiðagerði – heiðargerði.

Ofar í heiðinni var gengið fram á fornt gerði utan í klapparhól. Hleðslurnar voru orðnar nær jarðlægar, en þó sást vel móta fyrir þeim. Þarna gæti hafa verið rúningsrétt fyrrum. Tóft þessi hefur ekki verið fornleifaskráð.

Miðsvegar í heiðinni er Litlistekkur. Í forleifaskráningu fyrir Breiðagerði segir: „Þar var í Heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður,“ segir í örnefnaskrá. „Fyrir ofan og austan Borg er stekkur sem heitir Litlistekkur,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Litlistekkur er um 1,1 km suðaustan við bæ. Stekkurinn er norðaustan undir allháum, grónum hraunhól, ofarlega í heiðinni. Dálítill grösugur kragi er umhverfis stekkinn og hólinn.
Svo virðist sem tvö byggingarstig séu í Litlastekk. Tvískipt grjóthlaðin stekkjartóft, B, virðist vera hlaðin inn í eldri gróna tóft, A, sem er um 9×6 m að stærð og snýr SSA-NNV. Í SSA-enda eldri tóftarinnar er eitt nokkuð skýrt en gróið hólf sem er um 1×1,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Ekki sést op á því. Tóft B er hlaðin inn í aðalrými tóftar A. Inngangur í tóft A virðist vera í norðurhorni. Mesta hæð veggja er um 1 m í SSA-enda.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Tóft B er um 5×4,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Inngangur er á norðvesturgafli. Hólf I er um 2×3 m að innanmáli og snýr eins og tóft. Hólf II er um 1×3 m að innanmáli og er samsíða hólfi I. Opið er á milli hólfa í norðvesturenda tóftarinnar. Mesta hleðsluhæð er um 1 m og mest sjást 3 umför hleðslu.“

Litlistekkur ber ekki nafn með réttu. Þarna er greinilega um seinni tíma heimasel að ræða frá Breiðagerði. Vel er gróið í kringum stekkinn, einkum suðurhlutann. Þar virðist hafa verið búr tengt utanverðum stekknum. Stekkurinn sá er síst minni en þekkist í nærliggjandi stekkjum í heiðinni. Umfang og stærð stekkjanna markaðist jafnan af fjölda fjár frá einstökum bæjum á hverjum tíma.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Þegar staðið er á ofanverðum hólnum er stekkurinn liggur norðlægt undir kallast staðsetningin greinilega á við stekkinn skammt vestar í Knarrarneslandi. Þar er líklegt að hafi einnig verið heimasel um tíma. Þarna á millum er hlaðinn varða á klapparhól, skammt ofar; landamerki jarðanna millum Digruvörðu ofan bæjar og vörðunnar á Knarrarnesklapparholti.

Báðir stekkirnir gefa sterklega til kynna að um heimasel hafi verið að ræða. Stekkirnir og aðliggjandi tóftir báru þess glögg merki að um slíkar minjar hafi verið um að ræða, væntanlega eftir að aflokinni selstöðunum í Breiðagerðis- og Knarrarnesseli ofar í heiðinni síðla á 19. öld.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur/-fjárborg.

Með breyttum búskaparháttum, tilkomu þéttbýlismyndunar og fækkun fólks í sveitum færðust selstöðurnar nær bæjunum. Í lok stekkjartímans, sem hafði tíðkast allt frá landnámi, færðust stekkirnir nær alfarið um stund að útjaðri heimajarðanna. Við tók afréttatímabilið, er enn þekkist. Allt þetta er reyndar saga út af fyrir sig, sem vel hefur áður verið tíunduð hér á vefsíðunni.

Mikilvægt er að gaumgæta búsetuminjar vorar í hinu sögulega samhengi – og ekki síður að kunna að staðsetja þær í því samhengi.

Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 1 mín.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.

Minna-Knarranes

Heimasel Minna-Knarrarness í Sauðholtum.

Borg

Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„, segir m.a. um fjárborg, fjárhús og stekk ofan Breiðagerðis og Höfða:

Borg

Borg ofan Breiðagerðis.

„Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær. Aðeins neðar er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar finnum við lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hólum.
Fyrir ofan og austan Borg er stekkur sem heitir Litlistekkur en það örnefni segja heimildir að sé í Breiðagerðislandi.

Breiðagerðisskjólgarður

Breiðagerðisskjólgarður.

Drjúgan veg ofan Borgar eða rúmlega miðja vegu að Reykjanesbraut eru tveir Geldingahólar með um 300 m bili. Nyrðri-Geldingahóll eða Eystri-Geldingahóll og Syðri-Geldingahóll eða Vestri-Geldingahóll en um þann nyrðri eru landamerki Knarrarness og Breiðagerðis og er sá stærri og grónari en syðri hóllinn. Hólarnir eru nokkuð áberandi í heiðinni og þó sérstaklega séðir frá Reykjanesbraut.
Austur af Nyrðri-Geldingahól er langur klapparhryggur og á honum eru leifar af krossgarði (skjólgarði) fyrir fé. Garðurinn heitir Breiðagerðisskjólgarður og sést hann nokkuð vel af Reykjanesbraut sem löng grjótþúst á holti. Skjólgarðurinn er nefndur í landamerkjabréfum Breiðagerðis og Auðna.“

Borg

Borg ofan Breiðagerðis.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrslu II„, segir um Borgina: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg. Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá.
Heimildum kemur ekki saman um örnefnið Borg. Niðurstöður vettvangskönnunar eru að örnefnið Borg eigi við um fjárborg sem hefur verið breytt í stekk á einhverjum tímapunkti. Minjarnar eru sunnarlega á löngu og háu holti sem snýr norður-suður. Holtið er í nokkuð gróinni hraunheiði, í hraunklapparmóa.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Lögun tóftarinnar og örnefnið Borg bendir til þess að þarna hafi áður verið fjárborg. Annað dæmi um fjárborg sem virðist hafa verið breytt í stekk er t.d. Þórustaðaborg og Vatnabergsstekkur/Vatnaborg. Tóftin myndar dálítinn hól og er orðin óskýr.“

Í sömu skráningur segir m.a. um Litlastekk: „Stekkurinn er norðaustan undir allháum, grónum hraunhól, ofarlega í heiðinni. Dálítill grösugur kragi er umhverfis stekkinn og hólinn. Svo virðist sem tvö byggingarstig séu í Litlastekk. Tvískipt grjóthlaðin stekkjartóft, virðist vera hlaðin inn í eldri gróna tóft, sem er um 9×6 m að stærð og snýr SSA-NNV. Í SSA-enda eldri tóftarinnar er eitt nokkuð skýrt en gróið hólf sem er um 1×1,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur.“

Beitarhús

Beitarhús ofan Höfða.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrslu I“ segir um beitarhús á grónum hól skammt austan við Borg: „Um 300 m vestur af Skálholti og stuttu ofan við Strandarveginn er fjárhústóft á grónum hól. Fjárhústóft er á hólnum, sem er í hraunmóa með moldarflögum. Næst tóftinni er grasi vaxið og þýft.
Tóftin skiptist í fjögur hólf og er líklega torf og grjóthlaðin. Hún er um 13×9 m að stærð, snýr austur-vestur. Vestast er hólf I og er gengið inn í tóftina um það hólf í vesturenda. Það er um 2×3,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur.

Beitarhús

Beitarhús ofan Höfða.

Mikið grjóthrun er inni í hólfinu. Næst austan við það er lítið hólf II sem er um 2×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sjást op á því. Hólf III er í austurenda og er það um 4×4 m að innanmáli. Veggir þess eru víðast mjög signir. Óljós inngangur er í austurenda hólfsins. Hólf IV er fast sunnan við hólf I. Það er í brekku og er um 2×3 m að stærð. Það snýr norðvestur-suðaustur og er óljós inngangur í norðausturenda. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 0,6 m.“
Búið er að planta grenitrjám við tóftirnar.

Breiðagerðisskjólgarður

Breiðagerðisskjólgarður – uppdráttur.

Í sömu skráningu segir um Breiðagerðisskjólgarð: „Þar var í Heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður,“ segir í örnefnaskrá. Skjólgarðurinn er um 1,7 km suðaustan við bæ. Skjólgarðurinn er á háum hól sunnarlega á holti í hraunklapparmóa. Fremur lítill gróður er á þessum slóðum.
Landið lækkar til suðurs niður af holtinu og sést vel af því að Reykjanesbraut.
Grjóthlaðinn skjólgarðurinn er um 11×11 m að stærð. Hleðslan er hrunin og er mesta veggjabreidd um 2 m og mesta hæð um 0,5 m. Mest sjást 2 umför hleðslu. Hleðslan myndar kross og snýr annar armur hans norður-suður en hinn austur-vestur. „

Neðarlega í heiðinni var gengið fram á leifar af þremur hlöðnum refagildrum í misjöfnu ástandi. Í fyrstu virtist vera um fallnar vörður að ræða, en við nánari skoðun, m.a. af umfangi og lögun, virðist augljóst að um refagildrur var ræða. Þær voru í lægðum á milli klapparhæða.

Gangan tók 1 klst og 11. mín. Frábært veður.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir,
2. útgáfa 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.

Refagildra

Refagildra ofan Höfða.

Fornistekkur

Gengið var um Kúadal, yfir að Þórustaðaborg, niður að Knarrarnesi og síðan að Kálfatjörn. Í leiðinni var litið á letursteina við heimkeyrsluna að Stóra-Knarrarnesi og í brú á gömlu götunni vestan Kálfatjarnarkirkju.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Stuttu ofan og sunnan við Arnarbæli á Vatnsleysuströnd er klapparholt og þar í djúpri gróinni kvos er fallegur stekkur, sem líklega heitir Ásláksstaðastekkur. Fjárgirðingin liggur austan stekksins, en kvosin sjálf heitir Kúadalur. Skammt vestan við Arnarbæli er stekkur í lágri grasbrekku, sem snýr mót norðvestri. Sá heitir Fornistekkur.
Tekin var stefnan í austurátt á Rauðstekk og síðan yfir að Litlastekk. Báðir eru þeir grónir upp, en enn sést móta vel fyrir þeim í heiðinni. Bein lína er úr þeim í Þórustaðaborgina. Hún kúrir á milli gróinna hraunhola ofan við Þórustaði í Kálfatjarnarheiði.

Vogaheiði

Sel í Vogaheiði

Gróðurinn í heiðinni er tiltölulega einhæfur og er grámosinn ríkjandi með góðu gróðurblettum innan um. Heiðina prýða margar lyngtegundir, s.s. krækiberjalyng, sortulyng, beitilyng og blóðberg. Bláberjalyng vex svo til eingöngu við og í nýrri hraununum, Afstapahrauni og Skógfellahrauni, svo og í Hvassahraunslandi. Aðalbláberjalyng finnst á stöku stað uppi til fjalla. Einihríslur sjást á nokkrum stöðum í heiðinni, en sjaldan bera þær aldin. Þó gerðist það sumarið 2004, enda óvenju hlýviðrasamt. Burkni vex víða í gjám og getur orðið risavaxinn og þar er burnirótin aldrei langt undan. Blómplönturnar, sem vaxa í heiðinni eru helstar þessar; geldingahnappur, holtasóley, lambagras, holurt, músareyra og melablóm. Grasgeirar eða svokallaðar lágar, eru víða við hóla og eins eru grasrindar í skjóli undir gjárveggjum.

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju.

Frá borginni var gengið beint að heimkeyrslunni að Knarrarnesi. Þar við hliðið að Stóra-Knarrarnesi er letursteinn. Á hann er klappað ljóð, sem innifelur bæði höfundarnafn og ártal. Gengið var eftir gömlu götunni að Kálfatjarnarkirkju. Í steinbrú áður en komið er að túngarðinum vestan túnsins (nú golfvallarins) er hlaðin steinbrú. Í henni er ferhyrndur skósteinn með ártalinu A°1790 klappað í. Þaðan er stutt yfir að kirkjunni. Skósteinar munu hafa verið til nálægt kirkjum. Kirkjugestir munu hafa skipt þar um skótau, farið úr farskónum, geymt þá þar, og klætt sig í spariskóna í tilefni athafnarinnar. Slík var virðingin borin fyrir guðsorðinu í þá daga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.