Færslur

Landakot

Landakot er jörð í Vatnsleysustrandarhreppi. Á jörðinni leynast í dag tóftir tveggja annarra býla; Landa og Götu.

LandakotÍ “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I” frá árinu 2011 segir m.a. um Landakot:
“1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur [Björgvin] Jónsson segir þetta býli hafa verið
höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930.
Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi.
Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1793: Hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. “Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

LandakotÍ bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.” “Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,” segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki. Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar.

Landakot

Landakot 2022.

Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Landakot

Gata.

“Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. “Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.” Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni. Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu.

Landakot

Gata.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Lönd, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár. … Grasnautnina brúkar nú heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.” “Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. ” Óvíst er hvar býli þetta hefur verið en það kann að hafa verið í horni því sem keypt var úr landi Auðna, í norðvesturhorni jarðarinnar, um 115 m norðvestan við bæ. Ekki er ljóst hvenær sú landspilda var keypt úr landi Auðna en það hefur verið áður en landamerkjalýsing var gerð fyrir jarðirnar 1886. Líklegast hefur býlið Lönd verið í túni í norðvesturhorni jarðarinnar niður við sjó. Ekki sjást önnur ummerki um býlið Lönd á þessum stað. Mögulega eru minjarnar sem skráðar eru þar reistar á rústum býlisins en ekki er hægt að slá neinu föstu um það nema með ítarlegri rannsókn.

Landakot

Gata.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti. Árið 1928 kvæntist hann Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot með yfirlögðu túnakorti frá 1919.

Brunnurinn, sem notaður var, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt. Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru. Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Landakot

Landakot – túngarður.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Landakoti: “Landakot stóð í Landakotstúni, og var það umgirt görðum þeim, sem nefndir verða í sambandi við landamerki milli Landakots og jarðanna Auðna að sunnan og Þórukots að innan. Ekki mun hafa verið tvíbýli í Landakoti, en vitað er um tvö býli eða þurrabúðir í túninu. Neðan við Landakotsbæinn eru tætur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd”.

Í “Mannlífi og mannvirki á Vatnsleysuströnd” eftir Guðmund Björgvin Jónsson árið 1987 segir um landakot:
“Landakot var eitt af höfuðbólum Vatnsleysustrandarhrepps í heila öld, allt frá 1830 til 1930. Þar bjó Guðmundur Brandsson, f. í Kirkjuvogi í Höfnum 21. okt 1814, sonur Brands Guðmundssonar hreppsstjóra þar. Kona Guðmundar Brandssonar var Margrét Egilsdóttir frá Móakoti.
Guðmudur GuðmundssonGuðmundur, sonur Guðmundar í Landakoti, var sómi sinnar sveitar og hjá honum sat ráðdeild og hagsýni í fyrirrúmi. Hann rak útgerð, þótt lírið færi hann sjálfur á sjó. Landakotsbóndi var söngmaður mikill og fyrsti organisti í Kálfatjarnarkirkju eftir að þar kom orgel árið 1876, og hafði Guðmundur það starf í um 40 ár. Hann sá um smíði þeirrar kirkju er nú stendur að Kálfatjörn. Einnig byggði hann nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.

Guðmundur lést árið 1920 og var Landakot selt árið 1921 Sveini Pálssyni og konu hans, Önnu Guðmundsdóttur. Hann byrjaði á því að rífa Landakotshúsið og byggja nýtt steinhús, það sem stendur í dag. Smiður var Geir, bróðir Sveins, byggingameistari í Reykjavík. Sveinn hafði aðeins kúabúskap. Hvað sem því réði, þá seldi Sveinn hús og jörð og flutti aftur til Reykjavíkur árið 1927. Þá voru “kreppuárin” farin að gera vart við sig og þrengja að bændum og hefur Sveinn ekki þótt fýsilegt að halda áfram búskap.

LandakotKaupandi af Sveini var Guðni Einarsson og kona hans, Guðfinna Loftsdóttir. Þegar Guðni kom að Landakoti hafði Guðfinna látist. Hann tók fljótlega viðs tjórn kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju og var oranisti þar uns sonur hans, Jón, tók við. Guðni lést 1970.
Við Landakoti tók Jón, sonur Guðna, og kona hans Jóhanna Bára Jóhannesdóttir.

Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í landakotslandi. Um 1882 bjuggu í Götu hjónin Jón Teitsson og kona hans, Vilborg. Eftir veru Jóns og Vilborgar í Götu, komu þangað Sigurður Þorláksson, f. 1849, og kona hans, Þuríður Þorbergsdóttir, f. 1855. Ekki er mér kunnugt um fleira fólk í Götu og mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamótin.”

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Margrét Guðnadóttir Eyjólfur Guðnason, Rofabæ 29, Reykjavík.

Landakot

Landakot – tóftir Götu.