Færslur

Straumur

Í bókinni “Á förnum vegi – rætt við samferðafólk” eftir Loft Guðmundsson er rætt við “Einbúann að Óttarstöðum” – Guðmund bónda Ingvarsson.

Óttarstaðir

Guðmundur Ingvarsson á Óttarstöðum efri.

“Við ökum fyrir Straumsvíkina út á Vatnsleysuströnd, lognværan sólskinsdag seint í júní. Sjór er ládauður úti fyrir, varla að sjáist kvika við fjörugrjótið og ekkert lífsmark við víkina. Undarlegt til þess að hugsa að þar eigi á næstunni að rísa nýtísku stóriðjuver og voldug hafnarmannvirki. En svo hefur manni verið fortalið, og ekki farið dult með það.
Þó virðist það jafnvel öllu ótrúlegra, þegar manni verður litið út eftir ströndinni, að ekki skuli vera mannsaldur síðan þar var blómlegt athafnalíf og annríki mikið til sjós og lands – hörkuútræði, enda skammt á fengsæl mið, og arðvænlegur sauðfjárbúskapur, því að fé gekk að kalla sjálfala í hrauninu, jafnvel í snjóa- og frostavetrum. Þess sér að vísu merki enn, að þarna hefur verið þéttbýlt, því það er ekki lengra en það síðan þetta var, að bæjarhús standa enn, en yfirleitt auð; þó mun enn einhverskonar búskaður á nokkrum af hinum gömlu stórbýlum. Og kynlegt er það, að sjá hvergi mann við störf úti við á virkum degi; aftur á móti má líta gljáandi lúxusbíla sumstaðar á bæjarhlaði eyðibýlanna, og er örðugt að ímynda sér erindi þeirra í þessa kyrrlífsmynd sofandi túngarða og lágreistra íbúðarhúsa, sem móka undir ryðbrunnu bárujárni og dreymir liðna tíð.

Óttarsstaðir

Óttarstaðir efri.

Veginn þrýtur og við taka þröngir troðningar inn á milli túngarðanna, svo við yfirgefum jeppann og höldum fótgangandi þann spöl, sem eftir er heim til Guðmundar bónda Ingvarssonar að Óttarstöðum efri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri – útsýni úr baðstofuglugga.

Ekki höfum við lengi gengið, þegar okkur býður í grun að ekki muni þessi sólbjarta og lognværa kyrrlífsmynd öll þar sem hún sýnist, og um leið förum við að skilja, hvernig þar muni standa á lúxusbílunum. Nýtískuleg tjöldin fyrir litlum og rúðusmáum gluggum á gömlu bæjunum gefa til kynna nýtt landnám innan hárra, mosagróinna grjótgarðanna, er skipta túnskákunum. Við reynum eftir bestu getu að horfa beint fram troðninganna og gjalda þannig líku líkt af riddarlegri hæversku þeim íturvöxnu kvenfulltrúum þeirrar nýju landnámskynslóðar, sem liggja í sólbaði í mjúku grasinu í skjóli túngarðanna og látast ekki vera varir ferða okkar. Og ósjálfrátt hvarflar það að okkur, að einbúanum á Óttarstöðum efri kunni að vera það nokkurt happ að vera kominn yfir á níunda aldurstuginn, annars yrði honum ef til vill tafsamara við túnsláttinn og eiga slíka nágranna. Að minnsta kosti er ekki ólíklegt að einhverntíma hefði það vafist fyrir vermönnunum, sem hlóðu alla þessa grjótgarða í landlegum, að velja þar steini stað, ef þeir hefðu mátt líta það í sýn, sem nú freistar augna okkar í skjóli handverka þeirra.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

En hvað um það; okkur tekst að þræða götuslóðana heim á hlað á Óttarstöðum efri án þess að sú augnafreisting verði okkur að falli. Guðmundur bóndi stendur fyrir dyrum ásamt tveim dóttursonum sínum ungum, og fagnar okkur vel. Ekki ber hann þá utan á sér, þessa rúmlega átta áratugi, og áreiðanlega ekki hið innra með sér heldur, þá mundi ekki eins létt yfir honum og raun ber vitni. Hann er meðalmaður á hæð, tággranur, hreyfingarnar svo mjúkar og stæltar, að margur fertugur skrifstofumaðurinn mættu sannarlega öfunda hann af. Græskulaust kímnisbrosið er honum eiginlegt og glettnisglampinn í daökkgráum augunum, sem eru snör og vökul undir loðnum, hærugráum brúnum.

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri (vestari).

Fyrir framan bæjarhúsin er allstór kálgarður, vel hirtur og sér hvergi í mold fyrir hávöxnu kartöflugrasi, en í einu horninu er skák vaxin leggdigrum og safamiklum rabbabara. Túnið er allstórt, eftir því sem þarna gerist, og vel sprottið; sléttir harðvellisbalar og víðast hvar grunnt á hraungrjótinu. Guðmundur kveðst nota gamla lagið við þetta; stinga garðinn upp með skóflu og slá túnið með orfi og ljá, – jú það held ég, segir hann og hlær við.
-Hvað er túnið stórt?

Ég fæ venjulega af því hundrað og tuttugu hesta.
-Og slærð það einn?
-Já, það held ég nú. En nú eru drengirnir farnir að hjálpa mér við uppvinnuna og snúninga, en tengdasonur minn ekur töðunni á jeppa heim í hlöðu. Dætur mínar eru hérna viðloðandi á sumrin, önnur hér heima en hin í húsi hérna viðloðandi neðan. Jú, ég hef slegið þetta tún einn í meira en fjörutíu ár.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

-Ertu ekki farinn að finna til þreytu eða gigtar?
-Nei, blessaður vertu. Ég kann ráð við því. Fæ mér göngu, hleyp út í hraun að eltast við rollurnar, eða gríp í orfið. Hreyfingin – hún er óbrigðul. Og Guðmundur hlær við enn.
-Hefurðu verið svona heilsuhraustur alla ævi?
-Það held ég. Fékk einhverntíma mislinga, sennilega krakki því mig rekur ekki minni til þess. Síðan ekki söguna meir, ekki legið rúmfastur einn dag. Fékk ekki svo mikið sem snert af spænsku veikinni, þegar hún gekk hérna, og kom þó víða daglega hér í kring.
-Og þú hefur alltaf verið lífsglaður og léttur í skapi?

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri.

-Já, maður lifandi. Ekki dugar annað, enda ekki ástæða til annars; ekki finnst mér það. Og svo er maður alltaf eitthvað að dudda.
-Þú býrð einn hér í húsum allan veturinn, eftir að dæturnar eru farnar til síns heima?
-Já, mér verður nú ekki mikið fyrir því. Leiðis aldrei. Ég huga að kindunum, elda í mig matinn, soðningu og kartöflur og mjólkurgraut; saltkjöt endum og eins, en annars er ég orðinn ónýtari við kjötið síðustu árin. Og svo drekk ég kaffi og þykir það gott; les bækur og blöð, því að nóg er næðið – en á sumrin má það heita undantekninh, að líta í blað. Og aldrei hef ég verið myrkfælinn um ævina, og aldrei heldur orðið veitt var við þessháttar, hvorki hér né annars staðar, ekki nokkurn hræranlegan hlut…
-Ertu kannski borinn og barnfæddur hérna á Vatnsleysuströndinni, Guðmundur?

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri fyrrum.

-Nei, nei. Hingað kom ég fyrst tæplega þrítugur, sem vertíðarmaður til Bjarna ríka á Stóru-Vatnsleysu, Stefánssonar og reri hjá honum sex vertíðir. Giftist svo skömmu eftir að ég fór að vera hérna, konu af Vatnsleysuströndinni. Fyrsta árið bjuggum við í tómthúsi að Stóru-Vatnsleysu, en svo keypti ég hálfa Óttarsstaðina og hef verið hér síðan. Keypti jörðina á hálft sjötta þúsund krónur með þeim bæjarhúsum, sem enn standa og þú getur séð, en öll útihús hef ég byggt upp. Nú er konan áttatíu og fjögurra ára og hefur legið í sjúkrahúsi í Hafnarfirði og elliheimilinu þar í full tíu ár. En ég held mig hérna…

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri og neðri.

-Eru nokkur sérstök hlunnindi hérna – æðarvarp eða hrognkelsaveiði?
-Hér hefur aldrei verið æðarvarp, að því er ég best veit; ein og ein kolla, sem gerir sér hreiður úti í hrauninu, þar sem enginn fer um. Selur hefur aldrei veiðst hér heldur og sést hér sjaldan neitt að ráði. Fjörubeit hefur alltaf verið góð, en aldrei hefur borið neitt á skjögri, að minnsta kosti ekki á meðan gamla féð var hérna. Og hérna er mikil hrognkelsaveiði á vorin, en nú er hún þorrin, sést hvorki rauðmagi né grásleppa frekar en annar fiskur.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Áður gekk þorskurinn hér inn fyrir hólma; við fengum oft stærðaraula í hronkelsanetin. Og einu sinni var ég einn á kænu úti á víkinni og dró sextíu á handfæri á svipstundu að kalla. Hann tók beran öngulinn og var svo óður, að ég hafði ekki við að draga hann. Eftir að ég hætti að róa á áttæringnum hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu, reri ég margar vertíðir á fjögurra mann afari hérna úr vörinni með bóndanum á Óttarstöðun neðri, og við fiskuðum ágætlega. Ég fékk ellefu hundruð krónur, bara fyrir bolinn, inni í Hafnarfirði eftir eina vertíðina, og þar var drjúgur skildingur þá. Það var þegar þeir Booklesbræður voru með togaraútgerðina í Hafnarfirði. Þeir vildu kaupa Straumsvíkina, gera þar höfn, og vitanlega ætluðu þeir að gera út togara þaðan. Buðu í hana 500.000 krónur, sem þá þótti gífurlegt fé, en eigendunum, Bjarna, sem síðar varð skólastjóri á Laugarvatni, og þórði lækni Edilonssyni, fannst það of lágt boðið og vildu ekki selja. Að minnsta kosti var sagt, að það hefði verið þess vegna…

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – staðfastur girðingarstaur.

-Þú hefur komist í sæmileg efni hér á Óttarstöðum, eftir því sem um var að gera, þegar þú varst og hést?
-Já, það væri vanþakklæti að segja annað.
-Vildirðu vera kominn á manndómsaldurinn aftur, Guðmundur? Um borð í áttæringinn hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu?
-Ég hefði ekkert á móti því. Og ætli ég kynni ekki áralagið.
-Hvenær á ævinni heldurðu að þér hafi liðið best?
Guðmundur á Óttarstöðum tekur tappann ú bauknum og fær sér í nefið.
-Það veit ég hreint ekki, svarar hann og hlær glaðlega. Mér hefur alltaf liðið vel…”.

Heimild:
-“Á förnum vegi – rætt við samferðafólk” eftir Loftur Guðmundsson, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966. Einbúinn að Óttarstöðum – Guðmundur bóndi Ingvarsson sóttur heim, bls. 113-122.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Strandarkirkja

Í bók Lofts Guðmundssonar “Á förnum vegi – rætt við samferðamenn” frá árinu 1966 er m.a. fjallað um Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara og styttuna “Landsýn”, sem nú stendur framan við Strandarkirkju í Selvogi:

Gunnfríður Jónsdóttir

Gunnfríður Jónsdóttir.

“Þrjár kirkjur eru kunnustar á hér á landi; tvær á biskupsstólunum fornu, sú þriðja í hálfeyddri byggð á suðurströndinni, við lága vík fyrir opnu hafi. Sú vík á sér fegurst nafn staða hérlendis, sú kirkja dýrlegasta frægð hérlendra guðshúsa – Strandarkirkja við Engilsvík í Selvogi.
Á hól við kirkjuna stendur höggmynd af konu með kross í hendi og horfir yfir víkina. Yfirlætislaust en þróttmikið og hugnæmt listaverk, sem á heima á þessum stað. Fjarri sé mér að reyna að geta þess til hvaða hugsun höfundurinn, Gunnfríður Jónsdóttir, leggi í þetta verk sitt. En þegar ég hef staðið þarna á hólnum og virt fyrir mér konuna með krossinn, finnst mér ósjálfrátt að hún bjóði öllum byrginn í hljóðri ró – briminu, veðrunum, auðninni og einmanaleikanum. En fyrst og fremst hef ég furðað mig á því, að það skuli ekki koma manni neitt á óvart að sjá grásteinskonuna með krossinn standa þarna, heldur sætta sig ósjálfrátt við þá tilfinningu, að hún hafi staðið þarna marga áratugi, kannski öldum saman. Nafnið, sem listakonan hefur valið myndinni, “Landsýn”, styrkir þá tilfinningu. Hún er sammrunnin umhverfinu og sögu þess. Og mér kemur því ekki á óvart svar Gunnfríðar, þegar ég spyr hana um tildrögin að því að hún gerði myndina og að myndin stendur þarna.

Landsýn

Landsýn

-Ég sá fyrst kirkjuna við hafið ofan af Selvogsheiði, og einmanaleiki hennar hafði á mig djúplæg áhrif. Næstu þrjár vikurnar ásótti mig stöðugt þessi sýn – einmanaleiki kirkujunnar við hafið. En hugmyndin að myndinni vaknaði ekki með mér fyrr en nokkru seinna – það var þessi þrúgandi einmanaleiki, sem mér hafði birst ofan af heiðinni, sem lá á mér eins og mara. Svo var það í nóvembermánuði, 1940. Systir mín hafði kroppið upp að Álafossi og ég var alein heima. Þegar hún kom aftur, sagði ég henni að ég hefði verið að vinna að lítilli frummynd á meðan hún var í burtu, sem stæði að einhverju leyti í tengslum við Strandarkirkju. “Jæja, ekkert er það!”, varð systur minni að orði, og svo var ekki frekar á það minnst um hríð.

Landsýn

Landsýn – skjöldur á styttunni.

Ég lauk við frummyndina, sem var tólf sentímetrar á hæð, setti hana undir eldavélina og sat svo við að sauma fram yfir nýár. Þegar kom fram í miðjan janúar, dró ég myndina fram undan eldavélinni og gerði aðra eftir henni, mun stærri. Og enn leið ár, þangað til ég tók rögg á mig og stækkaði hana enn, eins og hún er nú. Sú mynd var á sýningunni í skálanum 1943. Ekki hafði ég þá ákveðið henni neinn framtíðarstað, en einhvernveginn fannst mér að hún ætti að standa á ströndu úti við hafið; helst einhvers staðar á Suðurnesjum og ekki langt frá Strandarkirkju, því sagan um Engilsvík hafði verið mér í huga, þegar myndin varð til.
-Hvað skar svo úr um það, að myndin yrði höggvin í granít og valinn staður, þar sem hún stendur ný?

Síldarstúlkur

Síldarstúlkur – mynd Gunnfríðar.

-Það yrði oflangt mál að segja þá sögu alla. Er þar naut ég meðal annars skilnings og áhuga Guðmundar bónda í Nesi í Selvogi, þess fjölgáfaða mannkostamanns. Og Strandarkirkja leysir vanda sinn; þó að ýmsir erfiðleikar yrðu á framkvæmdum, rættist úr öllu og stundum á óvæntan hátt. Myndin var höggvin í granít í Noregi, og gekk allt samkvæmt áætlun – þangað til granítmyndin var komin hingað á hafnarbakkann og ég hélt að nú væri öllum hindrunum rutt úr vegi. Ekki aldeilis – það kom á daginn, að ekki hafði verið gert ráð fyrir slíkum innflutningi við samningu tollskrárinnar og nú lá myndin í fullt misseri á hafnarbakkanum og enginn þóttist kunna ráð eða eiga með að fella nokkrun úrskurð í því sambandi. Loks spurði ég viðkomandi valdhafa, hvort það væri þá ætlun þeirra að taka myndina eignarnámi. Þá loks mátti Strandarkirkja sín betur en ákvæðin, sem ekki höfðu verið sett í tollskrána.

Heimleið

Á heimleið – stytta Gunnfríðar.

-En þá var komið fram á haust. Myndin hafði legið í kössum á hafnarbakkanum frá því í maí um vorið, og ég mátti ekki til þess hugsa, að hún lægi þar enn vetrarlangt. Hafði ég því samband við Selvogsbændur; vissi að mestu önnum þeirra var lokið í bili, en enginn þar hafði hins vegar tíma til neins þegar voraði. Ég spurði þá því hvort þeir vildu ekki vera mér hjálplegir við að koma myndinni upp, ef hún yrði flutt þangað suður eftir. Þeir tóku vel í það. Mér tókst að fá ágætan kranabílstjóra til að flytja myndina suður í Selvoginn – Sigurjón hét hann, prýðilegasti drengur – en við komum þangað ekki fyrr en klukkan sjö um kvöldið, og þá var eftir að taka myndina úr kössunum og koma henni á stallann, og það varð að gera strax, svo að kranabíllinn gæti haldið suður aftur.

Strandarkirkja

Strandarkirkja – Landsýn eftir Ginnfríði Jónsdóttur.

Nema hvað myndin var komin upp klukkan níu og mátti ekki heldur tæpara standa, því að þá var komið myrkur. Þeir kunnu að taka til hendinni í þann tíð, Selvogsbændur. Sjálf var ég svo þarna í fimm daga og gekk frá þrepunum – við tíndum hellur í fjörunni og fluttum að í hestvagni og ýmsu var að sinna. Bændurnir reyndust mér einstaklega hjálplegir, boðnir og búnir til alls. Loks var settur hjúpur yfir myndina og hún látin bíða þess að hún yrði afhjúpuð að vori. Sú athöfn fór fram á annan í hvítasunnu, 1950, fjölsótt og var hin ánægjulegasta.

Landnámskonan

Landnámskonan eftir Gunnfríði Jónsdóttur frá 1955. Verkið er staðsett í Hljómskálagarðinum.
Landnámskonan er síðasta stóra verkið sem Gunnfríður mótaði árið 1955. Það er að mörgu leyti mjög lýsandi verk fyrir listakonuna. Forfeður, formæður og almennt kvenskörungar íslenskra sagna voru henni hugleiknar. Verkið vísar til landnámskvenna í víðtækari merkingu og þá ekki síst til kvenna í heimi listanna, þar á meðal Gunnfríðar sjálfrar, fyrstu konunnar sem vann höggmyndir á Íslandi. Landnámskonan stendur bein og hnarreist og horfir fram fyrir sig.
Gunnfríður Jónsdóttir (1889–1968) var fyrsta konan sem fékkst við höggmyndalist á Íslandi. Listsköpun hennar var íhaldssöm og klassísk myndlist henni efst í huga.

Gunnfríður sýnir mér grein í hinu kunna tímariti “Scandinavian Review”, 1958, þar sem segir frá Strandarkirkju og “Landsýn”, og fylgir ágæt mynd þaðan, en höfundur fer miklum viðurkenningarorðum um listaverkið.

Síldarstúlkur

Síldarstúlkur – verk Gunnfríðar Jónsdóttur í Ráðhúsinu í Stokkhólmi.

Það leynir sér ekki að Gunnfríði þykir vænt um “Landsýn”. Hún hefur gert tvær aðrar stórar myndir í áþekkum stíl, “Landnámskonu” og “Biskup”, sem enn bíða þess að þeim verði valdir viðeigandi staðir. Loks eru það “Síldarstúlkurnar” – það listaverk væri vel til þess fallið að prýða umhverfið í einhverjum síldarbænum. Núverandi borgarstjóri lét gera af þeim afsteypu í bronsi og gaf Stokkhólmsborg. Ein höggmynd eftir Gunnfríði stendur í Tjarnargarðinum, “Á heimleið”, stúlka, sem tyllt hefur sér niður til að varpa mæðinni, og starir fram undan sér eins og hún eigi enn langt heim. Loks hefur Gunnfríður gert “höfuð” af ýmsum nafnkunnum mönnum og konum og þótt vel takast”.

Meira verður fjallað um Gunnfríði Jónsdóttur síðar.

Heimild:
-Á förnum vegi – Loftur Guðmundsson – rætt við samferðamenn, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966 – “Frá Sæunnarstöðum í Selvoginn – rætt við Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara, – Landsýn, bls. 214-217.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.