Þjóðminjalög – fornleifar
Í fyrstu grein Þjóðminjalaga segir að “tilgangur laganna er að stuðla að verndun menningarsögulegra minja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Lögin eiga að tryggja eftir föngum varðveislu menningarsögulegra minja í eigin umhverfi, auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar af menningarsögulegum minjum landsins og greiða fyrir rannsóknum á þeim.
Til menningarsögulegra minja teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornleifar og gömul mannvirki, kirkjugripir og minningarmörk, forngripir, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Til slíkra minja geta einnig talist staðir sem tengjast menningarsögu.
Þjóðminjar teljast þær minjar er varða menningarsögu Íslendinga sem ákveðið hefur verið að varðveita í Þjóðminjasafni Íslands, í byggðasöfnum eða með friðlýsingu.
Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar fornleifar og hins vegar forngripir”.
Í 9. gr. laganna segir að til “fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem:
a. búsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum, húsaleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum;
b. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri;
c. gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita;
d. gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra;
e. virki og skansar og önnur varnarmannvirki;
f. gamlir þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð;
g. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum;
h. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið;
i. skipsflök eða hlutar úr þeim.
Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar, sbr. 11. gr.”.
Fimmtánda greinin kveður á um að “Fornleifavernd ríkisins annist eftirlit með rannsóknum á fornleifum í landinu”.
Reglugerð um þjóðminjavörslu.
Í reglugerð um þjóðminjavörslu er kveðið á um hlutverk hennar í 1. gr: “Hlutverk þjóðminjavörslunnar er að stuðla sem best að varðveislu menningarminja þjóðarinnar, rannsókn þeirra og kynningu”.
Reglugerð um fornleifaskráningu.
Nýlega hefur menntamálaráðuneytið samþykkt reglugerð sem tekur af allan vafa um hvað í fornleifaskráningu felst. Hún hljóðar svo:
“Fornleifaskráning er gerð undir stjórn fornleifafræðings og er fólgin í kerfisbundinni söfnun upplýsinga um fornleifar sbr. [9]. grein þjóðminjalaga. Við fornleifaskráningu skal taka saman ritaðar jafnt sem munnlegar heimildir um fornleifar og allir þekktir minjastaðir skoðaðir á vettvangi, hvort sem fornleifar eru sýnilegar á yfirborði eða ekki. Allir minjastaðir skulu færðir á kort og gerðar lýsingar og uppdrættir af þeim minjum sem sýnilegar eru. Fornleifaskráningu telst því aðeins lokið að út hafi komið fjölrituð, prentuð eða stafræn skýrsla um hana með kortum, teikningum og lýsingum á minjastöðum.”
Friðlýsingarskrá
Á friðlýsingarskrá fornleifanefndar útg. 1990 er einungis eitt sel skráð á Reykjanesi. Það er Kaldársel: “Bæjarhús, rétt sunnan við skála KFUM”. Minjarnar voru sléttar út á sínum tíma vegna framkvæmda við skálann, en sjá má móta fyrir þeim á túninu. Daniel Bruun teiknaði upp mannvirki í Kaldárseli skömmu eftir aldarmótin 1900 og tók ljósmyndir. Á þeim sjást hlutar selsins þar reyndar á að vera búið allt árið.